- Details
- Hrönn Harðardóttir
Jón Örn Bergsson ferðaðist með Fjallahjólaklúbbnum hér á árum áður og tók þá mikið af slidesmyndum. Hann mætti með þær eina kvöldstund í klúbbhúsið og skemmti okkur með þeim og sögum frá ferðalögum sínum.
Myndir tók Hrönn Harðardóttir (á Casio vél, já, ég veit ég ætti varla að nefna það...)
- Details
- Páll Guðjónsson
Meðal helstu markmiða bæði Fjallahjólaklúbbsins og LHM er að auka reiðhjólanotkun og standa fyrir útgáfu- og fræðslustarfsemi og hefur það verið gert með stæl. Tvö síðustu ár gáfum við út hjólreiðabæklinga í samtals 24.000 eintökum sem dreift var samhliða Hjólað í vinnuna keppninni og verður restinni dreift á þessu ári. Þar var áherslan á að ná til þeirra sem voru að prófa í fyrsta skipti að hjóla reglulega til vinnu, auka öryggi þeirra með fræðslu um tækni samgönguhjólreiða og kveða niður sumar af þeim mýtum sem tengdar eru hjólreiðum og fæla suma frá þeim, einnig var fjallað um ótal kosti hjólreiða.
- Details
- Haukur Eggertsson
Hálendið opnaðist óvenju seint sumarið 2011, og þurfti því að leita sér fanga víðar, skyldi stigið á sveif. Snemma júnímánaðar lögðum við frúin því af stað í fjögurra daga ferð um uppsveitir Mýrasýslu, Hnappadal, Heydali, Skógarströnd og Bröttubrekku. Margar þessara leiða sem við fórum finnast ekki á kortum og verandi ekki fjarri Reykjavík, gæti ýmsum þótt ferðasagan og leiðarlýsingin áhugaverð.
- Details
- Hrönn Harðardóttir
17 mættu í fyrstu þriðjudagskvöldferðina og hljóluðu vestur í bæ í rjómablíðu og gæddu sér á vöfflum með rjóma. Vel heppnuð byrjun á frábæru hjólasumri.
- Details
- Ursula Zuehlke og Jens Kristinn Gíslason
Hjólið er eins manns/einnar konu faratæki – eða hvað? Þó hjólakona uppgvötvi að hún eigi von á barni, er engin ástæða til að hætta að hjóla. Margar skoðanir eru á því hversu lengi óléttar konur megi hjóla, en einnig að það sé í fínu lagi að hjóla alla meðgönguna. Algengt ráð er að konur breyti lífsmynstri ekki mikið að óþörfu á meðgöngu, þ.e. vanar hjólakonur ættu að halda áfram að hjóla, en óvanar ættu að bíða fram yfir fæðingu með að byrja. Það fer ekki bara eftir viðhorfi, heldur einnig eftir gerð og stillingum hjólsins; ágætt er að hækka stýrið og á síðustum vikum meðgöngu gæti verið þægilegt að hjólið sé með dömusniði svo að líkamsstaðan sé upprétt og maginn komist vel fyrir. Besti mælikvarðinn er hvernig tilvonandi mömmu líður á hjólinu sínu. Ávinningurinn af hollri hreyfingu er mikill, bæði fyrir móður og barn, og hættan á að detta er einnig til staðar á leiðinni út á bílastæði.
- Details
- Hávarður Tryggvason
Fyrir um ári síðan tók ég þá ákvörðun að hjóla á komandi sumri góðan hring um landið til að fagna 50 ára afmæli mínu og um leið láta eitthvað gott af mér leiða. Fyrsta hugmyndin var að hjóla hringveginn en eftir nokkrar vangaveltur og reynslutúra í kringum Reykjavíkursvæðið varð ég því afhuga vegna mikillar umferðar og lélegra vegaxla. Þá datt mér í hug að skoða Vestfirðina og las m.a. tvær ferðasögur í Hjólhestinum sem kveiktu í mér og það varð ekki aftur snúið. Í byrjun var planið að tutla þetta einn með allt á hjólinu, en þegar konan mín Þórunn María Jónsdóttir bauðst til að trússa ferðina ásamt börnunum okkar tveimur, þurfti ég ekki að hugsa mig um tvisvar. Þá hafði ég samband við Hollvini Grensás og bauð þeim að fara þessa ferð til styrktar verkefninu Á Rás fyrir Grensás, sem var þáð með þökkum. Ferðina tileinkaði ég frænda mínum og jafnaldra Kristjáni Ketilssyni, sem hefur verið lamaður eftir bílslys frá 17 ára aldri.
- Details
- Ómar Smári Kristinsson
Hvað eiga veikindi og áhugamál sameiginlegt? Bakteríur. Hér er saga af hjólabakteríu. Hún helltist yfir undirritaðan þegar hann var orðinn rúmlega fertugur. Allflestir kannast við að fá kvef af og til um ævina. Svo kemur skaðræðis lungnabólga einhvern tímann. Þannig er minni hjólabakteríu háttað. Auðvitað andskotaðist ég þvers og kruss um sveitina, sem krakki, loksins þegar mér tókst að læra að hjóla. Seinna meir, sem námsmaður í flatri þýskri borg með reiðhjólamenningu, gaus upp áhugi á reiðhjólinu og kostum þess. Hann varð eftir í Þýskalandi. Nú loksins er „lungnabólgan“ komin.
- Details
- Hrönn Harðardóttir
Þessi bók er eins og skrifuð með mig í huga. Ég ferðast iðulega þannig að ég finn mér 20-80 km hringleið, kem mér á áfangastað á bíl með hjólið aftan á, og hjóla svo í hring, aftur að bílnum eða í náttstað, tek jafnvel annan hring ef stutt er liðið á daginn.
- Details
- Páll Guðjónsson
Hjólreiðar eru eitt árangursríkasta og hagkvæmasta tæki sem völ er á til að bæta lýðheilsu, draga úr offitu, hjartasjúkdómum, streitu, þunglyndi og mengun. Því ætti að efla og hlúa að hjólreiðum. En getur verið að stjórnvöld séu að kæfa þær með óþarfa boðum og bönnum og fjársvelti til málaflokksins?
- Details
- Ebenezer Þ. Böðvarsson
Í bílaumferð er hjólreiðafólk minnimáttar og kvartanir yfir tillitsleysi bílstjóra eru skiljanlegar. En á stígum snýst dæmið við. Þar er hjólreiðafólkið ógnandi í garð gangandi. Það hljómar frekt að hjólreiðafólk skuli kvarta jafnt yfir bílstjórum sem gangandi því vandamálið á stígum er oftar en ekki að við hjólum óskynsamlega miðað við aðstæður og gleymum tillitssemi.
Stígum deilum við með gamalmennum, barnafólki, hundafólki og hlaupurum með eyrnatappa. Við þurfum að sætta okkur við þennan veruleika, anda rólega og slaka á í návist þeirra.
- Details
- Örlygur Steinn Sigurjónsson
Á háannatímum, þegar bílarnir silast áfram á hraða sem hæfir nautum í hnédjúpri mýri, skýst hjólreiðamaður á milli ökutækjanna, frjáls eins og fuglinn, og mætir fyrstur í vinnuna, og meira en sáttur við sig og sína.
Ég man enn hvaða lag var í útvarpinu, þegar ég var nautið, og sá hjólreiðamanninn renna sitt skeið og hverfa mér sjónum þar sem ég sat fastur á Bústaðaveginum um klukkan fjögur, orðinn of seinn á kvöldvakt. Einhver innri rödd sagði mér að þetta væri ekki eðlilegt. Og ennþá bilaðra var að horfa á tóm farþegasætin í öllum bílunum þar á meðal mínum. Þessi umferðarteppa hefði ekki þurft að eiga sér stað. Og upp úr því fór ég að hjóla. Nóg um það.
Það er engum blöðum um það að flétta að hjólreiðar eru í stórsókn um allan heim og er Ísland þar engin undantekning á þótt þróunin þyki ef til vill hægari hér á fróni. Þó fjölgar hjólreiðafólki hér stöðugt og sífellt fleiri velja sér reiðhjólið sem samgöngumáta, ferðamáta eða líkamsræktartæki. Án þess að telja mig vera að finna upp hjólið verð ég að viðurkenna að vera þeirrar skoðunar að í reiðhjólinu felist tækifæri til langrar framtíðar. Þessi einfalda uppfinning gæti verið ein af lausnunum við margþættum vanda sem steðjar að í nútíma samfélögum. Þar hef ég aðallega í huga þá lífsstílssjúkdóma sem hrjá sífellt fleiri og þá auknu mengun sem er afleiðing af vali flestra á samgöngumáta.
- Details
- Páll Guðjónsson
Það var ýmislegt merkilegt í Hjólhestinum sem kom úr í febrúar 1997 og deilt á opinbera aðila þegar framkvæmd og fyrirheit fóru lítt saman. Það var mikið horft til framtíðar, m.a. skrifaði Óskar Dýrmundur Ólafsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna um reynsluna af fyrsta „bíllausa deginum“ í Reykjavík sem nú kemur í fyrsta skipti á netið ásamt öðru sem var á döfinni. Einnig gömul grein eftir undirritaðann sem fjallar um sjálfbærar samgöngur og önnur sem deilir á bílaást í blaði annars umhvefisvæns framboðs. Þessi umræða á jafn vel við í dag því miður.
- Details
- Páll Guðjónsson
Í októbermánuði 1996 kom út þrettándi Hjólhesturinn í fullri stærð þó ekki væri það merkt á framhliðina. Stundum gleymast svona smáatriði. Á forsíðunni er Hjólhesturinn kominn á sólarströnd og syngur um að hann sé kominn í fríið, vetrarfríið, og tók með sér graskögglasnakk.
Innihaldið var mjög fjölbreitt og margt sem nú kemur á vefinn í fyrsta skipti á jafn vel við í dag og fyrir 16 árum. Má þar nefna erindi á Umferðarþingi þar sem fullyrt var að hjólrieðamenn væru hornreka í umferðarmálum. Augljós sönnun er sagan af því hvernig það kom til að hjólreiðar voru bannaðar á gangstéttum Laugavegar.
- Details
- Páll Guðjónsson
Enn er setið við skannan með fornritin og gamalt efni fært inn í tölvuöld. 12. Hjólhesturinn kom út í maí 1996, annað blað þeirrar ritnefndar og prentað í 1000 eintökum. Við vorum að prófa okkur áfram í því að nota ljósmyndir með misjöfnum árangri. Gísli Jónsson sá um umbrotið og skilaði flottu verki eins og áður. Sumt efnið fór á vef klúbbsins strax og hann opnaði en annað er nú að komast á vefinn í fyrsta skipti, s.s. leiðarinn, fréttapunktarnir, fyrsta ferðasagan og teiknimyndasagan um þróun tegundarinnar Homo cyclosis.
- Details
- Páll Guðjónsson
Það var mikill kraftur í ritnefnd Hjólhestsins í ársbyrjun 1996 sem í febrúar það ár gaf út stærsta blaðið fram til þess eða 32 bls. Efnið var sérlega fjölbreitt og meðal annars minnst á þörfina á betri snjóruðning, fleiri hjólastígum og hneykslast á kaupmönnum við Laugaveg sem vildu banna hjólreiðar eftir gangstéttum þar.
Já þetta hljómar sumt eins og rispuð plata því nú 16 árum seinna er enn hjakkað í sömu förunum á mörgum sviðum en þó eru yngri ráðamenn farnir að þoka málum í rétta átt þó reynslan verði að sýna hversu miklu þau koma í verk. Amk. eru enn ekki komnir aðskildir hjólastígar meðfram helstu umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins né eru áform um að gefa hjólreiðamönnum sambærilegan rétt á stígum með blandaðri umferð og þeir hafa á akbrautum í drögum að nýjum umferðarlögum.
- Details
- Páll Guðjónsson
Nú höldum við áfram að draga fram gamla Hjólhesta og rifja upp sögu klúbbsins sem nú er 22 ára gamall. Eins og áður hefur verið rifjað upp var 1995 öflugt ár í útgáfu Hjólhestsins og blöðin þau stærstu fram að því. Desemberblaðið var 28 síður. Blaðið hafði verið sett upp með ritvinnsluforritum þess tíma, prentuð út þar sem höfundar komust í prentara, oft gamaldags nálaprentara, stækkað og minnkað í ljósritunarvélum, dálkarnir klipptir niður og límdir á sína staði ásamt teikningum.
Nýtt fólk var komið í ritnefnd þegar þetta blað var gefið út með mikinn metnað til að bæta blaðið, m.a. Páll Guðjónsson, undirritaður, sem stýrði útgáfunni og hélt því áfram nokkur næstu ár. Gísli Jónsson sá um uppsetninguna og Jón Örn sá um teikningar sem fyrr og fleiri lögðu hönd á plóg.
- Details
- Páll Guðjónsson
Þessa dagana hjólar Daniel Hutton hringinn í kringum Ísland og safnar um leið fé til góðgerðarmála. Hann er frá Harrogate í Englandi og hefur stundað söng í yfir 27 ár eða frá átta ára aldri. Hann býðst til að syngja fyrir gistingu eða mat svo það ætti að ríkja mikil sönggleði hvert sem hann fer. Áhugasamir geta haft samband við hann og boðið gistingu. Hann er víst búinn með Snæfellsnesið og að nálgast Akureyri.
- Details
- Páll Guðjónsson
Þeir eru ófáir sem taka sig til og skipuleggja hjólaleiðangra til að safna áheitum fyrir gott málefni. Einn slíkur leiðgangur er á ferð um landið þessa dagana. Það er stundum munur á ferðasögum þeirra sem ferðast sjálfum sér til ánægju og þeirra sem eru að safna áheitum. Það er skondið að lesa stórkallalegar lýsingar þessa hóps þar sem allt virðist á heljar þröm.
Þeir sáu ekki fyrir sér að geta skrúfað frá vatnskrana og fengið drykkjarvatn hér við hringveginn ólíkt því sem tíðkast í heimalandi þeirra. Hvað þá að geta keypt sér mat og virðast þau lifa á frostþurrkuðum matarpökkum sem þeir höfðu meðferðis. Ferðin er farin veturinn 2011 þ.e. núna frá 12. ágúst.
- Details
- Páll Guðjónsson
Helgina 13. - 14. ágúst var farið í fyrstu Landmannalaugaferðina á vegum ÍFHK í langan tíma. Náttúran er alltaf einstök á svæðinu og ekki skemmdi að hafa góðan meðvind megnið af leiðinni. Dalakofinn hafði stækkað töluvert fá síðustu ferð sem var á síðustu öld svo það fór vel um alla. En þó það sé búið að fjalla um ferðina í tveim öðrum pistlum er alltaf gaman að bera saman sjónarhorn manna og hér eru fleiri myndir úr ferðinni.
Fleiri greinar...
Kveðskapur
Hér er safn af kveðskap um hjólið sem hefur birst í fréttabréfum klúbbsins í gegnum tíðina.