Ég hef gerst sekur um að hjóla án nægilegrar tillitssemi á stígum. Ég þekkti bara on/off takka og hjólaði alltaf greitt því ég var alltaf að æfa mig eða flýta mér. En ég leit í eigin barm fyrir skömmu. Setti mig í spor fólks í friðsælum göngutúr á meðan nokkur hjól þutu framhjá á ógnarhraða og vildi ógjarnan vera í þeirra sporum.

Nú vel ég sprett-svæðin mín betur. Þau eru misjöfn eftir tíma dags og vikunnar. Stundum fáfarnar götur en stundum stígar. En þegar ég mæti eða ek fram úr fólki á stígum hægi ég ferðina niður á vinalegan hraða. Hraða sem ég get boðið góðan daginn og fengið kveðju til baka.

Hliðaráhrif aukinnar tillitssemi eru að pirringur allra minnkar, slysahætta hverfur, ég stuðla að betri ímynd hjólreiðafólks, nýt betur ferðarinnar og er sáttari við sjálfan mig.

Ebenezer Þ. Böðvarsson,
Hjólarómantíker

Hjólhesturinn, mars 2012