Samþykktir Íslenska fjallahjólaklúbbsins
1. grein:
Félagið heitir Íslenski Fjallahjólaklúbburinn, skammstafað ÍFHK. Kennitala 600691-1399.
2. grein:
ÍFHK eru sjálfstæð og óháð félagasamtök um eflingu hjólreiða. ÍFHK stendur ekki að atvinnurekstri.
3. grein:
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að vinna að aukinni reiðhjólanotkun og bættri aðstöðu fyrir þá sem hjóla og vinna að eflingu og framgangi ferðalaga og samgangna á reiðhjólum hérlendis. ÍFHK standi meðal annars fyrir útgáfu- og fræðslustarfsemi til að kynna stefnu sína og markmið.
4. grein:
Félagsaðild: Allir 18 ára og eldri geta gerst félagar. Fjölskyldur geta valið fjölskylduáskrift. Unglingum 16-18 ára er heimil aðild með samþykki forráðamanns.
5. grein:
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins starfsárs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi og fer hver einstaklingur með eitt atkvæði á fundinum. Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald fyrir aðalfund, hefur hann ekki atkvæðisrétt á aðalfundi og er ekki kjörgengur í stjórn og nefndir.
6. grein:
Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. ágúst ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar lögð fram
- Reikningar lagðir fram til samþykktar
- Lagabreytingar
- Ákvörðun félagsgjalds
- Kosning stjórnar
- Önnur mál
7. grein:
Stjórn félagsins skal skipuð 5-7 félagsmönnum, formanni og 4 – 6 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi. Einnig er heimilt að kjósa allt að 8 varamenn. Formaður skal kosinn í sér kosningu til eins árs í senn. Síðan skulu 2 – 3 meðstjórnendur kosnir til stjórnar árlega, til tveggja ára í senn. Stjórn skiptir með sér verkum og skal vera skipað í embætti varaformanns, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Ef stjórnarmaður hættir áður en kjörtíma hans lýkur, þá tekur varamaður sæti í stjórn og síðan kosinn nýr varamaður á næsta aðalfundi félagsins.
Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til funda.
Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið, nema þrír stjórnarmenn séu henni fylgjandi. Stjórnin getur vikið mönnum úr félaginu álíti hún framkomu þeirra félaginu til vansa. Þó getur viðkomandi óskað þess að málið verði tekið fyrir á félagsfundi.
Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.
8. grein:
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.
9. grein:
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til reksturs og starfsemi ÍFHK og til að mæta rekstrartapi á komandi árum. Félagsmenn njóta ekki fjárhagslegs ávinnings af starfsemi félagsins.
10. grein:
Lögum þessum verður einungis breytt á aðalfundi félagsins með einföldum meirihluta greiddra atkvæða. Allar tillögur um lagabreytingar verða að hafa borist stjórn amk. 14 dögum fyrir aðalfund. Kynning á lagabreytingum verður kynnt í aðalfundarboði til félagsmanna.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til þeirra góðgerðarmála sem ákveðin verða á slitafundi.
Samþykkt á aðalfundi ÍFHK 25 febrúar 2021.