Saga ÍFHK
Til að byrja með heyrðist ekki mikið frá klúbbnum og má segja að aðallega hafi borið á honum í gestabókum þeirra svæða sem Magnús og Gísli fóru um. Var merki klúbbsins nú komið á stimpla og notað af þeirra hálfu líkt og þegar hundur merkir sér stað, “Hér kom ég”. Þetta varð til þess að ýmsir fóru að taka eftir stimplinum, og sýna því áhuga að ganga í klúbbinn. Ekki var það algengt að Íslendingar hjóluðu um landið á þessum tíma, og lentu þeir fáu sem það gerðu oft í spaugilegum uppákomum, eins og þegar menn voru afgreiddir á erlendu tungumáli á tjaldsvæðum eða í verslunum. Stórt vandamál klúbbsins við að koma málefnum sínum á framfæri á þessum tíma, var að almenningur stóð í bullandi einkabílavæðingu, eftir mistök stjórnvalda með lækkun tolla á bifreiðum árið 1986. Allt í einu urðu til ný hugtök, svo sem; “Bíll er nauðsyn”, sem gekk þvert á skoðun margra þáverandi klúbbmeðlima. Allar framkvæmdir í gatna og skipulagsmálum snérust um að auka svigrúm bílaflotans svo margir einstaklingar lögðu hreinlega ekki í það að glíma við tryllta bílaumferð á reiðhjóli.
27. april 1991 var svo boðað til almenns fundar, þar sem línur voru lagðar í starfsemi klúbbsins. Fólk var kosið í nefndir og klúbbnum skipt í ferðadeild, sem sér um ferðamál, keppnisdeild sem sá um keppnishald og umhverfisdeild sem sér um umhverfis- og skipulagsmál.
Þegar hér var komið við sögu voru félagar rétt tæplega 100. Síðan þá hefur þeim fjölgað hægt og sígandi, eftir því sem starfsemin hefur aukist. Hjólreiðafélag Reykjavíkur (HFR), sem endurvakið var vorið 1993, sér nú um starfsemi keppnisdeildarinnar. HFR fékk aðild að ÍBR 1996 og vinnur nú að því að efla hjólreiðar sem íþrótt, bæði innan götu- og fjallahjólagreinarinnar.
Núverandi starfsemi ÍFHK
Tímamót urðu í starfseminni þegar klúbburinn flutti, vorið 1997, í leiguhúsnæði. Þar gafst loksins tækifæri á að hafa opið hús vikulega og gefa hjólafólki vettfang til að ræða sín mál í ró og næði í setustofunni eða vinna í sínum hjólum í viðgerðaraðstöðunni með tilsögn reyndra manna. Þarna fékk hjólreiðamenningin að blómstra og fólkið sem áður hafði aðeins hist í mánaðarlega í sal Þróttheima fékk loks tækifæri til að kynnast almennilega, án þess að fara í helgarferð með klúbbnum.
Stór hluti félagsmanna er nefnilega fólk sem velur reiðhjólið sem samgöngutæki innan borgarinnar og hefur sjaldan eða aldrei farið í langferðir út úr bænum. Upp frá þessu hefur eflst stórlega sá hluti starfseminnar að hvetja almenning til að hvíla sína bíla og nota þennan holla og umhverfisvæna valkost í samgöngukerfinu sem reiðhjólið er. Sem og baráttan fyrir því að samgöngukerfið verði öruggt fyrir hina “mjúku umferð” þannig að hver sem er geti litið á reiðhjólið sem raunhæfan valkost.
Sumarið 1994 var byrjað með vikulegar kvöldferðir sniðnar að nýliðum í hjólreiðum sem reyndust mikilvæg nýjung í félagsstarfinu.
Tímamót urðu í kynningarmálum klúbbsins þegar hann opnaði heimasíðu á internetinu um páskana 1997, www.mmedia.is/ifhk núna fjallahjolaklubburinn.is. Einn stærsti útgjaldaliður klúbbsins er útgáfustarfsemi. Hjólhesturinn, veglegt fréttabréf klúbbsins er gefið út reglulega og dagskrár- og kynningarbæklingum er dreift víða. Með tilkomu heimasíðunnar var hægt að safna saman fjölbreyttu fræðsluefni og upplýsingum um flest er tengist hjólreiðum og gera það aðgengilegt öllum með lágmarks tilkostnaði. Stærsti hluti heimasíðunnar er á íslensku en skýrasta dæmið um hagnýti vefsins er kannski sá hluti sem er á ensku. Áður fyrr átti erlent hjólafólk erfitt með að fá upplýsingar um Ísland og aðstæður hér. Þó var ótrúlegur fjöldi sem tókst að grafa upp heimilisfang klúbbsins eða faxnúmer og óskaði eftir upplýsingum. Við þurftum síðan að svara þessu bréflega eða á faxi til útlanda. Í dag fáum við reglulega skeyti frá fólki sem þakkar innilega fyrir þær upplýsingar sem það fann á vef klúbbsins, enda höfum við reynt að svara þar öllum algengustu spurningum. Síðan spyr það oftast nokkurra aukaspurninga sem við reynum að svara, því vel undirbúið ferðafólk lendir lendir yfirleitt ekki í vandræðum á ferð sinni hjólandi um landið og snýr heim ánægt eftir velheppnaða ferð, og það er einmitt tilgangurinn með fræðslustarfseminni. Hjólhestana má lesa hér.
Á sumrin lifnar yfir ferðanefndinni sem skipuleggur helgar- og dagsferðir yfir sumartímann og stundum er einnig farin ein ferð í janúarmánuði. Mikil tímamót í ferðum klúbbsins var þegar Freyr Frankson tók að sjá um flutninga með ferðahópana til og frá þeim svæðum sem hjólað er um, en fram að þeim tíma höfðum við þurft að hjóla alla leið eða leigja rútu og þá oftast í samvinnu við aðra ferðahópa t.d. Ferðafélag Íslands. Síðar gripu aðrir boltan og 2011 fjárfesti klúbburinn í forlátri kerru sem auðveldaði flutning á hjólum í ferðum og þar var Björgvin Hilmarsson sem leiddi þá vinnu.
Haustið 1998 urðu enn tímamót í starfseminni þegar Magnús Bergsson, sem hafði verið formaður klúbbsins frá upphafi, lét af embætti og Alda Jónsdóttir tók við. Það getur verið gott að fá nýtt fólk í stjórn og náði Alda að lyfta starfseminni í nýjar hæðir. T.d. skipulagði hún í samvinnu við Landssamtök hjólreiðamanna Hjólaþing sem var haldið í mars 1999, þar sem þingað var um aðstæður hjólreiðafólks með opinberum aðilum og tóku margir þeim ábendingum sem þeir fengu mjög vel og úrbætur urðu strax sýnilegar.
Nú erum við komin í framtíðarhúsnæði að Brekkustíg 2 þar sem okkur gefast aukin tækifæri til að efla og styrkja starfsemina. Þar er reglulega opið hús þar sem allir eru velkomnir. Fólk kemst í viðgerðaraðstöðu eða getur sest í setustofuna okkar, gluggað í gegnum blöðin og bækurnar á bókasafninu eða tekið þátt í umræðunni sem oft er ansi fjörleg.
© 1999 - (uppfært 2007-10-14) ÍFHK - Magnús Bergsson og Páll Guðjónsson
(Magnús Bergson var formaður klúbbsins fyrstu 10 árin og er nú varamaður í stjórn,
Páll Guðjónsson hefur verið í stjórn ÍFHK allt frá 1995 með hléum en verið mjög virkur allt frá 1994 og séð um vefsíður og ýmis útgáfumál)