- Details
- Óskar Dýrmundur Ólafsson
VII. Hjólakeppni
Afrek hjólreiðamanna
Hjólhesturinn var farinn að vekja talsverða athygli hérlendis í lok síðustu aldar, nokkuð sem kemur ekki á óvart þegar litið er til meginlands Evrópu og Bandaríkjanna. Þar var einhverskonar hjólafár í gangi sem fyllti tóma sveitarvegi. Fjöldaframleiðsla reiðhjóla hafði hafist á sjöunda áratug nítjándu aldar í Frakklandi. Það var því við hæfi að sá fyrsti sem hjólaði á hinn forna þingstað Íslendinga skyldi vera Frakki. "Hjólreið til Þingvalla" var fyrirsögnin í dagblaðinu Ísafold þann 25 júlí 1896.
Frakkneskur sjóliðsforingi einn á strandvarnarskipinu "La Manche", Maxime Delahet, tók sér fyrir hendur nýlega að ferðast á hjólhesti, tvíhjólung, héðan og austur að Þingvöllum, og tókst sú ferð svo greiðlega, að orð er á gerandi.
Hann hjólaði á 8 klukkustundum þangað og svo til baka daginn eftir á 6 klukkustundum, en kvartaði aðspurður undan slæmum og engum vegum á leiðinni. Ef almennilegur vegur lægi þangað þá væri "lafhægt" að fara þetta undir 5 klukkutímum.
Þetta þótti talsvert afrek sem varð enn stærra við það að sjóliðsforinginn hjólaði á hinn forna helgireit sjálfstæðisbaráttunnar.
Hjólað á Þjóðhátíð
Fljótlega var farið að keppa í hjólreiðum á þjóðhátíðum í Reykjavík. 1898 var fyrst keppt í hjólreiðum á Þjóðhátíð á Landakotstúni að tilstuðlan Hjólmannafélagsins. Þrátt fyrir að félagsins nyti ekki við áttu hjólreiðarnar eftir að halda tryggð sinni við þjóðhátíðarnar. Fljótlega fór vegur þessarra keppna að dafna og á þjóðhátíðinni 1903 þá voru veitt 10 króna peningaverðlaun fyrir fyrsta sætið. Jón Samúelsson trésmiður hlaut þau en í öðru sæti var Gísli Jónsson skólapiltur. Til samanburðar á verðígildi verðlaunanna má geta þess að hægt var að fá eitt stykki hjólhest fyrir 28 krónu árið 1906. Árið eftir urðu úrslit á Þjóðhátíðinni þessi:
Fljótastur var Bonemann bókbindari í Reikjavík (27 sek) en næstur Jónatan Þorsteinsson söðlasmiður (27 3/4 sek.) Hafliði Hjartarson var 28 sek. en hann hægði á ser af misskilningi fir en hann næði skeiðsenda.
Hafliði Hjartarson snikkari virðist svo sigra keppnina á tveim næstu þjóðhátíðum en hann tók að sér að vera í forsvari fyrir komandi keppnir og séð um framkvæmdahliðina eins og t.d. skráningu í mót. Á Ísafirði hafði verið keppt árið áður í hjólreiðum á þjóðminningardeginum. Átti að keppa í stuttri og langri vegalengd en vegna deilna um keppnisreglur var styttri vegalengdin ógilt og þegar upp var staðið í lengri vegalengdinni kepptu einungis 3 af 6 skráðum keppendum, sennilega vegna þessarra deilna. Úrslit urðu þau að í efstu tvö sætin röðuðu sér Þorbjörn Tómasson skósmiður og Friðberg Stefánsson járnsmiður en ekki fer frekari sögum af nafni þriðja keppendans. Þrátt fyrir skakkaföllin árið áður mætt 9 Keppendur til leiks á þjóðminningardaginn 1906.
Hjólakeppnin á Ísafirði, Þjóðminningardaginn 1906:
1. Kristján Björnsson
2. Jónas Tómasson
3. Björn Guðmundsson og Jón Ól. Jónsson deildu þriðja sætinu.
Upp úr þessu virðist vegur reiðhjólakeppna fara minnkandi þar sem hvergi er getið um þær. Reyndar má finna frétt um að keppt hafi verið í hjólreiðum á Akureyri sumarið 17 júní 1911. Þann dag hófust mikil leikmót bæði á Akureyri og í Reykjavík. "Um sigurvegara á Akureyraleikmótinu er oss ekki kunnugt, en þar fóru fram kapphlaup (100 stikur), stökk (langstökk, hástökk) hjólreiðar, glímur og sund". Í Skinfaxa og Lögrjettu má svo finna auglýsingu þar sem hjólreiðar eru auglýstar sem keppnisgrein á sumaríþróttamóti en þegar svo að mótið er haldið virðast þær hafa dottið út, án þess að ástæða þess sé tilgreind. Upp úr þessu virðist hjólakeppni leggjast af um skeið.
E.t.v. endurspeglar Jónas frá Hriflu skoðanir sumra á íþróttinni í íþróttapistli sínum í Skinfaxa árið 1913, en þar lýsir hann þeim greinum sem honum fannst svakalegastar á Olympíuleikunum. Þar lýsir hann því hve illa út lítandi Maraþonhlauparar voru eftir þrekraunina en öllu verri leit annar hópur íþróttamanna samt út að mati Jónasar:
Það voru þeir, sem fóru kringum lóginn á hjóli. En sú vegalengd er hér um bil 320 rastir. Það var ekki fögur sjón að sjá hjólamennina koma að markinu eftir 12 klukkutíma erfiði, úttaugaða af þreytu, kengbogna með augun út út höfðinu af áreynslunni. Þetta voru auðvitað alt þaulæfðir hjólreiðamenn en þau einkenni, sem sú íþrótt setur á manninn, þykir mér eiginlega ekki fögur. Í slíkri íþrótt ætti alls ekki að keppa á Olympíuleikjum, síst aðra eins vegalengd og þessa.
En þrátt fyrir að köldu andaði frá Ungmannafélagspostulanum honum Jónasi þá var keppt aftur í hjólreiðum í kjölfarið á stofnun Hjólreiðafélags Reykjavíkur sumarið 1924.
Sumarið 1924
Eins og franski sjóliðinn sem hjólaði á Þingvöll í lok 19. aldar þá héldu menn áfram að leita á helgireit þjóðernisbaráttunnar á Þingvöllum. Nú var keppt á vegi sem náði alla leið og farið var fram og til baka í einu lagi. Að frumkvæði Hjólreiðafélagsins þá voru haldnar tvær keppnir þar sem glæsileg verðlaun voru í boði, átti að keppa 10 og 17 ágúst. Voru samskonar verðlaun veitt í báðum keppnum. Í fyrstu verðlaun voru kappreiðahjól frá "Fálkanum" og Sigurþóri Jónssyni úrsmiði, önnur verðlaun voru 100 krónur í peningum en í þriðju verðlaun voru bikarar. Farið var "frá Árbæ að Þingvöllum og til baka aftur að Tungu, húsi Dýraverndunarfélagsins." Sá sem fyrstur var að fara þessa liðlegu 90 km leið var Zophonias Snorrason, en hann fór leiðina á 3 klukkustundum og 30 minútum. Sá sem næst kom honum var Þorsteinn Ásbjörnsson. Alls komu sex í mark og segir í frétt Vísis að "allir keppendur voru vel hressir eftir þessa raun, eins og ekkert hefði í skorist."
Keppni Hjólreiðafélags Reykjavíkur 10 ágúst 1924:
1. Zophonias Snorrason 3:30:36 Klst
2. Þorsteinn Ásbjörnsson 4:00:8
3. Axel Grímsson 4:06:8
4. Magnús V. Guðmundsson 4:19:55
5. Jón Kjartansson 4:25:58
6. Náði ekki marki.
Seinni keppninni var svo frestað um viku vegna kappreiða hjá Fáki, eða til 24 ágúst. Metþáttaka virðist hafa verið, en keppt var á hefðbundnum reiðhjólum á meðan í fyrri keppninni hafði verið keppt á sérstökum keppnishjólum. 11 manns hófu keppni en einungis þrír komust í mark. Þorsteinn Ásbjörnsson kom fyrstur á 4 klst. 21 mín. 40 sek. en næst honum kom Axel í öðru og Jón Kjartans í þriðja. Voru ástæður þessarra áfalla gefnar í Vísir daginn eftir. "Veður var óhagstætt, regn allan tímann og ekki nægilega hlýtt í veðri. Vegurinn á Mosfellsheiði er mjög slæmur víða, ósléttur og grýttur."
Keppni Hjólreiðafélags Reykjavíkur 24 ágúst 1924:
1. Þorsteinn Ásbjörnsson 4:21:40 klst
2. Axel Grímsson 4:35:24
3. Jón Kjartansson 4:55:25
Athygli vakti hve fáir mættu á sama tíma í Álafosshlaupið. "Hvílík hneisa!.. Aðeins tveir menn (úr KR) taka þátt í lengsta og veglegasta hlaupi landsins" kveinar Grettir upp í íþróttaskrifum sínum í Vísir sama dag. Þrátt fyrir allt fær hjólakeppnin mun minni umfjöllum í dagblaðinu þrátt fyrir margfalt fleiri þáttakendur í hjólreiðunum.
Í bili virðist hjólakeppni lognast útaf fyrir utan 20 rasta keppni í Reykjavík 1927. Var verið að keppa um afreksmerki á Afreksmerkjamótinu. Af þeim 17 sem kepptu komu þeir Sigurður Halldórsson, Sigtryggur Árnason og Sigurþór Þórðarson fyrstir í mark, í þessarri röð.
Hjólakeppni endurvakin
Ekki eru heimildir fyrir því að keppnir hafi verið haldnar fram undir sjötta áratuginn, þó að sögusagnir segi okkur að eitthvað hafi verið keppt. Fyrsta keppnin sem við höfum óyggjandi vitneskju um eftir sumarið góða 1924 að hafi verið haldið, var landsmót í hjólreiðum 12 ágúst 1951.
Íþróttablaðið fagnar því að það eigi að fara að keppa í hjólreiðum hérlendis og útskýrir að "það, sem hamlað hefur slíkum mótum hérlendis allra mest, eru torfærir vegir." Mótið, sem Íþróttabandalag Akranes sá um, virðist hafa heppnast vel þar sem fólk var fengið að vakta hættulega staði og keppendum fylgdi bíll með lækni í. Hjólað var rangsælis Akrafjall, um 33 km langa leið, frá Akranesi til Akranes aftur.
Keppni ÍBA 12 ágúst 1951:
1. Kristján Árnason KR 1:14:11,8 klst.
2. Emil Jónsson ÍR 1:15:56,6 klst.
3. Sófus Bertelsen Hafnarf. 1:20:46,0 klst
4. Gylfi Grímsson UMSK 1:25:44,8
5. Játmundur Árnason UMF Þrestir 1:26:46,4
6. Lárus Fjeldsted UMF Kolbeinsstaðir 1:34:40,2.
Upphaflega fóru sjö menn af stað en "Garðar Jóhannesson frá Akranesi varð fyrir því óhappi, að hjól hans bilaði"
Það næsta sem fréttist svo af hjólakeppni var auglýsing í Íþróttablaðinu árið eftir um að halda ætti "Hjólreiðamót Íslands" 13 júlí 1952. Ekki var þó keppt og var um kennt vondu veðri og svo þáttökuleysi og víkur nú sögunni nokkuð lengra framávið.
10-14 gíra tímabilið
Árið 1970 hélt íþróttafélagið Ármann hjólreiðakeppni sem lítið er vitað um, fyrir utan myndir sem birtust í Íþróttablaðinu. Upp úr 1980 varð gjörbylting í hjólreiðum á Íslandi. Þar eiga keppnishjólreiðar eflaust stóran þátt að máli. Fyrstu keppnirnar sem voru haldnar í upphafi þessarrar nýju bylgju voru á Akranesi og Keflavík. Í Keflavík var haldin 10 manna keppni skömmu fyrir Akraneskeppnina en ekki er hægt að greina nánar frá henni hér vegna heimldaskorts. Á Akranesi stóð bæjarblaðið og Íþróttabandalagið sameiginlega fyrir keppni sem 40 manns tóku þátt í, þar með talinn Ásgeir Heiðar verðandi formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Keppt var annars vegar í gíralausum flokkum og svo í flokki þar sem gírahjól voru einungis leyfð. Ásgeir Heiðar sigraði gíraflokkinn á táknrænan hátt, svona rétt til að minna á Reykvíska hjólreiðamenn sem áttu eftir að láta að sér kveða síðar meir.
Hjólakeppni ÍBA og bæjarblaðsins 5 ágúst 1980:
7-11 ára-Gíralaus flokkur:
1. Haraldur Ingólfsson 4:37,9 mín
2. Maríno Önundarson 4:49,2 mín
3. Sigurður Már Harðarson 4:49,8 mín
12 ára og eldri-Gíralaus flokkur:
1. Gauti Halldórsson 8:53,9 mín
2. Jóhannes Elíasson 8:53,3
3. Jón Bjarni Baldvinsson 9:04,3
Aldur ótakmarkaður-Gíraflokkur:
1. Ásgeir Heiðar 21:00,6 mín
2. Óli Þór Jónsson 24:23,3
3. Sævar Gylfason 25:19,6
Hjólreiðafélag Reykjavíkur sem var endurreist í ágúst 1980 stóð svo fyrir öflugri keppnisdagskrá fyrstu ár þess áratugarins. Það kemur fram í viðtali við Ásgeir Heiðar formann félagsins að honum þykir aðstaða til æfinga og keppni á reiðhjólum erfið hérlendis, ekki vegna veðurs, heldur vegna þess að hér vanti hjólabrautir og að við lýði séu úreltar lögreglusamþykktir. Í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík hafi t.d. verið skýrt á um kveðið að "ökuhraði á hjóli má ekki vera meiri en 25 kílómetrar á klukkustund." Sagði Ásgeir Heiðar höfundi að sækja hefði þurft um undanþágu frá þessu ákvæði í hverju einasta lögregluumdæmi en langerfiðast hafi verið þó að eiga við Reykjavíkurlögregluna. Hraði þeirra sem keppa á reiðhjólum hafði aukist til muna með tilkomu léttari hjóla, aukins þrýstings í mjórri dekkjum og leiða sumri líkum að því að geta íþróttamanna sé sífellt að aukast í ljósi aukinnar þekkingar í þjálffræði.
Fyrsta götuhjólakeppnin sem var haldin í Reykjavík í kjölfar þessarrar miklu enduvakningar á hjólreiðum var keppni sem haldin var út í Örfirisey þann 23 Ágúst 1980. Ómar Ragnarsson var fenginn til að ræsa keppendur sem kepptu í þrem flokkum. Í 12-14 ára flokknum sigraði Sigurður Valtýsson, í 15-16 ára flokki varð Elvar Erlingsson fyrstur og í aldursflokknum uppúr 16 ára, gaf Einar Jóhannsson tóninn með því að sigra á hinni 10 kílómetra löngu braut á tímanum 17:26,8 mín.
Skömmu fyrir Hellukeppnina hafði verið keppt í hjólreiðum á Romshvalanesi hjá Keflavík. Knattspyrnufélag Keflavíkur stóð að keppninni sem var frekar fjölmenn en 40 keppendur í þremur aldursflokkum mættu að upphafspunkti keppninnar. Keppnin var í styttri kantinum og þeim mun meira spennandi. "Það var einkennandi fyrir keppnina, að hart var barizt um sigurinn...Það er til marks um hina miklu keppni í karlaflokki, að innan við tíu sekúndur liðu frá því að fyrsti maður kom í mark og þar til að níundi maður fór yfir marklínuna."ath???
Úrslit efstu manna í Romshvalaneskeppni ÍBK:
1. Helgi Geirharðsson Peugot 41:12,8
2. Einar Jóhannsson Colner 41:14,9
3. Arnór Magnússon 41:15,6
Þetta sumar var þó aðalkeppnin haldin á hinni sívinsælu Þingvallaleið. Auglýsingar fóru að berast frá skemmtistaðnum Hollywood um skráningu þáttakenda og glæsileg verðlaun voru í boði.
Úrslit í Þingvallakeppninni sumarið 1981:
1. Einar Jóhannsson 3:50:34
2. Pálmi Kristmundsson 3:53:43
3. Kjartan M. Kjartansson 3:64:16
Hellukeppnin sem svo hét einkenndist af því að allir keppendur tilheyrðu orðið einhverju keppnisliði. Íþróttafréttaritari Morgunblaðsins velti upp þeirri spurningu hvort að þessi sérþjálfuðu lið fældu aðra reynsluminni keppendur frá, "þær raddir hafa heyrst að þetta fæi aðra frá, og er það miður ef svo er, en fyrri keppnir benda tæpast til að þessi fullyrðing sé á rökum reist."
Torfærukeppni á hjólum
Fjallahjólin sem hafa slegið í gegn síðari árin hér á landi hafa verið notuð einnig töluvert í keppni. Frá því að þau hafa verið flutt inn til landsins hefur farið fram keppnishald á sumrin. Fyrst voru það einstaklingar sem áttu frumkvæðið en síðan tók hinn Íslenski Fjallahjólaklúbbur alfarið við þeim framkvæmdum.
Fyrsta fjallahjólakeppnin sem haldin var hérlendis fór fram í reiðhöllinni ásamt hjólabrettasýningu um vorið 1989. Voru það bændasamtökin sem stóðu bak við þessa uppákomu en hún var liður í skemmtun sem gestum landbúnaðarsýningar var boðin uppá.
© Óskar Dýrmundur Ólafsson