- Details
- Óskar Dýrmundur Ólafsson
VI. Verslun, viðgerðir og smíði
Hjólaverslunin
Verslun var í mikilli sókn undir lok síðustu aldamóta og reiðhjólasalar fóru ekki varhluta af því. Byrjað var að auglýsa reiðhjól til sölu sumarið 1894. Hans Andersen skraddari og kaupmaður sem var með verslun sína við Aðalstræti 16 bauð til sölu dönsk reiðhjól frá Sylvester Hvids Cyklefabrik í Kaupmannahöfn. Hann auglýsti sömuleiðis að hver sem væri gæti lært á þetta nýja tæki á þremur tímum. Ísinn var brotinn og héðan í frá var hægt að eignast reiðhjól í gegnum íslenskar verslanir. Þetta er í raun samfara þeirri þróun að farið er að nota reiðufé í verslun, en áður höfðu vöruskipti tíðkast að mesu leyti. Sem dæmi var hin nýstofnaða verslun Edinborg árið 1895 sem eingöngu verslaði með peningum og borgaði með peningum. Brátt hljóp kapp í viðskiptin eins og auglýsingar blaða á næstu árum sýndi.
Auglýsingar fóru að birtust á síðum Ísafolds sumarið 1896 um að "nýir og brúkaðir Cyclar (hjólhestar)" væru nýkomnir. Sigfús Eymundsson ljósmyndari og bókbindari, Fischer verslunin, Magnús Benjamínsson og Knud Zimsen voru meðal þeirra fyrstu sem fluttu inn hjólhesta og þá oft samkvæmt pöntun einstaklinga. Reiðhjólin komu frá Englandi, Danmörku og frá Þýskalandi. Hjólasalar auglýstu yfirleitt hve góð þeirra hjól væru og tilgreindu oft frá hvaða löndum hjólin kæmu. Sigfús Eymundsson auglýsti t.d. sérstaklega að hann hefði aflað sér einkaleyfis fyrir "vönduð bresk hjól." Þegar keppnirnar höfðu fest sig í sessi hérlendis þá mátti sjá auglýsingar eins og: "Heimsins frægustu hjólreiðamenn Paul Bourillon, Willy Arend, Franz Verheyen mæla allir með "Superior" hjólhestunum."
Knud Zimsen sem kom aftur til Íslands eftir verkfræðinám sitt vorið 1902 flutti með sér nokkur reiðhjól sem hann ætlaði að selja að áeggjan móðurbróður síns Christopher. Móðurbróðir hans átti verksmiðju í Danmörku sem framleiddi sjónauka, rafmagnsvélar og reiðhjól og var hann sannfærður um að Íslendingar myndi taka reiðhjólunum jafn opnum örmum og Danir hefðu gert. Þessi reiðhjól áttu að hafa verið af nýjustu gerð á Norðurlöndunum og leist Zimsen vel á að kynna betur fyrir Íslendingum kosti þess. Um þessa kaupmennsku segir hann:
Nokkrir Reykvíkingar áttu orðið hjól um þessar mundir, en öll höfðu þau verið pöntuð erlendis frá. Ég reyndi að haga mér kaupmannslega, sat um að fá einhvern til að kaupa reiðhjól, sem gerði það af brýnni þörf, en ekki spjátrungshætti. Mér þótti því hafa tekizt vel til, þegar héraðslæknirinn, Guðmundur Björnsson, hætti að þreyta göngu sína inn í skuggahverfi, vestur í Sel og upp í Þingholt, en þeysti þess í stað á reiðskjóta frá mér.
Viðgerðir og hjólaleigur
Í byrjun er sennilegt að hér hafi skort viðgerðakunnáttu þegar hjólhestarnir biluðu eins og kemur fram í Ísafold árið 1896 þar sem að tilraun til Þingvallarferðar mistókst hjá franska sjóliðanum vegna þess að "reiðskjótinn bilaði sunnarlega á heiðinni, kom gat á hjólhringinn, lopthringinn, en ekki er hægt að fá gert við það hjer." Sá sem fyrstur tekur að sér reiðhjólaviðgerðir mun hafa verið Gisli Finnsson járnsmiður sem jafnframt var meðlimur í Hjólmannafélagi Reykjavíkur. Gísli hafði kynnt sér reiðhjólaviðgerðir sérstaklega í Danmörku samkvæmt beiðni Hjólmannafélagsins og heimsótti hann m.a. reiðhjólaverksmiðju í Kaupmannahöfn á ferðalagi sínu sem að öðru leyti fór í að kynna sér ýmsar aðrar tækninýjungar. Því næst bættist Ólafur Magnússon í hópinn, en hann hóf starfsemi sína árið 1904 en Ólafur keypti svo síðar hjólreiðaverslunina Fálkann eins og áður hefur verið vikið að. Ólafur var smiður að atvinnu og eftir mikinn uppgang þá dró talsvert úr verkefnum og því fór hann að taka að sér reiðhjólaviðgerðir í kjallara sínum. Smátt og smátt jókst þetta það mikið að 1906 voru reiðhjólaviðgerðir orðnar aðalatvinna Ólafs. Brátt tók hann að flytja sjálfur inn varahluti og hjól, jafnframt því að gera gömul hjól algerlega upp aftur með lökkun og tilheyrandi. Einnig hélt hann úti reiðhjólaleigu til skamms tíma og verið sennilega með fyrstu reiðhjólaleigu sem vitað er um hérlendis. Næst honum kemur svo Sigurþór úrsmiður sem vitað er til að hafi leigt út reiðhjól en hann auglýsti nýja hjólhesta til leigu árið 1924. Einnig leigði Valdi rakari út reiðhjól á þriðja og fjórða áratugnum, en hún var til húsa ofarlega á Laugaveginum rétt hjá Vitastígnum. Fleiri leigðu út hjól en lítið er vitað um þær.
Fálkinn og Örninn
Sérverslanir með reiðhjól fóru að láta á sér bera í æ meira mæli. Í lok þriðja áratugarins seldu margar verslanirnar reiðhjól hér þó að takmarkaður fjöldi þeirra sérhæfði sig í reiðhjólasölunni. Harald S. Gudberg sem var faglærður reiðhjólasmiður stofnaði tvær þeirra; Fálkann 1916 og Örninn 1925. Harald sem byrjaði með Fálkann að Laugavegi 20 gerir því skóna að verslun hans hafi haft sérstöðu í auglýsingu sem birtist í lok maí 1916: "Komið til sérfræðingsins og þér verðið ánægðir" og er hann eflaust að vísa til þess að hann var sérmenntaður sem reiðhjólasmiður og öll áherslan lögð á reiðhjól. Er þetta því fyrsta sérverslunin með reiðhjól sem haslaði sér völl hérlendis. Þegar komið var fram á þriðja áratuginn fór hann utan til Danmerkur árið 1924 og hafði þá selt Ólafi Magnússyni Fálkann. Á sama tíma sagði forstöðumaður Fálkans, M. Buch, upp störfum og hóf sjálfur verkstæðisrekstur að Laugavegi 20. Ólafur sem var þá orðinn öllum hnútum kunnugur í reiðhjólaheiminum hélt áfram að efla verkstæðið og verslunina. Fljótlega fór hann að ráða erlenda menn í vinnu hjá sér. 1927 var Anschitz fenginn frá Þýskalandi á verkstæðið. Næst honum kom svo Jakobsen, frægur hjólreiðakappi frá Danmörku sem hættur var keppni. Smátt og smátt jukust svo umsvif Fálkans sem ekki verða rakin nánar hér.
Það er svo að frétta af honum Harald að hann kom svo á fót hjólreiðaverksmiðju í Kalundborg á Sjálandi og þegar hann kom aftur til Íslands þá stofnaði hann aðra hjólaverslun að Laugavegi 8. Örlítið neðar var svo Óðinn á Bankastrætinu, steinsnar fyrir neðan "hús Málarans", en þar er nú til húsa Sólon Islandus (kaffihús). Hjólreiðaverkstæði og verslun Óðins var svo stofnað í lok þriðja áratugarins, meðal annars af lærlingum Ólafs í Fálkanum sem voru Óskar Jónsson og Ívar Jónsson. Seinna flutti Óskar sig yfir í Skólastræti með reksturinn.
Vesturgata 5
1929 voru langstærstu verkstæðin hjá Fálkanum og Erninum þegar ungur maður frá Danmörku sem var á ferðinni kom til að heimsækja vin sinn Guðmund Bjarnlaugsson í Reykjavík. Var þetta Axel Janssen sem hafði unnið með Guðmundi þegar þeir voru að læra hjólhestasmíðar í Kalundborg í Danmörku. Í fyrstu átti þetta einungis að vera heimsókn en eftir að Harald S. Gudberg í Erninum, sem þekkt Axel frá Danmerkurdvöl sinni á árunum 1924-25, hafði sagt honum að það vantaði alveg hjólaverkstæði í vesturbæinn, sló hann til og stofnaði verkstæði á Vesturgötu 5 og var þar í samfellt 48 ár eða til ársins 1977. Fram að seinni heimsstyrjöldinni hafði svo þessi ungi danski maður nóg að gera. Hann gerði samninga um viðhald og samsetningu fyrir stór fyrirtæki eins og SÍS, Mjólkusamlagið og svo Silla og Valda. Voru hér fyrst og fremst um sendisveinahjól að ræða og svo samsetningu á nýjum hjólum fyrir SÍS sem voru hin frægu Möwe hjól. Axel Janssen notaði yfirleitt veturna á fjórða áratugnum oft til að gera upp notuð hjól, lakka þau upp og svo seldust þau á einum mánuði að vori. Þegar hjólin voru lökkuð voru þau yfirleitt látin þorna í brennsluofni sem venja var að væri til staðar inná verkstæðunum. Guðbjört dóttir Ólafs í Fálkanum segist muna eftir brennsluofni á 2. hæði í húsasundinu að Laugavegi 24 frá því hún var telpa en slíkir ofnar voru algengir á reiðhjólaverkstæðunum. Eftir seinni heimsstyrjöldina sameinuðu svo Axel og hjólreiðasmiðurinn Vilberg Jónsson krafta sína á Vesturgötu 5. Vilberg hafði verið með verkstæði uppi á Laugavegi sem hét Baldur og þegar hann flutti rekstur sinn niður á Vesturgötu þá tók hann nafnið með sér. Þannig hét verkstæði félaganna eftir þetta, Baldur. Rétt er að geta þess að reiðhjól voru seld ávallt á verkstæðinu, bæði ný og notuð.
Eins og sjá má var hér mikil gróska á verkstæðunum með hóp af færum mönnum innan borðs. Flestir höfðu sveinsbréf upp á vasann frá Danmörku sem kváðu á um að þeir væru hjólhestasmiðir. Reiðhjólasmíði og reiðhjólaviðgerðir virðast þó ekki hafa hlotið lögformlega viðurkenningu hérlendis þó að slíkt hafi verið alkunna t.d. í Danmörk frá því á seinni hluta 19. aldar. Þeir helstu sem hafa verið sérstaklega menntaðir til verkstæðisvinnu reiðhjóla voru: Stofnandi Fálkans og Arnarins, Harald S. Gudberg sem var lærður reiðhjólasmiður og svo hafði Vilberg á verkstæðinu Baldri lært reiðhjólasmíði hjá dönsku hjólaverksmiðjunni á Norreoby á Fyn. Axel Janssen og Guðmundur Bjarnlaugsson höfðu lært í Kalundborg eins og greint var fyrr frá. Hér bættist svo danskur maður að nafni Jakobsen sem minnst hefur verið á, og vann hjá hjá Ólafi í Fálkanum á fjórða áratugnum. Við bætist í hópinn svo Tryggvi Einarsson sem lauk námskeiðum í reiðhjólasmíði og viðgerðum í Bandaríkjunum 1990. Ekki er vitað um aðra með slíka menntun hérlendis.
Í Tímariti iðnaðarmanna er sjaldan minnst á reiðhjólaviðgerðir sem hluta af iðnaði landsmanna. Það eina sem má finna er skýrsla um iðnað á Akureyri þar sem kemur fram að á árunum 1927-28 hafi verið eitt reiðhjólaverkstæði með tveim starfsmönnum. Í skýrslu frá "Vjelaeftirlitinu" á árinu 1930 kemur fram að í Reykjavík hafi verið 5 reiðhjóla og bifreiðaverkstæði. Einnig kemur fram í tímariti iðnaðarmanna að reiðhjólaverksmiðjan Fálkinn hafi verið orðinn meðlimur í Félagi íslenskra iðnrekenda árið 1946 sem kemur heim og saman við þá hjólasmíði sem fram fór á fimmta áratugnum í Fálkanum eins og vikið verður að í næsta kafla.
Íslensk reiðhjól
Í sögu iðnaðar hérlendis, skipar reiðhjólið sinn sess. Fálkinn hafði framleitt svokölluð "Fálka-reiðhjól" frá því að verslunin hóf starfsemi sína 1916. Í raun hafði verslunin heitið frá upphafi; Reiðhjólaverksmiðjan Fálkinn. Fram að 1940 var þó einungis um að ræða samsetningarvinnu og viðhald notaðra hjóla eins og hefur komið fram. Fálkinn og Örninn voru með hjól merktum sér þó þau væru framleidd í Englandi og Danmörk. Í auglýsingu sem birtist í Íþróttablaðinu Þrótti 1919 kemur fram sem dæmi að "Fálka-reiðhjólin", gerð 1920 eru bygð úr hinu heimsfræga "Bramptons" efni" og er hér verið að vísa til þeirra hjóla sem Harald S. Gudberg lét smíða að mestu í verksmiðju í Norreoby á Fyn, Danmörk. Reiðhjólunum fylgdu vönduð vörumerki sem var sett á samkvæmt pöntun íslenskra hjólasala, og átti það að tryggja að kaupandinn væri að kaupa "Fálka-hjól".
Gætið þess að vörumerki vort sé á hverju reiðhjóli, sem þér kaupið. Vörumerkið er silfurskjöldur með fálka í bláum feldi, og er rauður og hvítur kross neðanundir. Er vörumerkið framan á reiðhjólinu undir stýrinu. Á neðri grind reiðhjólsins stendur nafnið "Fálkinn", blátt að lit og rauð og hvít rönd í kring. Á aftra skermbrettinu er nafnið "Fálkinn" í bláum feldi og hvít silfurrönd í kring.
Þegar seinni heimsstyrjöld bar að garði, hóf Fálkinn framleiðslu á reiðhjólum. Er þetta eina framleiðslan sem vitað er um hérlendis. Þegar talað er um reiðhjólasmíði þá er átt við að grindurnar voru soðnar saman úr ósamsettum rörum, einnig voru stýrin beygð og krómuð í verksmiðju Fálkans. Samkvæmt framleiðslutölum frá Fálkanum þá voru framleidd hérlendis 18000 reiðhjól á árunum 1942-1954. Svona voru hjólin auglýst í sýningaskrá iðnsýningarinnar 1952:
Allir sem þurfa að spara. Athugið, að þér græðið stórfé á ári hverju með því að hjóla til vinnu yðar-hjóla á "FÁLKA-HJÓLI". Reiðhjól eru nú sem áður lang-ódýrustu farartækin, sem völ er á. Auk þess eru hjólreiðar gagnleg og holl æfing fyrir heilsu manna. "Fálka-reiðhjól" framleidd úr bezta fáanlegu efni, standa erlendum reiðhjólum fylilega á sporði, bæði hvað útlit og gæði snertir. 10 ára reynsla í framleiðslu reiðhjóla.
Á iðnsýningunni voru til sýnis smíðaðar reiðhjólagrindur og samsett reiðhjól sem voru sýnishorn íslenskrar reiðhjólasmíði á Íslandi í upphaf sjötta áratugarins. Guðmundur Karlsson sem þá var viðloðandi reiðhjólaframleiðsluna lýsir smíðinni þannig að; "reiðhjólin voru smíðuð með múffum þar sem rörin voru látin renna inní og svo var þetta hitað upp eða kveikt saman eins og kallað er".
Þrátt fyrir nýsköpun í iðnaði þá virðist íslenska framleiðslan hafa þurft að hopa aftur fyrir erlendum hjólum sem flutt voru inn í miklum mæli upp úr seinni heimsstyrjöldinn. Samband Íslenskra samvinnufélaga flutti inn reiðhjólategund rétt fyrir miðja þessa öld sem að ljóðaskáldið Þórarinn Eldjárn gerði frægt í Möwe kvæði sínu.
Möwe kvæðið (tileinkað fórnarlömbum möwe ofsóknanna á Íslandi)
Ó reiðhjól best, þú rennur utan stans
Jafn rennilegt að aftan sem að framan
Þú varst stolt hins þýska verkamanns
sem þreyttum höndum skrúfaði þig saman
Ættjörð þín var ótal meinum hrjáð
af þeim sökum hlaust úr landi að fara.
Sjá hér þín örlög: utan garðs og smáð
í auðvaldslandi köldu á norðurhjara.
Í landi þessu létta mjúka hjól,
þú lentir brátt í mínum ungu höndum.
Ég fylltist gleði er fékk ég þig um jól
fegurð þín var svört með hvítum röndum.
Við ókum saman yfir hvað sem var,
enginn tálmi sá við þínu drifi.
Þýður gangur þinn af öllum bar
því skal ég aldrei gleyma meðan lifi.
Þá var ekki vont að vera til,
um veröldina liðum við í draumi.
En óvinurinn beið á bakvið þil
og brýndi klærnar ótt og títt í laumi.
Svo spratt hann fram og spottaði þig, hjól,
sparkaði í þig, jós þig nöfnum ljótum:
"möwe drusla" "drasl og skrapatól"
"dekkin riða" "sætið meiðir scrotum".
Og áróðurinn undirlagði mig,
auðvaldslygin spillti hjarta mínu:
Eins og fantur flekkaði ég þig
og fyrirgerði öllu trausti þínu.
Ég málaði þig blátt og breytti um hnakk
og bætti síðan enn um fólskuverkið:
Ég dró úr pússi mínu lútsterkt lakk
og lakkaði yfir stolt þitt: Vörumerkið.
Þú týndir öllu, eðli þínu firrt,
úr þér streymdi lífnautnin og safinn.
Þú misstir heilsu, gerðist stíft og stirt
þín stóra sál var bæði dauð og grafin.
Þannig fer ef vilji manns er veill,
vönkuð lundin allt hið rétta svíkur.
Það er best að vera hreinn og heill,
því hug og verki traustu bjargi lýkur
Þið skelfið mig ei lengur hætishót
heimsku þý sem alla gleði stýfið.
Ég hef iðrast, ég skal gera bót
ég skal renna á möwe gegnum lífið.
Kvæði: © Þórarinn Eldjárn
© Óskar Dýrmundur Ólafsson