- Details
- Óskar Dýrmundur Ólafsson
II. Alþjóðlegt baksvið
Reiðhjólið kynnir sig
Í miðju umróti evrópu á fyrri hluta 19. aldar fóru ýmsar tækninýjungar í samgöngumálum að líta dagsins ljós. Samgöngur sem slíkar urðu stór þáttur í iðnbyltingunni og voru henni samstíga með einhverskonar samgöngubyltingu. Járnbrautalestin brunaði áfram á gufuþrýstingi, skip voru í stöðugri þróun og hið fótstigna reiðhjól leit dagsins ljós. Þegar við svipumst um á götum Evrópu þar sem að reiðhjólið fyrst birtist, þá er ferðast um á hestum, eimreiðin er rétt ókomin og rykið sem franska stjórnarbyltingin þyrlaði upp er að setjast. Við erum komin aftur til upphafs 19. aldar og erum stödd í Frakklandi!
Hinn franski barón, von Drais hafði hannað og búið til svokallað hlaupahjól árið 1817 sem var knúið áfram þannig að maður sat klofvega á hjólinu og í stað þess að stíga sveifar var einfaldlega hlaupið með það. Á hlaupahjólinu sínu ferðaðist baróninn víða og sýndi að á þessu tæki fór hann hraðar en þeir sem hlupu og þeir sem hlypu langar leiðir yrðu að játa sig gjörsigraða af hinum hlauphjólandi manni.
Næsta tegund birtist í London árið 1818. Vagnasmiðurinn Denis Johnson hafði þróað hlaupahjólið þannig að hægt var að stýra því. Fékk hin endurbætta útgáfa nafnið Hobby horse eða frístundahjólið. Það varð vinsælt einkum meðal hinna velefnuðu og sáust til dæmis meðlimir konungsfjölskyldunnar á harðahlaupum á hinum nýstárlegu frumútgáfum af reiðhjólinu. Svo fór samt að hlaupahjólið vinsæla var bannað á götum London borgar, þeir sprækustu fóru fram yfir16 km hámarkshraðann sem var sá mesti sem hestakerrur náðu og lögregluyfirvöld leyfðu. Notkun hlaupahjólsins varð ólögleg í stórborginni fyrst um sinn.
Næsta stökk í endurbætum á hlaupahjólinu kom svo ekki fyrr en um 1840. Ellefta dag júnímánaðar 1842 birtist eftirfarandi frétt í blaðinu Glasgow Herald:
Hann hafði...komið alla leiðina frá Old Cumnock, eða fjörutíu enskar mílur á fimm klukkutímum. Þegar hann kom í þorpið Barony of Gorbals, fór hann upp á gangstétt og áður en varði var hann umkringdur miklum mannfjölda sem spígsporaði forvitinn í kringum farartæki hans. Barn féll við en meiddist ekki og vegna aðstæðna var hjólreiðamaðurinn aðeins sektaður um fimm shillinga.
Þarna var á ferðinni allra handa smiðurinn Kirkpatrick McMillan, sá sem fann upp á því að setja fótstignar sveifar á gamla frístundahjólið. Hann var þarna á á ferðalagi sem varð 220 km langt og sannaði þar með notagildi hins nýja fótstigna hjóls. Þessi nýjung breytti miklu, hægt var að sleppa því að snerta jörð með fótum, hraðinn jókst til muna og má segja að reiðhjólið fari fyrst að nýtast að einhverju marki sem samgöngutæki með þeim endurbótum sem McMillan gerði á hlaupahjólinu. Þessi útfærsla er að heita orðin sígild og þar með má taka undir með rithöfundinum Oscar Wilde þegar hann segir að reiðhjólið sé fullkomnasta farartæki sem fundið hafi verið upp, en enn þann dag í dag er reiðhjólið orkunýtnasta aðferðin til samgangna.
Orkuþörf nokkurra valinna ferðamáta í Bandaríkjunum árið 1984.
Ferðamáti | Orkuþörf (Kaloríur á farþega) |
Bíll | 1153 |
Áætlunarvagn | 570 |
Járnbrautarlest | 549 |
Gangandi | 62 |
Reiðhjól |
22 |
Heimild: Mary C. Holcomb: Transportation energy data book: Edition 9, Oakridge 1987.
Þróun reiðhjólsins
Fjöldaframleiðsla á hinum fótstigna hjólhesti eins og reiðhjólið var síðar kallað hérlendis hófst ekki fyrr en uppúr 1860. Járnsmiður í París að nafni Pierre Michaux hóf að smíða reiðhjólin og þaðan barst fjöldaframleiðslu reiðhjólsins til Bandaríkjanna með lærisveini hans sem hét Pierre Lallament. Reiðhjólin sem urðu til í smiðju Pierre Michaux voru kölluð Velocipede og það hétu þau fram á áttunda áratuginn. Velocipede reiðhjólin voru búin til í mörgum gerðum en voru flest með jafnstór hjól að aftan og framan. Á framhjólið voru svo áfastar sveifar til að knýja tækið áfram. Fremra hjólið tók þó að stækka og þeirri þróun lauk með því að hér var komið hið gríðarstóra Ordinary sem þótti hið glannalegasta. Það hafði risastórt framhjól og pínulítið afturhjól með stýriútbúnað sem þurfti mikla æfingu við svo ekki illa færi. Erfiðast var þó að komast upp á gripinn en sérstakt aðhlaup þurfti og jafnvægið varð að vera nákvæmlega í lagi svo hjólreiðamaðurinn gæti hjólað af stað. Í kringum þetta hjól mynduðust á seinni hluta áttunda áratugarins ótal klúbbar á Bretlandi, Frakklandi og svo nokkrum árum seinna í Bandaríkjunum.
Þau reiðhjól sem áttu eftir að slá svo í gegn voru svokölluð öryggisreiðhjól eða "The safety bicycle". Með tilkomu þessarra hjóla fylgdu framfarir í drifbúnaði hjóla. Sveifar sem tengdust afturdrifi með keðju voru fyrst settar á hjól árið 1876 í Englandi. Til eru reyndar lýsingar af keðjudrifnu hjóli frá 1869 í París, en heimildir hafa ekki reynst nógu traustar til að staðfesta slíkt. Árið eftir að keðja var notuð til að drífa hjól í fyrsta sinn þá var fyrsti vísirinn að gíraútbúnaði hjóla sýndur í París. Frægasta gerðin af þessum nýju öryggisreiðhjólum var kölluð Rover sem skákaði hinum hættulegu Ordinary hjólum á seinni hluta 9. áratugarins. Til að auka vinsældirnar enn frekar bættist við uppfinning John Boyd Dunlops. Árið 1888 afréð Dunlop að bæta reiðhjól sonar síns. Það gerði hann með því að hanna á það loftslöngu úr gúmmíi sem var í raun byltingarkennd breyting í samgöngumálum eins og bílamenn eflaust þekkja vel. Skömmu síðar, eða á árinu 1894 bættist við svokallaður fríhjólaútbúnaður við tækninýjungar reiðhjólsins. Hin klassísku kven og karlmanna reiðhjól voru þar með búin að fá á sig þá mynd sem við þekkjum enn þann dag í dag.
Hið nýja æði náði hámarki rétt undir lok síðustu aldar, eða skömmu áður en bíllinn kom til sögunnar. Þróunin á hönnun reiðhjólsins hafði tekið risastökk eftir því sem eftirspurnin varð meiri og notkunin almennari. Þríhjól, hjónahjól og hefðbundin tvíhjól í hinum ýmsu stærðum litu dagsins ljós og flestum þörfum kaupenda var fullnægt. Með framleiðsluferli reiðhjóla var grunnurinn lagður að fjöldaframleiðslu tækja eins og bílaframleiðsla varð skömmu síðar. Í Bretlandi fóru fjölmargar reiðhjólaverksmiðjur út í bílaframleiðslu uppúr aldamótunum.
Menningarleg fráhvarfseinkenni
Auðir sveitavegir fylltust á hvíldardögum, sumum kirkjunnar mönnum til ama ef marka má lýsingu eins bandarísks prests. Hann lýsti því fjálglega í stólræðu sinni að hin langa strolla sunnudagshjólreiðamanna brunaði hraðri bremsulausri ferð niður brekku þangað "sem engin for væri á götunum vegna hins háa hitastigs þar." Annar prestur kvað enn sterkar að orði og sagði að þeir sem snertu hjól á hinum heilaga hvíldardegi kirkjunnar færu örugglega til helvítis og yfirhöfuð ættu allir hjólreiðamenn á hættu að enda í félagi við skrattann.
Yfirvöld, eldri borgarar, og sómakærir samfélagsþegnar höfðu horn í síðu hjólreiðamannasem sem yfirleitt voru álitnir vera spjátrungar. Meira að segja voru í upphafi til læknar sem lögðust á fræðilegan hátt gegn þessu nýja tískufári. Geðveiki, núningssár og bjórþorsti voru það helsta sem þeir fundu að. Læknar og ýmsir vísindamenn greindu þar að auki afbrigðilega afmyndun líkamans. "Kyposis bicyclistarum" eða einhverskonar hjólakryppa greindist á mörgum hjólreiðamönnum, einnig greindist einkennilegur krankleiki í tanngómi þeirra og fékk fyrirbærið heitið: Hjólagómur. Lýsti krankleikinn sér þanig að þegar áreynsla hjólreiðanna ofhitaði tanngóm hjólreiðamannsins og þá andaði hann að sér köldu loftinu þá áttu þá tennurnar detta úr. Andlit hjólreiðamanna var einnig sett undir smásjána og greindist hið svokallaða hjólaauga og í framhaldi, hjólaandlitið.
Fyrirbæri það sem hið villta auga er, verður til meðan að hjólreiðalistin er lærð. Óvissan um hvort viðkomandi muni falla til jarðar eður ei skapar óvenjumikið flökt á augunum... Stresshrukkurnar í kringum munninn eru vegna áhyggja notendans um hvort það muni springa á reiðhjólinu eður ei...Hin sterka einbeitni andlitsins kemur til vegna þess að notandinn þarf að stara stöðugt tvo yarda fram fyrir sig. Hvort það er steinn, glerbrot, nagli, tunnugjörð eða einhver önnur eins hætta framundan.
Á þessa lund voru sumar lýsingarnar á því sem fræðimenn þóttust greina.
Vangaveltur fræðimanna voru nánast endalausar um þessi mál, en í lok 19. aldar voru læknar flestir komnir á þá skoðun að hjólreiðar væru, þrátt fyrir allt, allra meina bót. Meira að segja hestamenn fóru að taka hina nýju samferðamenn sína sátt. Reiðhjólið vann sér sess innan ólíkra þjóðfélagshópa og einn stór hluti samfélagsins sem farinn var að nota reiðhjólið voru konur.
Jafnrétti til hjólreiða
Konur fóru að hjóla og eins og allt annað sem konur hafa tekið sér nýtt fyrir hendur þá þurftu þær að þola fordóma og andstöðu frá karlaheiminum. Helst voru menn á móti því að konur gætu hjólað sér til óbóta. Hjólreiðar væru beinlínis skaðlegar kvenleikanum. Einn Parísarbúi skrifar í mótmælagrein gegn kvennahjólreiðum að hætt væri við því að hjólreiðarnar myndu eyðileggja "kvenleg líffæri sem væru öllum hjónaböndum nauðsynleg" og er greinarhöfundur eflaust óttasleginn um meyjarhaft ungra hjólandi kvenna. En það voru ekki bara karlar sem voru mótfallnir kvennahjólreiðum. Sumar konur áttu erfitt með að skilja þessa áráttu uppreisnargjarnra kynsystra sinna eins og t.d. kona nokkur að nafni Miss T.R. Coombs velti fyrir sér á dæmigerðan hátt
Hvernig getum við dáðst að stúlku, hve falleg sem hún kann að vera, þegar andlit hennar er jafn rautt og soðinn humar, með svita rennandi niður kinnarnar, með hárið hangandi til hliðar eins og gólftuska, með hárnælur dreifðar meðfram götunni, og útlit hennar er almennt draslaralegt, ósnyrtilegt og ókvenlegt...
Staðreyndin var sú að fatnaður kvenna hentaði ekki fyrir mikla hreyfingu og því hlaut tíska kvenna að breytast, sér í lagi þegar haft er í huga að á þessum sama tíma voru konur farnar að krefjast mannréttinda. T.d. voru kjólar kvenna óþægilegir við hjólreiðar og því þróuðust buxnapils og ýmiskonar róttækar útgáfur á fatnaði kvenna litu dagsins ljós. Konur sem tóku upp hina nýju fatatísku urðu oftar en ekki fyrir barðinu á samferðafólki sínu.
Fræg var málsóknin á hendur veitingahúsaeigandanum Mörthu Sprague árið 1898. Lady Haberton var á sínum venjulega hjólreiðatúr í sínu venjulega buxnapilsi þegar henni var neitað um afgreiðslu í matsal Mörtu Sprague. Ástæðan var sú að Lady Haberton þótti ókvenlega klædd, buxnapils væri ekki við hæfi. Þrátt fyrir víðtækan stuðning ýmissa hjólaklúbba þá féll dómur í málinu veitingahúsaeigandanum í vil. Samt minnkuðu buxnapilsin sífellt þannig að þegar komið er fram á þriðja áratug 20. aldar þá er stuttbuxnanotkun kvenna orðin sjálfsögð, rétt eins og hjá körlunum.
Hetjur hjólreiðanna
Erlendis hafði hið fótstigna tvíhjól fest sig í sessi og farið var að keppa. Fyrsta keppnin á fótstignum reiðhjólum var haldin 1868, rétt fyrir utan París og voru farnir 1200 metrar. Vegalengdirnar urðu svo sífellt lengri og keppendur fleiri.
Áður en varði hafði hjólreiðakeppni slegið í gegn. Rígur myndaðist milli Bretlands og Frakklands, konur fengu að keppa og stórir hópar áhorfenda mynduðust. Hraðamet eru slegin og alþjóðlegar íþróttastjörnur stíga fram í sviðsljósið. Keppnum fjölgaði hratt og náðu mikilli útbreiðslu í löndum eins og Bandaríkjunum Ástralíu og Evrópu. Þær voru teknar inn sem keppnisgrein á Olympíuleikunum strax árið 1886.
Ein bjartasta stjarnan var bandaríkjamaðurinn Major Taylor. Hann var nánast ósigrandi í heiminum um síðustu aldamót en var samt ávallt litinn hornauga í heimalandi sínu þrátt fyrir að hann væri dýrkaður í Frakklandi. Ástæðan var einfaldlega sú að hann var svartur, en löngum höfðu hvítir einokað hjólakeppni. Margar keppnanna hafa lifað fram á daginn í dag og eru orðnar að sígildum viðburðum í evrópskri menningu.
Ein þeirra og ein sú allra frægasta hjólakeppni allra tíma verður að teljast vera tour de France en sú keppni þykir sú erfiðasta í heimi og hefur verið haldin árlega í Frakklandi og nærliggjandi löndum frá árinu 1903, ef frá eru skilin tvö stutt hlé vegna heimsstríðanna tveggja. Er talið að hún dragi að sér fleiri áhorfendur en nokkur önnur íþróttakeppni í heiminum í dag, eða 10 miljón áhorfendur.
Landvinningar reiðhjólsins
Eins og svo margar tækniframfarir þá voru reiðhjól notuð innan herja Frakka, Belga og Breta. Fyrsta herdeildin sem vitað er til að hafi notað reiðhjól var 26. herdeild Middlesex sem byrjaði þjálfun 1. apríl 1888.
Fyrsta stríðið sem hinir hjólandi hermenn fengu svo að reyna sig í var Búa stríðið sem var háð í kringum aldamótin (1899-1902) í Suður-Afríku. Ekki eru finnanlegar neinar frægðarsögur af hjólaherjum Evrópumanna en í lok fyrri heimstyrjaldarinnar var búið að leysa upp allar þær herdeildir sem nýttu sér hjólatæknina. Í seinni heimsstyrjöldinni fengu fallhlífarhersveitir til notkunar séstök létt samanbrjótanleg hjól sem hægt var að taka með sér í salibununa. Hér leyfa heimildir okkur heldur ekki að lýsa hvernig árangurinn var svo með hliðsjón af reiðhjólanotkuninni. Víða í Asíu má sjá hernaðarlega þýðingu reiðhjólsins og var t.d. notkun reiðhjólsins áberandi meðal andstæðinga Bandaríkjamanna í Víetnam stríðinu.
En það voru fleiri en herjir Evrópumanna sem voru uppteknir af því að nema ný lönd. Ævintýramenn fóru að láta á sér bera og með langferðalögum sínum kynntu þeir fyrir heiminum reiðhjólið. Hnattreisur á reiðhjóli urðu það nýjasta nýtt upp úr aldamótum. Robert Jefferson var einn þeirra. Hann hjólaði frá Bretlandi til Moskvu og aftur til baka á 49 dögum árið 1895. 1896 fór hann svo þvert yfir Síberíu. John Foster Frazer og tveir vinir hans slógu svo Jefferson við með því að hjóla í kringum heiminn á 774 dögum. Sannkölluð afrek ef mið er tekið af aðstæðum og frumstæðum hjólaútbúnaði aldamótamanna.
Á þriðja áratugnum urðu hjólreiðar mun almennari og náðu hjólaferðalög miklum vinsældum. Á meðan að hjólreiðaáhugi fór dvínandi í Bandaríkjunum þá fór hann stöðugt vaxandi í Evrópu. Stór stökk í þróun reiðhjólsins skiluðu léttari og sterkari hjólum, betri og nýjum aukaútbúnaði eins og ljósum, betri bremsum og svo fóru gírar að verða æ mikilvægari þáttur á hjólunum.
Almenn útbreiðsla reiðhjólsins hefur orðið gífurleg á þessarri öld og er Kína eflaust frægasta dæmið. Frá því að fyrstu hjólreiðamennirnir sáust um 1900 í Shanghai þá hefur þetta einfalda tæki unnið mikið á, en um 300 miljónir manns nota reiðhjól til samgangna þar í dag og fer notkunin stigvaxandi hlutfallslega. Sem dæmi var talið að 73 miljónir ættu hjól árið 1978, 136 miljónir 1982 og 200 miljónir voru búnir að eignast reiðhjól árið 1986. Segja má að hjólreiðar hafi annað vægi þar en t.d. hér á Íslandi. Viðgerðamenn reiðhjóla geta verið t.d. með allt að fimm sinnum hærri laun en háskólaprófessorar og hvert sem þú ferð er þýðing reiðhjólsins í Kína áþreifanlega augljós, hvort sem um hagnýta eða félagslega notkun er að ræða. Reiðhjól urðu t.d. mjög táknræn þegar skriðdrekar kínverskra yfirvalda keyrðu yfir kínverska stúdenta á Tiananmen torgi hins himneska friðar árið 1990 með kramin reiðhjól þeirra í beltunum. Breskur blaðamaður sem var viðstaddur atburðina lýsti þeim á eftirfarandi hátt
Þessi atburður ofsótti mig í marga mánuði, löngu eftir að ég fór frá Kína. Smám saman rann upp fyrir mér af hverju fréttamyndir með krömdum reiðhjólum voru sýndar af yfirvöldum. Þetta táknaði meira en bara kramin tæki úr málmi. Yfirvöld vildu sýna að þau hefðu kramið stolt mannúð og frelsi fólksins -allt það sem að reiðhjólið stendur fyrir í Kína.
Víðast hvar í svokölluðum þróunarríkjum er notkun reiðhjólsins fólki nauðsynlegt samgöngu og atvinnutæki og er Kúba gott dæmi , en þarlendur landsfaðir, Fidel Castro, hefur fyrirskipað fyrir stuttu að þrjár hjólaverksmiðjur yrðu settar á stofn til að anna þörf Kúbverja fyrir reiðhjól.
Dæmi um ríki á Vesturlöndunum sem eiga sér langa sögu sem hjólalönd eru Danmörk og Holland. Tvennt hefur t.d. ráðið miklu um almenna notkun reiðhjólsins á Hollandi. Annars vegar liggur landið vel við fyrir hjólandi umferð svo og hefur verið tekið mjög ákveðið á skipulagsmálum þar. Fjöldi reiðhjóla var strax orðinn mikill á þriðja áratug þessarar aldar og eiga fulltrúar kjósenda þar stóran hlut að máli. Sem dæmi er hin róttæka áætlun Próvóanna.
Þeir komust í borgarstjórn Amsterdam með svokallaða hvíta áætlun að leiðarljósi til lausnar ýmsum vanda. Þeir vildu láta mála hurðir á yfirgefnum og tómum húsum hvítar og leyfa svo heimilislausu og ungu fólki að nota þessi hús. Samskonar áætlun var lögð fram um hjólin. Meira en 1000 hvít reiðhjól voru keypt og látin vera ólæst víðsvegar um borgina, öllum frjáls til notkunar og er eftirfarandi klausa úr áætlun Próvóanna:
Reiðhjólaáætlun Próvóanna mun frelsa okkur frá bílskrímslinu, Provo kynnir hvíta reiðhjólið, eign okkar allra. Hvíta reiðhjólið er aldrei læst. Hvíta reiðhjólið er fyrsta ókeypis almenningssamgöngutækið. Hvíta reiðhjólið er svar gegn einkaeign kapítalistanna vegna þess að hvíta reiðhjólið er anarkískt... "Hjól er eitthvað, en næstum því ekkert!"
© Óskar Dýrmundur Ólafsson