Sérfræðingar sem allir starfa að eflingu hjólreiða komu frá Danmörku, Hollandi og Þýskalandi á hjólaráðstefnu Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) á Samgönguviku 2011 og bar þeim saman um að með markvissri, samstilltri vinnu væri ekkert því til fyrirstöðu að hjólreiðar gætu orðið jafn algengar hér og í þeim borgum sem þeir starfa í. Þar kom einnig fram að ef Íslendingar gengu og hjóluðu allt árið til/frá vinnu eins og í átakinu Hjólað í vinnuna 2008 þá næmi heildarsparnaður í heilbrigðiskerfinu og vegna vinnutaps um 1100 milljónum kr. á ári samkvæmt útreikningum Þorsteins Hermannssonar hjá Mannviti.
Í dag er hjólreiðum að óþörfu settar ýmsar hömlur í umferðarlögum og í frumvarpi til nýrra umferðarlaga voru settar enn frekari óþarfa hömlur sem eru líklegar til að aftra auknum hjólreiðum og draga úr öryggi þeirra sem hjóla. Óþarfar, því t.d. ákvæðið sem bannar venjulegar hjólreiðar ungmenna, þ.e. án sérstaks öryggisbúnaðar gefur þau skilaboð að hjólreiðar séu alltaf hættulegt athæfi, þvert á þá staðreynd að þær eru einn öruggasti fararmátinn. Óþarfar, því áratugareynsla t.d. í Ástralíu hefur fyrir löngu sannað að hjálmaskylda skilar ekki þeim árangri í slysavörnum sem væntingar stóðu til. Hjálmaskyldan hamlar því hinsvegar að hjólreiðar verði almennar og virkji öryggisáhrif fjöldans, e: safety in numbers, sem er árangursríkasta leiðin til að auka öryggi hjólreiðamanna eins og dæmin frá Hollandi og Danmörku sanna.
Skyldunotkun reiðhjólahjálma vinnur þannig gegn markmiðum stjórnvalda í loftlagsmálum, lýðheilsumálum, umhverfismálum og markmiðum sveitarfélaga um mannvænt umhverfi í borgum og bæjum. Umhverfi, þar sem hægt er að skreppa á hjólinu eins og maður er klæddur og frjálst er að setja upp hjálm eða ekki.
Í nafni öryggis hefur verið byggð upp neikvæð ímynd af hjólreiðum á Íslandi, þvert á raunveruleikann því reiðhjólið er eitt öruggasta farartæki sem völ er á. Það er því til mikils að vinna að hætta þessari neikvæðu umræðu, horfa á heildarmyndina og viðurkenna að kostir hjólreiða eru margfaldir allri áhættu, 77 faldir samkvæmt nýjustu rannsóknum frá Spáni. Öll ráðuneyti, stofnanir og stjórnsýslustig verða að vera samstíga í því starfi og láta sig hag hjólreiðamanna varða.
Það á við hér sem segir í nýrri skýrslu um Grænt hagkerfi: „Jákvæð ímynd verður ekki til af sjálfu sér, og þaðan af síður verður henni viðhaldið án markvissrar eftirfylgni. Yfirlýsing þjóðar, atvinnugreinar, stofnunar eða fyrirtækis um eigið ágæti verður marklaus um leið og í ljós koma dæmi sem benda til að yfirlýsingin sé ekki í samræmi við raunveruleikann. Auk heildstæðrar stefnumótunar er því þörf á óháðri vottun þriðja aðila sem staðfestir að rétt sé frá greint“. LHM geta bent á fjöldamörg dæmi þar sem raunveruleikinn er ekki í samræmi við yfirlýst markmið. Nokkur eru talin í stefnumálum LHM og önnur má lesa í umsögnum LHM um frumvarp til nýrra umferðarlaga. Ég ráðlegg öllum að lesa um þessi mál og fl. á vef LHM; LHM.is.
Við gerð nýrra umferðarlaga er mikilvægt að horfa til nýjustu vísindagagna og leyfa skynseminni að ráða, en ekki tregðulögmálinu, ef yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda og annarra um að virkja kosti aukinna hjólreiða á ekki að teljast markleysa ein.