Það er einlæg ósk mín að stjórnvöld kveiki á perunni og átti sig á þeim tækifærum sem felast í auknum fjárfestingum í innviðum tengdum hjólreiðum, þá er ég ekki einvörðungu að tala um malbik og steypu, heldur mætti sem dæmi byrja á því að fella niður tolla og gjöld af reiðhjólum og tengdum búnaði, hvetja fyrirtæki til að fjárfesta í aðstöðu fyrir hjólandi starfsmenn og viðskiptavini með skattaívilnunum, veita auknu fjármagni í hvetjandi markaðsátök að erlendri fyrirmynd, svo fátt eitt sé nefnt. Margsinnis hefur verið sýnt fram á að hver króna sem fjárfest er í þennan samgöngumáta skilar sér um síðir og gefur yfirleitt af sér.

Sá vetur sem er nú að líða undir lok hefur verið okkur hjólreiðafólki erfiður. Veður hafa gert okkur erfitt fyrir og ekki bætir úr skák að á stundum var illa staðið að ruðningi stíga. Ég tel þó að yfirvöld hafi reynt sitt besta og fannst eins og ástandið skánaði eftir því sem á veturinn leið, eins og þau hafi tekið mark á kvörtunum og dregið lærdóm af þeim. Það er vel.  Þegar þú lest þessar línur, lesandi góður, verðum við farin að hlakka til þess að bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Og það er mín staðfasta trú að vor hjólreiðanna er á næsta leyti.
 

Starfsemi fjallahjólaklúbbsins

Íslenski fjallahjólaklúbburinn er opinn öllum. Hvort sem þið veljið hjólið sem samgöngutæki, til ferðalaga, til að koma ykkur í form og jafnvel til keppni, hvort sem þið farið hratt eða hægt yfir, klæðið ykkur sérstaklega upp eða ekki, í þröngar teygjubuxur, tweed-jakkaföt eða pils og háa hæla, og hvort sem þið veljið að hjóla með hjálm eða ekki, við tökum ykkur öllum fagnandi. Við reynum að höfða til sem flestra í starfsemi klúbbsins; á vikulegum, opnum húsum er fjölbreytt dagskrá þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, og ferðanefnd býður upp á ferðir í ýmsum erfiðleikastigum, allt frá auðhjóluðum þriðjudags kvöldferðum um borgina upp í lengri ferðir um íslenska náttúru. Ég hvet því alla til að kynna sér starfsemi Íslenska fjallahjólaklúbbsins og taka þátt í henni með okkur.
Brynjar Kristinsson, formaður ÍHFK