Maður hefði haldið, að á tímum vaxandi umhverfisvitundar og svo framvegis að það væri miðaldra og eldra fólk sem enn sæti fast við sinn keip og (mis)notaði sinn einkabíl án þess að svara kalli nútímans sem krefst nýrrar hugsunar í þéttbýli og hefur í för með sér minni mengun, minni kostnað, betri heilsu og meiri skemmtun.

Og þessi nýjasta hugsun væri að vaxa upp með yngstu kynslóðinni, sem hefði nú alist upp við innrætingu og virðingu fyrir náttúrunni. Við höfum kvatt marga umhverfisósiði sem tilheyrðu gamla tímanum. Því mætti halda að það væri unga fólkið sem kysi hlutverk frjálsa fuglsins, vel upplýst og ábyrgt gagnvart umhverfi og náttúru - kysi hjólið fram yfir einkabílinn. En nei, það eru þá hinir eldri sem oftast mæta manni á hjólum, krakkarnir keyra bílana. Aldrei hefur sókn í einkabíl hjá jafnungum einstaklingum verið meiri, þvert gegn betri vitund á alla kanta. Hvað veldur þessari þversögn, veit ég ekki en giska á að bílpróf og bílaeign sé sjálfstæðisyfirlýsing byggð á gildismati sem hefði átt að vera mjög breytt, en er það ekki.

Áhugvert.

Hjólhesturinn, mars 2012