Ég var staddur á æskuslóðum mínum, á Melum í Svarfaðardal. Ég var fullur
eftirvæntingar því að loksins ætlaði ég að fara í ferðina sem ég var
búinn að hugsa um svo lengi, að hjóla yfir Heljardalsheiði.
Heljardalsheiði var helsta samgönguæð milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar
áður fyrr, áður en akvegur var lagður yfir Öxnadalsheiði. Akvegur hefur
aldrei verið lagður yfir Heljardalsheiði en vegslóði var gerður yfir
heiðina á níunda áratug seinustu aldar, sem er orðinn frekar torfær í
dag.