Hjólað á vit ævintýra

Hjólið gengdi hlutverki afþreyingar á fjórða áratugnum rétt eins og hjá unga námsmanninum sem hjólaði um Aðalstrætið árið 1890. Ferðalög á reiðhjólum urðu sífellt stærri hluti hjólreiða hér á Íslandi. Ferðalög inn á landið og erlendis urðu algeng. Árið 1916 fór ungur piltur að nafni Vilhjálmur Þór síðar bankastjóri frá Akureyri til Borgarnes á fimm dögum, eða um ellefu árum á undan fyrsta bílnum. Félög og einstaklingar tóku sig til og skoðuðu umhverfið á misjafnlega hljóðlátan hátt.Til eru fjölmargar heimildir um ferðalög kvenna á hjólum hérlendis.

Um 1920 fréttist af konu sem hjólaði alla leið frá Reykjavík vestur um Barðaströnd á reiðhjóli. Um þessa ferð fara ekki nánari sögur en þessi ferð telst til meiriháttar hjólaferða á vegum þess tíma.

Rigmar Lindman, Elsa Einarsson og Vera Lindman skruppu yfir Kaldadal á reiðhjólum um mitt sumarið 1926 og svo fóru Einar Þorsteinsson og Eiríkur Guðnason úr Fálkanum skömmu seinna sömu leið. Því næst fór 5 manna hópur í vikulangt ferðalag á reiðhjóli austur í sveitir. Þetta voru þau Óskar Jónsson (sem síðar stofnaði Óðinn ásamt Ívari Jónssyni) Sigurður, Guðbjört Ólafsdóttir, Oddrún og þýskur maður. Eitt af markmiðum ferðalagsins var að sýna nýjum starfsmanni Fálkans Anschitz frá Þýskalandi, hluta af hinu fróma Íslandi. Farið var frá Reykjavík um Hellisheiði að Ölfusi og Geysi, með hestum að Gullfossi og svo var hjólað í bæinn aftur með viðkomu á Laugavatni og Þingvöllum.

Dæmi um félag sem notaði reiðhjólið talsvert var hinn fyrirferðamikli Flokkur þjóðernissinna en þeir fóru gjarnan í hjólreiðatúra á fjórða áratugnum. Bræðurnir Gísli og Haraldur Guðmundssynir sem tilheyrðu þessum róttækari armi nasista hér á Íslandi nýttu sér af miklum ákafa allar lausar stundir til félagsstarfa, íþrótta, útiveru og tóku þeir því þátt í hjólreiðaferðum Flokks þjóðernissinna. Annar ákafur þjóðernissinni sem var við nám í Þýskalandi á uppgangsárum nasista skoðaði sig um á reiðhjóli í Þýskalandi 1937 með eld í æðum og ánægja hans með fararmátann leynir sér ekki:

Sá sem er fótgangandi, er ekki frjáls. Hann er ánauðugur þræll þess tíma, sem hann þarf til þess að komast á ákvörðunarstað. Maður, sem ferðast á hesti, er auðmjúkur þjónn hestsins síns, nema dýraníðingur sé. Maður sem ekur bifreið eða mótorhjóli, er háður þörfum og duttlungum vélarinnar... En hjólandi maður er engum háður. Hann vegur sig áfram með afli sinna eigin vöðva, mögnuðu af vogstangarafli sveifarinnar, sem hann treður með fótunum...Hann nemur staðar þegar honum sýnist. Hann fer hratt, þegar honum sýnist. Hann fær nána viðkynningu af því landi, sem hann ferðast um. Hann svalar fróðleiksþrá sinni og iðkar hressandi, líkamlega íþrótt um leið.

Hjólandi maður tekur tæknina í þjónustu sína, án þess að verða sjálfur þræll hennar.

Knútur tapaði svo reiðhjóli sínu, sem var Torpedo gerðar, í miðbænum fyrir utan Iðnskólahúsið rétt fyrir stríð en það virðist ekki hafa slegið á ánægju hans með lífið og tilveruna eins og þessi orð hans segja. "En við þann, sem hirti hjólið mitt, vil ég aðeins segja þetta: Njótu þess betur en þú aflaðir. Megi það bera þig áfram í áttina til hárra markmiða og bjartari og betri tíma."

Ath Stjórnartíðindi 1924 B, bls 160 um bann við innflutning á reiðhjólum

Upp til fjalla

Ferðalög á hjólum voru ekki ný af nálinni eins og Litla ferðafélagið og Þjóðernissinnar höfðu sýnt fyrir Seinni heimsstyrjöld. Aukin fjallamennska var orðin áberandi hér innanlands og voru reiðhjól notuð óspart til þess að skoða náttúruna.

Greinar um ferðalög Íslendinga á hjóli fóru svo að birtast í fréttabréfi Farfuglsins á sjötta áratugnum. Haraldur Þórðarson, Emil Jónsson og Þórður Jónsson fóru eina ferðina sumarið 1951. Fóru þeir sem leið lá um Kaldadal og Borgarfjörð. Með mjólk í flöskum og kex í pokum sínum brunuðu þeir um grýtta og rykugar vegaslóðir í þessarri fjögurra daga ferð. Eftir örlítið slark á þessum harkalegu vegum þá uppgötvuðu þeir betri leið.

Fyrsti góði spretturinn, sem við gátum tekið var niður að Sandkluftavatni. Vatnið var þornað upp að miklu leyti eins og oft vill verða í þurrkatíð. Emil datt þá í hug að notfæra sér það og hjóla eftir þurrum vatnsbotninum. Við fórum að dæmi hans og var hjólað í einum spreng að Tröllhálsi. Af Tröllhálsi var dýrðlegt útsýni í skini hnignandi sólar. Meðan síðustu sólargeislarnir léku um okkur þetta fagra kvöld tókum við upp nestið og fengum okkur bita.

Þessi aðferð virðist svo hafa náð einhverri útbreiðslu samkvæmt ferðalýsingum annarra hjólreiðamanna.

Pétur Þorleifsson var annar hjólreiðamaður sem gerði víðreist. Hann skoðaði á reiðhjóli sínu Kjöl, Auðkúluheiði og svo sem leið lá suður Vatnahjalla og Hofsjökul. Í ferð sinni sem var norður Kjöl og á Auðkúluheiði sumarið 1956 lenti Pétur ásamt félögum sínum Rúnari Einarssyni og Einari Þorkelssyni í ýmis ævintýri. Með skotfærum reyndu þeir að veiða tófu, skakkaföll eins og sprungin dekk voru alltíð og vegaleysur voru meðal helstu átaka. Rúnar hafði t.d. brotið pedala öðru megin en lét sig ekki muna um að hjóla áfram "þó á einum petala væri." Þegar þeir voru komnir að Seyðisá norðan við Hveravelli þá voru önglarnir teknir fram og veiði hafin samkvæmt leyfi fjárvarðar á staðnum. Fjárvörðurinn hóf veiðar "á hinum bakkanum, en varð lengi vel ekki var. Sennilega hefur honum ekki litist á, hve við fengum mikið" segir Pétur "því skyndilega hrópaði hann yfir til okkar að hætt, sem við að sjálfsögðu gerðu. Við hlóðum nú hjólin silungi og öðru dóti. Kvöddum kunningja okkar fjárvörðinn og hjóluðum af stað norður Auðkúluheiði.

Þessar ferðir voru oft allsvakalegar, jafnvel á mælikvarða vel út búinna fjallahjólaferðalanga nútímans. Í ferðum sínum þá þurftu menn oft að bjarga sér eins og hægt var. Í ferð sinni ásamt Þóri Haraldssyni og Gunnari Jónssyni dúklagningarmönnum suður Vatnahjalla og Hofsjökul lentu þeir í blautum ruðningum sem ómögulegt var að hjóla í. Því brugðu þeir á það ráð að festa hjólin við sig með ól um mittið sem fór svo aftur í sætið. Þannig gengu þeir með hjólin við hlið sér með allan farangurinn á, bæði að aftan og framan. Eða eins og Pétur Þorleifsson segir: "Í stuttu máli má segja að við notuðum hjólin eins og vagn og létti þessi aðferð stórum ferðina."

En ferðir íslenskra hjólreiðamanna voru ekki einungis bundnir við Ísland eins og Þýskalandsför Knúts Arngrímssonar 1937 ber ljóst dæmi um. Sumarið 1956 var hópur íslenskra ungmenna á ferðalagi í Skotlandi og eru þau stödd í alþjóðlegu umhverfi á gistiheimili. "Allstaðar er hreyfing að komast á. Þarna koma Ítalarnir, sem fóru að þvo sér kl. 5. Nú er kl 7:30. Skrambi hljóta þeir að vera orðnir hreinir." Í hópnum voru bæði kynin og varð greinarhöfundi oft á tíðum tilefni til skrautlegra lýsinga í ferðagrein sem birtist í félagsblaði Farfugla:

Kynin voru að reyna sig, og það veikara, sem svo er oftast nefnt, lagði höfuðið fram í körfuna á stýrinu, en við það byrgðist allt útsýni... Rann hjól hins veikara kyns beint utan í brúna... Þetta varð til þess að rauður jakki rifnaði og marblettir og stirðleiki hlupu á og í fögur læri stúlku þeirrar, er hjólinu átti að stýra. Fararstjórinn varð því að taka áðurnefnd læri til nudds. Upphófust þá ungmeyjarskrækir miklir, eins og þeir geta mestir og hæstir verið. Því miður truflaði þetta sálarró gamals skozks heiðursmanns. Gömul kona kom út í garð og bað unga fólkið að veina ekki svona ákaft því sá gamli gæti ekki sofið í friði.

Erlendir ferðamenn

Þegar litið er til þess fjölda ferðagreina sem erlendir hjólreiðamenn hafa skrifað um ferðalög sín hérlendis þá auðséð að það er náttúran sem heillar þó veðrið sé vinsælt umræðuefni. Þótt að ferðagreinarnar séu góðar heimildir þá er það fyrst og fremst hvernig landið lítur út í augum gestanna. Algengt er að villur slæðist með eins og dæmi er frá nokkuð nýlegri grein þar sem heimsókn í Hveragerði ,"the flower town", er lýst. "Gróðurhúsin eru hituð með jarðhita sem kemur uppúr jörðinni í bænum og eru þau notuð til þess að rækta stærstu útflutningsvöru Íslendinga, þ.e. á eftir fiski og ull- Bananar!"

Ekki er vitað hvenær erlendir hjólreiðamenn fóru að koma til Íslands gagngert til að hjóla en vitað er til að Breti nokkur hafi farið Sprengisandsleiðina á reiðhjóli árið 1933 og var hann mánuði á undan fyrsta bílnum sem fór þessa leið. Horace Dall, en svo hét hann hafði komið frá Luton í Englandi árið áður að kanna aðstæður. Þegar hann kom til baka hafði hann einsett sér að fara yfir Sprengisand, sem og hann gerði. Þegar hann birtist að Mýri nokkrum dögum seinna þá var ungur drengur vitni að því. Var hann furðu lostinn yfir hinum óvænta gesti sem var snyrtilegur til fara á skínandi svörtum skóm og þar að auki á hjóli. Það næsta sem fréttist af breskum ferðalöngum á reiðhjóli er af E.E. Gardner sem ferðaðist um suður Ísland árið 1937. Það sem hann lofaði sérstaklega var gestrisni bænda, enda hét grein sem hann ritaði um ferð sína; "Where hospitality is traditional". Upp úr þessu fóru félagar úr hjólreiðafélaginu Roughstuff fellowship að fara um hálendið en eitt markmið félagsins var að finna erfiðar leiðir sem farin væru í fyrsta skipti á reiðhjóli eins og Horace Dall hafði gert.

Fjallahjólaæðið

Í upphafi innflutnings fjallahjóla komu upphaflega til Arnarins Kalkoff hjól með stöndugum smíðagöflum 1987. Muddy Fox kom haustið 1988, einn gámur með 150 hjólum.

Einn fyrsti Íslendingurinn sem fékk sér fjallahjól var rafvirkinn Magnús Bergsson. Á því ákvað hann að fara ýmsar leiðir sem höfðu fram að því talist til gönguleiða og jafnvel til ófæra eins og Hvannadalshnjúk sem var upphaflega á dagskránni sumarið 1989. Vegna veðurs hætti hann við ásamt félaga sínum Gísla Haraldssyni og þess í stað fóru þeir hringveginn eða 2500 kílómetra á 30 dögum. Næsta ár fór svo Magnús Vestfirðina, yfir Kjöl, Arnarvatnsheiði og svo um Snæfellsnesið. Sama sumar fór hann svo við annan mann þvert yfir landið. Var farið Gæsavatnaleið, Landmannalaugar, Fjallabak nyrðri og átti þetta að vera liður í undirbúningi fyrir alþjóðlegri fjallahjólakeppni sem fyrirtækið Icelandic Highland travel ætlaði að standa fyrir. Keppnin sem átti að vera heilmikil þrekraun datt svo út. Það sem skipti máli var samt að þegar hér er komið við sögu þá eru öræfaferðir orðnar fastur liður, líka hjá hjólreiðafólki.

Eins og við var að búast voru það fyrst og fremst útlendingar sem þeir félagar mættu á reiðhjólum. Í viðtali við ferðatímaritið Áfanga segir Magnús um þá:

Ég hef orðið var við að útlendingum mörgum hverjum finnst þetta vera hrein hjólreiðaparadís. Þeir eru ekki vanir þessari fjölbreytni í veðri og svona erfiðu landi... Ég get ekki neitað því að mér finnst skynsamlegra að hvetja hjólreiðamenn til að koma hingað frekar en að fá allan þennan erlenda bílaflota til landsins með allri sinni mengun og hávaða.

Þrátt fyrir að hjólandi Íslendingum stórfjölgaði á hálendinu þá virðist slíkt ekki vera nema örlítill hluti af mikilli umferð hjólandi útlendinga eins og frásögn Magnúsar Blöndal fékk að kynnast í ferð sinni á reiðhjóli uppí Kverkfjöll og ætlaði að æja hjá skálavörðunum þar. "Það hvarflaði ekki að þeim að það væru Íslendingar sem kæmu aðvífandi á reiðhjólum. Við sem héldum að þetta væri alvanalegt!"

Brátt tóku stærri hópar að fara um á fjallahjóli. Sífellt algengara varð að fólk hjólaði hringveginn á reiðhjóli sínu, t.d hjólað var þvert yfir landið af stæðilegum hópi unglinga frá félagsmiðstöðinni Árseli og farið var í fyrsta skipti yfir Vatnajökul á reiðhjólum sumarið 1992 sem hlýtur að teljast nýstárlegasta uppákoman í íslenskri hjólamenningu. Hópurinn sem hjólaði yfir Vatnajökul þurfti oft að taka á í samskiptum sínum við jökulinn, en engin aukahjálp fylgdi þeim í formi fylgdarbíls. Þannig þurftu þeir að draga allar nauðsynlegar vistir með sér á sérstökum sleðum sem kallast "púlkur". Að hjóla í "íslenskri eyðimörk" var mikil lífsreynsla fyrir þá félagana og lýsir Sigursteinn Baldursson, einn leiðangursmanna, einni minningunni svo:

Það er mjög óvenjuleg tilfinning að hjóla svona í næturhúmi á miðjum jökli, sem virðist aldrei ætla að taka enda, fjarlægðaskynið brenglast og ég man sérstaklega eftir því að við höfðum Kverkfjöllin fyrir augunum í fjóra daga og stundum leið manni eins og hjólandi á rúllubandi, fannst fjöllin ekkert nálgast.

 © Óskar Dýrmundur Ólafsson

0405-ferdir-500.png

Þessi kafli birtist í Hjólhestinum desember 1995 með þessari teikningu eftir Jón Örn Bergsson