Umferðaröngþveitið

Eftir því sem að samgöngur þróuðust með tilkomu reiðhjólsins, þá hlaut umferðarmenningin að breytast. Eins og víða annars staðar í Evrópu og Ameríku þá átti hinn aukna umferð hjólreiðamanna eftir að kalla fram árekstra. Fyrstu fréttir um aukinn umferðarþunga má finna í dagblaðinu Þjóðólfi, í maímánuði 1898. "Nú eru hjólreiðar farnar að tíðkast mjög hér í bænum og fara riddararnir eigi jafnan sem gætilegast, enda er kunnátta sumra eigi mikil enn." Áfram er haldið í fréttinni með ósk um að "lögreglustjórnin setji sem allra fyrst flokk þessum einskorðaðar reglur til að fara eptir." Um haustið kveður meira segja svo rammt við að í fréttum kom að það hafi verið "tveir sektaðir í gær fyrir að hafa riðið menn um koll og meitt þá, um 15 kr. hvor. Þrír aðrir fengu smærri sekt fyrir of harða reið". Í blaðinu Ingólfi um vorið 1905 er talað um að í höfuðstað landsins séu nú um 150-200 hjólreiðamenn og er kvartað um vöntun á umferðareglum eins og til siðs væru í Danmörku. Greinarhöfundur hafði verið að hjóla og mætt öðrum hjólreiðamanni. Hann hafði vikið til hægri en sá sem hann mætti vék til vinstri með þeim afleiðingum að árekstur varð. Óskaði greinarhöfundur þess "að eigi verði þess langt að bíða að slíkar reglur (umferðareglur) verði samdar, svo menn viti, hvernig á að haga sér í ýmsum atriðum, og geti verið óhultir fyrir ákeyrslum annarra." Greinarhöfundur átti svo eftir að verða að ósk sinni. Árið 1907 var svo lagt fram frumvarp til laga um vegi og voru ákvæði um umferðarreglur í áttunda kafla. Í 56 grein stóð:

Vegfarendur, hvort heldur eru gangandi, ríðandi eða á vagni eða á hjólum, skulu, þá er þeir mæta einhverjum, eða einhver vill komast fram fyrir þá, halda sjer og gripum sínum á vinstri helmingi vegarins eingöngu.

Hermann Jónasson þingmaður tók sérstaklega illa í það ákvæði frumvarpsins að umferð ætti ávallt að víkja til vinstri. Vildi hann að umferð viki til hægri og rökstuddi mál sitt í alþingisumræðunum með því; að það hentaði umferð hjólhesta mikið betur að víkja til hægri, rétt eins og málum væri háttað í Danmörku. Hann taldi að hér væri um mikilvægt öryggisatriði að ræða:

Jeg skal líka benda á það, að margir tugir hjólreiðamanna fara hjeðan á ári hverju til Danmerkur, og dvelja þar um styttri eða lengri tíma. Fyrir þá gæti það komið sér illa, ef þeir fara þar á hjólum, að þurfa að bregða venju sinni um, hvernig víkja skuli.

Hann taldi jafnvel rétt að fella frumvarpið vegna þessa ákvæðis þar sem það gæti "orðið mörgum manni að tjóni eða bana" og vitnaði hann til fyrri alda þar sem þá "þekktust eigi reiðhjól" og því yrði að taka mið af breyttum samgönguvenjum. Hægri umferð væri mun betri fyrir hjólreiðamenn. Fréttir í blöðunum virtust styðja að hér þyrfti að gera upp á milli.

Hjólreiðamenn þjóta um götur höfuðstaðarins eins og byssubrendur skolli, og verði einhver óþægilega á leið þeirra, þá er sökin talin hjá honum, sem var að "flækjast fyrir", því að hjólreiðamaðurinn ríður þá "upp á ensku eða dönsku", eftir því sem hentar í það skifti, og venjulega sitt á hvað.

Eftir atkvæðagreiðslu var svo ljóst að Hermann fengi engu ráðið um að hér kæmist á vinstri umferð sem mynd ríkja hér allt til ársins 1968.

Þó að þessar skýru reglur hafi verið settar á þá virðist það hafa tekið sinn tíma fyrir bæjarbúa að venjast þeim eins og kemur fram í greininni "Torfærur" sem birtist í Fjallkonunni árið 1910. Þar er kvartað yfir því að fólk loki fyrir götur með því að víkja ekki frá. "Og þó einhver þurfi að komast hjá (t.d. á hjóli, og hringi og hringi), þá dettur þeim ekki í hug að víkja, svo maðurinn verður að nema staðar", nokkuð sem hjólreiðamenn á gangstéttum kannast við enn þann dag í dag.

Slys og hámarkshraði

Umferðin hélt áfram að breytast og við bættust fleiri farartæki eins og bifreiðin og bifhjól. Athygli vekur að reiðhjólamenn fá sömu eða betri meðferð en hinn nýtilkomni bíll, hvað varðar umferðarreglur. Árið 1914 eru bílar að verða algengari og var þeim bannað að aka hraðar en 10 km á klukkustund, sumsstaðar voru þeir jafnvel bannaðir alfarið á götum þéttbýlis eins og kemur fram í lögreglusamþykkt Siglufjarðarkaupstaðar frá 1920 en þar segir að "umferð bifreiða og bifhjóla skal eigi leyfð um götur og vegi kaupstaðarins. Þó getur bæjarstjórnin leyft umferð flutningabifreiða."

Árekstrar bíla og reiðhjóla eru farin að verða hluti bæjarlífsins strax á öðrum áratug aldarinnar. Vegna þess hve nýtt þetta hefur verið fyrir bæjarbúum þá má sjá að þegar árekstrar urðu, þá þótti slíkt fréttnæmt. Heimild um slíkt má finna í Vísir frá 1917 þegar Sigurður Eggerz bæjarfógeti var ekinn niður af bifreið á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu. Var borið á Sigurð að hann hafi ekki notað bjöllu sína til að láta vita af sér í tæka tíð. Engin meiðsl virðast hafa orðið á fólki en hjól Sigurðar skemmdist nokkuð. Bílstjórinn skrifaði svo degi seinna í blaðið og segir "bifreiðina hafa gefið merki tvisvar áður en hún fór um krossgöturnar, en bæjarfógeti gat ekki stöðvað hjól sitt nógu snemma og rann því á miðja bifreiðina" og því var hér ekki einungis hægt að kenna bílstjóranum um og þar við sat. En það voru ekki bara hjólreiðamenn sem urðu fyrir meiðslum í hjólandi umferð Reykjavíkur, um vorið 1916 birtist lítil klausa í Morgunblaðinu um umferðaslys: "Drengur varð fyrir hjólreiðamanni í Bakarabrekkunni í fyrramorgun. Datt drengurinn og meiddist töluvert", þó virðast tilvik sem þessi tilheyra til undantekninga í umferðinni hérlendis. Þegar komið er fram á fjórða áratuginn má sjá á slysatölum að notkun reiðhjólsins gat verið hættuleg. Árlega slösuðust tugir manna þó ekki megi greina neina sérstaka aukningu sem skýra megi alhliða út frá aukinni bílaumferð eða aukinni hjólreiðaeign landsmanna. Reyndar urðu 14 fyrir skakkaföllum árið 1930 á meðan að 30 eru skráðir sem slasaðir árið 1940 sem helst í hendur við síaukna bílaeign landsmanna.

 

Tafla sem sýnir hve margir hjólreiðamenn urðu fyrir umferðarslysum í Reykjavík á árunum 1930-39 og svo 1946-50

 Ár: 1930   1931 1932  1933   1934 1935   1936 1937  1938   

1939

 Fjöldi:
 14  22  19  31  16  14  22  28  40  31
                     
 Ár  1946  1947  1948  1949  1950          
 Fjöldi:  37  29  20  27  18          
                     

Heimild: Björn Björnsson: Árbækur Reykjavíkurbæjar 1940 (Reykjavík 1941) og 1950-1 (Reykjavík 1953).

Nú var farið að taka mun betur á umferðareglunum eftir því sem bílum og hjólum fjölgaði í umferðinni, á kostnað hestanotkunar.

Hvað varðar hámarkshraðann þá birtast tilskipanir um slíkt í lögreglusamþykktunum. Fljótlega fóru lögreglusamþykktir sem tóku á umferðinni að líta dagsins ljós. Hámarkshraði var ekki ákvarðaður eftir mælistiku í byrjun eins og kemur fram í lögreglusamþykkt í Hafnarfirði 1908. Hestamönnum "er bannað að ríða harðara á götum bæjarins en hægt brokk". Hjólreiðamönnum er sagt að "fara hægt og gætilega um götur bæjarins" þannig að ekki virðist asi þess tíma hafa verið kominn í fastar skorður. Í samþykktinni frá 1914 fyrir Reykjavíkurkaupstað er kveðið á um að ökuhraði reiðhjóla megi ekki vera meiri en 8 km/klst Leyfilegur ökuhraði fer svo hækkandi. Á Akureyri, Ísafirði og Siglufirði er "hjólriddurunum" leyfilegt að ná 12 km á klukkstund innanbæjar árið 1920 og árið 1931 hafa lögregluyfirvöld á Ísafirði ákveðið að taka upp 18 kílómetra hámarkshraða, þann sama og á bifreið sem Siglfirðingar höfðu þá tekið í sátt.

Fleiri reglur komu til og voru t.d. mjög skýrar reglur um ljósanotkun farartækja. Ólíkt sólarhringsljósanotkun í dag þá er skýrt tekið fram að ljós reiðhjóla skuli "tendra eigi síðar en á þeim tíma, sem ákveðinn er til tendrunar götuljóskerum bæjarins." Þessi samþykkt er enn í góðu gildi árið 1924 en þá birtist auglýsing í dagblaðinu Vísir sem skilgreinir nákvæmlega í töflu kl hvað á hvaða degi hjólreiðamenn eigi að tendra ljós sín. 15 ágúst átti að tendra kl 9, 23 september kl 7, 16 nóvember kl 4 og svo 6 desember kl 3. Um haustið eru svo "hjólamenn" áminntir í Vísi: "Munið að kveikja í tæka tíð á farartækjum ykkar á kveldin. Sektir liggja við ef af því er brugðið." Samkvæmt samþykkt fyrir Reykjavík frá 1931 var svo skylt að á hverju hjóli væri bjalla og ljósker er sneri fram og aftur, einnig var skýrt tekið fram að ekki mætti hjóla á gangstígum. Var ákvæðið sem sneri að hjólreiðum á gangstéttum reyndar ekki afnumið fyrr en með umferðarlögum inn á Alþingi 1981.

Áróður og fræðsla

Með tilkomu Slysavarnarfélags Íslands (SVFÍ) 1928, var umferðarmálum skipaður nýr og meiri sess. Félagið stóð fyrir fræðslu og áróðri í þá átt að auka umferðaröryggi landsmanna. Eftir að Alþingi hafði svo veitt félaginu sérstaka fjárveitingu til umferðarslysavarna 1947, fór öflug herferð í gang. M.a. voru gefnir út sérstakir bæklingar sem ætlaðir voru sérstaklega hjólreiðamönnum í umferðinni og t.d. komu út sérstakar umferðareglur fyrir hjólreiðamenn á vegum SVFÍ á fimmta áratugnum. Í litlum bæklingum sem gefnir voru út, bæði á vegum SVFÍ og námsgagnastofnunnar var mikið fjallað um hlutverk reiðhjólsins í umferðinni, enda vinsælt farartæki hjá yngri kynslóðinni. Gefin voru út umferðaræfintýri, myndskreytt umferðarlög og myndarlega var fjallað um bannið sem gilti við því að hjóla á gangstígum.Einnig virðist hlutverk sendisveina í umferðinni vera tilefni talsverðrar umfjöllunar í umferðarfræðslu frá fimmta áratugnum. Jólasveinabörnin Vífill og Fjallarós tókum t.d. glöggt eftir því þegar þau komu til umferðabyggða að "sumir þessarra sendisveina höfðu reyndar farartæki, til þess að flýta sér og nefndu þeir þau hjólhesta". Þessi farartæki áttu þau m.a. að varast í umferðinni enda skýrt kveðið á um hvað sendisveinar máttu og máttu ekki í umferðinni: "Sendisveinar, er aka með stóra hluti á hjólinu, eða hjóla yfir gangstéttir eða út úr portum og húsasundum, eru stórhættulegir gangandi fólki, og þverbrjóta umferðalögin".

Að öðru leyti virðist lítið hafa gerst í öryggismálum hjólreiðamanna. Þó má finna öðru hverju umfjöllun um slíkt í blöðum og tímaritum. Í tímaritinu Umferð í Júní 1959 er talað um þá sem hjóla og eru á skellinöðrum í sömu mund þegar til þeirra er beint varnaðarorðum: "Haft sé sérstaklega auga með hegðun skellinöðru- og reiðhjólastráka í umferðinni."

Slysum fer fjölgandi

Fregnir af slösuðum hjólreiðmönnum fóru að verða æ tíðari í daglegum fréttum á níunda áratugnum. Slys á börnum voru sérstaklega áberandi í fréttum dagblaða og meiri áhersla lögð á að fjalla sérstaklega um þessi slys.

Tafla sem sýnir fjölda látinna og slasaðra reiðhjólamanna á Íslandi á árabilinu 1966-1989:  

Ár: 

 

 

 

 

 

 

1966 

 1967

 1968

 1969

 Fjöldi:

 

 

 

 

 

 

 48

34

52

54

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Ár:

 1970

 1971

 1972

1973 

 1974

1975 

 1976

 1977

 1978

 1979

 Fjöldi:

 49

 56

 72

 69

 68

 19

 22

 21

 36

 25

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Ár:

 1980

 1981

 1982

 1983

 1984

 1985

 1986

 1987

 1988

 1989

 Fjöldi:

 48

 51

 39

 42

 34

 31

 23

 67

 42

 28


Heimildir: Landshagir 1991, Tölfræðihandbók 1984 og Tölfræðihandbók 1974.

Talsverðar umræður spunnust upp úr fyrirhuguðum breytingum á umferðarlögunum í byrjun níunda áratugarins. Í lesendadálkum dagblaðanna komu fram skiptar skoðanir. Var deilt um réttmæti þess að hjóla á gangstígunum sem nú átti að fara gera að lögum. Þeir sem deildu voru gangandi og hjólandi vegfarendur. Ekkert heyrðist frá bílstjórum. Í Velvakanda Morgunblaðsins þann 1 maí 1981 ver Jórunn Ólafsdóttir frá Sörlastöðum rétt gangandi vegfarenda með oddi og egg.

Ég spyr og áreiðanlega margir fleiri: Er réttur gangandi vegfarenda enginn? Ég er svo undrandi á að ekki skuli hafa risið sterk mótmælaalda gegn þessari ráðstöfun. Það er vissulega rétt að hjolreiðafólk er í allverulegri slysahættu úti á akbrautunum og eru dapurleg dæmi um það. En erum við nokkru bættari með að fá slysin upp á gangstéttirnar.

Og ekki stóð á hjólreiðamönnum. Guðrún "hjólakappi" svaraði Jórunni um hæl með grein á sama vettvangi sem hét "Ég ann lífi okkar allra". Í greininni lýsir hún furðu sinni á skilningsleysi þeirra sem séu á móti hjólreiðum á gangstígum og segir að engin leið sé að ætla sér að banna t.d. börnum undir ákveðnum aldurstakmörkum að hjóla. Og Guðrún bendir einnig á það að skorti ýmislegt uppá í öryggismálum hjólreiðamanna:

það er til nokkuð sem heitir "hjólandi vegfarendur" og til þeirra verður að taka tillit eins og annarra vegfarenda. Það er greinilegt að í allri gatnagerð hefur það ekki verið gert. Bílstjórar taka oft ekki nægilegt tillit til hjólandi vegfarenda auk þess sem það er mjög hættulegt að vera í umferðinni á hjólum. Vilja höfundar greinanna (gangandi vegfarendur) stefna lífi barna og annarra hjólandi vegfarenda í hættu með því að skikka þá til að hjóla á hraðbrautunum?

Hvað sem dægurþrasi almúgans leið í Velvakanda þá fóru lögin sína leið eins og þingmenn höfðu ætlað. Lögin, sem samin voru með hliðsjón af norskum umferðalögum frá 1978, voru samþykkt 20 maí 1981 en samkvæmt því var heimilt "að aka á reiðhjóli og leiða reiðhjól á gangstígum og gangstéttum." Reyndar var tekið fram í athugasemdum nefndar við þetta frumvarp að "skortur á hjólreiðastígum veldur því, að hjólreiðar blandast bifreiðaumferð. Verða hjólreiðar hér á landi þannig hættulegri en víða erlendis þar sem hjólreiðastígar eru algengir." Í sama streng tók yfirlögregluþjónninn Óskar Ólason þegar hann var spurður um hjólreiðar á gangstéttum, að "hann liti þó á það sem bráðabrigðalausn, framtíðin hlyti að vera sérstakir hjólreiðastígar." Hjólreiðamenn gátu nú forðað sér á löglegan hátt upp á gangstéttirnar, hvað svo sem yrði um þá sem fyrir voru þar.

Athuga Þjóðviljann 13. október 1973 bls 15, "útbúnaður hjólhesta".

Athugið Morgunblaðið 10 júní 1971 skoðun reiðhjóla bls 6

© Óskar Dýrmundur Ólafsson