Þessi pistill er um ferðamennsku að vetrarlagi.  Eða þegar allt sem getur farið úrskeiðis fer úrskeiðis.

Við ákváðum að skella okkur í bústað í Úthlíð eina fallega helgi í janúar.  Þar eð bústaðurinn var pantaður í október, var engin leið að vita hvort við gætum eitthvað hjólað þessa helgi.  En þá má fara í stuttar gönguferðir og dóla sér í heita pottinum.  Elda saman, spila á spil, syngja og spila á gítar.  Vegir eru alltaf ruddir og því hægt að skipuleggja hringleið við hæfi.  Eða hjóla 10-20 km í eina átt og svo sömu leið til baka.

Það gleymist alltaf eitthvað þegar fólk fer í ferðalög.  Geir ætlaði að taka með snjóskóflu.  Ég ætlaði að taka með snjóskóflu ef Geir myndi gleyma sinni.  Ég gleymdi snjóskóflunni.  Engin skófla í bústaðnum.  Ekki nóg með það, haldiði að hún Hjóla-Hrönn hafi ekki gleymt hjólabuxunum sínum.  En þá kom María til bjargar með auka buxur.  Ekki tilhlökkun að vera í sömu gallabuxunum alla helgina, það yrði vellyktandi í bílnum á heimleiðinni eða hitt þó heldur.  Til að komast upp í sumarbústaðahverfið að vetrarlagi þarf að vera á góðum bíl með góð dekk.  Siggi og María komust ekki upp, það var komin glæra hálka og bílar stopp þvers og kruss.  Svo Geir fór nokkrar aukaferðir að sækja fólk og farangur.  Meira að segja keyrði hann bíl fyrir heilan saumaklúbb sem var búinn að gera tvær tilraunir til að komast upp brekkuna.

Jú, jú, þetta varð að lokum hjólaferð, en hluti af dagskránni er að koma sér á staðinn.  Það tók okkur bara og aðeins klukkutíma að finna bústaðinn.  Og það tókst að lokum með því að para saman okkar staðsetningu og bústaðarins á netinu.  Má ég stinga upp á bókstafa- og númerakerfi og skilti við afleggjarana hvaða bústaðir eru hvar.  Þess vegna þurftum við að keyra fram og til baka að leita að samferðafólki okkar og lóðsa upp í bústaðinn.  Ekki séns í helvíti að rata þetta í myrkrinu.  Samt höfðum við útbúið kort af leiðinni, en þegar afleggjarar eru ekki eða illa merktir, þá dugar slíkt skammt.

Þegar allir voru mættir og búnir að koma sér fyrir var ákveðið að prófa heita pottinn.  Hófst þá leitin að tappanum, eða réttara sagt handfanginu sem myndi loka fyrir rennslið úr pottinum.  Það tók ekki nema klukkutíma og 3 aðila.  Samt voru leiðbeiningar í bústaðnum.  Það var hleri við hliðina á pottinum (ekki undir honum eins og sagði í leiðbeiningunum) sem hafði fennt yfir.  Þegar fara átti í pottinn var hann allt of heitur, kalda vatnsslangan virkaði ekki en það var nóg af snjó til að moka ofan í.  Svo við komumst loks ofan í pottinn og dóluðum þar fram eftir kvöldi.  En þegar sú er þetta ritar ætlaði inn í hús rann hún til í vatnspolli, fótleggurinn (með gervihné) bögglaðist saman og afraskur byltunnar var bólgið og verkjað hné.  Verst að sú fallna var fararstjórinn, og því óheppilegt að vera ekki hjóla- eða göngufær næsta dag.

Laugardagur rann upp, bjartur og fagur.  Fararstjórinn ekki göngufær en það er nú þannig með hjólreiðarnar, þær eru ívið léttari (gosh, þar fór harðjaxlalúkkið fyrir lítið) og eftir dagsferð á reiðhjóli  hafði bólgan runnið að mestu úr hnénu.  Plan D var nefnilega nokkurra kílómetra gönguferð.  Ef það væri ófært til hjólreiða, en að vetrarlagi þarf að hafa þann varnagla í huga.  Þegar við ætluðum að taka hjólin niður af bílunum kom í ljós að allir lásar voru frosnir og engin leið að opna þá.  Eftir að Geysir café reddaði volgu vatni, þá tókst okkur að þýða lásana.  Heitt vatn, hitabrúsi, lásasprey og plastpokar er komið á vetrar útbúnaðarlistann.  Ekki tók betra við, bæði gírar og bremsur á hjólunum voru frosin.  Sem betur fer var hjólaleið dagsins að mestu á jafnsléttu og því gekk að vera á hálfbremsulausu hjóli.  En gírarnir eru annað mál.  María þurfti að hætta við hjólaferðina, af því hjólið hennar var frosið fast í lágum gír.  Elfa var ekki búin að fá hjólið sitt afhent og því fóru þær tvær í gönguferð um Geysissvæðið.  Ávallt að hafa plan B, C og D þegar ferðast er að vetrarlagi.  Talandi um plan B.  Stundum verða óhöpp til góðs.  Þegar við komum að bíl Sigga sem hafði verið skilinn eftir niðri við þjóðveg, þá kom í ljós að gluggi hafði verið skilinn eftir galopinn.  Eins gott, því hurðarnar voru svo gaddfreðnar að hann varð að skríða inn um gluggann.  Verst hvað hann var snöggur að því, afrekið náðist ekki á myndband.

Planið var að hjóla 26 km hring út frá Geysi, en hér verður lenging upp á 15 km að skrifast á vanþekkingu fararstjóra á svæðinu, við misstum af brúnni.  Sem betur fer kom önnur brú, annars værum við kannski enn á Flúðum.  Við byrjuðum hringinn í blússandi meðvindi og svo datt hann niður í dúnalogn og við kláruðum hringinn í brakandi blíðu og gríðarlega fallegu útsýni.  Algjörlega andstætt öllum lögmálum, en það er algengara að hann snúi sér, þannig að maður byrjar hringleið í mótvindi og endar í mótvindi.

Bústaðurinn sem við leigðum af stéttarfélagi var hrikalega flottur og vel útbúinn.  Jafnvel full vel.  Lögðust allir á eitt við að finna út hvernig ætti að kveikja á eldavél og ofni.  Sko.  Í bústöðum ættu að vera einföld tæki.  Ofn.  Hitastig og tegund (blástur, undir- eða yfirhiti og grill).  Tveir hnappar takk.  Ekki 8 með alls konar útfærslum og virkni eftir því hvort hnappi er snúið til hægri eða vinstri.  Við ætluðum ekki að skjóta geimflaug til tunglsins, bara hita læri, ofnbaka grænmeti og laga sósu.  Okkur gekk líka illa að kveikja og slökkva ljósin.  Fullt af slökkvurum, fullt af dimmerum og kúnstin að para þetta saman, þannig að bústaðurinn væri upplýstur eða öll ljós slökkt, úff.  En það hafðist nú allt saman að lokum og við gæddum okkur á góðum mat og guðaveigum við rómantíska birtu.  

„Gleymdirðu fetaostinum?“ er fyrsta spurning sem vaknar iðulega hjá samferðafólki þegar eldamennska hefst.  Ótrúlegt en satt, feta osturinn gleymdist, en eitt árið gleymdist fetaosturinn bara og aðeins í 4 ferðum.  Sérkennilegt karma sem hún Hjóla-Hrönn glímir við þegar feta-ostur er annars vegar.

Næsta dag hafði snjóað mikið og því ófært til hjólreiða.  Svo við, stelpurnar fórum saman í göngu á meðan karlpeningurinn lá á meltunni eftir morgunmatinn.  Það var í anda helgarinnar að við villtumst á göngunni, þó að það væri tekinn stuttur hringur, enduðum í vitlausum afleggjara og þurftum að brjótast í gegn um skafla til að komast að bústaðnum okkar.  Svo var þrifið og reynt að passa að ekkert yrði skilið eftir.  Þó gleymdist USB lykill í sjónvarpinu með myndböndum frá hjólatúrum fyrri ára.  Sem og albúm með slysamyndum.  Ekkert endilega hjólatengdum, svakalegasta myndin var eftir fall niður stiga á Landspítalanum.  En sumar blóðugar og því ekki gott ef litlir krakkar væru að fikta í fjarstýringunni og eitthvað... já, sem þau hafa alveg örugglega séð áður, og miklu verra, á tímum tækni og aukins aðgengis.

Allir komust heilu höldnu niður úr Úthlíðinni, en á bakaleiðinni þegar Siggi tók fram úr okkur sáum við að það vantaði framgjörðina á hjólinu hans.  Bíddu, datt hún undan?  Var þetta enn eitt atriðið á Murphy‘s law listanum?  Með öðrum orðum: Allt sem getur farið úrskeiðis fer úrskeiðis.  En nei, Siggi tók hana sjálfur af, svo hjólið myndi ekki taka niðri í sköflunum á leiðinni.

Þá var þessari skemmtilegu vetrarferð lokið og við byrjuð að plana næstu ferð.

Hrönn Harðardóttir

Myndir: Hrönn Harðardóttir Úthlíð - ferðamennska að vetriog Anna Magnúsdóttir

Myndir í fullri upplausn eru hér: https://photos.app.goo.gl/Wkc8QdpvUk7je1EN6

© Birtist fyrist í Hjólhestinum mars 2022.