Þegar ein beljan...  Klúbbhúsið okkar í Vesturbæ stendur alveg við gangstétt á hornlóð.  Og er greinilega ekki heimili.  Fyrir vikið verðum við leiðinlega mikið fyrir barðinu á veggjakroturum.  Eftir mörg lög af yfirmálun í mismunandi litatónum var kominn tími á að mála allt húsið og biðum við eftir vorinu til að geta framkvæmt það.

Fyrir vikið var húsið orðið æði sjoppulegt og útúrkrotað af ja, ætli það sé ekki helst unga fólkið og þá í yngri kantinum, sem ferðast um á reiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum og eru enga stund að koma sér í burtu ef til þeirra sést.  Ég sé ekki alveg fyrir mér jakkafataklæddan forstjóra stunda þessa iðju.  Eða iðna húsmóður í Vesturbænum.  Svo við þessu er ekkert að gera, eða jú, það eru náttúrulega ýmsar leiðir færar.  Í fyrsta lagi, mála húsið abstrakt með 100 litum. 

Efast um að nágrannarnir yrðu hrifnir af því.  Í öðru lagi, fá listamann til að mála mynd á einn eða fleiri veggi.  Því miður er líka krotað yfir þess háttar myndir og þá þarf að viðhalda listaverkinu, svo við ákváðum að hafa húsið áfram einlitt, í stöðluðum lit, pósthúsrauðu.  Reyna að vera duglegri að mála yfir, finna heppilega daga að vetrarlagi þar sem hægt er að mála.  Húsið sjálft er það hátt, að það þarf vinnupalla til að ná upp í rjáfur.  Liturinn dofnar með árunum og því verða óhjákvæmilega skil.  Spurning að mála feik kannt í 3ja metra hæð og vona að krassarar haldi sig þar fyrir neðan.

Núna er allt húsið málað frá gangstétt að þaki og vonandi náum við að halda því fallegu um ókomna tíð.

Síðasta myndin sýnir hvernig húsið var í niðurníðslu þegar við tókum við því 1999 og var það þá rétt fokhelt að innan.

Myndir: Hrönn Harðardóttir og Páll Guðjónsson tók gömlu myndina 1999.

Hrönn Harðardóttir.

© Birtist fyrist í Hjólhestinum mars 2022.