Svanur og Sigurður Undirritaður hafði gengið með þá hugmynd að hjóla upp með Hvítá að austanverðu í Kerlingafjöll og þaðan austur að Þjórsá og niður í Þjórsárdal. En það vantaði einhvern til þess að fara með. Síðastliðinn vetur kom vinur minn og fyrrverandi vinnufélagi að máli við mig og spurði hvort ég hefði ennþá áhuga á þessari hjólaferð. Kvað ég svo vera og sagðist hann einnig hafa áhuga á að hjóla þessa leið. Síðar bættist vinnufélagi í hópinn, en af persónulegum ástæðum gat hann ekki farið í ferðina þegar til kom, en bauðst til að skutla okkur á byrjunarstað. Við settumst  niður til að spekúlera í þessu og ákváðum að fara 14. júlí og áætla 5 daga í ferðina. Undirbúningur hófst með því að æfa sig í hjólreiðum og byggja upp þol. Við settum niður GPS punkta af leiðinni sem við tókum af Íslandskorti  á ja.is sem síðar reyndust ekki vera mjög nákvæmir.

Lagt var af stað miðvikudaginn 14. júlí í blíðskaparveðri og keyrði vinur okkar okkur upp fyrir efsta bæ í Hrunamannahreppi rétt á móts við Gullfoss. Smá tíma tók að venjast þunganum af öllum farangrinum á hjólunum en fljótlega fór að ganga ágætlega, blíðskapar veður var og sól í heiði. Eftir um tveggja stunda hjólamennsku sprakk á afturdekkinu hjá mér, reyndist samsetning á slöngunni hafa gefið sig en eftir slönguskipti var haldið áfram. Er við fórum að nálgast Svíná og skálann í Svínárnesi fór að skúra en við náðum í skálann áður en mesta demban kom, en það  rigndi talsvert í rúma tvo tíma. Þegar stytti upp héldum við för áfram áleiðis í skálann í Leppitungum þar sem við ætluðum að gista. Síðasti kafli slóðarinnar í skálann var mjög grófur svo okkur miðaði hægt áfram, komum þangað um 20:30 og hituðum okkur kjötsúpu. Fyrsta dagleiðin var rúmir 50 km.

Daginn eftir lá leiðinn upp í Kerlingafjöll. Veðrið var áfram mjög gott, og gekk ágætlega að hjóla um Kerlingaflatir í áttina að fjöllunum. Þegar komið var í brekkurnar upp í Kerlingafjöll hægði nokkuð á för okkar, en fjallasýnin þarna er mögnuð og nutum við hennar. Við komum í Kerlingarfjöll um miðjan dag, höfðum pantað gistingu þar og vinur okkar sem keyrði okkur deginum áður kom færandi hendi með lambalæri og meðlæti til þess að grilla og gisti hann með okkur. Dagleiðin var um 35 km.

Daginn eftir byrjuðum við á því að skoða okkur  um í Kerlingarfjöllum. Þarna er afar falleg fjallasýn. Eftir hádegi lögðum við af stað austur með Kerlingarfjöllum í áttina að Þjórsá. Leiðin liggur um Illahraun svo ferðin gekk frekar hægt. Er við komum að Setrinu (skála 4x4 klúbbsins) stoppuðum við til þess að fá skjól og til þess að fá okkur hressingu. Skálaverðirnir Guðmundur og Hulda tóku vel á móti okkur. Þegar við fórum frá skálanum lentum við í því að fara inn á rangan slóða sem lá aftur í skálann í Leppitungum. Þegar við höfðum farið stuttan spotta varð ég fyrir því að steypast á hausinn og fá skurð á ennið sem blæddi dálítið úr. Eftir að búið var að plástra mig ákváðum við að fara aftur í Setrið. Guðmundur lappaði upp á mig með klemmuplástri  en hann var vanur að klemma saman svona sár og tókst honum það svo vel að varla sést ör eftir. Ákváðum við að gista í skálanum um nóttina þar sem farið var að hvessa og ekki mikið um góð tjaldstæði framundan. Dagleiðin var um 25 km.

Næsta dag fengum við norð-austan strekking ( 18-20 ms. ) svo það gekk frekar hægt í áttina að Þjórsá. Fórum við um Hnífá  og niður með Þjórsá en er líða tók á daginn lægði mikið og gekk ferðin þá miklu betur. Á þessari leið er mikil fjallasýn til norðurs og austurs. Næsta stopp var við skálann í Bjarnalækjabotnum, þar er ágætis gistiaðstaða og eftir stutt stans  var haldið áfram áleiðis í skálann í Gljúfurleiti þar sem við ætluðum að gista. Vaðið yfir Dalsána er nokkuð langt en ágætlega greiðfært. Komum í skálann um kvöldmatarleitið eftir að hafa hjólað um 80 km. þreyttir en ánægðir. Ágætis gistiaðstaða er í skálanum.

Næsta dag var haldið sem leið lá niður í Þjórsárdal. Sú leið var mikið upp og niður, svo okkur miðaði mis hratt áfram. Þetta er einnig mjög falleg leið og blasir mikil fjallasýn við til austurs og suðurs. Fyrir neðan Sultartangavirkjun er komið á malbik og þá var hjólað á fullri ferð. Vorum sóttir upp í Þjórsárdal. Dagsleiðin var 35 km.

Ýmislegt mátti læra af þessari ferð. Við vorum með óhentugan búnað svo sem tjald sem var of þungt og fyrirferðamikið og  annar búnaður var ekki af hentugustu gerð, má allur vera léttari og meðfærilegri og hafa þarf klemmuplástur með til þess að geta lokað skurðsárum. Þetta var mjög skemmtileg ferð og alveg þess virði af fara hana.

 


Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2011