Áslaug Ármannsdóttir Við vinkonurnar ákváðum  síðasta vetur  að fara  hjólaferð um Vestfirði  núna í sumar.  Kveikjan  að því að við ákváðum að fara yfir Breiðadalsheiði  var grein sem birtist vefriti Fjallahjólaklúbbsins. Þar var lýst hjólatúr sem farin var yfir Breiðadalsheiði  sumarið 2009. Þessi vegur var aflagður 1995 þegar göngin milli Ísafjarðar og Flateyrar voru tekin í notkun. Ofangreindar þrjár konur ákváðu  því að hafa Breiðadalsheiðina sem fyrstu dagleið á ferð sinni frá Ísafirði suður yfir Snæfellsnes.  Mæðgurnar Áslaug og Sigrún bjuggu árum saman á Flateyri og höfðu oft farið þessa leið í bíl og þekktu því leiðina mjög vel úr bílglugga. Rétt er að taka fram að engin bilun varð á leiðinni þótt farið væri um mjög grýtta vegi og gíraskiptingar væru að stríða sumum.

Fyrsti dagur: Bolungarvík -  Flateyri

Sunnudaginn  8. ágúst 2010 hjóluðum við þrjár af stað, ein frá Bolungarvík,  önnur frá Neðstakaupstað á Ísafirði og sú þriðja frá flugvellinum á Ísafirði áleiðis að Brjánslæk við Breiðafjörð.
Fyrsti áfanginn var yfir Breiðadals¬heiði eftir gamla veginum sem eins og áður sagði var aflagður 1995. Þessum vegi hefur því ekkert verið gert til góða í 15 ár . Þar hafa  fallið skriður á þessum árum þannig að vegurinn er eiginlega ekkert nema grjót sem  gerir þessa leið að  góðri áskorun fyrir torfæruhjól.  Það er allbratt upp í skarðið og gengum við næstum alla leiðina upp en létum okkur hafa það að sitja á hjólunum mest alla leiðina niður. Veðrið var yndislegt, glampandi sól og hægur andvari.  Það tók okkur fjóra klukkutíma að komast yfir heiðina. Síðan hjóluðum við út á Flateyri, sjö km leið og komum á kvöldmatartíma að Sólbakka þar sem okkar beið ljúffengur kvöldverður hjá Sigrúnu Gerðu húsráðanda .  Við gistum á Flateyri.

Annar dagur: Flateyri - Haukadalur

Næsta dag var sólskin og hafgola.  Við fengum lens inn Önundarfjörð og vorum snöggar inn í Bjarnardal.  Þar tók við brött og löng brekka upp Gemlufallsheiði.  Vindur var stífur á móti og þetta var frekar erfitt.  En þegar öll vötn féllu til Dýrafjarðar var leiðin létt alveg þar til við vorum komnar yfir Dýrafjörð.  En þá blés vindur á móti okkur alveg út í Haukadal.  En þar beið okkar velbúinn sumarbústaður.   

Þriðji dagur: Haukadalur fyrir Nes - Hrafnseyri

Þriðja daginn hjóluðum við svo fyrir Nes eins og sagt er,  veginn sem Elís Kjaran lagði í tómstundum sínum frá störfum hjá Vegagerðinni.  Fyrsti hluti vegarins var þokkalegur en mest alla leiðina var þetta grýttur tröllavegur.    En þessi  leið er einstaklega falleg og ekki spillti veðrið, logn og skýjað.  Fyrst komum við í Svalvoga,  síðan hjóluðum við fyrir ofan  Sléttanes og í Lokinhamradal og loks fórum við fyrir Skútabjörg en þar liggur vegurinn í fjörunni undir björgunum.  Við fórum fram hjá mörgum eyðibýlum á þessari leið. Og oft létum við freistast af vel þroskuðum berjum  á leiðinni. Við lukum þessum degi á Hrafnseyri þar sem við geymdum hjólin til næta dags.  Friðfinnur Sigurðsson  frá ferðaþjónustunni Við fjörðinn á Þingeyri beið okkar  á Hrafnseyri eins og um var samið og hann flutti okkur aftur í Haukadal þar sem við gistum.                                      

Fjórði dagur.: Hrafnseyri - Brjánslækur

Fjórða daginn ók Friðfinnur svo með okkur til baka að Hrafnseyri þar sem við hófum ferð þann daginn.   Okkur gekk vel inn Borgarfjörðinn og vorum snöggar inn að Mjólká.  En út fjörðinn fór að blása svolítið á móti.  Svo tóku við brekkurnar upp á Dynjandisheiði.  Þær voru töluvert erfiðar og við vorum nokkuð montnar þegar við mynduðum hvor aðra vinkonurnar við skiltið þar sem stendur  Dynjandisheiði  500 metrar.  Þá var farið að vinda og  rigna.  En næsti kafli var auðveldur og við þutum áfram fram með Geirþjófsfirði en þá tóku við brekkur á ný upp í Helluskarð sem er í 490 m hæð.   En eftir það var leiðin létt niður í Flókalund en þar renndum við í hlað um fimm leytið.  Þar fengum við að borða og hjóluðum svo þessa sjö kílómetra leið niður að Brjánslæk  þar sem Breiðafjarðarferjan Baldur beið eftir okkur.

Fimmti  dagur:  Stykkishólmur ---

Í Stykkishólmi skildu leiðir og Sigrún fór beint suður en við hinar tvær ætluðum að hjóla á tveimur dögum í Borgarnes og ljúka þar með ferðinni.  En kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða.  Það var hæg gola og léttskýjað þegar við hjóluðum út úr Stykkishólmi og því virtist eins og hryssingsleg  veðurspá fyrir daginn myndi ekki rætast.  En Adam var ekki lengi í Paradís. Í staðinn fyrir að renna léttilega í vestur eftir sléttum vegum í Helgafellssveit  blésu 14 metrar á sekúndu úr suðri á hlið þannig að við urðum að hjóla með 10° halla upp í vindinn svo við fykjum ekki út af veginum. Með þessum stífa vindi fylgdi rigningarhraglandi. Ferðin sóttist því heldur hægt  og það rann upp fyrir okkur að okkar biði stíf sunnanátt með rigningu þessa tvo síðustu daga eins og spáð var. Því var það að við ákváðum að láta gott heita og ljúka ferðinni þennan dag og láta sækja okkur.  Við hjóluðum áfram áleiðis upp Vatnaleiðina í dimmviðri og rigningu móti okkur og við urðum að ganga upp í vindinn því við komumst lítið áfram á hjólunum.  Heldur vorum við svekktar því við vorum búnar að hlakka mikið til að njóta fegurðar umhverfisins og náttúrunnar á þessari leið. En það verður að bíða betri tíma.  Við ákváðum að hringja eftir aðstoð en héldum áfram og í fimm klukkustundir börðumst við á móti vindinum og komumst um 20 km þennan daginn. Ég verð að viðurkenna að við vorum frekar fegnar að setjast inn í bílinn þegar bjargvætturinn birtist og komast heim um kvöldið. 
En núna erum við farnar að fylgjast með veðurhorfum í Helgafellssveit því við ætlum að nota fyrsta tækifæri sem gefst til að ljúka ferðinni.