Stefán Sverrisson Ég var staddur á Ísafirði annað sumarið í röð að hitta fjölskyldumeðlimi. Það var tilhlökkun í hjarta mínu því að ég hafði ákveðið að fara í aðra hjólaferð á svæðinu eftir skemmtilega og eftirminnilega hjólaferð milli Ísafjarðar og Flateyrar sumarið áður. Eins og fyrr var óákveðið hvaða leið skyldi fara en samt var það farið að heilla mig að fara nú í norðurátt frá Ísafirði í átt að Hnífsdal og Bolungavík. Ég skoðaði kortið og sá að það væri tilvalið að taka stefnuna á Skálavík þangaðsem fjallvegur var merktur og fjarlægðin frá Ísafirði var mátuleg. Ég hafði leigt mér hjól á Ísafirði, sem var líklega sama hjólið og ég leigði sumarið áður, Mongoose-fjallahjól með framdempara. Ég lagði af stað klukkan 5 um morguninn í blíðskaparveðri og tók stefnuna á Hnífsdal og var fljótlega kominn þangað. Þar voru miklar framkvæmdir vegna Óshlíðarganganna sem og vegaframkvæmdir þar sem átti að koma nýr vegur meðfram ströndinni í Hnífsdal sem leit út eins og hraðbraut beint inn í Óshlíðargöngin. Ég stoppaði stutt í Hnífsdal og fór út í Óshlíðina sem er eins hrikaleg og ég hafði gert mér í hugarlund. Há grindverk eru alls staðar meðfram veginum til að hindra grjóthrun og hamrabeltin hangandi yfir manni eins og þau væru tilbúin að ráðast á mann.

Frá Óshliðinni var gott útsýni út á Ísafjarðardjúpið. Minnisvarðar voru á leiðinni um þá sem höfðu látist í hrakningum á þessum vegarkafla sem gerði hann enn hrikalegri. Brátt var Bolungavík í augsýn. Ég hafði heyrt Bolvíkinga kvarta undan því í fréttum að þeir gætu takmarkað notið útivistar á svæðinu vegna árása frá kríum. Þetta olli mér áhyggjum því að mér er hreint ekki vel við kríur í árásarham.

Þegar ég hjólaði niður á eyrina að Bolungavík frá Óshlíðinni heyrði ég fyrst í kríunum og það voru ekki vingjarnleg hljóð. Þær sveimuðu fyrir ofan mig og ég hugsaði með mér að þetta væri nú í góðu lagi ef þetta væri allt of sumt. Þetta væri líka ástæðulaus ótti hjá mér því að ég var með ágætan hjálm og mundi komast út úr þessu án teljandi meiðsla þó að þær færu að höggva í höfuðið á mér. Ég hjólaði nú samt eins hratt og ég komst til að koma mér út úr þessum aðstæðum sem fyrst. Allt í einu flaug ský af kríum upp frá vegkantinum og þá hugsaði ég með mér að þær væru líklega með ungana sína þarna í kantinum og myndu gera allt til að koma mér í burtu. Það passaði, ég sá þær útundan mér steypa sér niður og hefja árás og hávaðinn var svo mikill og svo nálægur að það var líkt og það væri kría inni í sitt hvorri hlustinni á mér. Nú missti ég þá yfirvegun sem ég hafði haft til þessa og tók að veifa hendinni yfir höfðinu á mér og bætti verulega í ferðina þó að ég hafi áður talið að ég kæmist ekki hraðar. Von bráðar komst ég inn í Bolungavík og kríulætin fjarlægðust.

Það voru ekki margir á ferli í Bolungavík enda var klukkan ekki nema rúmlega sjö. Ég fann brátt leiðina sem leiddi mig til Skálavíkur og ég sá brattan veginn framundan alla leiðina upp Hlíðardal í átt til Skálavíkur. Ég byrjaði að príla upp með reglulegum hléum og virti fyrir mér landslag og náttúrufegurð.

 

Þegar upp á heiðina var komið var hægt að horfa til baka til Bolungavíkur sem og niður Breiðabólsdal í átt til Skálavíkur. En það var líka vegur framundan upp á Bolafjall. Þetta kom mér á óvart því að ég hafði ekki séð á korti neinn veg upp á Bolafjall. Fjallshlíðin var brött og vegurinn lá í hlykkjum upp fjallið. Mér fannst þetta allt of spennandi til sleppa því að fara þarna upp svo ég byrjaði að príla. Ég komst að því þegar upp var komið að þarna er radarstöð var  rekin af Kananum. Hugsanlega hefur hann bannað að sýna veginn þarna upp á korti, ég veit það ekki. Útsýnið var a.m.k. gríðarlegt og fallegt inn Ísafjarðardjúpið, Jökulfirði og víðar. Þarna uppi var pallbíll sem út úr skriðu ferðalangar frá Austurríki, par líklega á sextugsaldri. Þau höfðu gist þarna uppi um nóttina til að njóta sólarlags og sólarupprisu. Þau sögðu að þetta væri níunda sumarið sem þau væru á Íslandi í fríi og væru yfirleitt um 3 mánuði í senn. Við töluðum um íslenskt efnahagslíf í líklega nærri klukkutíma og hvers vegna það væri í þeim sporum sem það er í nú. Meðan við spjölluðum kom svo full rúta af útlendingum upp á fjallið og ég naut útsýnisins með þeim.

Ég var fljótur að bruna niður fjallið og niður í Skálavík. Í Skálavík er gott landrými, allnokkur hús en engin föst búseta, öll húsin eru sumarbústaðir. Í skálavík var búseta í hámarki um 1910 en þá féll mannskætt snjóflóð þar og byggð lagðist nánast af eftir það. Náttúrufegurðin og kyrrðin er samt ennþá til staðar fyrir ferðalanga eins og mig sem þyrstir í slíkt.

Ég fékk mér vel að borða í Skálavíkinni áður en ég lagði aftur af stað til Ísafjarðar. Ferðin sóttist vel og var ég komin til Ísafjarðar um hálf tvö leytið. Umferð frá Bolungavík til Ísafjarðar var töluverð og var því ekki eins gaman að fara til baka en veðrið var með eindæmum gott, um 15 stiga hiti og sól.

Ég fór einn í þessa ferð sem og í ferðina til Flateyrar sumarið áður. Yfirleitt fer ég í mínar hjólaferðir einn því að því fylgir mikið frelsi. Ég þarf ekki að ráðfæra mig við neinn um hvert á að fara, maður getur leyft sér að taka ýmsa hliðarrúnta sem ekki eru fyrirfram ákveðnir og ég ákveð minn ferðahraða sjálfur. Ég fer að vísu aldrei í lengri ferðir en dagsferðir þegar ég er einn því ég verð fljótt þreyttur á einverunni.
Sumarið 2009 fór ég samt eina tveggja daga ferð með systur minni og eina dagsferð á Nesjavelli með fjallahjólaklúbbnum. Samtals fór ég í átta ferðir og þær verða örugglega ekki færri næsta sumar. Öll fjölskyldan gírar sig nú upp í að fara saman.

Ég er farinn að hlakka til.


Birtist fyrst í Hjólhestinum okt. 2010