Vaðið yfir á Fjallahjól eru skemmtileg tæki til ferðamennsku. Undirritaður hefur stundað ferðalög á fjallahjólum sl. 12 ár og hjólað velflesta hálendisvegi landsins auk annarra leiða. Í sumar, 2010,  var farin þriggja daga ferð á Síðumannafrétti og er sú ferð ein sú alskemmtilegasta sem ég hef farið á hjóli fyrir ýmsa hluta sakir.
Í fyrsta lagi er leiðin krefjandi, hækkun á fyrsta degi samtals milli 600 og 800 m, vegir fjölbreytilegir, frá venjulegum fjallavegum til vegaslóða gegnum hraun þar sem menn verða að vanda sig. Í öðru lagi er landslagið fjölbreytilegt og margt að skoða og í þriðja lagi býður leiðin upp á hvorutveggja að hjóla með allan búnað eða láta trússa og hjóla aðeins með til dagsins. Gist er í skálum.

Stutt ferðalýsing:

Hjólahópurinn, sem hefur hjólað  saman á fjöllum  síðast liðin 10 ár, heitir „Feðgar og feðgin á ferð og fleiri samferða“ samanstendur af undirrituðum sem er aldursforseti hópsins 66 ára, þrem börnum hans og þrem öðrum góðum vinum. Í þessari ferð vantaði Sigríði Droplaugu og því vorum við sex á hjólum í þetta sinn
 

2. júlí – 30 -35 km.

Lagt var af stað frá Hunkubökkum um hádegisbil. Vegur var greiðfær aðeins bratti upp undir Heiðaborgina og síðan nokkuð bratt niður að Heiðarseli þar sem áð var og fyrrum ábúenda minnst.
Vegurinn upp frá Heiðarseli er býsna brattur og ósléttur þannig að töluvert reyndi á þrekið.
Næsti áfangastaður var Eintúnaháls, þar sem menn nestuðu sig og byggðasaga jarðarinnar var rakin í stórum dráttum.
Frá Eintúnahálsi var greiðfært að Hurðarbökum, menn ýmist hjóluðu eða stikluðu Stjórnina, sem er falleg bergvatnsá á milli myndríkra hamraveggja. Hurðarbökin eru brött og verulega krefjandi, enda tóku sumir það ráð að ganga  bröttustu brekkuna. Næsti farartálmi var Geirlandsá sem var vaðin. Fagrifoss  í Geirlandsá skoðaður og síðan ferðinni framhaldið upp brattar brekkur  Mörtunguskerjanna og svo áfram  aftur niður og yfir Geirlandsá.
Enn var á brattann að sækja upp frá ánni, en þegar upp var komið lá leiðin um ása og hæðir inn að Hellisá sem er mest áa á leiðinni en gott að vaða.
Upp frá Hellisá er bratt en síðan mishæðóttir ásar og sker inn að skálanum í Blágili þar sem áð var næturlangt. Dagleiðin þennan fyrsta dag er um 30 -35  km en hækkunin veruleg um 600 – 800 m.
Í skálanum í Blágili voru hefðir haldnar að venju og borið fram hangikjöt með kartöflumús og grænum baunum og öllu þessu skolað niður með tyrkneskum bjór. Í eftirrétt var borin fram heimalöguð frönsk súkkulaðikaka og heimalöguð dönsk eplakakameð rjóma.

3. júlí – 40 km.

Klukkan tíu daginn eftir var lagt af stað áleiðis inn í Laka. Galtinn er brattur og tók verulega á,  en varð engum ofviða. Eftir tveggja tíma hjólun var komið í Laka. Þar tóku menn upp nesti og nærðu sig. Að því loknu gekk hópurinn á Lakann í fallegu veðri og björtu. Þegar upp var komið tóku menn ofan höfuðföt og sungu „Hver á sér fegra föðurland“ öll erindin.  Útsýnin eins og alltaf í góðu veðri, stórkostleg yfir þetta mikla hamfarasvæði.
Síðan var hjólað vestur með gígaröðinni að Tjarnargíg. Leiðin er greiðfær og þægileg fáeinar brekkur upp og niður yfir sandöldur. Gengið var í Tjarnargíg og áleiðis hrauntröðina frá honum, sem er merkileg náttúrusmíð.
Að skoðun lokinni var haldið vestur Úlfarsdalssker og eins og leið liggur í skálann í Hrossatungum.
Þessi  dagleið er hreint út sagt ólýsanleg, ekki síst fyrir þær sakir að ganga á Laka og í Tjarnargíg brýtur dagleiðina upp í áfanga með stórbrotnum hætti.
Skálinn í Hrossatungum er ágætur en þar vantaði allan borðbúnað og vatn. Kunnugir sögðu að þar væri að vísu vatnsbrunnur, sem gangnamenn sæktu sér vatn í, en láðst hafði að merkja hann svo ókunnugum væri gagn af, hér þarf að bæta úr. Þarna var gist og kvöldsins notið í vorblíðunni.
Franskur gönguhópur gisti einnig í skálanum þessa nótt og mátti greinilega sjá að þeir nutu ferðarinnar.

4. júlí  – 45 - 50 km.

Enn var lagt af stað til suðurs um tíuleytið. Smávegis súldaði fyrsta klukkutíman en síðan birti upp með sólskini og blíðu. Trússbíllinn sneri við og fór til baka gegnum Blágil.
Fyrst var hjólað eftir ruddum slóða yfir hraun. Þessi fyrsti hluti ferðarinnar,  kannski 5 km, var mjög krefjandi, en síðan tók við grófur malarslóði.
Í suðri blasti Leiðólfsfellið við, þar sem landnámsmaðurinn  Leiðólfur frá Á á Síðu reisti eitt af sínum  búum. Þar er nú gangnamannaskáli og áningarstaður. Leiðin frá Hrossatungum í Leiðólfsfell er um 20  - 25 km.
Ægifagurt útsýni til fjallahringsins blasti við alla leiðina, þannig að maður tók vart eftir því hversu leiður vegurinn var á köflum.
Áð var undir Leiðólfsfelli. Þar er gamall og snyrtilegur skáli að mestu hlaðinn úr torfi og grjóti. Ágætar kojur eru í skálanum og gas og rennandi vatn úr slöngu skammt frá. Því er ekkert til fyrirstöðu að gista þar ef nauðsyn krefur. Áfram var haldið að Hellisá,  sem allir óðu nema Hjörtur sem hjólaði hana án vandkvæða.  Þegar yfir Hellisá var komið tók við grófur línuvegur býsna brattur á köflum. Seinasta brekkan upp frá Selánni bæði löng og brött tekur í þreyttum mönnum.
Komið var að Hunkubökkum milli klukkan fjögur og fimm og þar með lauk stórbrotinni hjólaferð um einstakt landslag, sem helst í hendur við sögu þjóðarinnar á miklum þrengingartímum.
Gott var að vita af heitu baði á Klaustri og veislu í Básum í sumarhúsi Jóns og Áslaugar,  undir hraunbrún á Brunasandi að ferð lokinni.