Ég sá að Arnarvatnsheiðin væri líklega passlega stutt fyrir mig og hún er ekki þekkt óveðursbæli svo að líklega fengi ég að fara alein í mína ferð án þess að eiginmaðurinn væri á bæn allan daginn um að ekkert kæmi fyrir. Fór ég að forvitnast um leiðina og spurði meðal annars veiðimann mikinn, félaga minn, sem hafði farið upp að Úlfsvatni með félaga sínum á splunkunýjum jeppa sem reyndar var óbreyttur. Sagði hann veginn þannig að ég kæmist þetta aldrei hjólandi. Höfðu þeir stórskemmt sílsana á jeppanum og tekið hliðina úr einu dekki. Fyrir utan þessa lýsingu höfðu þeir verið marga tíma á leiðinni. Fór nú eiginmaðurinn að reyna að eyða tali um þessa ferð en ég bjóst nú við að það hlyti að vera auðveldara að komast þetta á hjóli heldur en jeppa.
Á heimleið úr sumarleyfisferð austan af landi í júlí árið 2001 heyrði ég að veðurspáin næstu daga ætti að vera fín, reyndar mótvindur en... Ég suðaði því út faraleyfið og skildi krakkana eftir norður í landi hjá systur minni og fjölskyldu í sveitinni.
Næsti dagur fór í að ganga frá eftir sumarleyfið og undirbúa ferðina mína því að ég ætlaði að leggja af stað um hádegi daginn eftir. Ég keypti mér vasaljós, útvarp með langbylgju, aukaslöngu og nýjar bætur, svo svona í leiðinni sá ég regnheld föt frá Löffler í Nanoq sem eru létt og fyrirferðalítil og voru á útsölu þannig að þau voru tekin með því að þó að ég hafi hjólað í 10 ár þá átti ég engin almennileg regnföt. Var nú farið að pakka og kom það á óvart hvað þetta var mikið dót, því að venjulega dreifist þetta á fleiri en nú þurfti ég að taka þetta allt og líka allt til vara.
Ferðadagurinn rann upp og fór ég í matarbúð og keypti mér nýtt rúgbrauð, flatkökur og þurrkaða ávexti. Ég átti heima Sviss Miss kakó og pastarétti sem fóru ofan í tösku líka. Þegar allt var pakkað og ég til þá var klukkan orðin 15:14 á þriðjudegi, mótvindur og hjólið ferlega þungt.
Ég fór því fyrst út á bensínstöð og bætti lofti í dekkin og hjólaði svo af stað til Þingvalla. Ég hjólaði upp í Grafarvog og ætlaði nýju stígana í Mosfellsbænum en þá kom ég að fyrstu hindruninni minni því að það var ekki búið að fylla að brúnni hjá golfvellinum ofan við Korpúlfsstaði. Ég er nú ágætlega hraust og fremur hávaxin en það mátti ekki muna sentimeter að ég hefði ekki að lyfta hjólinu upp á brúnna en það tókst með því að tylla mér á tá. (Ég tek það fram að nú er þetta allt orðið slétt og fínt).
Við tóku nýju stígarnir í Mosfellsbænum og hjólaði ég langleiðina upp að Gljúfrasteini á þeim. Það versta var að það var mikill mótvindur og miklar vindkviður þannig að ég var að hjóla allt niður í gönguhraða.
Ég var komin á Þingvöll kl. 19 og ákvað að kaupa mér eitthvað í svanginn og sitja og bíða aðeins til að vita hvort að ekki lægði aðeins með kvöldinu eins og oft gerir. Ég hringdi líka og lét vita af mér því að ég bjóst ekki við að ég yrði í símasambandi á næstunni. Kl. 20 hafði ekkert lægt og ég ákvað að halda áfram í mótvindinum og inn á Bláskógarheiði eða Kaldadal. Það kom mér mikið á óvart hvað þarna var fallegt og flott að sjá Hrafnabjörg frá ýmsum sjónarhornum. Einnig Lágafellið sem er sérstakt og Skjaldbreið sást mjög vel enda veðrið fallegt þó að enn blési og það væri farið að húma að kveldi. Ég hjólaði upp að vegamótum Uxahryggjar og Kaldadals. Hafði þá hjólað 73km á 5:30 tímum á hjóli en verið á ferðinni frá kl. 15:14 til 23:00. Vegurinn var mjög fínn.
Ég sló upp tjaldi og eldaði mér súpu, ég var heppin að hafa nóg vatn því að engar sprænur voru á leiðinni, og fór svo bara að sofa enda vel vindbarin eftir daginn og veðurspáin var eins og því gott að vera vel úthvíld. Ég vaknaði tvisvar um nóttina og þurfti að bæta á mig fötum því að það var ekki sérlega hlýtt.
Næsta dag eftir morgunverð og pakkerí komst ég af stað kl. 11 enn í mótvindi en ekki eins miklum og veðrið var rosa flott en samt ekki hlýtt. Enda var ég auðvitað á Kaldadal. Ég brunaði niður brekkurnar af Kaldadalnum og í Húsafell um kl. 16. Fannst mér ég vera orðin illalyktandi og ákvað að fara og liggja í heita pottinum dágóða stund þar sem ég spjallaði við fólk sem var í sumarfríinu sínu í rólegheitunum og skildi ekki mikið í því hvað ég var að æða þetta alein.
Eftir sundið fór ég út í kjarrið og eldaði mér súpu og spjallaði við áhyggjufullan eiginmanninn og vinina sem höfðu verið að hringa af og til en ég var alltaf utan þjónustusvæðis. Ég lét vita af því að ég ætlaði að vera komin norður eftir 2 daga og fyrr mætti ekki fara að hafa áhyggjur af mér.
Veðrið var flott svo að ég steig aftur á hjólið kl. 19 og hjólaði upp að Stefánshelli og Surtshelli. Ég tók vasaljósið með til að fara í hellaskoðun og ég virðist alltaf villast í Stefánshelli svo að ég gerði 3 tilraunir og virtist aldrei geta komið út á sama stað og ég fór inn á svo að ég gafst upp og reyni aftur síðar. Ég mætti 2 bílum og ákvað að freista þess að komast upp að Norðlingafljóti, sem ég hafði heyrt að væri mjög misjafnt yfirferðar svo að best væri að fara um morgunn yfir. Maggi Bergs varaði mig við því að stundum væri þetta spræna og stundum upp fyrir mið læri.
Ég var nú að gæla við þá hugmynd að ef ég hitti á bíl gæti ég kannski samið við bílstjórann að taka töskurnar mínar yfir og ég þyrfti þá bara að bera hjólið yfir ána. Ég var komin upp að Norðlingafljóti kl. 23 og var þá búin að hjóla 78 km á 7 tímum en hafði verið á ferðinni frá kl 11-23:15 í mótvind og vegurinn frá Húsafelli að Norðlingafljóti var ekki góður. Ég sló upp tjaldi á árbakkanum stutt frá veginum og eldaði mér pastarétt. Enn var veðrið gott en kalt svo að ég klæddi mig vel áður en ég fór ofan í svefnpokann. Eitthvað var nú farið að tala um rigningu norðanlands á föstudeginum í útvarpinu en ég hafði hugsað mér að ef ferðin gengi svona vel gæti ég hjólað vel upp á heiðina næsta dag sem var fimmtudagur og farið svo niður Vatnsdalinn út á Blöndudós, Skagaströnd og Þverárfjallið í Skagafjörðinn á föstudeginum því að þetta hafði gengið svo vel og virtist svo stutt eftir á kortinu. Út frá þessum hugsunum sofnaði ég og vaknaði bara einu sinni til að bæta á mig sokkum þessa nótt.
Næsta dag vaknað ég um kl. 8:30 og tók góðan tíma í að borða og taka dótið saman. Það lét engin bíll sjá sig svo að ég kíkti vel á ána og fór svo í vaðskóna, fór út í ána til að athuga vaðið og bar svo töskurnar yfir og að síðustu hjólið. Það var lítið í ánni og morgunbaðið var bara hressandi en ekki ískalt eins og ég hafði haldið. Þetta byrjaði því bara allt vel, nú var stillt veður og alveg rosalega fallegt og víðsýnt. En vegurinn varð sífellt verri og sumstaðar stórgrýti eða niðurgrafin slóð meira en mannhæð í moldarjarðveg.
Ég sá því að plönin frá kvöldinu áður næðu ekki fram að ganga. Ég var komin að Arnarvatni stóra kl. 15 eða eftir 4 tíma og hafði hjólað 25 km. Var þetta ótrúlega erfitt því að það má segja að þetta hafi meira verið jafnvægislist á hjóli frekar en hjólreiðar og sumstaðar þurfti að teyma hjólið. Rétt eftir að ég var komin fram hjá Arnarvatni litla þá kom vegvísir sem ég skildi hvorki upp né niður í því að þar var merki sem vísaði upp á jökul og þar stóð Kjölur en eftir kortinu sem ég hafði var enginn vegur inn á Kjöl á þessum slóðum. Önnur ör vísaði á Miðfjörð og átti það að vera áttin sem að ég kom úr svo að ekki stemmdi það. Þriðja örin vísaði svo á Húsafell og virtist það vera leiðin sem ég átti að fara.
Nú var komið að því að taka stóra ákvörðun og aðstæður metnar. Á þessum stað er dálítið erfitt að átta sig á aðstæðum því að maður hefur Eiríksjökul nær og svo Langjökul örlítið fjær. Virtist vera komin rigning norðan við jökul og því ekki gott að átta sig á fjöllum í kring og í raun hvar jökulinn endaði. Ég ákvað að þessi Kjalarslóði væri alveg út úr mínum plönum því að það stemmdi ekki við kortið og landslagið.
Þar sem ég hafði engan veg sem fór að jöklinum. Þannig að ég ákvað að taka veginn sem beygði til vinstri og með þeirri ákvörðun var ég sátt við að ég hefði kannski tekið vitlausan slóða og mundi lenda niður í Víðidal frekar en Vatnsdal sem ég hafði þó ætlað. Ég var ánægð og sátt við mína ákvörðun því að ég hafði þó allavega vaðið fyrir neðan mig en var ekki að ana út í algjöra vitleysu.
Ég skemmti mér við að hlusta á útvarpið og þurfti að vaða ótal sprænur svo að þetta tók allt sinn tíma þennan daginn, sprænurnar voru margar og alltaf fór ég í vaðskóna og gat svo teymt hjólið yfir með öllu á svo að ég þurfti ekki að bera neitt. Veðurspáin var orðin ákveðin rigning daginn eftir svo að ég vildi komast sem næst byggð þennan dag. Annars var veðrið frábært og ég í góðu stuði. Eftir að ég var komin af stað eftir veginum mínum stoppaði ég og fór í smá sólbað og maulaði þurrkuðu ávextina en ég hafði verið alein í veröldinni allan þennan dag og ekki séð hræðu. Það var dálítið skrítið að hafa engan til að tala við þegar maður var að borða og því urðu máltíðirnar bara maul en ekki sest almennilega niður og hitað sér eða smurt á brauðið. Þetta sannar kannski að maður er manns gaman og máltíðirnar eru samverustund ekki síður en næring á ferðalögum. Ég hafði samt hitað mér um morguninn og var með heitt vatn í brúsa og gat fengið mér Sviss Miss sem var hressandi þarna í auðninni.
Ég hjólaði nú áfram og var alveg að koma að vegamótum en þá hafði ég hjólað um aðeins betri veg í klukkutíma heldur en fyrr um daginn. Þegar ég kem að vegamótunum þá sé ég hjólandi mann með allt flagsandi frá sér og farangurslausan, ég rétt sá hann svipstund, svo að ég hélt að mér hefði missýnst því að ég sá svo ekkert þarna í stórgrýtinu og hélt áfram inn á vegaslóðann sem var merktur Vatnsdalur. Ég tók því gleði mína þarna í auðninni og sá að ég var ekki á rangri leið eftir allt saman. Ég gæti þá líklega valið um að fara framhjá Kolgrímsvötnum og niður í Vatnsdal eða fara Stórasand og í Vatnsdalinn. Ég var búin að hjóla svona 100 metra inn á veginn þegar ég sé hjólamanninn skyndilega aftur stopp aðeins fyrir neðan mig á hinum veginum. Ég þóttist þekkja kappann og var þetta Hrafn Margeirs. úr Skagafirðinum. Ég bauð honum að fá sér matarbita með mér til að létta aðeins hjólið hjá mér því að lítið hafði gengið á rúgbrauðsbirgðirnar eða aðrar birgðir. Við fengum okkur því heitt Sviss Miss og að borða.
Hrafn var á dagsferð frá Hvammstanga inn Víðidalinn (hafði lagt af stað kl. 7 eða 8 um morguninn) og ætlaði upp að Arnarvatni Stóra og niður að Laugarbakka og út á Hvammstanga þá um kvöldið. Um 150 km leið. Hann var farangurslaus og með nokkur orkusúkkulaði og orkudrykki, svona rétt að skreppa, svo er verið að segja að ég sé biluð!!!
Hann sagði að vegurinn hefði verið hrikalegur og gat ég sagt honum að vegurinn sem hann væri að fara inná myndi smá versna en hann slyppi samt við versta kaflann. Við bárum saman kort okkar og hafði hann farið keyrandi um veginn framhjá Kolgrímsvötnum og ráðlagði mér frekar að fara Stórasand. Ég bjóst við að fara yfir Stórasand og inn á Grímstunguheiðina og tjalda jafnvel þar. Ég bað hann að hringja í manninn minn og láta vita að hann hefði séð mig lifandi og í fínu formi. Skildu leiðir um kl. 17.
Ég hjólaði áfram og eftir að komið var inn á Stórasand stórbatnaði vegurinn og maður gat farið að hjóla loksins. Ég hleypti því smá úr dekkjunum því að nú var ekki lengur hætta á að ég sprengdi dekk á stórgrýtinu. Veðrið var frábært og rosalega fallegt á þessu svæði öllu. Það var farið að vera rigningarlegt upp við jökul og norðaustan við mig. Ég hafði borðað vel og nú rúllaði ég upp kílómetrunum. Einu vandkvæðin voru að það var fótbolti á öllum rásum á útvarpinu og fannst mér nú alveg að RÚV gæti haft fótbolta á einni rás en ekki báðum svona fyrir antifótboltafólk.
Ég naut því náttúrunnar og allt í einu áttaði ég mig á því að ég sá Vatnsdalsfjöllin í fjarska. Mér fannst rosa flott að sjá vötn upp á fjöllunum þetta hátt uppi og minnti það mig á Austurríki þar sem að maður hjólar upp á fjall og sér svo annað fjall með vötnum og þegar að því er komið er kannski eitt fjall enn. Því að venjulega á Íslandi fer maður upp á fjall og er þá kominn upp á topp. Það var aðeins farið að skyggja en náttúrufegurðin ógleymanleg og helst þurfti ég að passa mig þar sem að vegurinn var mjúkur því að sýnilega hafði hestaflokkur verið á ferð þarna stuttu áður og því sumstaðar uppsparkað.
Ég varð fegin að komast í vatn eftir Stórasand þar sem allt var þurrt enda eins gott að drekka vel á ferðalagi sem þessu. Ég hafði enn næga orku og ákvað að komast aðeins nær Vatnsdalnum og fyrr en varði fór ég að sjá hús og bæi. Klukkan var að nálgast 10 og ákvað ég að láta mig húrra niður í Vatnsdalinn og fá að hringja áður en klukkan yrði of margt.
Fólk var mikið að reka hross og keyra með hestakerrur svo að eitthvað stóð til. Ég fór niður að bænum Marðanúpi og fékk að hringja þar sem GSM náðist ekki í Vatnsdal. Ég hringdi í systur mína og bað hana að sækja mig þar sem spáð var mikilli rigningu strax um nóttina. Ég sagðist hjóla á móti henni út Vatnsdalinn. Ég reyndi líka að hringja í manninn minn en náði ekki í hann. Ég komst að því að allt þetta hrossastúss var vegna þess að verið var að reka á fjall enda mætti ég nokkrum rekstrum.
Ég fann að ég var orðin mjög þreytt en ég var heppin með að hafa meðvind út Vatnsdalinn. Ég gat ekki annað en hlegið að sjálfri mér því að þessar aflíðandi hæðir út Vatnsdalinn tóku VEL í lærin og virkuðu sem þó nokkrar brekkur. Ég var því farin að vonast eftir systur minni eftir klukkutíma, en það var sá tími sem það átti að taka hana að skutlast úr Skagafirðinum. Ég komst alla leið út á vegamót að þjóðvegi 1 þar sem ég gerði miklar teygjur og fettur en mér var ekki vel við að hjóla á veginum því að ég var ljóslaus að aftan og orðið skuggsýnt þó að ég hafi ljós að framan og góð endurskinsmerki á töskunum að aftan þá var mikil trukkaumferð og ég ekki í stuði til að hjóla í umferð eftir þessa fínu kyrrðar daga á fjöllum.
Ég hafði hjólað 102 km þennan dag frá Norðlingafljóti og út Vatnsdalinn frá kl. 11-23 og voru það alls 9 tímar á hjólinu. Ég var nú hissa á hvað mér hafði gengið vel því að vegurinn var sumstaðar afleitur en það munaði að hafa meðvind út Stórasand. Systir mín birtist stuttu síðar og urðu fagnaðarfundir þar sem að henni leist nú ekki meira en svo á ferðalag stóru systur sinnar og voru krakkarnir líka spenntir hvernig hefði gengið.
Þegar við keyrðum Langadalinn lentum við í þeirri mestu rigningu sem ég hef séð á Íslandi og var ég fegin að vera komin til byggða. Ég frétti svo stuttu síðar að Maggi Bergs félagi minn hafði verið upp á Stórasandi deginum á eftir mér og hefði lent í því versta rigningarveðri sem hann hafði upplifað á 13 ára hjólaflakkferli sínum. Sagði hann að rigningin hefði verið svo mikil að allt hefði verið grátt eins og hann hafði séð út á miðju Atlandshafi einu sinni í skipsferð og aðeins til að auka áhrifin þá var svo mikið rok að það var ekki stætt. Ég þakkaði því mínum sæla og ekki síst því að ég hitti Hrafn á réttum tíma og við borðuðum svo vel að það dugði út allan Vatnsdalinn þó að ég hafi eitthvað maulað af þurrkuðu ávöxtunum líka með.
Ég náði GSM sambandi við manninn minn fljótlega eftir að Vatnsdalnum sleppti og hafði hann verið að tala við Hrafn sem kom til Hvammstanga kl. 23 um kvöldið svo að við vorum á sama tíma til byggða. Ég var nú nokkuð hress daginn eftir og lítið stirð en ég hjálpaði systur minni við að olíubera húsið hennar sem var kannski alveg í það mesta fyrir úlnliðina því að það var helst þar sem ég var aum. Við fórum svo á Stuðmannaball í Miðgarði á föstudagskvöldið þar sem að ég dansaði allt ballið og fékk því enga strengi eftir þetta allt saman.
Ég get alveg mælt með svona ferðum fyrir fólk sem hefur áhuga á að takast aðeins á við sjálft sig og náttúruna. Það er nú skrítið að segja að það versta er að aðrir hafa áhyggjur af manni og getur maður því ekki tekið útúrdúra ef manni dettur í hug því að tímaplön verða að standast nokkurn veginn, helst hefði ég viljað hafa með mér senditæki sem væri hægt að nota í neyð. Því að ef eitthvað kemur fyrir þá er biðin ekki eins löng þegar allt er njörvað niður og fyrr hægt að athuga með mann. Ég uppgötvaði líka að ég þarf ekki að borða eins mikið því að hluti að því að ferðast í hóp er hvað það er gaman að setjast niður og borða saman og eiga góða stund. Ég var líka heppin því að ekkert bilaði og áin var fín svo slapp ég alveg við rigninguna þó svo að ég hafi fengið dágóðan skammt af mótvind .
Alda Jónsdóttir
© ÍFHK
Hjólhesturinn 1. tbl apríl 2002.