Hélt ég síðan áfram og stoppaði af og til, og tók myndir. Leiðin lá niður í Arnarfjörð og stoppaði ég við Dynjanda, þar sem mannlífið iðaði. Ég fékk mér að borða og hélt síðan áfram. Ég stoppaði næst við Mjólkárvirkjun þar sem mönnim hafði tekist að eyðileggja fallegan foss með virkjunarframkvæmdum. Síðan hélt ég áfram og fann mér tjaldstæði við Hrafnseyri. Þar fékk ég mér að borða og kíkti á Forsetasafnið. Ég gekk um fjöruna þarna og veitti því athygli að það var selur sem fylgdist með mér. Þegar rökkva tók skreið ég í svefnpokann og sofnaði.
Morguninn eftir hélt ég á Hrafnseyrarheiðina sem virtist vera auðveld yfirferðar, en eftir nokkra kílómetra urðu brekkurnar brattari og breyttust í endalausar ess-beygjur. Ég missti þolinmæðina og ákvað að ganga þetta. Loksins komst ég upp á háheiðina, steig á hjólið og var kominn skömmu seinna til Þingeyrar. Ég skoðaði plássið og hitti óvænt gamlan kunningja minn sem varð steinhissa á því að hitta mig þar á hjóli. Ég gisti þarna á tjaldstæðinu og sofnaði fljótt við ölduniðinn.
Daginn eftir hélt ég áfram í átt til Ísafjarðar, hjólaði inn Dýrafjörðinn og út aftur. Þegar þangað var komið tók ég eftir því að það var selur sem fylgdist með mér og ákvað að stoppa og taka mynd af honum. Þegar ég tók upp myndavélina hvarf selurinn þannig að ekki varð neitt úr því. Ég lagði á Gemlufjallsheiðina sem var auðveld yfirferðar og var ég fljótlega kominn ofan í Önundarfjörð. Áfram var haldið og nú upp Breiðadalsheiði. Eftir að hafa pumpað pedalana í um það bil hálftíma missti ég þolinmæðina og gekk upp afganginn af heiðinni sem hlykkjaðist upp í endalausum ess-beygjum. Eftir um það bil tvær klukkustundir komst ég loksins á háheiðina. Ég naut útsýnisins, tók myndir og hélt síðan áfram niður í Skutulsfjörð.
Ég hékk fullmikið á bremsunum og sprengdi báðar slöngurnar. Ég bætíi þær og hjólaði til Ísafjarðar. Þegar þangað var komið athugaði ég dekkin og komst að því að þau voru bæði ónýt og ég bara með eitt varadekk. Slöngurnar voru orðnar lélegar og ég hafði gleymt að taka með mér varaslöngur. Ég keypti mér nýtt dekk og slöngur og fann mér tjaldstæði að því loknu. Fékk mér að borða, fór í sund þar sem ég þvoði af mér þriggja daga gamlan skít og skellti mér í hrein föt. Ég leitaði síðan uppi kunningjafólk mitt á staðnum. Þegar líða tók á kvöldið fór ég á tjaldstæðið og rabbaði við túrhesta sem þar voru staddir áður en ég fór að sofa.
Ég vaknaði snemma um morguninn og skrapp til Bolungarvíkur. Leiðin var frábær og útsýnið yfir djúpið var mjög fallegt. Eftir um 15 kílómetra kom ég að safninu við Ósvör þar sem búið er að endurbyggja gamlar verbúðir. Ég skoðaði safnið og hélt síðan inn í bæinn. Skoðaði hann og hélt síðan til baka til Ísafjarðar. Ég skoðaði næst safnið á neðsta kaupstað á Ísafirði. Síðan fór ég upp í Tungudal og skoðaði skemmdirnar eftir snjóflóðið sem fallið hafði vorið áður. Þvílíkur gífurlegur eyðingarmáttur sem náttúran býr yfir, trén kubbuð í sundur eins og eldspýtur. Um kvöldíð fór ég í sund og loksins upp á tjaldstæði og fór snemma í háttinn.
Daginn eftir var tími til kominn að halda heim á leið, ég hafði fjóra daga til að hjóla 518 kílómetra. Ég lagði af stað um hádegi og eftir rúman klukkutíma var ég kominn til Súðavíkur. Ég stoppaði þar í stutta stund og hélt síðan áfram. Nokkru seinna stoppaði bíll við hliðina á mér og út stigu tveir byssumenn klæddir í felulitum. Voru þar komnir kunningjar mínir frá Ísafirði sem voru að koma af gæsaveiðum. Eftir stutt spjall hélt ég áfram inn djúpið og tjaldaði á heiðinni milli Mjóafjarðar og Ísafjarðar.
Morguninn eftir var komið leiðinda rok, ég hélt áfram út Ísafjörð og upp á Steingrímsfjaðarheiði. Ætlunin var að fara niður í Steingrímsfjörð en vegna vindáttar hætti ég að við og fór ofan í Þorskafjörð. Eftir þá breytingu var ég konunn með vindinn í bakið, Mér skilaði fljótt ofan í Þorskafjörð en þar tók við hliðarvindur og sóttist ferðin þokkalega.
Umferðin var heldur betur farin að þyngjast og mikill hraði á bílunum. Um áttaleitið var ég kominn að Króksfjarðarnesi og ætlaði að gista í Ólafsdal, en þegar ég kem fyrir Króksfjarðarmúla kom þessi hrikalegi vindstrengur á móti mér. Ég var orðinn mjög þreyttur þannig að ég tók þá ákvörðun að gista í skjóli við múlann um nóttina.
Morguninn eftír var sama brjálaða veðrið og svo að ég varð að ganga allan Gilsfjörðinn. Þegar ég var kominn inn í botn á firðinum gat ég loksins hjólað og var kominn með vindinn í bakið. Ferðin gekk mjög greiðlega og áður en ég vissi af var ég kominn til Búðardals þar sem ég borðaði fyrir síðasta aurinn minn. Ég ákvað að hjóla Heydalinn suður og tjaldaði þar við Hlíðavatn, þá var vindinn aðeins farinn að lægja.
Morguninn eftir borðaði ég síðasta matinn minn og lagði af stað í síðasta áfangann sem var til Akraness.
Ég fór í heimsókn til bróður míns sem býr þar. Þar var ég rekinn í bað og fötunum mínum hent út á svalir. Hann átti afmæli bennan dag, þannig að ég lenti í frábærri veislu. Fáum tímum síðar tók ég Bogguna heim saddur og ánægður með vel heppnaða ferð.
Snorri Gylfa.
Teikningar Karl G. Gíslason
Birtist fyrst í Hjólhestinum júní 1995.