Stefnan var tekin á tekin á Ytri Njarðvík þar sem er mjög ódýrt farfuglaheimili. Við hjóluðum gegnum Hafnarfjörð þar sem við hittum bróðir minn á leið í golf. Við ætluðum að stytta okkur leið í gegnum golfvöllinn en það gekk ekki upp, þannig að við urðum að snúa við. Þetta var þó í lagi þar sem þetta var ekki langur auka krókur, samt vorum við örlítið fúlir yfir þessu. Við sáum veg liggja í hrauninu í átt að álverinu og ákváðum að hjóla hann. Það gekk vel og sáum við að þarna voru í gangi framkvæmdir við stækkun golfvallarins, þannig að ekki verður hægt að nýta sér þennan veg í framtíðinni.

Þegar þarna var komið við sögu ákváðum við að fara gamla Keflavíkurveginn. Þó vorum við eitthvað óákveðnir, því við reyndum að fara eftir vegi sem liggur í átt að sjónum, eftir afleggjaranum að álverinu og enduðum eina ferðina enn í ógöngum og þurftum að snúa við.

0403-kargi2.gif

Við fundum gamla Keflavíkurveginn og vorum ekki búnir að hjóla lengi þegar okkur varð það ljóst að það var búið að grafa hann í sundur og við okkur blasti eyðilegging af völdum stórvirkra tækja. Ekki nóg með það, þarna var einnig sundurskotið bílhræ og haglabyssuskot á víð og dreif. Þvílíkur sóðaskapur, það er eins og íslendingar haldi að þeir eigi óþrjótandi náttúru til að níðast á.  En það eyðist sem af er tekið og sem etur fer virðist einhver vakning vera í gangi, í sambandi við náttúruvernd.   Við höfðum ekki hjólað mikið lengra þegar við okkur blöstu enn ein mistökin, hús með brotnum rúðum þar sem átti að koma af stað fiskeldi þar sem ekkert vatn finnst. Þar er undarlegt hvað fólki leyfist að sukka með almannafé.

Við héldum ótrauðir áfram, og það tók ekki langan tíma að komast á farfuglaheimilið. Við vorum búnir að ákveða að skilja farangurinn eftir á farfuglaheimilinu og hjóla til Keflavíkur. En það gerði alveg úrhellisrigningu rétt þegar við vorum komir á staðinn, þannig að við létum fyrir berast þar. Maggi var greinilega þreyttur, því hann sofnaði í stól fyrir framan sjónvarpið. Við komust þó allir í rúmið og sváfum eins og ungabörn fram á morgun.

Um morguninn vorum við ekkert að flýta okkur. Það var æðislegt veður og við nærðum okkur i rólegheitunum. Upp úr hádeginu lögðum við af stað og hjóluðum eins og leið lá með ströndinni. Strax þegar komið var út fyrir Keflavik fundum við mjög skemmtilegan stíg, sem er þó nokkuð grófur enda hlaðinn úr stórum steinum. Hann náði alla leið til Helguvíkur. Við fundum slóða þar í framhaldi af hinum og prófuðum hann. Hann endaði við einhverja olíutanka svo að við tók gönguferð með hjólin.

Það er ekki ofsögum sagt af sóðaskapnum þarna á Reykjanesinu, þarna hafði einhver gert sér litið fyrir og hellt úr ruslapoka, þannig að ýmis eilífðar nútíma úrgangur blasti við. Hvernig stendur á því að umbúðir verða svona mikið vandamál, þegar búið er að tæma þær og þær orðnar mikið léttari og meðfærilegri. Fræg eru dæmin um súkkulaðistykkin sem vega kringum 65 grömm með bréfi, svo eru þau borðuð og eftír eru um 3 grömm af bréfi sem eru gífurlega fyrirferðar mikil eða það mætti halda. Þessi bréf liggja út um allt sem undirstrikun á eilífðinni.

0403-kargi.jpg

Fuglarnir fóru að gerast þó nokkuð nærgöngulir við okkur þar sem við virtumst vera á varplandi þeirra. Það er skemmtileg sjón að sjá svartbakinn steypa sér niður eins og orustuvél, sveigja síðan upp rétt við hársræturnar á þeim sem hræða á í burtu. Hvað ef hann klúðrar uppsveiflunni? Maggi heldurðu að þú vildir vera svo vænn að fjarlægja Svartbakinn úr hnakkanum á mér?
Við náðum aftur upp á veg og vorum fljótir að skila okkur út á Garðskaga. Þar var ákveðið að næra sig þannig að næg orka væri til staðar fyrir restina af ferðinni þennan daginn. En annað átti eftir að koma í ljós. Við sátum þarna í góðu yfirlæti. Ég og Maggi vorum næstum því sofnaðir. Þá sáum við að það væri best að drífa sig áfram. Enn ákváðum við að fylgja ströndinni. Það reyndist Magga afdrifaríkt því að hér voru fuglarnir greinilega búnir að læra alveg nýja árásaraðferð. Það var að drita á okkur. Ég og Snorri sluppum þokkalega vel en Maggi varð eins og nýdreginn upp úr gúanóhaug.

Þarna örlítið lengra var bóndabær, þar sem mikið var af hundum, sem voru til alls líklegir, og þótti mér það nokkuð öryggi að eigendurnir voru þarna til staðar. En að sjálfsögðu héldu þeir að við værum útlendingar.

Stefnan var tekin á Sandgerði og þaðan áfram að Stafnesi. Okkur sóttist ferðin mjög vel og var tekin þvottapása í Sandgerði þar sem Maggi þvoði mesta dritið af hjálminum sínum. Alltaf vorum við að elta ströndina og skyndilega endaði vegurinn. Við sáum þó veg sem var merktur einkavegur og við hjóluðum hann af því að hann lá í þá átt sem við vorum að fara. Þetta áttu eftir að verða afdrifarík mistök, þegar við vorum búnir að þræða þennan einkaveg eða ætti ég frekar að segja einkaslóða þó nokkurn spotta sáum við að styttra væri að fara yfir ruslahaug þarna á svæðinu. Þegar haugarnir voru að baki vorum við komnir að stóru radarskermunum á Stafnesi. Við tókum myndir og grínuðumst yfir einhverjum sandpokum og byrgjum sem við sáum þarna. Þarna var þessi fíni malbikaði vegur en ekki vorum við lengi í paradís, því herlögreglan á Keflavíkurvelli stöðvaði okkur. Okkur vitanlega vorum við ekki inn á svæði Bandaríska hersins þar sem við höfðum ekki farið yfir neinar girðingar eða séð nein skilti í þá veruna. Þeir voru með hótanir að taka af okkur myndavélamar og annað í þeim dúr. Við vorum ekki ánægðir yfir þessari framkomu hrokafullra hermanna, sem sögðu okkur einnig að snúa við, nema við þekktum einhvern (sponsor) á vellinum sem gæti ábyrgst okkur.

Ferlega fúlir fórum við tilbaka og vorum ekki mjög ánægðir með þennan 15 km. aukakrók þegar svona var orðið áliðið dags. Þegar reiðin er til staðar er eins og ég fái auka orku og ég trampaði pedalana að miklum móð, alla leiðina til Hafnar. Þó var ein undantekning þar sem við stoppuðum til að taka myndir af flugvél blessaðs verndarans okkar. Meira að segja talstöðin hjá þeim kom alltaf inná útvarpið mitt. Enginn friður fyrir þessu hernaðarvafstri hljóð-, sjón- og umhverfismengun. Fyrir hverju eru þeir að vernda okkur? Rússum! Er ekki Rússagrílan steindauð? Ég vil fá að ferðast um landið mitt óáreittur og án afskipta einhverra útlendinga, hvaða nafni sem þeir nefnast.

Við stoppuðum ekkert í Höfnum, heldur héldum ótrauðir áfram fram á Reykjanestá. Þarna er landslagið hrikalega fallegt, í orðsins fyllstu merkingu, eintómt hraun og sandur. Það var farið að rökkva örlítið, þó ekki mikið og svolítið farið að draga af okkur, sérstaklega þó Snorra, Við vorum einnig orðnir frekar vatnslitlir og lítið um vatnsföng þarna um miðnættið. Þegar við höfðum prílað upp að vitanum og hvílt okkur augnablik var stefnan tekin á Grindavík. Aðkoman vestan megin að Grindavík er mjög undarleg þar sem hjóla verður framhjá Grindavík og niður fyrir og koma síðan norð-austan megin inn í þorpið. En tjaldstæði Grindvíkinga er þeim til sóma og kostar ekkert að gista þar, Við fengum okkur heita máltíð fyrir svefninn, tjölduðum og skriðum í svefnpokanna okkar yndislega þreyttir eftir langan dag.

Við vorum komnir á fætur um ellefuleitið og tróðum í okkur mat. Það fóru um tveir tímar í þessa máltíð. Síðan tókum við niður tjöldin og pökkuðum niður. Ég var orðinn filmulaus þannig að við kíktum í búðir. Það sprakk hjá Snorra og meðan hann gerði við héldum við Maggi áfram leitinni af filmu. Að lokum fundum við hana og gátum haldið áfram ferðinni.
Við hjólum eins og leið lá í átt að Kleifarvatni en eftir um átta km. beygðum við út af veginum inn á slóða sem lá í átt að Höskuldarvöllum. Þetta var góð tilbreyting að vera kominn inn á milli fjalla þar sem Reykjanesið er mjög flatt. Veðrið var mjög gott og ekki hægt að kvarta yfir því. Við dóluðum þarna og nutum útiverunnar út í ystu æsar.

Það er hluti leiðarinnar sem liggur yfir frekar gróft hraun, með miklum mosa og þar blasir við eyðilegging eftir jeppana, sem strikað hafa sín breiðu strik i landslagið. Þetta er ekki einfaldur slóði, heldur er eins og menn hafi keppst um að gera sem mestan óskunda. Ég ætla rétt að vona að þroski jeppamanna hafi eitthvað aukist seinni ár, þannig að landið fái að jafna sig. Rétt áður en komið er að Höskuldarvöllum, vestan megin við Trölladyngju er mjög gott svæði til að tjalda og þar er einnig rennandi vatn. Paradís í skjóli fjalla, með Keili i bakgrunni. Þarna sprakk hjá Snorra og það gekk ekkert að pumpa í hjá honum þar sem pumpan var orðin léleg. Þetta hafðist þó að lokin og við héldum áfram. Áður en komið er niður að Höskuldarvöllum þarf að fara niður mjög bratta brekku, sem rétt er hjólfær ef farið er varlega.

Þegar niður var komið fórum við eftir vegi, sem gerður hafði verið í hraunið til að komast í malargryfju þarna við Höskuldarvelli. Okkur sóttist ferðin vel og beygðum síðan inn á línuveg sem liggur samsíða Keflavíkurveginum. Þegar komið var til móts við Álverið snéri Snorri skyndilega við. Ég og Maggi skildum ekkert í því hvað var að gerast og þegar ég snéri mér við til að athuga málið var ég fastur í táklemmunni.

Ég valt á hliðina og rispaði mig frekar illa á fætinum. Við héldum að Snorri hefði tapað glórunni, að snúa við, þar sem hann var orðin frekar þreyttur. Það var ekki málíð, heldur hafði hann tapað tjaldstöngunum sínum og skammaðist sín svo mikið að hann vildi ekki deila því með okkur.

Ég og Maggi kláruðum línuveginn út að Krísuvíkurveginum og tókum því stefnuna heim á leið. Leiðir okkar Magga skildu við Staldrið og Snorri kom heim um einum og hálfum tíma seinna. Reyndar hafði mér og Magga grunað að Snorri hefði tapað tjaldstöngunum þannig að það kom okkur ekkert á óvart. Hann gat sjálfum sér um kennt, því að hann hafði ekki nennt að ganga frá þeim í tjaldpokann sinn.

En allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó og af ánægju út að eyrum hún Guðrún skellihló.

Hjól út í mýri, setti á sig stýri, úti er ævintýri.

KarGi.

Teikningar Karl G. Gíslason

Birtist fyrst í Hjólhestinum júní 1995.