Er nú mál að kveðja til sögunnar hetjur þær er fóru þessa þrumuför meðan megin þorri þjóðarinnar þjóraði á þjóðhátíð (og belgdi sig út af bjór og brennivíni með bæxlagangi og bavianaháttum). Má þar fyrstan nefna Magnús Alias "ðe væking káboy" og "ðe living ledsjend". Þykir hann misvaxinn niður þar sem efri helmingur skrokksins virðist ekkert eiga skilt við stimplana tvo sem ganga niður úr brjóstumkennanlegri yfirbyggingu þessa manns. Annar er maður nefndur, ungur og útitekinn. Sá er nefndur Karl og stefnir hátt. Öll er heildin sú heldur jafnari í vexti og allri gerð sinni, þó ekki ætli ég mér að fara út í nein smáatriði að svo stöddu. Hann er drengur góður og hvers manns maki, hjálpsamur og skiptir oft um sokka. Þriðjan má svo telja til sögunnar, þann sem þetta ritar og nefndur er Jón Örn. Hann er vænn (einsetu)maður, hógvær í skapi og vinur vina sinna. Þykir hann fremur væskilslegur vexti og er skrokkaskúlptúr hans hinn sérkennilegasti þar sem hver eining virðist vaxa eða eyðast án tillits til annarra hluta í þessum hrærigraut beina, skinns og sina. Sem sagt, hin magnaðasta samsuða af sköpunarverki vísindanna.
Hvað um það, þarna vorum við staddir á síðsumarnóttu og bjuggum okkur til svefns. Kalli kaldi skreið í svefnpokann og sofnaði með það sama undir berum himni, en við bræðurnir breiddum úr tjaldi mínu og töldum hoppandi rollur og grindverk.
Föstudagsmorguninn rann upp heiður og tær þar sem byrjað var á léttum Mullers æfingum og morgunmat. Ég sneri miðtannhjólinu við að framan og gat þar með notað alla gírana að nýju. Á Laugarvatni var étið eins og hver gat í sig troðið og að því loknu hjólað að Geysi. Þar var étið eins og hver gat í sig troðið #2 og fyllt í öll hugsanleg hólf af mat og juðeríi. (Juðerí er nýyrði yfir allt sem hægt er að juða og jóðla á sbr. nammigotterí). Þegar Geysi sleppti hófst loks hin eiginlega "svaðilför".
Til að komast inn á Holtamannaafrétt er farið um veg nr. 30 (Flúðir). Þegar komið er yfir Hvítárbrúna er sveigt til vinstri og þá má segja að maður sé kominn á Leppistunguveginn. Á leið okkar að áningarstað þessa dags var stoppað með jöfnu, og að sumra mati, nokkuð mörgum "orku endurnýjunar" hléum, en hverjum lá svo sem á? Heldur var á brattann að sækja svona fyrst í stað og norðan strekkingur gerði ferðina heldur torsóttari. Farið er upp með Hvítánni að austan og þarf að ganga spölkorn af veginum til að komast í tæri við Gullfoss. Landslagið skiptist á að vera eyðilegt og hrjóstrugt annarsvegar, og hinsvegar er þarna að finna grónar grundir og kjarrlendi. Þó nokkuð er um ár af ýmsum stærðum sem allar eru óbrúaðar, en yfir sumar þeirra er þó hægt að hjóla ef leitað er skammt út af slóðanum. Óneitanlega minnir landslagið á það sem sjá má nokkrum kílómetrum vestar sem er á Kili, en þó er eins og gróður sé öllu meiri hérna megin Hvítár, en satt best að segja gafst lítill tími til að pæla í þessum hlutum þar sem ég paufaðist þarna á eftir Magga og Kalla.
Þegar líða tóká daginn fór heldur að draga úr hetjuskapnum hjá mínum, enda maðurinn náttblindur mjög og lítt undir tímakeppni búinn að svo stöddu; soltinn og sár á skut. Þarna komst ég að því hvað blóðsykurskortur getur gert manni margt illt og það er ekkert til að sækjast eftir. Allt hafðist þetta þó að lokum og mikil var gleðin er við þreifuðum okkur loks um miðja nótt yfir ána við Svínárnes, þar sem gista átti um nóttina En fyrst var að gera grautnum góð skil, gæta að farangri og fleygja sér loks í langþráðan svefninn.
Fáum tímum síðar var risið úr rekkju og byrjað á mikilvægasta þætti dagsins; orkuhleðslunni. Maturinn í flestum hjólaferðum er að mestu leyti þurrkaður pakkamatur, hann er dýr en orkuríkur. Hann má drýgja með brauði, súpum, þurrkuðum ávöxtum eða núðlum og það sem nýjast er; bjúgum, sem er ódýr og fiturík fæða, en fita og kolvetni er undirstaða í fæðu okkar hjólaranna. Svínárnes er undir Bláfelli NA-verðu, á grösugri spildu með fallegu útsýni yfir til Kerlingarfjalla. Skálinn er í eigu hreppsins og er nýttur af bændum auk ferðamanna. Skálagjald er greitt með C-Gíró seðlum sem alla jafna er að finna í skálanum, sem er mjög gott fyrirkomulag, standi menn á annað borð í skilum. Á Svínárnesi er aðstaða öll hin ágætasta og rennur tær bergvatnsá rétt hjá skálanum.
Þegar lagt var af stað áleiðis til Kerlingarfjalla, komumst við fljótt að því að mýbit á sér griðland á þessum slóðum. Stundum varð mökkurinn svo mikill að vart sást til sólar og mátti heita að við gleyptum andann af flugum. Veður var hið besta þennan daginn, allt að því of gott, því hægviðrið gerði það að verkum að flugurnar áttu greiðan aðgang að sveittum skrokkum vorum og á tíma hlupum við um eins og hauslausar hænur undan þeim.
Þannig gekk það nú fyrir sig lengi vel. Landslagið mjakaðist framhjá í öllum sínum breytileika. Ýmist var það auðnin ein, en stundum lenti maður á grónum völlum með fyrirtaks moldargötum. Þannig var það er við nálguðumst Leppistungurnar og mættum nokkrum útlendingum á tveimur jeppum. Þeir sögðu okkur að vegurinn væri ófær sunnan undir Kerlingarfjöllum og ekki væri annað en að snúa við. Ekki vorum við á þeim buxunum, því þótt fjórhjóla jeppajárnið stæði fast í fyrsta skafli, gátum við einfaldlega teymt okkar traustu tæki yfir flest öll fúafen og aðra farartálma. En áður en að því kom var staldrað við í skálanum í Leppistungum. Langan tíma tók fyrir okkur Magga að vaða ár og læki sem virtist vera nóg af í kringum skálann, en þegar Kalli kom stuttu síðar, fengum við að frétta að allt hafi þetta verið meira og minna sama áin, nóg hafi verið að vaða einu sinni, og krækja svo fyrir allt heila sullið. (Ég man það bara næst, því þangað fer ég aftur). Skálinn er í eigu FÍ. og er nokkuð nýlegur, afar rúmgóður og meira að segja með vatnssalerni, sem ekki er að finna í öllum skálum á hálendinu. Eftir að hafa nýtt okkur alla þá aðstöðu sem hr. Gustavsberg leyfði, var lagt í seinni hluta áfanga þessa dags og hófst hann eins og hann endaði; í vaðskóm með hjólið á öxlinni. Eftir nokkurn tíma fórum við að verða varir við "ófærðina" sem okkur var sagt frá. Veturinn hafði verið snjóþungur og sumarið kalt á þessum slóðum, því fóru æ stærri skaflar að gera vart við sig og urðum við að teyma hjólin yfir þá. Að lokum komumst við inn á Kerlingarfjallaafleggjarann og enn voru vaðskórnir dregnir fram, áður en við komumst upp á síðustu hæðina og litum yfir öll mannvirkin og tjaldsvæðið í kvöldhúminu.
Er við renndum í hlað, tók á móti okkur skjögrandi unglingsgrey og Spurði okkur á drafandi barnaskólaensku: "Esskhjúss míh, butt dú jú heff ení brennivín tú sell mí?" [ Fyrirgefið mér, en ekki vænti ég þess að þér eigið til sölu íslenskt Brennivín?]. (ísl. þýðing: J.Ö.). Ekki gátum við komið þessari fyrirmynd landserfingjanna til hjálpar, heldur röltum við okkur inn í skíðaskálann. Strax kom í ljós að Örnólfur "Kerlingarfjallakandídat" var að kyrja sinn söng í sjötugasta sinn. Kalli tjáði okkur hinum óupplýstu að sama prógrammið hefði runnið í gegnum hendur þessa manns síðan skálinn var reistur; sömu gömlu lummurnar í sömu röð, sömu frasarnir, sömu " brandararnir" og jafnvel sama fólkið. Við forðuðum okkur því hið bráðasta og röltum með hjólin niður á tjaldsvæðið. Þar settum við upp tjöldin í svarta myrkri, rifum upp nestið og tókum það náðugt.
Sunnudagsmorguninn rann upp sem aldrei fyrr, skartaði sínu fegursta og lofaði öllu góðu. Að vísu vorum við rukkaðir um óheyrilegar upphæðir í aðstöðugjöld, þó svo við reyndum að vera farnir áður en að því kæmi. Rétt fyrir hádegi vorum við tilbúnir að leggja í' ann, en með nokkrum breytingum á áætlun. Maggi og Kalli ætluðu að fara norður fyrir Kerlingarfjöll og þaðan niður með Þjórsánni vestanverðri og er það þeirra að segja frá þeirri ferð. Ég ætlaði aftur á móti að fara upp á Hveravelli til að hitta kunningja minn (sem ég náði reyndar ekki í), og þaðan suður Kjöl.
Lítið er að segja af för minni þennan daginn, sama blíðan allan tímann og blússandi meðbyr á suðurleiðinni. Í Hvítárnesi voru fyrir fjórir frískir ferðalangar, breskir að ætt og uppruna sem voru að kanna Ísland á hjólum sínum. Öll voru þau með farangurinn í bakpoka sem ég á erfitt með að skilja að geti verið þægilegt.
Víkur nú sögunni suður á Laugarvatn, þar sem ég ætlaði mér náttstað. Svo illa vildi til að einhverjir sértrúarsöfnuðir höfðu safnast þarna saman og mátti heyra í þeim halelúja hvininn fram eftir öllu. Þegar því linnti, sofnaði ég loks á mínu græna eyra. Síðasti dagur ferðarinnar rann upp og ætlaði ég að nota hann til að heimsækja æskuslóðirnar í Grímsnesi sem og gamla vinnufélaga. Í stuttu máli gekk ferðin með eindæmum vel, enda veðrið með okkur allan tímann, fjölbreytt landslag og yfirleitt allt sem góð fjallaferð getur boðið upp á. Ferð um Leppistungur er hiklaust hægt að mæla með.
Reykjavík anno 1994 Jón Örn
Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 1995.