Víkur nú sögunni til þess dags þegar seinni hluti ferðarinnar var undirbúinn. Núna átti að fara norður Kjöl, um Norðurland, að Brekkulæk í Miðfirði og þaðan í bæinn. Undirbúningur hófst stuttu fyrir brottför. Keyptur var matur og varahlutir fyrir ferðina auk þess sem hjólin voru gerð upp eftir volk fyrri ferða. Lagt var af stað 2. júlí 1992 í blíðskaparveðri. Fyrsti áfangi ferðarinnar gekk stórslysalaust fyrir sig. Þótt komið sé fram í júlí var fátt um ferðamanninn við Gullfoss og á leið okkar að Hvítárnesi mætum við einungis þremur bílum (sem betur fer), en engum hjólreiðarmönnum. Kjalvegur er á þessum tíma tiltölulega nýopnaður fyrir umferð (opnar uppúr miðjum júní), sem þýddi að hann var lítt árennilegur, grófur og harður þvottabrettisrembingur langleiðina norður eftir.

Við Gullfoss

Annars var færðin ekki alslæm, bramboltið gleymdist fljótt í fegurðinni og kyrrðinni á Kili. Ekki var veðrið að atast í okkur þá stundina, glampandi sól, hiti og heiðríkja svo fjallasýnin skartaði sínu fegursta. Jarlhetturnar teygðu sig upp og földu Langjökul bakvið sig, en Bláfellið mjakaðist nær og nær.

Mesta puðið í allri ferðinni er eflaust að dragast upp Bláfellshálsinn. Snarbrattur vegurinn hlykkjast endalaust upp í móti og þegar upp er komið má allt eins búast við rigningardembu, því Bláfellið virðist draga að sér ský úr margra mílna fjarlægð. Upp við fjallið er að finna eina stærstu "vörðu" á landinu, margra metra háa steinhrúgu sem Kjalfarar bæta sífellt á í von um farsæla ferð. Ofan af hálsinum er víðsýnt til flestra átta, allt frá láglendi Suðurlands, til Hlöðufells, Langjökuls, Hvítárvatns og norður á Hrútfell, Kjalfell og Kjalhraun. Eftir rigningardembuna héldum við áfram för okkar.

Á Kili


Fyrsti náttstaður okkar var Hvítárnes, sem er elsti skáli Ferðafélags Íslands. Skálinn sjálfur og umhverfi hans eru ein af náttúruperlum landsins þar sem Hvítárvatn er í næsta nágrenni, umgirt móum og mýrlendi og Langjökull gnæfir yfir öllu saman. Í skálanum voru þar fyrir fjórir erlendir hjólreiðamenn sem höfðu verið að þvælast um hálendið í tvær vikur. Létu þeir vel af dvöl sinni hér, sem vonlegt var og vonuðust eftir að koma hingað aftur.

Við Hvítárnes

Upp frá þessu fór að bera meira á hjólreiðafólki, flest frá Þýskalandi eða þýskumælandi löndum, en einnig frá Frakklandi, Ítalíu og Bretlandi. Frá Hvítárnesi lá leið okkar til Hveravalla um auðnulegt landslag hálendisins. Vaðið yfir Svartána norðanmegin er meðalstórt en auðfarið. Við stöldrum rétt aðeins hjá Eyvavörðu og virðum fyrir okkur landslagið; Kerlingafjöll, Hofsjökul og allt þetta víðfeðma tungllandslag hvert sem augum er litið. Á leiðinni má einnig sjá minnisvarða um Geir Zoega, stofnanda F.Í., og mikinn ferðamálafrömuð.

Heitt hafði verið þennan dag og því var lauginni á Hveravöllum gerð góð skil um kvöldið. Þessi náttúruperla Íslands skartaði sínu fegursta þann tíma sem við vorum þarna. Fátt var um manninn er við komum og ekki var búið að setja upp girðingar og höft hverskonar kringum hverina sem spilltu umhverfinu á allan hátt. Svo vel vildi til að Þórður þekkti veðurathugunarfólkið á Hveravöllum og nutum við góðs af nærveru þeirra í veitingum hvers konar. Tíminn var notaður til að skoða hitasvæðið og nánasta umhverfi. Við vorum jú staddir á söguslóðum; Eyvindarhola og Eyvindarrétt, já og Reynisstaðabræðurnir biðu okkar í einhverri gjótunni.

 

Buslað yfir Seyðisá


Eftir þessa sæluvist héldum við svo för okkar áfram. Fljótlega var komið að Seyðisánni, einu verulegu hindruninni á Kili. Sú á er nokkuð stór en alls ekki hættuleg vönum. Nokkuð var af ferðamönnum sem voru að leggja á vaðið og svo voru þarna hráblautir garpar sem voru að þurrka bæði föt og farangur eftir að hafa lent öfugir í ánni. Ótrúlega oft sér maður það að hjólreiðafólk teymi fáka sína yfir djúpar (jökul)ár og passi ekki upp á legur og annan viðkvæman búnað á hjólunum. Þarna við Seyðisána hittum við fyrir þýskt par sem var í sinni fyrstu Íslandsreisu. Þau voru að sjálfsögðu bæði á hjólum en það sem kom okkur mest á óvart var að konan var komin nokkra mánuði á leið. Létu þau vel af reisunni á hálendinu og einu áhyggjurnar voru að ná ekki nógu fljótt til byggða ef að eitthvað kæmi upp á með frumburðinn. Hörku par það.

Nokkru norðan við vöðin hittum við fyrir ítali sem við höfðum fyrst hitt við ána. Núna voru þeir komnir í vandræði með sveifarlegur á einu hjólanna. Vatn hafði komist í leguhúsið og þurrkað allt upp svo nú brakaði og brast í öllu. Nú voru góð ráð dýr en verkfærakista okkar Þórðar kom nú að góðum notum. Ekki ætla ég að fara núna út í einstök atriði útbúnaðar okkar en oft sýndi sig að næg verkfæri og varahlutir koma ekki bara okkur að notum heldur og öðrum ferðalöngum sem verða á vegi okkar.

Framundan var lengsta dagleið okkar, um 110 km, frá Hveravöllum til Reykja í Ásum. Þessi hluti ferðarinnar var fremur viðburðalítill. Brekkan við Áfangafell tók nokkuð á en þar uppi er útsýnisskífa. Margt hefur breyst í ásýnd á norðanverðum Kili með tilkomu Blönduvirkjunarinnar og má þar fyrst nefna hið geysimikla Blöndulón. Síðla dags brunuðum við niður í Blöndudalinn, sem er einn sá fallegasti og vinalegasti sem ég hef séð, með mörgu stórbýlinu og gróðursælum jörðum.

Til Reykja var komið seint um kvöld og vorum við orðnir æði slæptir og framlágir eftir mikinn barning á móti vindi seinni hluta áfangans. Við Reyki er starfrækt sundlaug og sumarhótel ásamt fleiru, en vegna almennrar leti og tímaleysis var sundlauginni ekki gerð nægilega góð skil en matseðillinn var étinn upp til agna. Eftir að tjaldið var sett upp á fótboltavelli staðarins, var stokkið í poka og þreytan látin líða úr skrokknum.

Næsta morgun hafði lítt lægt en við létum það sem vind um eyru þjóta, tróðum draslinu í töskurnar, birgðum okkur upp af blóðsykursfæði og héldum af stað. Fljótlega tók við þjóðvegabrun með öllum beim hættum sem því fylgdi; bílatraffík og steinkasti, hornaflokkur bifreiðasinna þeytti lúðra sína í eyru vor mest alla leiðina og pústið fyllti loftið annarlegum þef. Okkur langaði mest til að snúa við þá stundina.

En áfram var haldið, í gegnum Víðidalinn og inn í Miðfjörð í Hrútafirði. Þegar að Brekkulæk var komið var lagst í leti, rjóminn sleiktur af tertunum og hunangið úr krukkunum. Þarna var að venju margt um manninn og er ótrúlegt hvað hægt er að kynnast fólki á skömmum tíma þegar kringumstæðurnar eru þannig.

Þar sem öllum skylduverkefnum okkar var lokið sigum við af stað á öðrum degi. Að venju fórum við um Hrútafjarðarháls, yfir í Hrútafjörð og þaðan í bæinn. Til Reykjavíkur var komið 9. júlí. Stuttri en skemmtilegri ferð um hálendi Íslands var lokið.

Jón Örn Bergsson
Birtist fyrst í Hjólhestinum, mars 1994