Þar sem tengihjólið kemur í veg fyrir að ég geti haft nokkuð ofan á bögglaberanum, setti ég bögglabera á tengihjólið, og því nokkur viðbótarvægi þarna alveg aftast, þó svo að ég hafi reynt að raða léttari hlutum á drenginn, svo sem tjaldi og tjalddýnum.
Í fyrra skiptið flugum við til Hamborgar, tókum ferjur yfir Femer belti og hjóluðum norður Láland, Falstur, Mön og Sjáland til Kaupmannahafnar. Þaðan vestur yfir Sjáland til Kalundborg til Sámseyjar og síðan áfram til Jótlands. Fórum vestur til Billund og síðan norður Herveginn til Álaborgar og flugum þaðan heim.
Í síðara skiptið flugum til Amsterdam og hjóluðum um Holland, Belgíu, Lúxemborg, Þýskaland, en við hjóluðum niður Mosel dalinn til Koblenz og síðan upp Rín á vesturbakkanum, að Lorelei og þaðan ferju til Bingen (sem er fjölskyldusiður þá í Rínardal). Þá suður á bóginn til systur minnar sem býr skammt suður af Karlsruhe, með stuttri og óvæntri viðkomu í Frakklandi, vegna þess að sumar ferjurnar yfir Rín voru ekki starfræktar vegna mikilla vatnavaxta. Síðan aftur norður, framan af meðfram austurbakka Rínar, langleiðina til Bonn, hvaðan við tókum lestina til Düsseldorf og þaðan var flogið heim.
Við gistum í tjaldi, hjá ættingjum og vinum og hjá Warmshowers gestgjöfum, helst með börn á svipuðu reiki, og í Danmerkurtúrnum vorum við samtals eina nótt á hótel og aðra í AirBnB, en annars greiddum við fyrir gistingum í hvorugum túrnum utan skipulegra tjaldsvæða.
Eðli málsins samkvæmt, hafa vegalengdir ekki verið eins langar og þá ég er einn á ferð. Kemur þar m.a. til að við heimsóttum fjöldan allan af skemmti-, dýra-, vatna og afþreyingargörðum og reyndum yfirleitt að láta ekki meira en 2 til 3 daga líða á milli slíkra heimsókna. Þá spiluðum við í tjaldinu á kvöldin og jafnvel á morgnana og stoppuðum við flesta leikvelli og aparólur sem við rákumst á (sem oftast eru ágætir nestisstaðir).
Í fyrri ferðinni tókum við þó einn dag með yfir 90 km hjólun og að minnsta kosti þrjá slíka í þeirri síðari, en almennt vorum við að taka á milli 60 til 70 km á dögum þar sem engir meiriháttar garðar voru heimsóttir.
Drengurinn unir sér yfirleitt vel á hjólinu. Þá við erum utan þéttbýlis, erum við með lítinn ferðahátalara á milli okkar og hlustum á sögur og ævintýri saman. Þannig heyra gangandi líka aðeins í okkur, rétt áður en við tökum fram úr þeim á stígum. Sögurnar eru stundum svo spennandi að við megum helst ekki vera að því að stoppa.
Í upphafi fyrri ferðarinnar lék grunur á að ekki legðu allir alltaf jafn hart að sér við að knýja reiðskjótann úr sporum. Reyndist þá stundum vel að benda á gamla konu á reiðhjóli á stígnum framundan, og ræða æskilegheit þess að ná henni hratt og örugglega. Var þá oft í framhaldinu hjólað af kappi þar til sú gamla hvarf í rykið. Einnig þegar einhver nálgaðist fullhart aftan frá, þá reyndist það hvatning til að slá ekki slöku við. Svo lagði ég sérstaka áherslu á að fá stuðning í brekkum. Ég reyndi samt alltaf að ræða ferðina sem samvinnuverkefni okkar, við þyrftum báðir að hjóla og hjálpast að, bæði á hjólinu, við tjöldun og annan frágang og gaman að sjá drenginn þroskast og taka vaxandi ábyrgð á ferðalögunum. Í síðari ferðinni var hann orðinn allsjóaður í að halda löngu og jöfnu álagi, óháð gömlum konum, þó svo að við tókum vel á því þegar við hjóluðum niður Rínardalinn að vinna ferjurnar, og sinna öðrum föstum verkum sínum á náttstað.
Heimsóknir í skemmtigarða hafa það gjarnan í för með sér, sérstaklega þegar stefnan er sett á æsilega rússibana, að mælistiku er brugðið á gesti, og sumir stundum full léttvægir fundnir þegar kom að stærstu tækjunum. Þetta hefur síðar orðið okkur feðgum mikil hvatning til að klára matinn okkar, og jafnvel fá okkur ábót, svo sentimetrunum megi verða fjölgað. Við uppskárum því stærri rússibana í síðari ferðinni, en enn mun þó vera svigrúm til bætingar og þeim allra stærstu hefur enn ekki verið gerð skil.
Norðvestur Evrópa er full af allskonar viðkomustöðum, hafa góða hjólreiðainnviði og þéttriðið net fáfarinna sveitavega, auk þess að vera frekar flöt. Þar er jafnframt að finna fjölda fólks sem við þekkjum sem og mesta þéttleika Warmshowers. Hitastig er þar oft þægilegt í júní og sá mánuður almennt frekar þurr. Þá er gírað tengihjól mikil nauðsyn fyrir svona langar ferðir. En nú er tengihjólið orðið fulllítið, bæði andlega og líkamlega fyrir drenginn, og þá taka við fleiri og öðruvísi áskoranir á ferðalögum. Hvað gerist í sumar á eftir að koma í ljós. En ef þessi frásögn kveikir í einhverjum, þá er ferðavant tengihjól til sölu.