Ég hlakkaði til að koma mér á fimm dögum milli landshluta fyrir eigin vélarafli. Ég held að maður sé ekki gerður fyrir að geta verið á mörgum stöðum á skömmum tíma. Hraði reiðhjólsins er kannski mátulegur til að fara ekki fram úr sér. Ég var með 18kg af farangri! Allt á bögglaberanum nema vatnsbrúsa og litla mittistösku. Við nútímamenn erum svo miklir aumingjar að geta ekki lifað af úti í náttúrunni í nokkra daga án þess að dröslast með allan þennan búnað. Öll hin dýrin geta það! Ég fann strax fyrir þyngdinni í fyrstu brekkunni innanbæjar í Reykjavík! En svo vandist þetta.
Því fylgja ákveðnir kostir að vera ein á ferð. Ég ræð algjörlega ferðinni, bæði hraðanum og fata-, mynda-, nestis-, pissu- og bugunarstoppum án þess að tefja aðra. Í hópferð hugsa ég oft hvað ég ætla að nota næsta stopp í....fara í vettlinga, fá mér vatn, kíkja á símann....en þegar ég er einráð þá bara stoppa ég til að fara í eða úr þó ég sé nýbúin að stoppa til að taka mynd!
Augljós ókostur við það að vera ein á ferð er auðvitað ef eitthvað kemur upp á, sem blessunarlega gerðist ekki í þessari ferð. Ég var auðvitað með viðgerðardót fyrir bæði hjólið og sjálfa mig en hafði engin not fyrir það.
Fossvogur – Úthlíð
Fyrsta daginn lá leiðin yfir Mosfellsheiði til Þingvalla og yfir Lyngdalsheiði að Laugarvatni þar sem ég hafði hugsað mér að tjalda. Við Þingvallavatn fór ég fáfarna stíginn sem liggur milli Hestagjár og vatnsins í staðinn fyrir að fylgja þjóðveginum að Hakinu. Síðan er langsniðugast að hjóla veginn niðri við vatnið sem er lokaður bílum í annan endann og því nánast engin umferð. Með þessu móti liggur leiðin ekki framhjá þjónustumiðstöðinni.
Úr því veðrið var dásamlegt þurfti ég að finna eitthvað annað til að skaprauna mér....flugurnar! Það er sjaldgæft að lenda í flugnageri á ferðinni, öðru máli gegnir þegar maður stoppar. En flugurnar við Þingvallavatn voru í fantaformi og ég náði ekki að stinga þær af nema á yfir 20km hraða, þær héldu í við mig á 15 km/klst. Þannig fylgdi flugnahópur mér alla Lyngdalsheiðina og fluttist þar með búferlum frá Þingvallavatni að Laugarvatni. Ég stakk þær fyrst almennilega af í löngu lokabrekkunni niður af heiðinni þar sem ég fór upp í 50km/klst – sem er ekki endilega til eftirbreytni - en þarna náði ég mesta hraða í allri ferðinni.
Maður og sonur komu að „heimsækja“ mig á Laugarvatn og við fórum saman á veitingastað. Veðurblíðan var engri lík og allt gekk vel svo það var upplagt að búa í haginn fyrir næsta dag, bæta 20 km við um kvöldið og tjalda í Úthlíð. 92 km þann daginn.
Úthlíð – Árbúðir
Að morgni var allt blautt í Úthlíð og tjaldinu pakkað blautu. Hjólað af stað um kl 9:15 og þá þegar komin talsverð umferð á Gullhringnum. Skyldustopp auðvitað við Geysi og Gullfoss. Á báðum stöðum eru skilti sem vara við vasaþjófum, en það er galli við að ferðast einn á hjóli að þurfa að geyma nokkuð verðmætan farangur eftirlitslausan á hjólinu meðan maður t.d. skreppur inn á klósett eða að kaupa sér einn banana á 250-kall í Gullfosskaffi! En ég var búin að gera ráð fyrir að nýta verslanir og veitingastaði eins lengi og þeirra naut við á leiðinni til að takmarka farangur úr Reykjavík.
Þvílík kyrrð að komast út af Gullhringnum. Malbikið nær allt að 15 km lengra en að Gullfossi og algjör draumur að hjóla þann spotta. Aðeins einn og einn bíll á stangli, fögur fjallasýn og lúpínubreiður. Svo var aftur komin brakandi blíða og tjaldið dregið upp til að þurrka það meðan ég nestaði mig á dýra banananum og krömdu croissant.
Fyrir neðan Bláfell er löööng brekka sem ætlaði engan enda að taka. Rúmlega 300m hækkun á 5 km kafla upp Bláfellsháls.
Ég tjaldaði við Árbúðir og voru þá komnir 65 km þann daginn. Vel tekið á móti mér í Árbúðum og aðstaða til fyrirmyndar. Þar voru tvö önnur tjöld, einn ferðabíll og í skálanum hópur erlendra ferðamanna í hestaferð.
Árbúðir – Hveravellir
Samkvæmt veðurspá var von á stífum hliðarvindi en nei, nei, nánast logn og flugur framan af degi. Ég bjóst ekki við þeim þarna á miðju hálendinu, jafnsprækar og Þingvallaflugurnar, sennilega ættingjar þeirra nema þær sömu hafi náð að elta mig uppi. Ég setti stefnuna á Hveravelli, 48 km. Falleg fjalla- og jöklasýn á leiðinni. Ég var búin að ákveða að þegar ég yrði hálfnuð með áætlaða kílómetra dagsins myndi ég fagna þeim áfanga og líta svo á að öll ferðin væri þá hálfnuð því þetta var miðjudagurinn minn. Viti menn, þegar mælirinn sýndi nákvæmlega 24,00 km var ég akkúrat stödd undir stórri stæðilegri vörðu. Það var engu líkara en hún hefði verið reist þarna til heiðurs mér á þessum stóru tímamótum, hálfnuð úr Fossvogi að Löngumýri. Við nánari eftirgrennslan reyndist hún hafa verið reist til heiðurs honum Eyva og heitir Eyvavarða. Ég ákvað að hringja í manninn minn því það var jú enginn á staðnum til að samgleðjast mér. Hann var í vinnunni og hvíslaði „Hæ, ég er á fundi...“ – Ég hugsaði bara: „Fundi?! Þetta er sko miklu merkilegra! Ég er hálfnuð og það er varða....!“
Þessi dagur reyndist auðveldari en ég hafði búist við, hvorki veður, vegur né hækkun var eins slæmt og ég hafði gert mér í hugarlund. Reyndar mætti stífa austanáttin loksins undir lok ferðar en ég náði að Hveravöllum fyrir klukkan hálfsex.
Það getur verið kúnst að finna jafnvægi milli þess annars vegar að njóta, hangsa og stoppa og hins vegar að keppast við að ná áföngum eins og helmingi leiðarinnar, hæsta punkti, eða áfangastað.
Bílstjórar á Kjalvegi voru jákvæðir og hvetjandi, veifuðu, klöppuðu eða gáfu þumal.
Hveravellir stóðu ekki alveg undir væntingum. Ég keypti mér kvöldmat á veitingastaðnum á tæpar 5.000 kr., sem minnti mig samt helst á frosinn Bónus-rétt eða 1944. Það er sérstakt því oft eftir mikla útiveru og hreyfingu verður jafnvel gömul kramin samloka eins og herramannsmatur. Matseðill og allt var á ensku. Klósettin og sturtan fyrir tjaldbúa hrörlegt og mjög skítugt. Ég borgaði 2.500 fyrir tjaldstæði en þurfti samt að borga 500-kall næsta morgun fyrir að fylla brúsann minn af heitu vatni. Í raun átti ég líka að borga fyrir að hlaða símann en starfsmaðurinn lét það sleppa þó ég stingdi í samband rétt á meðan ég borðaði.
Það var bálhvasst orðið og tjaldsvæðið opið fyrir öllum áttum svo það reyndi á útsjónarsemi að tjalda ein án þess að missa frá mér tjaldið á meðan. Það var ekki nokkurt vit að reyna að fara í náttúrulaugina í þessu roki og labba á sundbolnum einhverja 200 metra milli tjaldstæðis og laugar. Þannig að flest við Hveravelli olli vonbrigðum þó ekki hafi rokið verið staðarhöldurum um að kenna. Ég svaf hins vegar ljómandi vel, besta tjaldnóttin af fjórum var í hvassviðrinu á Hveravöllum.
Hveravellir – Aðalmannsvatn
Um morguninn hafði lægt nokkuð en var komin rigning. Þetta var samt mun skaplegra veður til að freista þess að fara í laugina, sem ég gerði klukkan átta að morgni. Ómögulegt að vera búin að burðast með 200g af sundbol alla leið úr Reykjavík án þess að nota hann! Aðeins einn annar gestur var í lauginni, Skoti, hjólandi eins og ég og á svipaðri leið svo það var skemmtilegt að bera saman bækur sínar. Ég hafði fram að þessu ekki hitt neinn annan hjólreiðamann á Kjalvegi. Eftir laugina mátti ég nota sturtu inni í stóra gistihúsinu í stað ógeðslegu sturtunnar á tjaldstæðinu. Hveravellir hækkuðu þannig dálítið í einkunnagjöf hjá mér. Samt skrýtið að sturtan sú var inni á klósetti fyrir fatlaða, ég dreif mig eins og ég gat ef einhver hefði nú þurft að nota klósettið.
Nú rættist veðurspá dagsins á undan. Bálhvöss austanátt allan daginn. Varla hvíld frá henni í pásum heldur í þessu eyðimerkurlandslagi. Til að byrja með samt hliðar/með-vindur. Það var búið að vara mig við miklu þvottabretti á leiðinni en vegurinn hlýtur að hafa verið með betra móti nema þá einna helst þarna á fyrstu 10 km norðan við Hveravelli. Það var lítilsháttar rigning með köflum fram að hádegi en ég hjólaði í regnfötunum allan daginn fram á kvöld þar sem þau eru vindheld líka. Þetta var LANG erfiðasti dagurinn og sá eini sem ég var kannski meira að afplána en að njóta. Svo lá vegurinn beinlínis upp á fjall, Áfangafell. Eftir 50 km frá Hveravöllum tók ég hægribeygju út af Kjalvegi, veg sem fer yfir Blöndustíflu. Ég vildi ekki fara Kjalveginn á enda og hjóla síðan 25 km eftir þjóðvegi 1 að Varmahlíð þar sem er brjáluð umferð, blindhæðir og engin öxl. Var búin að ákveða að taka í staðinn þessa beygju við Blöndulón, upp á Eyvindarstaðaheiði og fara næsta dag Mælifellsdal beint í Skagafjörð. Enginn þjóðvegur 1.
Eftir beygjuna voru aðeins 15 km eftir að áfangastað dagsins....en ég var næstum þrjá klukkutíma að komast þá! Bilaður mótvindur og brekkur. Það er heldur ekki auðvelt að teyma upp brekkur með hjólið svona þungt að aftan. Aðalmannsvatn á Eyvindarstaðaheiði er líka kallað Bugavatn og skálinn sem ég tjaldaði við Bugaskáli og ég veit sko alveg út af hverju! Bugun! Þetta er gamall 12 manna skáli og þar reyndust vera Íslendingar í hestaferð. Þau kynntu sig sem gamla Skagfirðinga og úrval Eyfirðinga og buðu mér að borða með þeim sem var vel boðið en ég kunni ekki við að ryðjast inn í allt að hálfrar aldar gamlan vinskap fólksins. En tjaldaði fyrir utan og fékk afnot af klósetti. Var nú með reynslu frá kvöldinu áður af því að tjalda í roki. 65km þennan dag. Kílómetrarnir segja ekki allt, þetta var líklega erfiðasti hjóladagur sem ég hef reynt. Ég hefði auðvitað getað tjaldað fyrr og var ekki einu sinni viss um að nokkur væri í skálanum en það var gott að ná þangað og vita af fólki ef eitthvað kæmi upp á.
Aðalmannsvatn - Langamýri
Ljómandi veður á Eyvindarstaðaheiði næsta morgun, síðasta hjóladaginn. Mælifellsdalsvegur er afar fáfarinn, náði varla einum bíl á klukkutíma þó hásumar væri.
Mjög friðsælt og fallegt. Breiður af þjóðarblóminu og fleiri blómum.
Einn af mörgum áföngum á leiðinni var að sjá niður í Skagafjörð, vera búin að tengja saman suður- og norðurlandið með öðrum hætti en að bruna á bíl yfir Holtavörðuheiði. Mér fannst ég litlu hænuskrefi nær gömlum lifnaðarháttum forfeðranna þó ferðamátinn væri öðruvísi og allur búnaðurinn. En hjólið og búnaðurinn minn stóð sig ljómandi vel. Ég var með tvo hleðslubanka, annan með sólarsellu, en það reyndi mjög lítið á þetta þar sem síminn var nýlegur og hélt vel hleðslu.
Það var mikil lækkun niður í Mælifellsdal. Mjög falleg leið. Mikill kostur að vera á hjóli og geta stoppað hvar og hvenær sem er til að kíkja út fyrir veginn og taka myndir, sem er ekki mögulegt á bíl. Mælifellsdalur er vinsæl rallýleið og ég bara vorkenndi vesalings rallýökumönnunum sem geta ekkert haft augun af veginum. Einn rallýfrændi minn sagðist reyndar eitt sinn hafa „ákveðið“ að „leggja“ rallýbílnum úti í á til að taka inn umhverfið og náttúrufegurðina!
Mælifellsdalur var eini staðurinn á allri leiðinni að heiman frá mér þar sem ekki var nema mjög takmarkað net- og símasamband.
Ég upplifði þetta sem einn fallegasta hluta leiðarinnar. Ásamt auðvitað Þingvöllum, Geysi og Gullfossi, en þangað hefur maður svo oft komið áður. Í fegurðarsamanburði er samt erfitt að núlla út áhrifin af bæði sólskininu og þeirri staðreynd að endatakmarkið var rétt handan við hornið. Eftir hádegi þennan dag var kunnuglegur mótvindur mættur aftur til leiks, nú úr norðri. En hvað liggur á? Ég náði á Löngumýri um hálfsex, á undan flestum öðrum mótsgestum. 317km, þar af hálfur kílómetri á þjóðvegi 1.
Ég mæli með Mælifellsdalsvegi sem dagstúr á hjóli. Fá skutl upp að Blöndulóni og láta sækja sig þar sem fjallvegurinn endar í Skagafirði. Það eru um 47km. Alls ekki hjóla í hina áttina sem væri mikil hækkun. Það er ekkert að marka þó ég hafi verið svona óralengi með fyrstu 15km af þessum vegi, það gerði mótvindurinn. Ábyggilega mjög skemmtilegt við góðar aðstæður.
Þessir hjóladagar í einverunni voru góður undirbúningur fyrir Löngumýrarmótið, nokkurs konar kyrrðardagar. Tja….reyndar var ekki kyrrlátt á Gullhringnum. Og hávaðarokið sem ég lenti í kunni heldur ekki að virða þögnina.
Á mótinu fékk ég svo uppfylltar andlegar, líkamlegar og félagslegar þarfir eftir fimm daga einveru.
Ég fékk bílfar heim!