Stundum þarf þó að fara út á land, ég vildi fylgja bróður mínum til grafar á Ísafirði.  Á ég að fljúga?  Á þessum árstíma (síðla hausts) þarf að gera ráð fyrir því að flug falli niður.  Á ég að keyra?  Það getur tekið 7-8 tíma...  já, ég er þessi gamla kona sem keyrir helst ekki hraðar en á 80 km hraða.  Ég ræð ekki við svo langa keyrslu á einum degi.

En þá datt mér í hug að fara bara í hjólaferðalag í leiðinni, keyra hálfa leið, hjóla 20-30 kílómetra til að liðka mig og gista.  Á leiðinni vestur gisti ég í Búðardal og tók hjólatúr út í nærliggjandi sveit.  Fór svo út að borða, lét mig líða ofan í heitan pott, gisti í uppábúnu rúmi og fékk fínan morgunverð næsta dag.  Svo fór ég án þess að þurfa að þrífa. Lúxus.

Á bakaleiðinni gisti ég í smáhýsi í Djúpadal á sunnanverðum Vestfjörðum.  Var með nesti og nýtt rafmagnshjól.  Hjólaði mjög svo skemmtilega leið yfir Hjallaháls (góðar brekkur) og til baka í gegn um Teigsskóg.  Það var komið svarta myrkur, hjólaljósin lýstu upp skóginn og mátti sjá kynjamyndir hér og þar.  Ég er ekki hissa á draugasögum fortíðarinnar, meinlausir skuggar geta lengst og glapið sýn.  Það er verið að brúa lengri leið yfir að Skálanesfjalli og þá verður til góð hringleið sem gaman verður að hjóla eina dagsstund.  Í Djúpadal er lítil sveitasundlaug með heitum potti.  Og allra handa gistimöguleikar.

Það sem mér hefur þótt erfiðast sem umsjónaraðili hjólaferða er að hafa vit fyrir fólki, sem gerir sér ekki grein fyrir eigin getu, eða réttara sagt getuleysi.  Það getur líka verið erfitt að þurfa að hemja þá sem vilja fara hraðar, en þegar fólk hjólar í hóp þarf að gæta meðalhófs og stilla væntingum um ferðahraða í hóf.  Njóta en ekki þjóta.  Samt ekki hangsa.  En nú er ég sjálf komin í þann hóp að geta ekki gert allt sem mig langar til að gera.  Ég var nánast búin að leita á náðir björgunarsveita við göngu að eldstöðvunum við Sundahnjúka.  Eftir 3ja kílómetra göngu jukust verkir í mjöðm og ég missti máttinn í öðrum fótleggnum.  Svo ég fer ekki lengur í gönguferðir með öðrum eða hjólaferðir þar sem ég get búist við að þurfa að leiða hjólið um torfærur.  Skítt og laggó þó að ég sé ein á ferð og þurfi að taka mér tíma til að komast til baka, en það er ekki rétt að leggja af stað með öðrum, vitandi um vanmátt sinn og setja félaga sína í vanda.  Svo ég mun ekki stýra helgarferðum fyrir Fjallahjólaklúbbinn sumarið 2025.  Alla vega ekki fyrirfram ákveðnum.  En ég er alltaf til í að ferðast með skemmtilegu fólki, þegar mín heilsa leyfir.  Just buzz.

2024 voru farnar tvær helgarferðir á vegum Fjallahjólaklúbbsins og ein dagsferð.  Dagsferðin var í Mosfellsdal og var vel sótt í glampandi sól og hita.  Í maí var hefðbundin Eurovision ferð, hjólað um Bifröst og nágrenni.  Og svo var einstaklega skemmtileg ferð á Snæfellsnesið, þar sem við hjóluðum um Ólafsvík, Grundarfjörð og Eysteinsdalsleið fram hjá Snæfellsjökli.