Dag einn sáum við að þetta gengi ekki lengur; við værum að verða gamlir og feitir og aldrei að vita hvenær við gætum þetta ekki lengur. Þar við bættist að Pétur hafði eignast húsbíl í félagi við son hans sem býr í Belgíu. Við þetta breyttist upphaflegi draumurinn: nú gætum við haft bækistöðvar á tjaldsvæðum og gætum hjólað út frá þeim. Önnur veigamikil breyting var sú að þarna var komið tækifæri fyrir Nínu, eiginkonu mína, að koma með. Hún hjólar ekki.
Við hjóluðum ekki mikið í ferðinni. Hún nýttist til margs annars, svo sem að heimsækja ættingja og vini, fara á söfn og í bókabúðir, prófa hinar og þessar almenningssamgöngur, rölta um borgir, skoða mannlífið og njóta matar og drykkjar. Upphafleg markmið, hjóreiðar og bjórdrykkja komu hóflega við sögu. Nóg samt til að öðlast smá reynslu og mikla skemmtun. Nokkur orð um hjólreiðarnar:
Einu staðirnir sem við hjóluðum á voru borgirnar Antwerpen og Ghent og nágrenni þeirra. Þær eru báðar í nyrðri hluta landsins, þeim flæmska. Við ferðuðumst með lestum til fleiri borga á því svæði og gátum séð að hjólamenningin þar er svipuð. Það er þéttriðið net hjólastíga, bæði inni í borgunum og á milli þeirra. Gert er ráð fyrir hjólandi umferð í umferðarreglunum og það er farið eftir þeim. Víðast hvar er hjólreiðamaðurinn í forgangi í þéttbýlinu. Það er meira að segja umtalsvert meira um hjólandi fólk en akandi í þeim borgum sem við heimsóttum. Aðförin að einkabílnum hefur gert það að verkum að það eru ágæt loftgæði í borgunum og þar heyrist mannsins mál. Göturnar iða af mannlífi. Við vorum að vísu heppin með veður en á móti kemur að það var komið fram í miðjan september. Þetta mikla mannlíf gat ekki verið einsdæmi. Nema í Brussel. Sjaldan höfðum við séð annað eins magn hjólandi vegfarenda. Borgin, sem er þekkt fyrir að vera þungur og skítugur streituvaldandi staður, iðaði af hjólandi og gangandi fólki við heilnæmar aðstæður. Seinna fréttum við að þetta hafi verið bíllausi dagurinn. Ólíkt Íslendingum halda Belgar upp á hann með því að sleppa bílferðum í stað þess að gera í því að keyra.
Á Íslandi rata ég víðast hvar. Þegar ég er utan heimaslóða á því landi er ég í einhverjum erindagjörðum þar sem ég fer markvisst á milli staða. Það er því algert frí og frelsi að koma á stað sem ég ekki þekki og geta áhyggjulaust villst eitthvað út í buskann. Svo er hægt að taka upp kortið í símanum og velja einhverja af fjölmörgum leiðum til að koma sér í næsta áfangastað. Ég tók tvo eða þrjá þannig túra í dagrenningu áður en Nína og Pétur voru komin á stjá. Pétur var meira fyrir að vita hvar hann væri, þó hann væri annars afslappaður. Þegar við hjóluðum saman þróaðist það yfir í að hann fór á undan með nokkurnveginn hugmynd um stefnu en ég dólaði á eftir, glápandi í kringum mig, áhyggjulaus.
Að stofna til kunningsskapar við eitt stykki evrópska borg er með því allra skemmtilegasta sem ég geri. Það er svo allt öðru vísi að kynnast borgum hjólandi en að vera bara miðbæjartúristi eða að skoða myndir og kort af stöðunum. Smám saman myndast heildarmynd úr þráðum ferðanna. Kennileitum fjölgar. Tengingar myndast. Skilningarvitin eru öll virkjuð – líka bragðskynið, þegar svengd og þorsti gera vart við sig eftir heilnæma hreyfinguna. Þá er oftast stutt í næsta stað til að fá sér bita og sopa.
Borgir með nokkur hundruð þúsund íbúum eru sérlega skemmtilegar (hef reyndar ekki hjóla-reynslu af stærri borgum). Þá er á tiltölulega skömmum tíma hægt að skoða þversnið þeirra, frá úthverfum til miðbæja, til iðnaðarhverfa eða grænu svæðanna og að hraðbrautum og lestarteinum. Oft má sjá gamla miðbæi í úthverfunum, þar sem borgin hefur gleypt minni bæi eða þorp. Meðfram ám og siglingaleiðum eru gjarnan góðir hjólastígar. Í sama hjólatúrnum er hægt að kynnast þeim gjörólíku heildum sem saman skapa eina borg. Hafi maður löngun og tíma til, þá er jafnvel hægt að velta fyrir sér af hverju mannskepnan skapi sér svona umhverfi, hver tilgangurinn með þessu öllu sé og svo framvegis. Nú eða bara að leita uppi næstu bjórkrá og smakka eitthvað nýtt.
Ljósmyndir:
Ómar Smári Kristinsson og Nína Ivanova.