Bíllaus dagur 22. september
Föstudaginn 22. september verður svokallaður bíllaus dagur í Reykjavík og viljum við að sjálfsögðu hvetja alla til að leggja bílnum þann dag sem aðra og prófa aðra valkosti eins og til dæmis reiðhjólið.
Ég hafði ekki heyrt af þessu fyrr en ég sá þetta í sjónvarpsfréttunum í kvöld. Ég ætlaði að skella hér inn nánari upplýsingum eða tengingu á þær, en það nýjasta sem ég fann á heimasíðu borgarinnar var fréttatilkynning um 2000 vandann. Ekkert var minnst á þetta á vef umferðarráðs, mbl.is eða visir.is.
Evrópusamtök hjólreiðafólks hefur aðeins meira um þennan bíllausa dag sem hefur verið í kynningu frá 4. september og verður haldinn í á sjöunda hundrað borga í Evrópu, með pompi og prakt. Sjá nánar hér. "The bicycle is the best mode of transport in town: 50% of all trips in the EU are less than 5 kilometres, an ideal distance to cycle. Commuting daily to work or to school by bicycle for half an hour improves your health condition by 30%. Besides, you do not disturb the environment with noise, air pollution nor put other people at danger."
Þetta hafa yfirleitt verið frekar illa kynntir dagar hérlendis og þáttaka eftir því en við skulum nú samt sjá til.
Páll Guðjónsson 21/9/2000
Bíllaus dagur 2
Bíllausi dagurinn í ár virtist aðallega kynntur af forráðamanni SVR, Helga Péturssyni, sem notaði hann aðallega til að auglýsa þá þjónustu sem SVR veitir og fékk hann góðan tíma í fjölmiðlum til að kynna daginn. Hinsvegar var hann alveg skotinn á kaf í umræðuþættinum Kastljósi þegar ungur maður sló því fram að farþegar SVR menguðu heldur meir en ökumenn einkabíla og færði rök fyrir máli sýnu. Þau má lesa á VefÞjóðviljanum http://www.andriki.is/ og ganga út á það að stórir hálftómir strætisvagnar mengi meira per farþega og séu því ekki umhverfisvænir. Það eru 90 þúsund einkabílar í Reykjavík ekki heldur og mælum við með hjólinu sem mengar ekki við notkun, heldur eykur hreysti og þol eigandans. Við höfum sett fram ýtarlegar upplýsingar um þessi málefni þar sem við Hugsum til framtíðar þar sem meðal annars er sýnt fram á að það verður gríðarmikil mengun við framleiðslu hvers bíls áður en henn kemst nokkurn tíma á götuna.
Ekki sá Helgi sér fært að fylgja eigin ráðum til annarra um að hvíla bílinn sinn þennan dag og er það kannski lýsandi fyrir fagurgala og orðagjálfur stjórnmálamanna í umhverfismálum sem nær síðan ekkert lengra. Reyndar er umræðan og almenningsviðhorfið hér í allt öðrum farveg en annarsstaðar í Evrópu og Bandaríkjunum. Lesið ágætan pistil eftir Árna Þór Sigurðsson, formann skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur, sem var í umræðunni á mbl.is 21. september og fjallar um tilurð þessa átaks og ýmislegt sem var gert í hinum 642 borgunum.
Páll Guðjónsson 22/9/2000