Dagbókarbrot Elínar og Arnþórs
Sunnudagur 23. júní 1996.
Við lögðum af stað um sjöleytið. Það var örlítill súldarvottur og hægur suðvestan vindur. Það kom okkur á óvart hversu þungt farangurshlassið var á vagninum nýkeypta, sem við kölluðum halann á orminum, en samt gekk okkur furðu vel að hjóla með það. Fljótlega stytti upp og birti til og við léttum á fatnaði. Það tók okkur rúman klukkutíma að komast upp úr Reykjavík. Veðrið batnaði eftir því sem á leið morguninn og við lofuðum Skaparann fyrir mildi hans í okkar garð.
Við vorum allsátt við hvað okkur sóttist ferðin þótt farangurinn drægi úr hraðanum. Að Litlu kaffistofunni vorum við komin um níuleytið og áðum þar í hálftíma, gæddum okkur á köldu vatni og heitu súkkulaði með rjóma. Síðan héldum við áfram upp heiðina og gengum upp bröttustu brekkurnar. Í Kömbunum reyndust skálabremsurnar vel til að draga úr hraðanum, en niður fórum við á 30 - 50 km hraða. Við Hveragerði stigum við aðeins af hjólinu til að hvíla okkur. Þegar við ætluðum aftur af stað fór pedalakeðjan af Orminum og töfðumst við dálítið við að koma henni á aftur. Skömmu síðar hjóluðum við fram á Sigrúnu (systur Elínar), Eirík og Helgu sem voru á heimleið úr útilegu. Það var yndislegt að hitta þau, faðma og fá hjá þeim hvatningu og hrós.
Á Selfossi vorum við boðin í hádegismat hjá Bjarna Þórarinssyni og Svanhildi Sigurjónsdóttur. Þau eru aldavinir Arnþórs úr Kím. Upphaflega ætluðum við að gista á Selfossi og fara daginn eftir austur að Skógum. Féllust þau Bjarni og Svanhildur á að hýsa Orminn þá nótt og buðu okkur til kvöldverðar. Veðurhorfurnar voru hins vegar þannig að búist var við suðaustan rigningu og hvassviðri á sunnudagskvöldið og vildum við því ná eins langt austur á bóginn og unnt var. Afpöntuðum við því gistingu á Selfossi en ákváðum þess í stað að gista á hótelinu á Hvolsvelli. Þar pöntuðum við tveggja nátta gistingu en ákváðum að afpanta ekki á Skógum ef vera skyldi að hægt yrði að halda ferðinni áfram á mánudeginum. Þau Bjarni og Svanhildur tóku hins vegar ekki í mál að við færum hjá garði án þess að þiggja veitingar hjá þeim. Þau áttu von á okkur milli kl. 12 og 1 en nú var klukkan að verða eitt. Arnþór fékk að hringja til þeirra úr farsíma Eiríks til að láta vita af okkur. Bjarni kom svo á móti okkur að bæjarmörkum.
Kl. 3 héldum við svo áfram austurför okkar og miðaði sæmilega. Við þurftum nú oftar að nema staðar til að hvíla hendur og sitjanda. Þegar við áttum ófarna 10 - 12 km að Hellu var vindurinn farinn að snúa sér í austur og við farin að lýjast verulega. Við stöðvuðum þá bíl og báðum fyrir stóru töskuna okkar að Hótel Hvolsvelli og var það fúslega veitt. Vindurinn fór nú stöðugt vaxandi.
Skömmu síðar komum við að söluskála þar sem við námum staðar, fengum okkur drykk og sinntum þörfum líkamans.
Í Grillskálanum á Hellu var næst numið staðar, keyptum við okkur hamborgara og franskar, hvíldum okkur og teygðum í rúma klukkustund. Þvílíkt ómeti! Að því búnu var bitið á jaxlinn og tekist á við þessa 13 km sem eftir voru að Hvolsvelli. Mótvindurinn var nú orðinn svo hvass að við urðum að stíga hjólið niður allar brekkur og gengum upp þær sem fyrir urðu. Það tók okkur hálfan annan tíma að mjakast þennan spöl. Þreytt og vindblásin komum við að Hvolsvelli kl. 21:40 og höfðum þá hjólað 117 km um daginn. Meðalhraðinn var kominn niður í 12,3 km en hraðast þennan dag fórum við á 49,4 km. Við höfðum þá verið á hreyfingu í 9 og hálfan tíma.
Á hótelinu beið taskan okkar og var hlýlega tekið á móti okkur. Ormurinn fékk sess í anddyri hótelsins þar sem hann vakti mikla athygli. Við fórum í gufubað, teygðum og toguðum og háttuðum sæl og þreytt ofan í notaleg rúm. Þessi vísa varð til í svefnrofunum:
Á Orminum langa austur á land
ætlum við saman að halda.
Vegurinn liggur víða um sand.
Vont er í suðaustan kalda.
Mánudagur 24. júní 1996.
Þegar við vöknuðum var veðrið vitlaust suðaustan hvassviðri og úrhellisrigning. Við fengum okkur morgunverð laust eftir kl. 9 og skriðum síðan aftur upp í til að hvíla lúin bein. Við vorum eiginlega fegin að hafa ástæðu til að safna kröftum. Seinna um daginn sinntum við ýmsum erindum og fórum í sund. Þar fréttum við að bílstjórar hefðu lent í erfiðleikum undir Eyjafjöllum vegna hvassviðris.
Það var notalegt að liðka sig og teygja á vöðvum í sundlauginni og volga pottinum. Á botni laugarinnar er órímað ljóð um ástina og vatnið eftir Þorstein J. Vilhjálmsson sem Elín las í áföngum.
Eftir sundið fengum við okkur kvöldverð, skrifuðum á póstkort, gengum snemma til náða, skrifuðum dagbók, hlustuðum á útvarp og héldum síðan á vit svefnsins.
Þriðjudagur 25. júní 1996.
Við vöknuðum laust fyrir kl. 7 og hlustuðum á veðrið. Spáð var rigningu og sunnanátt.
Við fengum okkur dögurð eftir að hafa gengið frá farangrinum á hjólinu, smurt það og klæðst viðeigandi búningi. Á meðan á máltíðinni stóð gerði slíka þeysidögg að okkur leist ekki á blikuna. Ákváðum við að freista þess að komast með Orminn í áætlunarbíl til Víkur. Það tókst og vorum við komin austur í Vík um hádegisbil. Við ókum reyndar einungis gegnum tvo rigningarskúri á leiðinni. Við hjólum bara um Landeyjarnar seinna.
Við Höfðabrekku fórum við úr bílnum ásamt ungum hollenskum hjónum sem reyndust okkur hjálpleg. Á Höfðabrekku skildum við farangurinn eftir og fórum lausklifjuð til Víkur, um 5 km leið. Þar slæptumst við og skoðuðum staðhætti. Eftirminnilegt var að koma í fjöruna þar og undir grösug hamrabelti Reynisfjalls. Við ætluðum að fara með hjólabátnum út að Reynisdröngum og að Dyrhólaey, en það var ekki farið vegna sjólags.
Þar sem við höfðum ekki reynt neitt á okkur að ráði ákváðum við að takast á við brekkurnar upp úr Vík. Þar hittum við Hermann Sveinbjörnsson sem var á leið til Hafnar með vatnslitamyndir á sýningu. Það urðu fagnaðarfundir. Hermann tók síðan af okkur heimildarmyndir er við brunuðum aftur í áttina að þorpinu.
Að Höfðabrekku hjóluðum við aftur á 30 - 35 km hraða undan vindi. Það var gaman. Þar fengum við góðan kvöldverð, steiktan silung, sveppasúpu og ís. Síðan gengum við í átt til sjávar og sáum bæði kjóa og skúm. Sjónaukinn frá Maríu og Hrafni hefur veitt Elínu ómælda gleði það sem af er ferðarinnar. Þennan dag hjóluðum við samtals 18 km.
Miðvikudagur 26. júní 1996.
Við fórum á fætur um hálfátta, tókum saman föggur okkar, snæddum morgunverð og gerðum upp. Jóhannes bóndi lofaði að koma töskunni niður á veg fyrir rútuna. Hollendingarnir lofuðu hins vegar að sjá til þess að hún yrði skilin eftir á hótelinu á Kirkjubæjarklaustri.
Um kl. 9 lögðum við af stað í strekkings meðbyr og brunuðum áfram yfir Mýrdalssand, oft á um 30 km hraða. Okkur fannst við ósköp smá og lítils megnug í þessari miklu auðn og vegurinn virtist Elínu óendanlegur, þótt hún vissi betur.
Við Laufskálavörðu áðum við og snæddum þurrkaða ávexti. Þar sáum við hjólreiðamann á vesturleið, puðandi á móti vindinum. Mikið fundum við til með honum. Síðan brunuðum við áfram um Eldhraunið að Kirkjubæjarklaustri. Þangað vorum við komin kl. 13:15. Þá höfðum við hjólað rúmlega 68 km og meðalhraðinn var rúmir 23 km á klukkustund. Veðráttan hafði verið okkur hliðholl fyrir utan tvo til þrjá skúri.
Á Hótel Eddu fengum við okkur að borða og teygðum. Síðan versluðum við. Þá var taskan sótt í móttökuna á hótelinu og hjólað að Geirlandi. Á þessum slóðum er undur fagurt. Hjónin Erla og Gísli tóku hlýlega á móti okkur og rifjuðu upp gömul kynni við Arnþór. Miklar byggingaframkvæmdir stóðu yfir á sjálfum bænum, þar sem við áttum pantaða ódýra gistingu með aðgang að sameiginlegu baði. Við nutum góðs af, því okkur var vísað í smáhýsi með eldunaraðstöðu og sér baði. Allt var snyrtilegt og aðlaðandi. Eftir steypibað og teygjur elduðum við okkur núðlusúpu sem við borðuðum ásamt flatkökum og viðbiti.
Eftir uppþvott fórum við í stutta kvöldgöngu. Þráðlaus sími heimilisins var á sífelldum þeytingi milli okkar og heimafólks. Það var gott að heyra í Árna og Hring, Finni og Guðrúnu. Við vorum komin í rúmið fyrir kl. 11. Þennan dag hjóluðum við 72,98 km á 3,16 klst. Hraðast fórum við á 48 km hraða og meðalhraði 22,2.
Á Geirlandi var gott að vera,
gistum við þar eina nótt.
Mikið höfðu menn að gera.
Margur hefur þangað sótt.
Fimmtudagur 27. júní 1996.
Vöknuðum á hefðbundnum tíma rétt fyrir kl. 7, pökkuðum og fórum í morgunmat. Erla spjallaði við okkur af og til og gaf okkur kort til minningar um veruna, loftmynd af staðnum með fróðleiksmolum aftan á. Við fengum að smyrja okkur samlokur í nesti. Að því búnu kvöddum við þessi ágætu hjón og héldum af stað.
Fyrst fórum við að Kirkjubæjarklaustri, komum töskunni í rútu og sinntum ýmsum erindum. Klukkan var því orðin 11 þegar við hjóluðum út á þjóðveginn aftur. Okkur gekk vel enda blíðskaparveður og meðbyr framan af. Fyrst áðum við við Dverghamar á Síðu. Það er undurfallegur staður og útsýn víð og fögur. Fjöllin sem við fórum meðfram voru sérstök með fallegum klettamyndunum og hrikalegum.
Næst áðum við á Núpsstað og okkur er spurn hvernig við höfum getað farið þar hjá garði á öllum okkar ferðum án þess að nema staðar. Allt er snyrtilegt og vel við haldið hjá hinum öldnu bræðrum, Eyjólfi og Filipusi Hannessonum. Það er undurskemmtilegt að sjá öll gömlu húsin og heimtröðina, jeppann og bænhúsið frá 1789. Svo er fegurðin þar stórfengleg með Lómagnúp að næsta nágranna. Við borðuðum nestið okkar undir bænhúsveggnum og varð gott af. Inni í bænhúsinu bað Elín þakkar- og ferðabæn.
Jæja, þá var það sandurinn mikli, Skeiðarársandur, endalaus eyðimörk. En það var tilbreyting og gaman að hjóla yfir brýr jökulfljótanna. Við komum í Skaftafell um fimmleytið, fengum okkur brauð og heitt kakó. Þaðan hringdi Elín að Litla-Hofi til þess að forvitnast um vegalengdina þangað. Hún reyndist vera 22 km. Þá kom í ljós að taskan hafði ekki skilað sér. Hófust nú miklar hringingar til að leita töskunnar og hafði bílstjórinn gleymt að skilja hana eftir. Fyrir vikið var hún á Höfn. Hann lofaði að gera það sem hann gæti til að senda okkur hana. Elín keypti tvo boli og tannbursta í Skaftafelli en nærföt á fullorðið fólk fengust þar ekki. Síðan lögðum við í síðasta áfanga dagsins. Við vorum einn og hálfan tíma á leiðinni og rétt þegar við vorum að renna í hlað kom flutningabíll með töskuna. Mikið vorum við fegin. Klukkan var orðin tæplega 8. Við skelltum okkur í sturtu og settumst síðan að kvöldverðarborðinu. Lostæti! Ofnbakaður fiskur með soðnum kartöflum og salati. Á eftir fengum við skyr og rjómapönnukökur.
Mælirinn í dag segir að hjólað hafi verið í 7,13 klst, hraðast á 59,6 km, meðalhraði 12,3 og vegalengdin 89,6.
Litla-Hof er ljúfur bær,
líður öllum gestum vel.
Þar sótti okkur svefninn vær.
Sérstakt hrós hún Guðbjörg fær.
Af tillitssemi taskan var
tekin austur í Smyrlabjörg.
Því við flytjum þakkirnar.
Þverra nú áhyggjurnar.
Föstudagur 28. júní 1996.
Við vöknuðum kl. rúmlega 8 og snæddum morgunverð um hálfri stundu síðar, pökkuðum og gerðum upp. Þau Guðbjörg og Sigurjón buðust til að koma töskunni austur að Smyrlabjörgum sem við þágum þakksamlega. Við morgunverðarborðið greindu þau hjónin okkur frá því að sést hefði til tveggja-manna-hjóls á leið austur daginn áður. Hafði Arnþór orð á að gaman væri að ná hjólreiðafólkinu. Elín brást ókvæða við, taldi að þarna væri á ferð einn mesti hjólreiðagarpur Íslands, Magnús Bergsson og hans kona og skyldi Arnþór láta sér duga sína eigin ferð á afa- og ömmu hraða. Arnþór maldaði í móinn og sagðist ekkert hafa meint með þessu annað en það að gaman væri að hitta fólkið og féll svo þetta niður.
Veður var milt og fallegt um daginn. Hrikalegt og fagurt landslagið í Öræfunum heillaði.
Á Breiðamerkursandi var skúmurinn kóngur í ríki sínu enda aðalvarpstöðvar hans á þessu svæði. Hann gerði þó enga atlögu að okkur þótt hann hnitaði stundum hringa yfir höfðum okkar. Við urðum vitni að því þegar einn þeirra réðst á hrafnahjón sem voru á flugi skammt frá okkur. Einnig sáum við mikið af Maríuerlu, stelkum, lóum, sandlóum og fleiri fuglum.
Við Jökulsárlón áðum við u.þ.b. hálfa aðra klukkustund, nærðum okkur, teygðum og lituðumst um. Þar hittum við Nínu Ísberg, nágranna okkar, Inga Gunnar Jóhannsson, tónlistarfélaga Gísla og Ingva S. Ingvason, sendiherra sem öfundaði okkur af "æsku" okkar. Það er gaman að hitta kunningja á svona ferðalagi. Við ræddum einnig við þýska hjólreiðakonu sem átti leið þarna um.
Elín varð fegin þegar við náðum austur yfir Breiðamerkursand í Suðursveitina hans Þórbergs þar sem skemmra er millum kennileita. Hún þóttist viss um að á Hala væri stunduð refarækt, að minnsta kosti benti lyktin þar um slóðir til þess. Víða stóð heyskapur yfir og ljúfa töðuangan lagði að vitum okkar. Rétt áður en við komum að Smyrlabjörgum mættum við bíl með fellihýsi og þótti okkur bílstjórinn aka óþarflega greitt. Elín sýndi á sér hræðslumerki og spurði með bendingum hvort bílstjórinn ætlaði að stytta okkur aldur. Bíllinn nam þegar staðar og voru þar komin Katrín og Markús, vinir okkar. Þau voru að koma úr Norðurlandaflakki með Norrænu. Við spjölluðum góða stund við þau og komum að Smyrlabjörgum um kl. 18:45. Laufey húsfreyja tók vingjarnlega á móti okkur og vísaði okkur á náttstað í gömlu hlöðunni, sem hefur verið breytt í svefnherbergi. Hún hýsti fyrir okkur Orminn og leyfði okkur að þvo eina þvottavél.
Eftir endurnærandi bað borðuðum við lambakjöt með jarðeplasalati og öðru grænmeti, ís, kaffi og drukkum síðast en ekki síst ógerilsneydda mjólk. Við vorum farin í háttinn fyrir kl. 11. Í dag hjóluðum við í 4,50 klst, hraðast á 39,7 km og meðalhraðinn 15,2 km. Vegalengdin var 74 km.
Okkur Smyrla- bar að björgum,
hvar biðu miklar kræsingar.
Vel að ferðamönnum mörgum
myndarhjónin búa þar.
Laugardagur 29. júní 1996
Við sváfum fram eftir þar sem við vissum að nægur tími yrði til umráða. Góður morgunverður beið okkar í matsalnum sem var gamla fjósið og skemmtilegar umræður hófust vítt og breitt um salinn. Húsbændurnir, Laufey og Sigurbjörn sátu við eitt borðið. Þau eru einkar myndarlegt og geðugt fólk og eiga 5 börn frá eins árs að unglingsaldri.
Eftir morgunverð flýttum við okkur að pakka því að Sigurbjörn átti leið út á Höfn og hafði boðist til að flytja töskuna fyrir okkur að Seljavöllum. Laufey spjallaði við okkur á meðan við vorum að koma okkur af stað og var mikið hlegið.
Það var þó nokkur rigning og lítil von um uppstyttu þegar við lögðum í hann og urðum við fljótlega rennandi blaut þrátt fyrir hlífðarföt. Lítið sást af landslaginu því að skyggni var nær ekkert. Við seigluðumst áfram kílómetra eftir kílómetra. Einhvers staðar á leiðinni mættum við Sigurbirni á heimleið og hann sagði okkur þær gleðifréttir að það væri farið að stytta upp fyrir austan, sem satt reyndist.
Þegar við komum yfir Hornafjarðarfljót námum við staðar til þess að fara úr skjólfötum. Fljótlega fór að sjást landið umhverfis og upp til jökla. Þegar við komum að Nesjum var sólskin og blíða. Þar áðum við, fengum okkur hressingu og versluðum. Það er ekki nema rúmur kílómetri þaðan og að Seljavöllum. Þegar þangað kom vinsaði Elín strax úr nauðsynlegasta farangur fyrir næstu tvo daga og dreifði blautu til þerris. Húsfreyja bauð okkur kaffi og kleinur og sagði okkur frá sér og sínu fólki. Síðan hjóluðum við með stóru töskuna út á Höfn og sendum hana á Hótel Framtíðina á Djúpavogi. Við höfðum lofað að heimsækja Auði Jónasdóttur en þar sem við vorum svo nærri matmálstíma kunnum við ekki við það. Svona er þessi heimskulega feimni. Að því loknu fórum við í veitingasöluna í Nesjum, keyptum okkur djúpsteiktan fisk með frönskum og ís á eftir. Mikið væri óskandi að skyndisölufólk lærði að matreiða eitthvað annað en djúpsteiktan og brasaðan mat.
Þá var haldið aftur að Seljavöllum, farið í bað og síðan fylgst með kosningavöku sjónvarpsins. Það er sjónvarp í öllum gestaherbergjum á Seljavöllum og allt einkar snyrtilegt og smekklegt. Húsbændur eru ákaflega alúðlegir, þau Birna Jensdóttir og Hjalti Egilsson.
Hraðamælirinn sagði eftir daginn. Hjólað í 3,39 klst, hraðast á 35 km hraða. Meðalhraði var 15,7 og vegalengdin 57,52 km.
Á Seljavöllum vistlegt er,
vænt er fólkið þar.
Gestum oft hún Birna ber
bestar lummurnar.
Sunnudagur 30. júní 1996
Þennan dag átti Guðrún, móðir Arnþórs, afmæli.
Þegar við vöknuðum heyrðum við regnið bylja á þakinu sem við áttum alveg eins von á en vonuðum að yrði ekki. Við borðuðum ekki morgunverð fyrr en um kl. 10 því að þrír Frakkar voru á undan okkur og pláss við borðið lítið. Máltíðin var vel útilátin.
Við vorum tilbúin til brottfarar um ellefu leytið en þá gerði úrhellis skúr svo að við biðum aðeins átekta og drukkum kaffi með húsbændum. Uppstyttan lét hins vegar á sér standa og við gátum ekki tafið gestgjafa okkar frekar. Við vígbjuggumst því hlífðarfatnaði og héldum af stað. Okkur gekk prýðilega að Almannaskarði en þar hófst "fjallgangan", 1100 m upp 17% halla, en skarðið er 153 m hátt. Elín þurfti oft að nema staðar til að kasta mæðinni. Það tók okkur því röskan hálftíma að komast upp í skarðið. Eftir það fengum við langa og góða siglingu.
Áður en við lögðum í skarðið námum við staðar og Elín fór úr hlífðarfötunum þar sem hafði stytt nokkuð upp. Hún þornaði því meira en hún blotnaði en Arnþór var áfram í sínum skrúða og varð rennblautur innan í honum.
Að Stafafelli komum við kl. 14:30. Við bárum inn farangurinn og gerðum við brettið af farangursvagninum, en það hafði losnað, smurðum keðjur og hýstum svo Orminn. Meðan Arnþór fór í sturtu breiddi Elín úr blautu og röku dóti og þvoði ullarbol Arnþórs. Síðan fór hún í bað og þurr föt.
Það er nú ekki hægt að halda því fram að staðurinn sé áberandi snyrtilegur. En vinsamlegur var hann Bergsveinn sem tók á móti okkur.
Um kvöldið borðuðum við pizzu sem við höfðum með okkur og appelsínur í eftirrétt. Með okkur til borðs sat stúlka frá Alaska, Dianne Swanne, rithöfundur sem hefur af því atvinnu að skrifa handbækur handa ferðamönnum og endursemur þær á þriggja ára fresti. Um kvöldið var horft á fréttir og veður, hringdum í Finn og fórum að sofa kl. 10. Hjólað var og gengið í 2,23 klst. Mesti hraði 37,6 km, meðalhraði 13,2 og vegalengd 31,68 km.
Mánudagur 1. júlí 1996
Við vöknuðum fyrir kl. 7 eftir óværan svefn. Það var mikill hávaði í amerískum hópi fram eftir nóttu og hélt það fyrir okkur vöku. En allir nátthrafnar sofna um síðir. Veðurspáin var alveg sæmileg fyrir suðaustur hornið og reyndist hún sönn. Morgunmat fengum við um kl. 8 og var hann vel útilátinn.
Eftir að hafa nært okkur hlóðum við vagninn, kvöddum og lögðum af stað. Þá var klukkan 8:55. Okkur miðaði allvel þrátt fyrir dálítinn mótvind. Landið sem við fórum um var hrífandi. Arnþór sagði Elínu eftir Jóni Ásgeirssyni að Grímur geitskór hefði m.a. hugsað Alþingi stað í Lóninu en bændur vildu ekki gefa eftir landið. Austarlega í Lóni er minnisvarði um Úlfljót þann er sótti Íslendingum lög til Gulaþings í Noregi en hann bjó að Bæ í Lóni. Rétt vestan við Hvalnes námum við staðar og Elín klæddist ullarhúfu, sokkum og vettlingum því að norðaustan áttin var launsvöl.
Það var gaman, hrikalegt og svolítið skelfilegt að fara Hvalnes- og Þvottárskriðurnar, því að þar er algengt að falli aurskriður og hrynji grjót. Millum skriðanna í grösugu gili veifaði til okkar hjólreiðafólk sem var að taka saman tjöld sín og farangur. Þegar við vorum komin langleiðina inn Álftafjörð áðum við til að næra okkur og hvíla. Rétt þegar við vorum að byrja að borða komu þessir hjólreiðamenn færandi hendi. Veifan af vagninum okkar hafði hrokkið af í Þvottárskriðunum og hana færðu þeir okkur. Þetta voru þýsk hjón á Santana tveggja manna hjóli og ungur maður á sínu fjallahjóli. Þau settust hjá okkur og þágu af okkur þurrkaða ávexti. Þarna voru þá komnir hjólreiðamennirnir sem við fréttum af í Öræfunum og Arnþór hrósaði sigri í hljóði. Þau ætluðu líka á Djúpavog eins og við svo að við kvöddumst með "Auf wiedersehen". Síðan héldum við viðstöðulítið áfram það sem eftir var leiðarinnar, upp og niður brekkur og margar þeirra brattar.
Í kaupfélaginu á Djúpavogi hittum við aftur Þjóðverjana og reyndar einnig við hótelið þar sem þau ætluðu að reyna að fá inni, en án árangurs. Það kom okkur reyndar ekki á óvart því að við höfðum átt í nokkru stappi við dóttur hóteleigandans nokkrum dögum áður, en hún vildi færa okkur yfir í sumarbústað sem er 10 km utan við þorpið. Við sátum sem fastast við okkar keip því að öll viðbót er illa þegin eftir langan og erfiðan hjólreiðadag. Var því sumarbústaðurinn afþakkaður þrátt fyrir öll gylliboð þessarar góðu stúlku sem leysti vanda okkar svo með hinni mestu prýði.
Tekið var á móti okkur á hótelinu með kostum og kynjum. Þegar við höfðum skráð okkur inn og farið með farangur inn á herbergið fórum við í bað og gufubað sem var sérstaklega hitað upp fyrir okkur. Þar teygðum við og slökuðum á. Síðan var haldið á barinn og nutum þar næst dýrindis kvöldverðar. Við sátum lengi og drukkum kaffi á eftir. Í rúmið vorum við komin fyrir kl. 9. Mælirinn eftir daginn sýndi að hjólað var í 5,35 klst, hraðast á 61,2 km, meðalhraði 13,4 og vegalengdin 74,97 km. Þó nokkur hluti leiðarinnar var á misjafnlega slæmum malarvegum og dró það nokkuð úr hraðanum.
Á Djúpavogi vorum við
í vænni Framtíð eina nótt.
Gjalda skal að góðum sið
greiðvikni með vísu skjótt.
Þriðjudagur 2. júlí 1996
Við vöknuðum fyrir kl. 7 til að hlusta á veðurfregnir fyrir síðasta dag ferðarinnar. Spáin mátti vera betri. Við borðuðum ávexti og AB-mjólk inni á herberginu, tókum saman föggur okkar og gerðum upp hótelreikninginn. Ferðbúin vorum við um kl. 8:30. Þá var smásúld í lofti. Við höfðum okkur upp úr brekkum bæjarins í minnislausri von bílistans um meira sléttlendi í Berufirði. En því var ekki að heilsa, síður en svo. Endalausar brekkur, upp minnir okkur flestar, en jú, sumar voru víst niður í móti líka.
Fljótlega breyttist súldin í rigningu en við höfðum þó meðvind inn fjörðinn. Úlpur og stígvél voru sótt í farangur til að verjast ágangi náttúruaflanna, en við urðum samt fljótlega gegnblaut. Innarlega í Berufirði tók malbikið enda og sóttist nú ferðin hægar en áður. Það stytti upp smástund og alltaf reynist fossinn fagri í Fossá jafnhrífandi. Það lá vel á okkur eins og heimfúsum hestum. Þegar við höfðum hjólað dálítið út með norðanverðum firðinum fór að rigna aftur. Nú var þar að auki andbyr sem fór vaxandi. Við vorum því orðin nokkuð hrakin og framlág upp úr hádegi þegar við komum að farfuglaheimilinu á Berunesi. Þar fengum við að æja í um tvo tíma. Við báðum um að fá keypt kaffi sem var fúslega veitt, en svo fengum við ekki að borga það þegar á reyndi. Með því átum við kleinur sem við höfðum með okkur. Við dauðsáum eftir að hafa gefið Þjóðverjunum núðlusúpu sem við töldum okkur ekki þurfa á að halda því að í okkur var ónota hrollur. Það var gott að koma í hús, þurrka okkur og föt okkar, teygja, næra okkur og safna kröftum í áframhaldið.
Þegar við héldum aftur af stað hafði stytt upp en það var þó nokkuð hvasst. Þegar við náðum fyrir Streitishvarfið var sem lægði nokkuð og fram undan virtist bjartara. Það var gaman að sjá hversu mikið leiðin að Breiðdalsvík hefur styst með tilkomu nýja vegarins yfir Meleyri.
Á Hótel Bláfelli keyptum við okkur súpu með brauði til að ylja okkur og hressa. Þar hringdum við til Hrafns og Maríu til að láta vita hvað okkur gengi og héldum síðan áfram. Gamli góði tilhlökkunarhjartslátturinn var farinn að segja til sín. Þegar við vorum rétt að skríða upp í Færivallaskriðurnar kom lítill, grár bíll og staðnæmdist hjá okkur. Var þar kominn Hrafn vinur okkar Baldursson til að létta af okkur farangrinum. Það urðu miklir fagnaðarfundir. Það var eins og skini sól allt í kringum okkur þrátt fyrir norðaustan beljandann. Hrafn gerði gott betur en að létta af okkur farangrinum því að hann leysti Elínu af það sem eftir var leiðarinnar. Mikið varð hún því fegin. Þeir vinirnir hjóluðu upp flestar brekkurnar eins og ekkert væri og lokuðu varla munninum á meðan. Þetta sá Elín því að hún hélt sig í humátt við þá langleiðina til að taka við á Orminum ef Hrafn vildi. Loks fór hún á undan á Grána heim í Rjóður til Maríu, sem beið með veisluborð og annað enn betra ? sinn hlýja vinarfaðm. Það var eins og að koma heim.
Skömmu síðar brunuðu þeir félagar í hlað og rauk af Arnþóri eins og ambáttinni sem reri Gísla Súrssyni í land forðum daga. Við fylltumst sælu, loksins komin á leiðarenda. Var nú sest við að borða spikfeitan lambahrygg og besta eftirrétt í heimi, glóaldinfromage. Eftir að hafa farið í bað voru það þreyttir en sælir hjólreiðamenn sem lögðust til hvíldar í hrein rúm hjá góðum vinum.
Mælirinn í dag segir að hjólað hafi verið í 7,13 klst, hraðast á 59,6 km, meðalhraði 12,3 og vegalengdin 89,6 km.
Að Berunesi náðum skjótt,
nutum hvíldar inni.
Héldum þaðan hlaðin þrótt
hress og glöð í sinni.
Norðanáttin engu lík
æddi svöl um okkar vanga.
Niður bar á Breiðdalsvík
býsna þreytta ferðalanga.
Á Stöðvarfjörð nú steðjuðum
staðráðin að hitta vini.
Við á skriður veðjuðum
með vöskum Hrafni Baldurssyni.
Heima meður matinn beið
María í Rjóðri sínu.
Þannig fór um þessa reið,
þylja skal nú hinstu línu.
EFTIRMÁLI
Daginn eftir kom sonur Elínar ásamt fjölskyldu sinni til Stöðvarfjarðar og höfðu þeir Hrafn orð á því að afturdekkið á Orminum væri nær búið. Lét Arnþór lítið yfir því og hélt því fram að nóg væri eftir.
Sunnudaginn 8. júlí ákváðu þeir Hrafn og Arnþór að hjóla austur á Fáskrúðsfjörð. Þeir voru ekki komnir mjög langt þegar fór að heyrast eitthvert hviss í afturdekkinu og ágerðist það heldur. Þegar á Fáskrúðsfjörð kom eftir um klukkustundar hjólreið fóru þeir að skoða afturdekkið. Var þá gúmíið slitið inn að tvisti og slangan farin að gúlpa út. Var því ekki um annað að ræða en að hleypa úr því og setja Orminn á vörubílspall. Þannig var hann fluttur aftur á Stöðvarfjörð. Nýtt dekk fékkst síðar úr Reykjavík og var það sett undir áður en hjólið var flutt með flutningabíl aftur suður.
Í hnotskurn er reynsla okkar af þessu ferðalagi þessi:
1. Við tókum of mikinn farangur með okkur, tróðum töskuna á vagninum út af alls kyns óþarfa og vorum þar að auki með fjórar hliðartöskur á hjólinu. Ormurinn var því býsna þungur í vöfum.
2. Þegar við hjóluðum með farangur einungis í vagninum kom í ljós að lítið munaði um vagninn og þyngdarpunktur hjólsins færðist neðar. Mælum við því eindregið með að fólk noti farangursvagna í stað hliðartaskna.
3. Ferðist menn samkvæmt ákveðinni áætlun er nauðsynlegt að gera ráð fyrir einhverjum frávikum vegna veðurs. Sterkur mótvindur getur hreinlega orðið til þess að fólki miði sama og ekkert áfram. Því er ekki rétt að gera ráð fyrir of löngum dagleiðum.
4. Hlutverk stýrimannsins er nokkru erfiðara á tveggja manna hjóli. Hann þarf að halda jafnvægi fyrir sjálfan sig og hásetann og getur það reynt mjög á hendur stýrimannsins, einkum ef hásetinn er þyngri.
5. Ætli menn sér í einhverjar ófærur þurfa stýrimaður og háseti að vera mjög vel samhæfðir. Ráðlegast er að hlýða skipunum stýrimanns. Það kostar óþarfa þjark hvernig sem fer.
6. Á nokkrum stöðum á leið okkar þótti okkur áningarstaðir heldur strjálir. Má þar einkum nefna leiðina frá Stafafelli að Djúpavogi. Nauðsynlegt er að vera með heppilegt nesti á slíkum dagleiðum svo sem þurrkaða ávexti sem eru mjög orkuríkir.
7. Nauðsynlegt er að hafa með sér góðan hlífðarfatnað. Annars var það reynsla okkar að ekki sé hægt að klæða af sér íslenska, lárétta stórrigningu. Við vorum í hlífðarfatnaði frá 66 gr. norður sem hélt allvel vatni. Sá fatnaður er nokkuð fyrirferðarmikill en dugar vel í hvössum mótvindi þegar kuldinn nístir merg og bein.
Ýmsir halda því fram að tveggja manna hjólum miði mun betur áfram í mótvindi en eins manns hjólum. Þeim er sagt ganga verr upp brekkur en undanhaldið er mun auðveldara. Þá ná þau auðveldlega yfir 70 km hraða.
Ferðalag á tveggja manna hjóli skerpir ástina, eykur samvinnu, gagnkvæma virðingu og skilnings stýrimanns og háseta.
Á Orminum hún Elín fer
með Arnþóri á milli bæja.
Á þau fólk með undrun sér
og ýmsir að þeim skellihlæja!
Elín Árnadóttir og Arnþór Helgason.
© Hjólhesturinn. 1. tlb. 6. árg. Febrúar 1997.
© Hjólhesturinn. 2. tlb. 6. árg. Maí 1997.