karl0020.jpg

Við upphaf erðar á Hvolsvelli.

 

Þá var loksins komið að því að láta einn af fjölmörgum draumum rætast.

Tilhugsunin að setjast á hjólið fullhlaðið, tilbúin að takast á við næstum hvaða ævintýri sem á vegi manns yrði var hreint ótrúleg. Ég, María Dögg Hjörleifsdóttir og dyggur ferðafélagi minn Karl G. Gíslason höfðum verið að skipuleggja ferð austur á bóginn. Þar ætluðum við að dúlla okkur í rúmlega hálfan mánuð. Við lögðum af stað 10. júní 1995 frá Reykjavík kl.14.00 með rútu á Hvolsvöll. Veðrið var þungbúið í Reykjavík en á Hvolsvelli var rjómablíða, ekki slæm byrjun það. 

karl0019.jpg

  Seljalandsfoss.

 

Fyrsti áfangastaður okkar var Vík í Mýrdal. Góður meðvindur var og skoðuðum við Seljalandsfoss og Skógarfoss á leiðinni. Ætlunin var að koma við í Dyrhólaey en þar var öll umferð bönnuð vegna varptíma fuglanna. Hálfsvekkt komum við til Víkur þar sem við fengum ókeypis tjaldstæði.

karl0001.jpg

Slappað af við Skógarfoss.

 

Áfram héldum við næsta dag upp úr hádegi. Stefnan var tekin á Kirkjubæjarklaustur en við stoppuðum á Mýrdalssandi í sælureit klæddum grámosa. Þar spændum við í okkur bráðnu Snickers og sleiktum sólargeisla. Við lentum þó í leiðinlegum mótvind seinna um daginn og allt í kringum okkur var moldrok sem aldrei náði okkur. Seinnipartinn runnum við inn á Klaustur sem leit alls ekkert illa út í sólarglampanum. Við tjölduðum við foss innarlega á Klaustri og þegar við litum í kringum okkur reyndust vera mýs valhoppandi allt í kringum okkur. Þær fengu sér síðan vænan bita af einni Ortlieb töskunni minni.

 

karl0018.jpg

Útsýni út úr tjaldinu við Kirkjubæjarklaustur.

   

Næsta dag byrjuðum við á að versla í Kaupfélaginu á Klaustri þar sem fremur óliðlegt fólk var við afgreiðslu og neituðu m.a. Kalla um klósettferð.

karl0017.jpg

Á leið yfir Skeiðará.

 

Veðurfarslega séð var þetta geggjaður dagur, blússandi meðvindur og steikjandi hiti með tilheyrandi sól. Við bókstaflega fukum yfir Skeiðarársand og ég glímdi við sólbruna á fótum og höndum sem ég kunni ekkert á því ég brenn nær aldrei.

karl0016.jpg

Hvannadalshnjúkur í frábæru veðri.

 

 Við bremsuðum okkur af er við nálguðumst Skaftafell þar sem blasti við okkur hæsti tindur landsins Hvannadalshnjúkur 2119.metrar, í hreint ótrúlega heiðskíru veðri.

karl0015.jpg

Svartifoss.

 

Við vorum um leið tekin sem útlendingar í Skaftafelli og sagt var við okkur "One moment, please". Þar bráðnaði maður endanlega í 20 gráðu hita, og skellti sér í bikini og Kalli í "Rip it" bolinn. Við röltum upp að Svartafossi og ég buslaði í fossvatninu. Tjaldstæðið var fokdýrt en það var og er alltaf ánægjulegt að dvelja þarna.

karl0014.jpg

María við Breiðamerkurlón.

 

Á fjórða degi "fukum" við af stað í átt að Fagurhólsmýri þar sem við keyptum útrunnið kex og rándýrt Snickers í sparnaðarumbúðum.

Á leiðinni sáum við Vatnajökul í allri sinni dýrð og þar á eftir tók við glimrandi fegurð Breiðárlóns og Jökulsárlóns. Ennþá var alveg rjómablíða og við hittum hina ýmsu flóru fólks. Þar bar hæst öldruð þýsk hjón sem héldu að við værum gift og spurðu hvað við ættum mörg börn. Enn settumst við á hnakk eftir mikið úff, vá, æði, og ég fullvissaði Kalla á leiðinni að stelpur þurfa líka að ropa og leysa vind. Veðrið dreif okkur áfram og áður en við vissum vorum við komin í Nesjahverfi við Höfn í Hornafirði. Þar fengum við okkur feitan hammara og við það fylltumst við fídonskrafti sem dreif okkur yfir 16% Almannaskarðið. Eftir 150 km dagleið komum við svo um kl. 20.00 inn í dal þar sem við hreiðruðum um okkur við lítinn foss.

karl0013.jpg

Á köldum klaka við Jökulsárlón.

 

karl0012.jpg

Puðað yfir Lónsheiði.

 

Næsta morgun byrjaði ég á því að skríða út úr tjaldinu vegna hita, og svaf áfram úti á grasinu . Síðan fór dágóður tími í myndatökur og fossasvaml þar til um hádegi þegar Austfjarðaþokan læddist upp á land með sínar köldu krumlur og neyddi okkur af stað. Ferðinni var heitið upp Lónsheiðina . Heiðin var ekki fjölfarin og því grýtt og torfær og ég náði mér í eitt stykki byltu á niðurferðinni. Það var ánægjulegt að renna í hlaðið til Hrafnhildar og fjölskyldu á Starmýri við Álftafjörð. Þar dvöldum við í 3 nætur við gott yfirlæti og umtalsverða stjönun. Bröltum við um fjöll og gil í steinatínslu.

Þann 17. júní lögðum við af stað aftur í týpísku 17. júní veðri sem var að sjálfsögðu aftakaveður. Tölurnar á hraðamælunum voru til að mynda 4 km. hraði á jafnsléttu móti vindi. Þannig var það út Álftafjörð og Hamarsfjörð. Þar á eftir tók við hinn ægilangi Berufjörður. Að lokum komum við á áfangastað sem var Núpur í Berufirði. Þar gistum við hjá Bóa og fjölskyldu, vinafólki Kalla.


karl0011.jpg

Staldrað við í Atlavík.

 

Daginn eftir skutlaði Bói okkur upp á Breiðdalsheiði. Þaðan lá leiðin í Hallormstaðaskóg. Allt var á floti eftir 17. júní rigninguna en við komum seinni partinn á leiðarenda þar sem Róbert kokkur vinur Kalla, beið okkar með gistingu á hótelinu og dýrindis máltíð. Eftir það var sundlaug staðarins prófuð og reyndist ísköld. Ég hafði aldrei komið í Hallormstað áður og þvílíka fegurð hef ég sjaldan upplifað. Þótti mér það leitt að geta ekki dvalið þar lengur.

karl0010.jpg

  Við Mývatn.

 

Á 10. degi lögðum við af stað í hífandi mótvindi til Egilsstaða. Sökum veðurs ákváðum við að taka rútu yfir Möðrudalsheiði. Ferðin tók fljótt enda og við runnum inn að Mývatni. Hjólin voru nær óþekkjanleg eftir útreiðina en eftir talsvert bað þekktum við hjólin okkar aftur. Við fundum ágæta gistingu í svokölluðum kytrum. Kyrrðin var yfirþyrmandi og ég var hálfslöpp og því virkaði ástandið hálfmóðukennt.

Næsta dag dvöldum við við Mývatn og skoðuðum Námaskarð sem er háhitasvæði nálægt Mývatni.

karl0009.jpg

Í Dimmuborgum.

 

Tólfta daginn í ferðinni kölluðum við ,,framhjá daginn". Hann byrjaði vel með skoðun á Dimmuborgum í sjúklegu veðri, sól, sæla, fjör, stuð, gleði ásamt hvimleiðum flugum í mýflugnamynd. En svo var eins og við tæki gífurlegt "Duuuuh" kæruleysis skap hjá okkur, góða veðrið og hið undurfagra landslag kitlaði letitaugarnar. Við höfðum ætlað okkur að skoða ýmislegt á leiðinni að Dettifossi en við virtumst alltaf rétt fara fram hjá því, og minnstu munaði að við tækjum ekki eftir Dettifossi, reyndar í mikilli rigningu og þoku en þar gistum við á farfuglaheimilinu og elduðum alveg heilan hellling af pasta og öðru kjamsinammsi.

karl0008.jpg

Snjóalög í Aðaldal í endaðan júní.

 

Næsta dag skoðuðum við Dettifoss ásamt sirka 200 túristum í frökkum og háhæluðum Chanel skóm. Sérkennileg samkoma það. Eftir ítarlega myndatöku skunduðum við af stað í átt að Akureyri. Upp fórum við Víkurskarðið og niður í mótvindi. Það var skrítin upplifun að koma til Akureyrar því mér fannst það vera eins og að koma heim.

karl0007.jpg

Goðafoss.

 

Við slógum upp tjöldum okkar á tjaldstæðinu við sundlaugina en uppgötvuðum svo morguninn eftir, snemma, að það var sundmót í gangi með tilheyrandi látum og fyrirgangi. Á Akureyri átti að vera hjólamót um þessa helgi í Kjarnaskógi. Brautin var farin og þátttaka þó nokkur en alla skipulagningu vantaði þar sem að sá sem átti að sjá um hana flúði í bæinn. En það þýddi ekkert að gráta slíkt, helgin var vel brúkuð í að hjóla alla Akureyri og nágrenni þvers og kruss í fylgd ýmissa hjólagarpa og heimamanna eins og Eiríki Kjartanssyni. Þarna var óneitanlega gott að vera og þótti mér þetta frábær endir á annars yndislegri og skemmtilegri hálfhringsferð.
karl0006.jpg

Vaskir garpar við Ólafsfjörð.

 

Líkur hér með frásögn Maríu Daggar og hefst Karls hluti Gíslasonar.

Það hafði verið skipulögð ferð á vegum Í.F.H.K. og ákvað ég að fara frá Akureyri í þá ferð. María var búin með fríið sitt svo hún var á leið í bæinn. Við fórum fjórir saman í þessa ferð en ég og Snorri ákváðum að fara aðeins aðra leiðina. Það átti að fara út í Fjörður en því var breytt og ákveðið að fara til Ólafsfjarðar.

Lagt var af stað um tvöleytið og sóttist okkur ferðin ágætlega. Veðrið var mjög gott og vorum við ekkert að flýta okkur þar sem við vorum ekki á hraðferð. Ég hafði aldrei áður komið þarna þannig að ég var að upplifa nýtt umhverfi með mörgum fallegum fjöllum og öðru sem gladdi augað.

Eins og ég sagði áðan fórum við fjórir af stað ég Kalli Scott, Snorri, Maggi Bergs og Benedikt Akureyringur sem var ekki nema rétt 15 vetra þegar þessi ferð var farin. Þetta var hans fyrsta ferð og lét hann vel af henni. Þegar komið var til Dalvíkur tróðum við okkur út af mat og síðan var dólað til Ólafsfjarðar. Mér fannst æðislegt að hjóla í gegnum göngin. Ég ímyndaði mér að ég væri rafögn á leið eftir kapli og þyti ég í gegnum göngin í rafstuði.

karl0005.jpg

Á leið niður Lágheiðina.

 

Þegar við vorum komnir til Ólafsfjarðar ætluðum við að finna okkur gistingu. Það virtist þó ekki vera boðið upp á slíkt þar nema á hótelinu sem okkur fannst fremur dýr kostur. Á endanum ákváðum við að gista á tjaldstæðinu sem okkur fannst þó ekki álitlegt þar sem útlit var fyrir rigningu og farið að hvessa. Tjaldstæðið var ókeypis og alveg þokkalegt auk þess sem sundlaugin var við tjaldskörina. Er hægt að hugsa sér það betra? Við nýttum okkur þó ekki þessi fríðindi þar sem búið var að loka henni þegar við komum. Morguninn eftir var ákveðið að fá sér að borða á næstu Skeljungsstöð.

karl0004.jpg

Lónkot við Skagafjörð. 

 

Þegar ég ætlaði að losa mig við ónýtar rafhlöður kom babb í bátinn. Við fengum upplýsingar um það að sá sem sæi um þau mál henti alltaf rafhlöðunum í næstu ruslatunnu þegar rafhlöðuílátið væri fullt. Ákvað ég því að hjóla áfram með mínar ónýtu rafhlöður og koma þeim annarsstaðar til skila. Þegar ítroðslunni var lokið snéru Maggi og Benedikt við en ég og Snorri héldum áfram í átt að Lágheiðinni. Hún var lokuð fyrir bílaumferð og ákváðum við að halda áfram þrátt fyrir það og lyftum hjólunum yfir keðjuna sem lokaði veginum. Áfram var haldið í strekkings mótvindi og sóttist ferðin verulega seint. Það var ekki skrýtið að Lágheiðin væri lokuð fyrir umferð. Stórt stykki var horfið úr veginum við eitt ræsið og við gapti 6-7 metra djúp gjá. Við áttum mjög auðvelt með að fara framhjá því. Það tók okkur eina fjóra tíma að komast yfir Lágheiðina eða um það bil 25 km. En eftir það sóttist okkur ferðin vel og stoppuðum við í Ketilási og fengum okkur kaffi. Síðan skelltum við okkur í sund, það var virkilega notalegt eftir púl dagsins. En dagsverkinu var ekki lokið og enduðum við í Lónkoti þar sem var tekið virkilega vel á móti okkur af fallegri stúlku. Okkur var sýndur staðurinn og sögð saga hans og uppbygging. Við elduðum okkur mat rétt um miðnættið og fórum síðan beint í háttinn.

karl0003.jpg

Hrunin brú vegna vatnavaxta fyrir ofan Varmahlíð.

 

Daginn eftir var mjög gott veður og fórum við frekar snemma á stað og skilaði okkur nokkuð fljótt niður að Varmahlíð. Við tróðum okkur út af mat og héldum síðan ótrauðir áfram. Mér þótti þessi kafli frekar fábreytilegur að hjóla eða þangað til að við vorum komnir að brekkunni við Húnaver. Það var eins og það væri rekin vítamínsprauta í rassinn á okkur og áður en við vissum af vorum við komnir niður á Blönduós þar sem við ákváðum að gista á tjaldstæðinu. Mig minnir að okkur hafi þótt tjaldstæðið frekar dýrt en innifalið í því var frímiði í sund. Við höfðum ekki tíma til að nýta okkur frímiðann í þetta skiptið en erum báðir staðráðnir í að nýta hann seinna. Það kom í ljós að sú sem sá um tjaldstæðið hafði áhuga á hjólreiðum þannig að ég sendi henni bæklinga þegar ég kom í bæinn.

karl0002.jpg

Staðarskáli í enda ferðar.

 

Við vorum ekkert sérstaklega duglegir af stað daginn eftir. Samt hófst ítroðsla að hætti fjallahjólista þannig að tankurinn væri vel fullur áður en lagt yrði í hann. Það átti að ná niður að Staðarskála í veg fyrir rútuna. Þessi dagur er mér í minningunni ekkert annað en enn einn íslenskur grámyglulegur dagur. Þessi síðasti dagur ferðarinnar var nokkuð litlaus en þó ekki laus við allt púl þar sem Kári tók sumstaðar hraustlega á móti okkur. Það var þó ekki meira en það að við náðum rútunni. Síðan var siglt á vit streitunnar í bænum og því sem henni fylgir.

Ferðin tókst í alla staði vel og ekki hægt að hugsa sér betri ferðafélaga.

Lýkur hér með hluta Karls G. Gíslasonar.

© Myndir Karl G. Gíslason.

© Hjólhesturinn 1.tlb. 6.árg. Febrúar 1997.