Við urðum að vera mættir fyrir sólarupprás í Landmannalaugar til að geta nýtt okkur þær 9-10 klst. af sólarljósi sem í boði voru. Við skelltum því hjólunum í kerru og brunuðum um miðja nótt í Landmannalaugar. Við fengum lánaða litla kerru sem við röðuðum þremur hjólum ofan í og stöguðum vel svo þau stæðu án þess að snerta hvort annað. Enginn hafði aðgang að alvöru hjólafestingum og því reyndum við að vanda eins vel til verks og hægt var miðað við aðstæður. Hver hafði lítinn dagpoka á bakinu með helstu nauðsynjum, vaðskóm og hlífðarfatnaði. Hvað varahluti varðar skiptum við tveimur dekkjum, fjórum slöngum, tveimur stykkjum af gír/bremsuvírum, keðjuhlekkjum, olíu og pumpum ásamt bótum með okkur auk verkfæra til minniháttar viðhalds. GPS- og TETRA-stöð var meðferðis til að hafa samband við ökumanninn okkar sem ætlaði að hitta okkur síðar um kvöldið í Þórsmörk.
Ferðin gekk vel framan af, á malbikinu voru hjólin stöðug, allt þangað til við komum á þvottabrettið ofan við Hrauneyjar. Þar losnuðu strappböndin smám saman og hjólin hættu að vera eins vel skorðuð. Eftir þvi sem vegurinn versnaði þurftum við að stoppa oftar til að eiga við hjólin á kerrunni. Þetta vesen kostaði okkur töluverðan tíma og eftir á sáum við eftir að hafa ekki eytt meiri tíma í að vanda hjólafestingarnar betur því töluvert sá á hjólunum eftir skröltið í kerrunni.
Í Landmannalaugum var stutt stopp enda farið að birta og því full þörf á því að drífa okkur af stað ef við ættum að eiga möguleika á því að komast í Mörkina fyrir myrkur. Því fylltum við á vatnsbrúsa og kamelbök, gengum úr skugga um að hjólin væru enn nothæf og rúlluðum af stað. Það var töluvert skýjað með svolítilli úrkomu og hægum vindi. Ferðin gekk vel fyrstu kílómetrana enda vel troðin gönguleið og hentar vel fyrir fjallahjól, þangað til við fórum að hækka okkur en þá kom ekkert annað til greina en að reiða hjólin upp brekkurnar. Á köflum gátum við hjólað stutta vegalengd í einu en mikinn hluta leiðinnar upp að fyrsta skálanum í Hrafnstinnuskeri (12 km) urðum við að ganga. Auk þess að takast á við töluverða hækkun hafði veðrið einnig versnandi, skúrir og mótvindur. Það hjálpaði hins vegar að svo síðla sumars er lítill snjór í skerinu og því leikur einn að hjóla síðustu km upp að skála.
Eftir 2½ tíma komum við að Hrafntinnuskeri þar sem við tókum kærkomna pásu og borðuðum. Þessi leið er ansi mikið púl, lítið hægt að hjóla og ekki hjálpaði slæmt veður og lítið skyggni. Fyrir utan vanstillta gíra eftir kerrubröltið stóðu hjólin sig vel og ekkert kom upp á. Við fundum vel hve mikið það tók á að bera hjólin upp í Hrafntinnusker, flestum dugar bakpokinn.
Eftir Hrafntinnusker er hægt að hjóla nánast alla leiðina að Álftavatni (14 km) þar sem við tókum út töluverða hæðarlækkun. Inn á milli eru gilskorningar og brattar brekkur sem ekki er hægt að hjóla en yfirleitt er tiltölulega létt að hjóla þessa leið. Um leið og við hófum að lækka okkur aftur fór að draga úr rigningunni og undir Álftavatnsbrekkunni var komið fínasta hjólaveður; þurrt, svalt og logn. Álftavatnsbrekkan er ansi brött og eftir að hafa tekið nokkar góðar byltur var ákveðið að reiða hjólin niður mesta brattann. Hér urðum við varir við bremsuvandamál, sandur og óhreinindi gerðu mekanisku diskabremsunum erfitt fyrir. Í raun kom svo í ljós að stór þáttur í því voru slitnir bremsuborðar og eftir að hafa hert á bremsunum fóru þær aftur að vinna vel. Vökvadiskabremsurnar voru alveg lausar við þetta vandamál og misstu aldrei grip.
Eftir brekkuna þarf að vaða á og svo er greið leið niður að Álftavatni. Í skálanum hituðum við okkur heitan þurrmat, skoluðum af hjólunum, yfirfórum bremsur og gírbúnað ásamt því að taka keðjurnar í gegn. Þær voru uppfullar af sandi og aur og því kærkomið að taka þær í gegn og smyrja á ný. Þessi kafli var þrælskemmtilegur sökum hæðarlækkunar, þar sem ófá tækifæri voru til að taka góða spretti í hreint frábæru landslagi.
Nú skelltum við okkur í það þurra sem við áttum, endurnærðir eftir heitan pakkamat og á hreinum hjólum. Hér tekur við nánast slétt hjólafæri með einstaka ám til að þvera, sérstaklega eftir Hvanngil en þá fylgdum við vegi langleiðina niður að Emstrum sem er næsti skáli (14 km). Hægt er að elta veginn alla leið að Emstrum eða fara út af honum og elta gönguleiðina yfir sandana. Við tókum þá ákvörðun að fara stystu leið til að nýta daginn en eftir rigninguna var sandurinn þéttur í sér og áttum við frekar auðvelt með að hjóla í honum með 45-50 psi í 2.35“ kenda nevegeal dekkjunum. Í raun er leiðin eftir Álftavatn kjörin til þess að hjóla því það var nánast undantekning ef við urðum að fara af hjólunum alla leið niður í Þórsmörk fyrir utan einstaka gil og brekkur eða ár sem við urðum að þvera.
Við síðustu ána við Þórsmörk var skollið á svartamyrkur svo við drifum upp ennisljósin og fikruðum okkur gegnum skóginn inn að Langadal. Þangað vorum við komnir um kl. 21 eftir 12 klst. ferð þá 55 km sem Laugavegurinn er – um ótrúlega fallegt og fjölbreytt hálendið. Við stoppuðum oft og tókum margar myndir og því vel hægt að fara þetta á skemmri tíma en við gerðum.
Ég tel að leiðin frá Landmannalaugum upp að Hrafntinnuskeri er bara fær helstu þrjóskuhundum því aðeins er hægt að hjóla 4-6 km af þessum 12 sem leiðin er. Sé mikill snjór í skerinu er þetta jafnvel minna. Hins vegar skánar leiðin mikið eftir því sem nálgast Þórsmörkina. Því er mikilvægt að fara síðla sumars þegar snjó hefur tekið upp og jarðvegurinn ekki eins blautur. Þetta nefni ég vegna þess að síðar þegar ég hjólaði Laugaveginn var það um miðjan júní og þá var allt á kafi í snjó miðja leið frá Landmannalaugum og langleiðina inn að Álftavatnsbrekkunni. Við reiknuðum þá út að við hefðum reitt hjólin eina 23 km þegar við loksins gátum hjólað meira en hundrað metra í einu. Ég mun ekki gera þau mistök aftur.
Lykilatriði að mínu mati er að fara eins léttur og hægt er, forðast að þyngja hjólið með töskum (þú heldur á/leiðir það mikið að Álftavatni) heldur mæli með léttum bakpoka með góðum burðarólum. Ég ætla sérstaklega að benda á mikilvægi þess að vera í góðum skóm með grófan og sveigjanlega sóla (t.d vibram) og skilja þess í stað hörðu malbikshjólaskóna eftir heima. Hægt er að fá t.d. í Útilífi háa hjólaskó sem sameina þá kosti sem fjallahjólaskór og gönguskór hafa í einum (Northwave Gran canion GTX 2 komu mjög vel út). Ferðin er yfir hálendi og því mikilvægt að klæða sig í föt ætluð til fjallaferða, ull og öndunarfatnaður er á heimavelli.
Hjólin biluðu ekkert og það sprakk aldrei alla ferðina en hrafntinnan er með hvassar brúnir og því ágætar líkur á því að skera dekk. Við höfðum fyrir því að taka með keðjuolíu og var ekki vanþörf á því ef gírbúnaður á að ganga mjúklega. Ég mæli endregið með því að hjóla Laugaveginn, það er krefjandi og tekur á styrk og þol þar sem þú hjólar um fjölbreytt landslag einstakrar perlu sem íslensk náttúra er.
Smellið hér til að sjá allar myndirnar úr ferðinni
Birtist fyrst í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010.