Leigustaur

 

Frábær ferðamáti!

Á fyrstu leigustöðinni sem við komum á byrjuðum við á því að gera rafrænan samning með því að setja krítarkort í leigustaurinn. Samningurinn var á ensku og ég gat notað sama krítarkortið til þess að leigja fleiri en eitt hjól. Á hverjum leigustaur gat ég auðveldlega séð hvar næsta stöð var staðsett og fullyrða þeir sem að Velib’ standa, að aldrei sé meira en 300 m á milli stöðva. Fyrir leigu á hjóli í sólarhring greiddi ég 1 evru. Vikuleigan er á 5 evrur.

 

La Défense

Við þeyttumst um borgina; Sigurbogin; (þar er engin skiptistöð), Boulogne-garðurinn, Trocadero, Effelturninn, Champs Elysées – hjólinu lagt, gengið á milli verslana og endað á nýrri hjólastöð – hjólað heim. Næsta dag fórum við fram hjá Louvre; að Lúxemborgargarðinum – skildum hjólin eftir og gengum í gegnum garðinn. Tókum svo ný hjól á næsta viðkomustað og eftir góðan hammara var ákveðið að taka metróið að Sacre-Caur Basilikunni. Þannig fengum við með Velib’ splunkunýja mynd af borginni; vorum þátttakendur í umferðinni og vorum ofanjarðar á þægilegum ferðum um borgina.

 

 

 

Úps!

Auðvitað lentum við stundum í vandræðum, t.d. þegar átti að skoða Pompidou-safnið. Þá var allt fullt á öllum leigustöðvum allt í kringum safnið. Í slíkum vanda er hægt að framlengja sama hjól í 15 mín. með því að slá inn leigukóðann á leigustaurnum.Við hjóluðum framhjá 5 stöðvum áður en við fundum tvö laus stæði. Þá vorum við komnar 300 m frá safninu og notuðum tímann á meðan við gengum til baka til að fá okkur Nutella fyllta pönnuköku – sem bragðaðist einkar ljúflega í janúar­kuldanum.

 

 


Eins komumst við að því að stöðvarnar eru ekki utan við hringveginn sem umlykur París. T.d. er engin stöð í La Défense og því vorum við meira en 30 mín. á hjólinu. Þá þurftum við að borga auka evru.

Gæðahjól

Upplifunin á því að vera á Velib’ hjóli í París var stórskemmtileg. Þetta eru sterk hjól, maður situr þægilega á þeim, þau eru þriggja gíra og með dýnamó ljósi að framan og aftan. Hjólin eru með stýriskörfu og auðvelt að aðlaga þau stærð fullorðinna. Eins eru bretti á hjólunum, fram og aftur og lás, svo hægt er að skilja þau eftir án þess að skila þeim á leigustöð. Miðað er við að notendur séu orðnir 14 ára.

 


 

Sjá nánar á www.velib.paris.fr

Birtist í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK, mars 2010.