Það munar um kílómetrana frá Húsdýragarðinum að Mjódd, að maður tali nú ekki um brekkuna. Þar eð sú er þetta ritar býr í Smáíbúðahverfinu rétt hjá Laugardalnum, þá var þessi brekka hjóluð á hverjum einasta þriðjudegi í sumar. En hún var þá tekin um kl. 19 og svo var smá pása við Mjóddina áður en við hjóluðum út í kvöldið.
Fyrsta ferðin var í Klúbbhúsið samkvæmt hefð. Þar fengum við okkur kaffi og heimabakað góðgæti. Smám saman lengdust og þyngdust kvöldferðirnar. Það var farið upp að Reynisvatni og út á Bessastaði og allt þar á milli. Sumrinu lauk svo eins og það hófst, með hófi í Klúbbhúsinu, þar sem Steingrímur Jónsson var krýndur mætingarmeistari 2020, en hann mætti í 15 af 17 ferðum. Við ætlum að dobbla Steina til vera forystusauður með okkur, Árna og Tryggva þetta sumarið. Þetta verður eitthvað.
Fyrir mig persónulega var sumarið sérlega ánægjulegt, því Kolmar, sonur minn mætti í 13 ferðir. Það er nú ekki oft sem unga fólkið nennir að hanga með foreldrum sínum, en hann er mjög áhugasamur um samgönguhjólreiðar og vildi læra á þær fjölmörgu leiðir sem hægt er að fara í nágrenni höfuðborgarinnar. Heiðmörkin og skógarstígarnir þar vöktu sérstakan áhuga hjá honum og ljóst að hann mun fikra sig lengra í hjólamennskunni. Hann er líka kominn með bílpróf, en kýs fremur að hjóla eða ganga það sem hann þarf að fara.
Fyrsta þriðjudagskvöldferðin í ár verður 4. maí 2021. Við munum hittast í Mjódd, á milli Landsbankans og Bakarameistarans. Brottför kl. 19:30. Svo verður farið vikulega eftir það út ágúst.
Myndir frá 2020: Hrönn Harðardóttir. Skoðið hér á Google Photos
Svipmyndir úr þriðjudagskvöldferðum ÍFHK 2020
Fyrsta þriðjudagskvöldferðin 5. maí var, samkvæmt hefð í gegn um Fossvogsdalinn, út í Klúbbhús Fjallahjólaklúbbsins, þar sem Geir og Tryggvi buðu upp á heimabakað bakkelsi.
Fuglaskoðun í Grafarvogi 12 maí. Hjólað þaðan meðfram sjónum út í Gufunes. Gætið ykkar á bryggjunni, hún er hrörleg.
Þriðja kvöldferðin 19. maí var upp á Laugarás, í gegn um Laugardal og út á Laugarnes. Með viðkomu í smábátahöfninni.
26. maí tókum við hring um gamla Kópavog og enduðum uppi á Víghól. Þaðan er gott útsýni.
2. júní hjóluðum við góðan stíg sem liggur á milli póstnúmer 109 Seljahverfis og 201 Kópavog. Þaðan í vesturátt út í Garðabæ, tókum hring á Arnarnesinu og enduðum á Catalinu, til að fagna opnun kráa á Íslandi. Allt í rétta átt í Covid málum hérlendis.
23. júní var farið í Heiðmörkina
30. júní var hjólað um Austurbæinn að Öskjuhlíð og endað í kaffi á Nauthól. Á leiðinni skoðuðum við nokkra almenningsgarða.
7 júlí var för okkar heitið út á Geldinganes. Fórum beina leið yfir Árbæ og Grafarvog, niður að sjó og út á Geldinganes.
14 júlí var óvissuferð. Við fórum í gegn um Kópavogsdal, yfir á Álftanes, kíktum á Bessastaði, fórum hringinn í kring um Bessastaðatjörn og enduðum í ísbúð í Garðabæ. Það rigndi smá en enginn er verri þótt hann vökni.
28 júlí var för okkar heitið upp í heiðmörk. Nánar tiltekið Grunnavötn. Komum við í fallegum garði í Breiðholti með fallegri tjörn. Og Guðmundarlundi, sem er fallegt útivistarsvæði.
4 ágúst átti að hjóla upp í Mosfellsbæ, en sökum rigningar og fámennis ákváðum við að stytta túrinn og fara í Cafe Flóru í Laugardalnum. Æskunni er viðbjargandi, svei mér þá. Við rákumst á 3 hressa krakka við Langholtsskóla sem létu smá rigningu ekki stöðva sig. Nóg pláss í Cafe Flóru og ekkert mál að virða 2ja metra regluna.
11 ágúst var hjólað upp í Heiðmörk að Silungapolli.
18 ágúst. Breiðholt hjólað í bongóblíðu. Komið við á Gamla Kaffihúsinu og svo hjólaður göngustígur sem liggur hringinn í kring um Breiðholtið.
25 ágúst
1 september var lokahóf og mætingameistari 2020 krýndur. Það var Steingrímur Jónsson sem mætti oftast, alls 15 sinnum. Umsjónaðilar þetta sumarið voru Hrönn, Árni og Tryggvi.