Að bíða ekki eftir fararstjóranum.  Ég ætlaði að byrja á slóðunum, en félagar mínir voru svo ákafir, að þau lögðu af stað upp Ísólfsskálabrekku og ég náði þeim ekki fyrr en þar sem stikaða gönguleiðin byrjar.  Svo við fórum hana, ca. 400 metra yfir hraunið.  Þá vorum við komin á sæmilegan slóða sem lá meðfram fjallinu til hægri, alveg inn í Nátthaga, en þar hófst gönguferðin.

Urð og grjót, urð og grjót, ekkert nema urð og grjót.  Og allt upp í mót.  Nema á bakaleiðinni, þá var allt niður í mót, en ennþá urð og grjót.  Sem betur fer voru Björgunarsveitirnar búnar að stika góða gönguleið inn eftir Geldingadal og koma fyrir kaðli í bröttustu brekkunni.  Það auðveldaði gönguna mikið.

Það eru ekki allir sem ná að setjast í brekku alveg við eldgos, finna hitann á andlitinu og hlusta á skvampið, brakið og brestina sem móðir Jörð gefur frá sér.  Við dvöldum í tæpa tvo tíma við gosið, fengum meira að segja einn þokkalegan jarðskjálfta á meðan við sátum dáleidd við stóra arineldinn, en að lokum urðum við að slíta okkur frá og feta okkur niður í mót.  Eftir göngu er gott að liðka sig með því að hjóla, og við enduðum daginn á að hjóla slóða austan við Ísólfsskála.  Deginum lauk á American Style, fátt betra en gúffa í sig hamborgara, franskar og kokteilsósu eftir ánægjulegan dag.

Myndir frá deginum sem Hrönn og Mona tóku má sjá hér: https://photos.app.goo.gl/A1Q5rUVsK9iRdw2k8

Hér er líka myndband frá sama degi sem Hrönn klippti saman: