Innan nokkurra  daga þar fékk ég tölvupóst um að ég hefði verið samþykktur inn í meistaranám í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Það var mikill léttir að vita hver næstu skrefin í lífinu yrðu því ég hafði hætt öllu. Ég hafði sagt upp starfi mínu sem samgönguverkfræðingur til að hjóla umhverfis Bandaríki Norður Ameríku með upphaf og endi ferðar í San Francisco. Ég hafði þegar hjólað yfir fimm þúsund kílómetra frá San Francisco til San Diego og svo hálfa leið þvert yfir landið til Louisiana áður en heimsfaraldurinn neyddi mig til að taka þá erfiðu ákvörðun að gera hlé á ferðalaginu og taka mér frí til að meta aðstæður.

Efst: Tyler við upphaf ferðar í San Francisco
Við vatnaskilin í 1.937m hæð

Eftir tíu vikur í einangrun var hvorki nægur tími né rétt veðurskilyrði til að ljúka hring mínum um Ameríku svo ég breytti ferðaplönum mínum og ætlaði nú að hjóla frá Texas til Minnesota og ljúka formlega yfirreið minni um Bandaríkin í Boston. Þar sem ég ferðaðist nú meðan COVID faraldurinn geysti hjólaði ég einn og tjaldaði einn á hverju kvöldi. Ég hætti að nota Warm Showers heimagistingarnetið sem ég hafði notið svo mikið fyrir heimsfaraldurinn. Ég bar alltaf grímu á öllum opinberum stöðum þó það væri ekki lagaskylda. Ég setti í algjöran forgang að tryggja öryggi mitt.

Á tjaldstæði

Þó maður upplifði nokkrar einmana nætur fékk ég að upplifa heimaland mitt með þeim hætti sem ég hefði ekki getað ímyndað mér. Árnar og vötnin urðu sturturnar mínar og uppþvottavélar og ég hafði tjaldsvæðin alveg út af fyrir mig. Eftir 126 daga á hjólinu mínu kláraði ég ferðalag mitt í Boston á þriðjudegi í sömu viku og flugið mitt til Íslands var bókað.

Bandaríkin kvödd í Boston

Ótrúlegt en satt var niðurstaða COVID prófs mín á landamærunum neikvæð. Þó ég hefði farið varlega á ferð minni yfir Bandaríkin hafði ég samt hitt nokkra vini og átt samskipti við ókunnuga við ákveðnar aðstæður og það var líka enn svo mikil óvissa tengd veirunni. Þarna í byrjun ágúst tóku gildi á Íslandi nýjar reglur tengdar COVID þar sem þess var krafist að fólk færi í sýnatöku fyrir fyrra COVID próf áður en flugvöllurinn væri yfirgefinn, og síðan að fara í annað COVID próf eftir fimm daga í einangrun. Sóttvarnareglurnar voru nægilega sveigjanlegar til að mér var heimilt að hjóla til Ísafjarðar, svo lengi sem ég takmarkaði samskipti mín við aðra, færi ekki í sundlaugar og væri með grímu á opinberum stöðum ef ég þurfti að fara inn. Eftir að ég fékk neikvæða niðurstöðu úr seinna prófinu hófst för mín. Fyrsta deginum var ætlað að vera nánast upphitun, hvað varðar vegalengdina. Þó ég hefði hjólað að minnsta kosti 100 kílómetra dag hvern í Bandaríkjunum vissi ég að ég þyrfti að endurmeta lengd  dagleiða á Íslandi, taka tillit til umhverfisins og gera ráð fyrir möguleikanum á öfgafullu veðri.

Í The Bike Pit á Keflavíkurflugvelli

Fyrsta daginn hjólaði ég um 60 kílómetra frá flugvellinum til Reykjavíkur. Þegar ég lauk við ferðina mína yfir Bandaríkin kvaddi ég trausta Surly Long Haul Trucker hjólið mitt og sendi það heim til foreldra minna. Specialized Rockhopper fjallahjól útbúið til ferðalaga með bögglaberum var nýtt fyrir mér og hafði beðið mín í Boston ,í kjallara vinar míns, í kassanum og tilbúið fyrir flug. Ég setti hjólið saman og gerði allt klárt í Bike Pit á flugvellinum og það eina sem eftir var var að fá loft í dekkin, en á þeirri stundu ákvað litla pumpan mín að læsast og neita að pumpa. Þó Bike Pit sé búið pumpu og verkfærum tókst mér ekki að pumpa almennilega í dekkin, líklega vegna þess að ventillinn var of stuttur. Eftir að hafa spurt nokkra ókunnuga af handahófi hvort þeir væru með hjólapumpu í bílunum sínum (sem þeir voru auðvitað ekki með) komu fleiri ferðalangar í Bike Pit sem gátu lánað mér pumpu sem virkaði. Við spjölluðum og bárum saman ferðaplön okkar grímuklæddir að sjálfsögðu og síðan hélt ég leiðar minnar.

Samhliða þjóðveginum fann ég malar­veg og gat þannig forðast bílaumferðina í smá stund og prófað nýja hjólið mitt á malar­vegi. Það reyndist höndla ójöfnurnar vel. Böggla­berarnir voru enn fastir þegar ég kom aftur á malbik svo ég hélt áfram fullviss um að geta treyst nýja hjólinu. Áður en langt um leið sá ég Hallgrímskirkju bera við sjón­deildar­­hringinn. Þar sem ég var að flytja til Ísafjarðar í að minnsta kosti ár var ég með ýmislegt fleira í farangrinum en hægt væri að ferðast með alla leiðina á reiðhjóli. Ég hjólaði fyrsta daginn með bakpoka fullan ýmsu sem ég þurfti til að hefja nýtt líf á Íslandi, en var óþarfi á hjólaferðalagi. Bekkjarfélagi minn var staddur í Reykjavík og hafði boðist til að taka aukafarangurinn minn með sér vestur, boð sem ég þáði með þökkum.

Næstu fimm daga var förinni heitið frá Reykjavík til Ísafjarðar þar sem nýtt heimili beið mín. Ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast, en öfugt við þær stuttbuxur og stuttermaboli sem ég klæddist á ferð minni um Bandaríkin þá þurfti ég aðeins skjólbetri fatnað á Íslandi. Því eins og ég hef lært er ekki slæmt veður á Íslandi, bara rangur fatnaður. Regnfötin mín hafði ég aðeins notað tvisvar í Bandaríkjunum en ég hafði á tilfinningunni að þetta yrði hversdagsfatnaður minn hér á Íslandi. Þegar ég lagði af stað á öðrum degi þurfti ég að læra að opna og loka rennilásunum með þykku vatnsheldu hönskunum mínum og að ná í símann minn til að taka nokkrar myndir án þess að missa hann.

Í regngallanum á Borgarnesi

Ég hafði skipulagt leiðina eftir þjóðvegi 1 að þjóðvegi 60 og að fara síðan leið 61 eftir Ísa­fjarðardjúpi til Ísafjarðar. Ég hafði ekki skipulagt mikið meir en hvaða vegum ég vildi fara og um það bil hvar ég vildi tjalda á hverju kvöldi. Nokkrum dögum fyrir komuna til Íslands komst ég að því að reiðhjól voru ekki leyfð í Hvalfjarðargöngunum. Hjólandi þurftu að taka yfir 50 kílómetra krók í kringum Hvalfjörð.

Bannað að hjóla í Hvalfjarðargöngum.

Þar sem ég hafði þegar áætlað að hjóla að minnsta kosti 75 kílómetrar án þessa króks, ákvað ég að reyna að húkka mér far í gegnum göngin, ég hafi rekist á frásögn á bloggsíðu frá einhverjum sem hafði gert það með góðum árangri fyrir COVID. Með þumalfingurinn á lofti óku bílar framhjá mér fólkið horfði á mig eins og ég væri brjálaður. Eftir um það bil þrjátíu mínútur stöðvaði ein manneskja til að athuga hvort þau gætu hjálpað en við ákváðum að bíllinn þeirra væri of lítill fyrir hjólið mitt.

Björn bíður far


Vonlítill færði ég mig nær göngunum þar sem bílar gátu hægt á sér og farið inn í nærliggjandi bílastæði stoppað með öruggum hætti. Eftir 30 mínútur stoppaði maður að nafni Björn og dró reiðhjólafestingu út úr bílnum sínum og bauð mér far. Ég setti á mig grímu og við ræddum hvaðan á Íslandi hann væri og framtíðaráform mín á Ísafirði meðan við ókum eftir göngunum. Það var aðeins nokkurra mínútna akstur. Ég sagðist myndi láta hann vita næst þegar ég var á svæðinu því auðvitað skuldaði ég honum nú kaffi eða bjór fyrir hjálpina. Ég kláraði hjólaferð dagsins í Borganesi eftir langan rigningardag með þó merkilega viðráðanlegum vindi.

Það rigndi alla nóttina en um leið og regnið minnkaði pakkaði ég tjaldinu. Á þriðja hjóladeginum hér kynntist ég íslenskri veðráttu fyrir alvöru. Fyrst fékk ég einn besta meðvind allra tíma, en það breyttist fljótt í að læra hvernig maður hallar sér upp í öflugan vindinn til að halda jafnvægi. Ég var að verða örmagna á þessari nýju stellingu þegar ég sá kamar við veginn. Ég leitaði skjóls þar inni meðan ég borðaði Clif Bar orkustykki og endurheimti getuna til að hugsa. Þegar vegurinn sveigði til norðurs fékk ég aftur meðvind og kláraði leiðina til Stykkishólms.

Skjólgóði kamarinn

Eftir ábendingu frá staðarmanni sem ég hitti fyrir tilviljun breytti ég leið minni frá því að hjóla alla leið til Ísafjarðar yfir í að taka ferjuna yfir Breiðafjörð. Það myndi spara mér eina dagleið á hjólinu og mér gæfist færi á að hjóla meira um Vestfirði. Eitt af því góða við að hjóla um Íslandi er hversu lítið það er og hversu margir koma til að hjóla um landið. Það er óhjákvæmilegt að þú hittir aðra hjólaferðalanga á leið þinni, sama hvert þú ferð. Eftir að litla þorpið Stykkishólmur var kannað um morguninn steig ég um borð í ferjuna á fallegum sólríkum degi. Þegar ferjan stoppaði við litlu eyjuna Flatey í miðjum Breiðafirði gengu fjórir aðrir hjólreiðamenn í bátinn. Ég hafði farið um borð á þilfarinu í Stykkishólmi en á Brjánslæk þurfti ég að bera hjólið niður stiga til að komast á þurrt land. Við hjólreiðamennirnir hjálpuðumst að við að handlanga hjólin niður. Við komumst að því að við vorum allir á leið í Flókalund þar sem við ætluðum að gista, það voru auðveldir 5 kílómetrar þangað. Það voru rúmir þrír mánuðir liðnir síðan ég hafði hjólað með annarri manneskju, hvað þá fjórum! Við hjóluðum saman í Flókalund og kölluðum okkur Alþjóðlegu hjólalestina þar sem ég var frá Bandaríkjunum, tveir voru frá Þýskalandi, einn frá Ítalíu og einn frá Ástralíu.

Stykkishólmur

 

Um borð í ferjunni

 

Alþjóðlega hjólalestin - „The International Gravy Train“

Ég átti í erfiðleikum með svefn þessa nótt því vindurinn hafði tekið sig upp og virtist vera að reyna að brjóta tjaldið mitt í tvennt. Tjaldið lagðis næstum saman þegar vindstrengirnir léku um það en þess á milli náði það að rísa aftur. Vindáttin breyttist um klukkan eitt um morguninn og lenti núna þvert á hliðina á tjaldinu og það var viðbúið að það tjaldið myndi ekki þola átökin ef ekkert yrði að gert. Ég þurfti því að snúa tjaldinu um níutíu gráður í 40 hnúta vindhviðum í byrtu frá höfuðljósinu mínu. Þegar ég losaði tjaldhælana fannst mér eins og vindurinn myndi rífa tjaldið úr höndunum á mér og feykja því út á haf, en sem betur fer tókst mér að festa tjaldið aftur tryggilega og náði nokkurra tíma svefni.

Tjaldstæðið í Flókalundi

Þegar ég vaknaði hafði veðrið snúist á versta veg, mótvindur og ísköld rigning. Restin af Alþjóðlegu hjólalestinni  ákvað að taka sér frí þennan dag en ég gat ekki beðið eftir að komast á nýja heimilið mitt. Ég ætlaði að reyna að komast að Dynjanda og athuga þar hvort ég gæti hjólað lengra þennan dag. Þar sem ég hjólaði upp fjallaskarðið læddist þokan inn svo ég sá aðeins nokkra metra fram fyrir mig. Rigningin breytti malarveginum í forarpytt og dekkin jusu aur yfir töskurnar og mig. Ég hefði kannski átt að fjárfesta í brettum. Eftir því sem ég komst hærra þreyttist ég meir í mótvindinum.

Þokan

Í hvert sinn sem ég hélt að ég hefði náð toppnum varð ég fyrir vonbrigðum þegar ný brekka upp á við tók við af hverri brekku niður á við. Að lokum þegar ég var á leið niður langa brekku að Dynjandafoss opnuðust himnarnir og við blasti einn fallegasti staður í náttúrunni sem ég hafði nokkurn tíma séð. Sólarljósið endurspeglaði gullgræna liti af fjöllunum og ég fór að heyra í fossinum. Ég var alveg örmagna þegar ég kom þangað en ég komst að því að salernin voru ólæst og upphituð. Ég tók nestistöskuna mína inn og át allar granóla stangirnar sem ég átti eftir. Ég dvaldi á baðherberginu í að minnsta kosti klukkutíma áður en ég hafði endurheimt nægan styrk til að reyna að ganga að fossinum. Fyrsta tilraun mín tókst ekki svo ég fór aftur í salernisskálann til að hlýja mér. Það hafðist í annarri tilraun en ég tók þessu sem merki um að ég hefði hjólað nóg þennan dag. Ég var sá eini sem tjaldaði þarna þessa nótt enda einungis hjóla- og göngufólk sem mátti tjalda þarna. Þetta var lang  erfiðasti dagur sem ég hafði nokkurn tíma upplifað á hjóli.

Tjaldið við Dynjanda og útsýnið úr tjaldinu um morguninn

Það er erfitt að lýsa síðasta degi ferðarinnar heim. Fyrir það fyrsta var þetta lokadagur rúmlega átta mánaða ferðalags. Ég fór frá San Francisco 18. janúar 2020 og nú var ég að koma til lítils samfélags á Vestfjörðum 8. ágúst 2020. Þó að það sé kannski ekki langur tími hafði margt breyst í heiminum á þessum tíma og einnig innra með mér frá því ég fór frá fyrrum heimili mínu. Heimurinn var að upplifa sinn fyrsta stóra heimsfaraldur frá Spænsku veikinni 1918, George Floyd var myrtur á götum Minneapolis og Trump forseti hélt áfram að blekkja Bandaríkjamenn um að hann hefði stjórn á COVID.

Í göngunum til Ísafjarðar mátti hjóla

Ferð mín um Bandaríkin og Ísland leyfði mér að upplifa þessi lönd á þann hátt sem mig hafði alltaf dreymt um, en það virtist léttvægt í samanburði við það sem restin af heiminum var að upplifa. Mér hafði einhvern veginn tekist með heppni og sterku stuðnings­neti að klára þetta. Ég hjólaði upp og yfir Hrafns­eyrarheiði, fór niður á Þingeyri fullur orku úr tvöföldum ostborgara og kaffi. Gemlu­fallsheiði kom og fór. Þegar ég kom inn Önundar­­fjörð hélt ég að erfiðasta fjallaskarðið biði mín áður en ég sæi Ísafjörður. En þar sem ég hjólaði leiðina upp komu í ljós göng sem ekki voru með „Engin hjól“ skilti. Þegar ég kom inn í göngin og kveikti á ljósunum lá leiðin niður á við og leiðin sóttist vel. Ísafjörður blasti við þegar ég kom úr göngunum og tárin streymdu niður andlitið.

Ég var kominn heim.

Kominn heim til Ísafjarðar

 


© Birtist í Hjólhestinum mars 2021.