Ég hafði hins vegar fengið útivistarleyfi tveimur dögum lengur og hugðist nýta þá til að fara lítt kannaðar hjólaslóðir í spáðri sunnanátt. Þegar að Setrinu var komið, á sunnudeginum, leysti ég því bílstjórann af, sem glaður hjólaði síðasta spölinn í Ásgarð, og keyrði í Ásgarð. Skipti þar út ýmsum búnaði, ákvað að vera léttur fyrir hjólaburð yfir árnar framundan, setti hjólatöskurnar á hjólið og hjólaði af stað, tjald- og prímuslaus, áleiðis út á Kjalveg. Þrír vaskir félagar náðu mér áður en ég kom að vegamótum, og kvaddi ég þá þar, en lagði norður á bóginn, á meðan þeir fóru suður, eða biðu eftir bílunum sem tækju þá til Reykjavíkur. Ferðinni var heitið áleiðis svokallaðan Eyfirðingaveg, en beygja af honum norður, ofan í Skagafjörð, um Skiptabakka og Goðdalafjall.
Þrátt fyrir að seint væri liðið á sumar var Kjalvegur í nokkuð góðu standi, og hjólreiðar á honum eru svo sem engin sérstök skemmtun, enda er í 1. tbl. 2015 í Hjólhestinum grein um það hvernig hægt er að forðast sjálfan Kjalveginn á Kjalhjólaferðum. En eftir röska 20 km, þegar að rétt er farið að halla til norðurs, verður á hægri hönd hlið og skilti sem benda á Ingólfsskála. Fór ég þar í gegn, og eftir nokkur hundruð metra er komið að Blöndu. Ég hafði nokkrum árum fyrr, eins og segir frá í áðurnefndri grein, vaðið Blöndu skammt ofan ármóta við Seyðisá, þar sem hún átti að vera orðin vatnsmeiri, t.d. væri Eyfirðingakvísl þá komin í hana. Ég hafði einnig áður komið (á bíl) að ánni hér á efra vaðinu, þar sem hún rann lygn og iðulítil. Nú var hins vegar nokkur gangur á henni, enda hafði verið sól og hiti allan seinni part dagsins. Ég gerði eina hálfvolga tilraun til að kanna kraftinn og gekk nokkra metra út í, en ákvað að öruggara yrði að bíða til morguns, einn á ferð, og gista þarna á Blöndubökkum. Snæddi ég nú kvöldverð sem samanstóð af samlokum með rækjusalati, og lagðist til svefns í varpokanum.
Morguninn eftir skein sól enn í heiði. Ég snæddi jógúrt í morgunverð og fylgdist með hvort að enn væri að vaxa eða minnka í ánni. Á tíunda tímanum hélt ég út á þjóðveg, stöðvaði þar bíl með rússnesku pari, sem féllst vinsamlegast á að fylgjast með mér vaða ána og tóku meira að segja kvikmynd af verknaðinum, sem þau deildu svo með mér síðar. Áin náði upp í nára, en straumurinn var vel viðráðanlegur. Fyrst fór ég með farangur og sótti síðan hjólið. Þvoði og skolaði fætur, lestaði hjól og lagði af stað í vaðskónum og léttum sunnan þey, inn í friðlandið í Guðlaugstungum. Ekki yrði aftur snúið.
Slóðin var góð og greið og nokkuð skýrari en ég hafði átt von á. Stutt var síðan einhver tröllajeppi hafði farið þarna um. Leiðin lá upp á Skiptahól og handan hans sýndu kort Eyfirðingakvísl, litlu minni en Blöndu sjálfa, 2 km handan Blönduvaðs. Hún reyndist hins vegar vera svo smár lækur að ég gat hjólað yfir hana. Með skoðun loftmynda eftir að heim var komið, kom í ljós að hún hafði breytt farvegi sínum og rann nú í Blöndu ofan vaðsins og því hafði ég þegar „vaðið þær báðar“. Áfram hélt ferðin og 4 km síðar var komið að Svörtukvísl, sem var lítill farartálmi þó svo að ég þyrfti að fara í vaðskóna, og gat ég reitt/lyft hjólinu yfir þar sem dýpið var meira en fet. Eftir tæpa 4 km enn var komið að tærum bergvatnslæk með grónum bökkum undir Álftabrekkuhorni. Þarna hafði ég hugsað mér náttstað í gönguskíðaferð, sem hafði endað fyrir aldur fram í Kerlingarfjöllum árið áður, og aftur nú, hefði ég náð yfir Blöndu kvöldið áður. Þess í stað snæddi ég nú hádegisverð, lagði mig og fyllti á vatnsbrúsa, enda fyrsta tæra vatnið síðan á Kjalvegi daginn áður. Skipti svo yfir í hjólaskóna áður en haldið var lengra. Tóku nú við melar með gróðri og lækjum öðru hverju, í um 5 km, þar til komið var að Neðri-Þverkvísl sem er ein af þremur meginkvíslum Ströngukvíslar. Hún breiddi úr sér í mörgum kvíslum sem auðvelt var að fara yfir. Hélt ég síðan áfram hjólandi í vaðskónum enda ekki nema tæpir 4 km í Efri-Þverkvísl. Hún var nokkru vatnsmeiri, en rann einnig í grunnum kvíslum. Voru nú 2 km í sjálfa Ströngukvísl.
Strangakvísl, eins og hinar þverár hennar tvær, flæddi einnig í mörgum kvíslum eftir flötum eyrum, en dýpið meira og straumurinn þyngri. Auðvitað var farið að líða lengra á daginn, og kann það að hafa haft einhver áhrif; en samt mun auðveldari en Blanda, enda vaðið mun breiðara. Einnig var leiðin upp á bakkann brattari. Var nú meiriháttar árvolki í þessum leiðangri lokið að kalla. Komið var út úr friðlandinu, og skv. korti átti að vera vegaslóði á vinstri hönd (til norðurs) um svokallaða Hraungarða niður að Aðalmannsvatni (Bugavatni). Fór sá slóði fram hjá mér, sem var lítill skaði þar sem ég ætlaði ekki að fara hann.
Áfram var nú haldið í um 10 km, yfir minniháttar jökulsprænur og bergvatnskvíslir, fram hjá Eyfirðingahólum, og þar átti ég að finna slóða til vinstri, sem myndi bera mig að Skiptabakka. En slóðinn lét á sér standa. Ég var nú kominn að vestustu kvíslum Vestari-Jökulsár og Ingólfsskáli farinn að blasa við í 5 km fjarlægð, en þangað átti leiðin ekki að liggja. Ég snéri við, og leitaði gaumgæfilega og fann að lokum afar ógreinilega slóð í norðurátt, líklegast bara eftir einn bíl. Elti ég hann og týndi á köflum, en þar sem farið var yfir harða mela var nokkuð auðvelt að hjóla þá, þó svo að líklegast hefði svokallað feitt hjól rúllað enn betur. Sá ég fljótlega að ég hafði ekki farið nógu langt til baka, og skipti yfir á næsta hrygg til vesturs. Fann þar nokkuð veigameiri slóð, sem átti til að kvíslast og týnast. Ekki hjálpaði til að þoku lagði nú upp á móti mér. Ákvað ég því að fá mér nesti áður en ég mætti þokunni. Hjólaði ég nú norður á bóginn, stundum á slóða og stundum á algjörum vegleysum (en vel hjólanlegum samt). Kom að lokum að mun gerðarlegri slóða sem engin leið var að týna. Ferðin sóttist andlega seint í þokunni; Erfitt að átta sig á því hvernig miðaði nema með því að horfa á kílómetramælinn. Eftir tæpa 20 km fór að halla meira til norðurs, drunur Jökulsár á hægri hönd og og síðar framundan er vegurinn sveigði til vesturs. Farið var yfir litla bergvatnsá og komið niður úr þokunni. Vissi ég nú að skammt væri í skálann að Skiptabakka. Eftir 100 m var komið að vegamótum og síðan röskir 300 m til suðurs í skálann.
Skálinn er í umsjá 4x4 deildarinnar í Skagafirði, og er, eins og flestir jeppaskálar, lúxusskáli. Þarna myndi ekki væsa um mig um nóttina. Ég lét meira að segja freistast til að kanna hvort ég kæmi rafmagninu á með því að ræsa díselvél úti í hesthúsi til þess að virkja vatnskerfið, en þar sem eitthvað torkennilegt ljós blikkaði á henni, líklegast þess efnis að það vantaði smurningu, ákvað ég að láta gott heita. Eldaði mér nú kvöldverð í veglegum skálanum, en varð að láta heita sturtu eiga sig vegna rafmagnsleysisins. Lagðist svo til svefns eftir yfirferð á frekar rýru lesefni skálans (mér leiðast tímarit um snjósleða).
Morguninn eftir var enn sunnanátt, en skýjað. Leiðin lá enn í norður. Jökulsá drundi á hægri hönd í þröngu gili, sem vert er að skoða. Eftir um 10 km lá um 2 km löng slóð niður til hægri að gömlum torfgangnamannakofa, kenndum við Hraunlæk, en við hlið hans er nú risinn nýr, glæstur og læstur skáli, sem skv. heimildum mun vera í umsjón Goðdalabænda. Tók ég þennan afleggjara til að rannsaka húskost sem best. Áfram hélt ég aðra 20 km norður á bóginn, áður en það fór að halla vel ofan í Skagafjörðinn. Fékk nú gammurinn að geysa, aðeins var stoppað stöku sinnum til að opna hlið og snæða nesti. Eftir skamma stund var komið niður á þjóðveg. Beygt var til vinstri og haldið norður á bóginn, sem leið lá, vestan Vatna. Góður meðvindur var þannig að ég tímdi ekki að stoppa til að pumpa í dekkin fyrr en ég var búinn að tapa hraðanum á leið upp á hól nokkurn og malbikið farið að blasa við. Var nú pumpað vel í dekkin og áfram haldið. Tíminn í strætóinn í Varmahlíð var rúmur og eftir tæpa 20 km á malbikinu beygði ég til austurs Vindheimaveg til að baða mig í Reykjalaug. Eftir að yfir brú er komið og upp á næstu hæð er farinn vegur til hægri og honum fylgt framhjá hestamannasvæðinu að Vindheimamelum, að bílastæði og síðan göngustíg (hjólanlegum), framhjá tignarlegum Reykjafossi, yfir laxastiga á brú og alla leið að lauginni. Þetta er hin fínasta laug örstutt frá árbakkanum, en var nokkuð þétt setin erlendum ferðamönnum, sem gerði lítið til. Eftir gott bað, var síðasti spölurinn til Varmahlíðar hjólaður, þar sem hesthúsað var pylsum og kóki á meðan beðið var eftir strætó sem flutti mig í bæinn.
Ekki mætti ég bíl eða fólki í hálfan annan ferðadag, frá Blöndu og niður á þjóðveg í Skagafirði. Þó að 2 millj. ferðamanna heimsæki nú Ísland, er enn að finna fjölda fáfarinna slóða, ef maður horfir útfyrir helstu leiðir eins og Kjalveg, Nyrðra-Fjallabak og Sprengisand. Fáar slóðir eru samt fáfarnari á Íslandi en hinn jökulvatnaprýddi Eyfirðingavegur norðan Hofsjökuls.
{gallery}stories/2017/haukur{/gallery}
*Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2017