En svo kom að því... Ég sá auglýsta Þórsmerkurferð og helgin var á lausu hjá mér. Ég sendi tölvupóst á fararstjóra, vildi vita hvort þetta væru bara tómir harðjaxlar, hvort ég ætti eitthvað í þetta lið. Eftir smá umhugsun ákvað ég að ég ætti að ráða vel við þessa vegalengd, skráði mig í ferðina og ákvað að hitta hópinn við Seljalandssfoss en þar átti að byrja að hjóla.  

Eins og alltaf þegar maður stígur út fyrir þægindarammann þá var ekki alveg laust við smá spennu.  Ég þekkti engann í hópnum og vissi í raun ekkert út í hvað ég var að fara.  Það var þó auðvelt að þekkja ferðafélagana úr ferðamannhópnum, það voru þessi sem voru með bílana hlaðna af hjólum Auk þess var kerra Fjallahjólaklúbbsins með í för en hún fylgdi okkur inn í mörkina ásamt trússbíl.

Það er skemmst frá því að segja að ferðin var hrikalega skemmtileg og mikið ævintýri og ég hef farið í flestar ferðir Fjallahjólaklúbbsins síðan og tekið virkan þátt í starfinu.  Ég bý enn úti á landi, þó ég hafi aðeins fært mig nær, og hef því ekki haft tök á að mæta mikið í þriðjudagsferðirnar á sumrin en reyni að mæta sem oftast á opin hús á fimmtudagskvöldum ásamt því að taka þátt í lengri ferðum hvenær sem færi gefst. Það er alltaf gaman að hitta félagana og spjalla saman um allt mögulegt tengt og ótengt hjólum og hjólreiðum og í þessum félagsskap hef ég eignast nokkra af mínum bestu vinum.  Við hjólum saman hvenær sem færi gefst, förum í ferðir klúbbsins og skipuleggjum okkar eigin ferðir innanlands og utan.

Ef þú hefur gaman af að hjóla þá endilega skoðaðu þennan félagsskap, gakktu í klúbbinn, skelltu þér með í ferð og kíktu við hjá okkur á Brekkustíg 2 á fimmtudagskvöldum. Allir ættu að geta fundið ferð við sitt hæfi, rólegar ferðir á þriðjudagskvöldum, yfir sumartímann, til viðbótar við fjölbreyttar og miskrefjandi helgarferðir.  Fjallahjólaklúbburinn er fyrir alla hvar á landinu sem þeir búa.

{gallery}stories/2017/gudny{/gallery}

*Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2017