Miðað er við þrjú þrep í Hjólafærni:
1. Að læra að stjórna hjólinu.
2. Eldri en 9 ára geta nýtt sér markvissa kennslu á hjól og umferðina.
3. Frá 15 ára aldri á að hjóla af öryggi við flestar aðstæður sem umferðin býður upp á.
Hugmyndafræðina að Hjólafærni/Bikeability kemur frá Bretlandi. John Franklin er opinber ráðgjafi verkefnisins. Hann kom til Íslands og kynnti verkefnið á Samgönguviku sl. haust. Bretar hafa sett sér það markmið að árið 2011 sé tryggt að öll 11 ára börn í landinu njóti Hjólafærniþjálfunar. http://www.cyclecraft.co.uk/   

Hjólreiðakennari ráðinn til landsins

Verkefnastjórnin hefur ráðið fyrsta hjólreiðakennarann til Íslands. Hann kemur til landsins 17. – 24. maí og kennir vönum íslenskum hjólreiðamönnum að verða hjólreiðakennarar. 4 nemendur eru skráðir á námskeið. 2 geta bæst við.
Hafið samband við Sesselju Traustadóttur ef þið eruð með gott fólk á námskeiðið. Viðkomandi þarf að vera tilbúin/n að starfa áfram að þróunarvinnu næsta vetur fyrir áframhaldandi hjólreiðkennslu. This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. s. 864 2776

Umferð og hjólreiðar á Íslandi

Nýleg könnun sýnir að umferðarfræðsla samkvæmt námskrá er ekki kennd sem skyldi í grunnskólum. Samkvæmt umferðarlögum eru hjólandi  fullgildir þátttakendur í umferðinni á götunni. En á Íslandi hefur aldrei verið unnið markvisst með hjólandi vegfarendum á vettvangi eða með hliðsjón af lögunum.
Reynslan af  námskeiðum í hjólafærni er að þátttakendur öðlast bæði færni, ábyrgðartilfinningu og öryggi í  umferðinni.. European Cyclists’ Federation hefur heitið að stórefla þjálfun í hjólafærni, sem helsta framlag aðildarfélaga ECF að Evrópskri áætlun um eflingu umferðaröryggis.
Námskeiðin stuðla líka að auknum hjólreiðum til samgangna. Ástralskar rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að með samhentu átaki er hægt að hafa varanleg áhrif á val fólks á ferðamáta. Strætó, hjól, ganga og samnýting bíls til og frá vinnu og skóla.

Flest börn á Íslandi koma gangandi í skólann og mörg á reiðhjóli. Stundum er börnum ekki leyft að hjóla í skólann. Óöryggi, hjólastuldir og skemmdarverk ráða þar um. Sorglegt að þannig missi börn af tækifæri til að kynnast þessum samgöngumáta. Hjólreiðar til samgangna bjóða upp á meira frelsi og sjálfstæði, þroskandi áhrif, heilbrigði og minni umhverfisáhrif, borið saman við skutlið, sem margir foreldrar standa í. Því fleiri börn sem koma fyrir eigin afli í skólann, því minni slysahætta verður til af bílaumferð á leið þeirra. Tryggjum öllum börnum gott aðgengi gangandi og hjólandi í og við skólann.

Fjármögnun gengur að óskum

Menntamálaráðuneytið hefur tryggt framlag fyrir fyrsta námskeiðinu sem haldið verður á Íslandi fyrir reiðhjólakennara með glæsilegum styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Enn fremur hefur verkefnið fengið styrk úr þróunarsjóði Menntasviðs Reykjavíkur, frá Íslenska fjallahjólaklúbbnum og Pokasjóði. Mikil vinna er framundan; þróunarkennsla í grunnskólum og viðhorfsrannsókn samhliða þeirri kennslu. Auk þess þarf að vinna námsefni sem styður kennsluna og kynna hvert við stefnum.  Öll framlög eru til góðs. Bankareikningurinn er 0111-26-009021, kt. 640399-2289  This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. – Kári Harðarson er gjaldkerinn okkar.

Tenglanetið stækkar

Við vinnum markvisst að kynningu Hjólafærni á meðal allra þeirra sem við teljum að sjá hag í auknum vistvænum ferðalögum í borginni okkar. Menntamála-, Samgöngu-, Umhverfis – og Heilbrigðisráðuneytið eru komin með tengiliði við verkefnið, Vinnuskóli Reykjavíkur á einn nemanda á námskeiðinu í vor, Umferðastofa og hjólreiðamenn innan lögreglunnar vita af okkur og ýmsir fleiri. Ert þú með hugmynd að góðu fólki, fyrirtækjum eða stofnunum sem þú sérð að eiga samleið með okkur? Láttu okkur vita. Við hlustum glöð á góð innlegg.

Verkefnastjórn Hjólafærni og gagnlegar slóðir:

Í verkefna- og vinnustjórn Hjólafærni eru Sesselja Traustadóttir, Morten Lange, Páll Guðjónsson, Kjartan Guðnason, Guðný Katrín Einarsdóttir, Árni Davíðsson og Bjarney  Gunnarsdóttir. Þau eru grunnskólakennarar, kerfisstjórar, rannsóknarmenn, heilbrigðisfulltrúar, þroskaþjálfar, kennaranemar og háskólanemar. Þau eiga það öll sammerkt að vera hjólafólk og leitast við að nota reiðhjólið til allra almennra samgangna. Hér eru nokkrar gagnlegar slóðir fyrir Hjólafærni:
www.cyclecraft.co.uk/
www.lifecycleuk.org.uk/index.php
fjallahjolaklubburinn.is
www.hjol.org/

Munið að njóta þess að hjóla! Það gerir það enginn fyrir ykkur. Bara þið getið notið þess að finna goluna í kinnunum og sigrað brekkurnar. Gleymið ekki hvað það er gaman að ferðast fyrir eigin afli. Og hver ætti svo sem að segja frá því? Græðir einhver? Að hjóla er eins og íslenskt vatn; frítt úr krananum og bara gott.