Breytingar á lögum um tekjuskatt heimila nú launagreiðanda til að greiða starfsmanni skattlausar samgöngugreiðslur fyrir að nýta sér óvélknúnar vistvænar samgöngur eða almenningssamgöngur til og frá vinnu. Skilyrði er að gerður sé samningur milli launagreiðanda og starfsmanns. Það er samgöngusamningur eins og þekkist nú í nokkuð mörgum fyrirtækjum. Upphæð samgöngugreiðslunnar getur verið allt að 7.000 kr. á mánuði eins og fram kemur í skattmati ríkisskattstjóra fyrir tekjur manna árið 2013.
Það eru ekki allir vinnustaðir sem hafa samgöngusamning. Á sumum vinnustöðum vantar kannski áhuga stjórnanda en sennilega er kostnaðurinn stærsta hindrunin í vegi á mörgum fjölmennum vinnustöðum. Starfsfólk getur farið fram á samgöngusamninga og reynt að semja við stjórnendur. Stéttarfélögin ættu líka að setja þetta mál á oddinn í samningum. Samgöngugreiðslurnar skipta miklu máli í umhverfislegu tilliti því þótt aðeins sé um litla umbun að ræða verða þær til þess að margir taka upp breyttan samgöngumáta og það dregur úr bílaumferð í kjölfarið. Það gerir umferð gangandi, hjólandi og strætó þægilegri og þessir ferðamátar verða viðurkenndir og síður litnir hornauga af meðal Jóni og Gunnu.
Orðalagið í lögunum er þannig að samgöngugreiðslurnar eru fyrir „kostnaði“ starfsmanns af ferðum til og frá vinnu. Það hefur verið bent á það að ríkisskattstjóri geti þá óskað eftir kvittunum fyrir kostnaði starfsmanns við almenningssamgöngur, reiðhjól eða gönguferðir. Það verður þó að teljast afar ólíklegt að Rsk. fari út í þá sálma. Ökustyrkir ætlaðir fyrir akstur í þágu launagreiðanda hafa víða verið nýttir sem skattlausar yfirborganir til starfsmanna og hefur Rsk. lítið sem ekkert gert til að stemma stigu við því. Þar eru upphæðirnar fyrir um 3.000 km akstur á ári yfir 300.000 kr/ári eða margfaldar á við þessar samgöngugreiðslur. Samgöngugreiðslurnar eru auk þess beinlínis ætlaðar til að standa undir ferðum úr og í vinnu, ólikt ökustyrkjunum. Það er þó skynsamlegt að halda eftir kvittunum fyrir kostnaði til öryggis.
Sjá nánari samantekt á samgöngusamningum á vef Landssamtaka hjólreiðamanna ásamt uppkasti að samgöngusamning.