Sjá kynningartexta frá höfundi síðunnar:
Hlaupadagbókin er mikilvirkt tæki til skráningar á íþróttaæfingum. Kerfið er opið og einfalt í notkun. Það gefur gott tölfræðilegt yfirlit og línurit yfir iðkun notenda og samanburð við aðra. Iðkendur geta lært hver af öðrum. Það veitir aðhald og hvatningu og er skemmtun hin mesta. Margir félagar hafa vottað góð áhrif dagbókarinnar á iðkun sína, jafnvel svo að þeir hafi náð sínum besta árangri fyrr eða síðar.
Dagbókin höfðar til fólks á öllum aldri og af öllum gerðum, jafnt afreksfólks í keppnisíþróttum sem almennings sem stundar íþróttir sér til heilsubótar. Hægt er að velja milli ýmissa íþróttagreina. Helstu æfingaflokkarnir eru í þessari röð; hlaup, hjólreiðar, sund, göngur, skíðagöngur, hjólaskíði, línuskautar og róður. Þessi listi er ekki tæmandi þar sem hver og einn getur bætt við og skilgreint æfingar eftir þörfum.
Stig eru reiknuð hjá íþróttagreinum sem mældar eru í vegalengdum. Fyrir hvern hlaupinn kílómetra er reiknað eitt stig. Hinar greinarnar fá tilreiknuð stig eftir ákveðnum hlutfallsreglum.
Af tæknilegum ástæðum er erfitt að koma við stigagjöf hjá öðrum íþróttagreinum. Ef til vill væri hitaeiningabrennsla besti mælikvarðinn fyrir alla íþróttaiðkun ef mæling væri framkvæmanleg.
Iðkandi skráir vegalengd og tíma. Þá fær hann uppgefið kílómetrahraða á tíma (km/t), einnig hversu margar mínútur tók hann að fara kílómetrann (mín/t). Hann fær yfirlit yfir km fjölda sem hann fór í hverri viku, mánuði og á árinu. Einnig fær hann samanlagðan stigafjölda fyrir allar viðeigandi greinar sem hann skráði hjá sér yfir vikuna, mánuðinn og árið. Hann getur borið stigafjölda sinn í hverri grein og samanlagt við aðra iðkendur fyrir hverja viku, mánuð og ár. Hægt er að skoða skrárnar eins langt aftur í tímann og viðkomandi hefur verið virkur. Á forsíðunni er birtur Topp tíu listi yfir ötulustu iðkendurna.
Iðkendur geta sent hver öðrum skeyti sem þeir einir hafa aðgang að. Þeir geta gert athugasemdir við hverja æfingu hjá bæði sér og öðrum. Þeir geta sett tengil á eigin bloggsíðu, haft kynningu á sjálfum sér og ferli sínum og markmiðum ásamt mynd (prófíll). Þeir geta sent inn greinar eða pistla um viðeigandi efni og birt tilkynningar eða tillögur á Spjallið í forsíðunni sem nær til allra. Einnig geta iðkendur stofnað lið sem keppa innbyrðis um stigafjölda. Stöðugt er verið að vinna að endurbótum á kerfinu. Það hefur sýnt sig að bestu hugmyndirnar koma frá notendunum sjálfum. Það er lykillinn að því hversu vinsæl dagbókin er orðin.
Upphaflega var dagbókin miðuð við hlaup. Þrátt fyrir miklar vinsældir hlaupsins nær hlaupadagbókin jafn vel til annarra þolíþróttamanna sem æfa og keppa í vegalengdum. Hún hefur breiðst sleitulaust út sem engan enda sér fyrir frá því að henni var formlega hleypt af stokkunum þann 6. Janúar 2008. Í lok októbermánaðar 2008 voru skráðir félagar 685 að tölu. Í þeim mánuði voru 336 virkir félagar.
Vefsíða hlaupadagbókarinnar er www.hlaup.com. Verið er að vinna að því að hafa tengil dagbókarinnar á vefsíðum hjá helstu íþróttafélögum sem málið er skylt og Íslendingafélögum erlendis. Notendur og velunnarar dagbókarinnar eru ennfremur hvattir til þess að koma henni á framfæri við vini og félaga og alls staðar þar sem það á við. Dagbókin mun ávallt vera rekin án endurgjalds í sönnum íþróttaanda þar sem framtak og samheldni félaga ræður ferðinni.
Stefán Þórðarson, sem búsettur er í Danmörku, hannaði dagbókina eftir sams konar fyrirmyndum og hefur hann umsjón með henni. Stefán er einnig umsjónarmaður Maraþonskráar félags Maraþonhlaupara (FM).
Höfundur : Hartmann Bragason