Ótrúlegt hvað tíminn líður. Þetta frábæra hjólasumar liðið og nú getur maður skemmt sér við það á kvöldin að skoða allar myndirnar frá sumrinu sem að er búið að vera ótrúlega fjölbreytt útivistarlega séð. Ferðasumarið byrjaði eins og oft áður á Nesjavallaferðinni sem að tókst vel þetta árið. Maður vildi alltaf sjá fleiri en það skiptir mestu máli að fólk hefur verið ánægt með hvað það lærir á svona stuttri ferð og drífur sig svo af stað.
Nú árið 2002 var merkilegt ár í sögu klúbbsins því að þá var farinn ferð á vegum ÍFHK til Stavanger í Noregi. Fyrsta ferðin til útland en EKKI SÚ SÍÐASTA!!!!!!!!!!. Þessi ferð tókst alveg frábærlega vel, ég skipulagði ferðina eins og mína draumaferð en það hafði áhrif að það var ekki auðvelt að finna gististaði sem að pössuðu dagleiðum. Steini Brodda einn klúbbfélagi hafði hjálpað mér við fyrsta uppkastið því að hann hafði búið í Stavanger en við gátum ekki farið eftir þessu fyrsta skipulagi vegna gististaðaskorts. Líklega eru einhverjir sem að fóru inn á heimasíðuna okkar og sáu uppdrátt af ferðinni og myndir af öllum beygjunum OG HÆTTU VIÐ??? En þessar 27 beygjur voru ekkert vandamál og nokkrir bættust í hópinn til að komast upp þær svo að ... Allavega er ákveðið að fara aðra ferð eftir 2.ár. Nú getið þið farið leggja til hliðar og munið að panta í afmælis og jólagjafir einhverja nytsama hluti í ferðalögin!!
Þetta árið voru líka kosningar og Páll Guðjóns okkar heimasíðustjóri gerði bækling sem að var sendur til flestra frambjóðenda um málefni hjólreiðafólks í máli og MYNDUM. (Er inni á heimasíðunni á Umferðarvefnum) Bæklingurinn er mjög vel unninn og sýnir vel þann vanda sem að við eigum við að etja og líka þær úrbætur sem að við erum að fara fram á. Viðbrögðin voru engin að hálfu frambjóðenda en við fengum umfjöllun í útvarpi og sjónvarpi svo að kannski hafa augu einhverra opnast. Ætlum við á næstunni að senda bæklinginn til borgar og bæjarráða og þeirra stofnanna sem að fara með skipulagsmálin með von um einhvern skilning.
Annars hafa ferðir klúbbsins falli niður vegna RIGNINGA og hvassviðris nema Verslunarmanna- helgarferðin sem var farin í rigningu og að hluta því að svo mikið úrfelli var að ekki var farið á veginn hjá Skjaldbreið eins og til stóð. En Bjössi Finns hefur ásamt félögum sínum farið í þriðjudags- kvöldferðirnar og er alltaf að aukast áhugi fólks á þeim ferðum enda kjörið tækifæri fyrir alla að fræðast um stíga og krókaleiðir með þeim hér á höfuðborgarsvæðinu.Alhliða flutningaþjónustan gaf eignar og farandbikar sem virkar mjög hvetjandi og var hann afhentur við grillhátíð í GÁP Gunnari Inga Guðlaugssyni sem kom í flestar ferðir þetta sumarið. Ég held að hann hafi mætt í allar ferðirnar svo að hann var vel að viðurkenningunni kominn.
Í talningu Landsamtakanna í vor kemur fram að hjólandi fólki er alltaf að fjölga og sýnir þetta stjórnvöldum að eftir því sem að aðstæður batna þá eru fleiri tilbúnir að nýta sér hollari samgöngumáta. Talið var á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og höfum við mótmælt síendurteknum lokunum á austur- vestur leiðinni í gegnum Reykjavík. Þar getur fólk aldrei verið visst um að það sé opið og eins og fram kemur í samantektinni hjá Páli Guðjóns hefur Miklubraut/Hringbraut verið lokað í mislangan tíma síðastliðinn 4.ár. Erum við alls ekki að kvarta yfir því sem verið er að gera heldur viljum við ekki sjá þessar LOKANIR fyrirvaralaust og engar hjáleiðir fyrir hjólandi og gangandi eins og tíðkast fyrir aðra umferð. Ætti að láta umhverfisvænar samgöngur hafa forgang og byggja samgöngukerfið upp þannig að fólk sé öruggt. En eitt að lokum MUNIÐ eftir ljósum aftan og framan og farið eftir umferðalögum. Það auðveldar öll samskipti ef við erum til fyrirmyndar.
Hjólum heil. !!!!!!!!!!
Alda Jóns formaður ÍFHK nóv. 2002.
- Details
- Alda Jónsdóttir