Gleðilegt hjólasumar og allt það.
Nú er fyrsta ferð sumarsins búin og ýmislegt sem tilheyrir vorstarfi klúbbsins, svo aðaltíminn er framundan hjá þeim sem ætla að ferðast á hjólum. Ferðin á Úlfljótsvatn helgina 27.-28. maí tókst í alla staði mjög vel og þessi litla lenging á ferðinni ef við miðum við Nesjavallaferð fór bara vel í fólkið enda leiðin og veðrið alveg frábært. Þarna voru ýmsir sem komu sjálfum sér og öðrum á óvart og við fáum söguna síðar í blaðinu. Aðstaðan á Úlfljótsvatni er alveg frábær og hægt að mæla með henni við hvern sem er.
Fyrir hin sem hjóla daglega og nota hjólið sem samgöngutæki og eru að bíða eftir bættri aðstöðu. Það kom fram þingsáliktunartillaga um okkar mál á síðasta þingi. Það verður að segjast að vegna anna á síðustu þingdögunum komst sú tillaga ekki í gegn en það vill þannig til að annað þing kemur eftir þetta svo að við erum ekkert farin að örvænta enda þýðir það ekkert eftir allar þessar mengunarfréttir í fjölmiðlum síðustu daga.
Húsnæðismálin: Eitthvað verður nú að minnast á klúbbhúsið okkar því að helsta starf klúbbsins hefur verið í formi byggingarklúbbs síðustu mánuðina. Það er nú farið að sjá fyrir endan á þessu því að milliloftið er komið upp og búið að setja stigann á sinn stað. Verður vonandi gengið frá gólfefnum fljótlega. Þá er eftir vinna í rafmagni sem hefur setið á hakanum vegna peningaleysis. Gísli smiður hefur verið duglegur að drífa þetta af einnig hafa hann og fleiri stórbætt viðgerðaraðstöðuna í klúbbnum sem er alveg til fyrirmyndar núna.
Utanhúsviðgerðir verða framkvæmdar í sumar og er búið að ganga frá tilboði Málningarþjónustunnar Hafnar varðandi það. Einnig verður skipt um þak og við hlutum MÁLNINGARSTYRK HÖRPU svo að nú sameinust við í haust og skellum málingu á klúbbhúsið sem verður þá okkur til mikillar prýði loksins.
Ég verð nú aðeins að þakka alveg frábær skil á félagsgjöldum og óska þessum mörgu nýju félögum sem gengið hafa í klúbbinn til hamingju með inngöngu í ÍFHK. Ég vona að með nýju fólki komi ferskir andar í klúbbinn og alltaf má skoða nýjar hugmyndir. Fyrst ég er nú kominn í þakkarkaflann í pistlinum verð ég aðeins að minnast á formannsskiptin í Landssamtökum hjólreiðamanna en þar lét Gunnlaugur Jónassson af formensku og Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir tók við. Fráfarandi stjórn þökkum við vel unnin störf og óskum Guðbjörgu Lilju og því fólki sem með henni starfar velfarnaðar í starfi enda af nógu af taka í hagsmunamálum hjólreiðafólks.
Á næstunni munu þau sem áhuga hafa á að bæta stígakerfið og koma með hugmyndir í tengingu sveitafélagana og hugmyndir að öðrum úrbótum í okkar stígamálum hittast og skoða kort sem að við höfum fengið send frá öllum sveitafélögunum og Reykjavíkurborg. Það mun svo vaskur hópur klúbbfélaga hjóla í sumar ýmsar leiðir með það í huga sem betur mætti fara. Þessar hugmyndir verða svo merktar inn á kortin svo að eitthvað heildarskipulag verði á þessari vinnu. Ef það eru fleiri sem vilja koma að þessu verkefni þá er það vel þegið. Skráning
Ætli ég fari ekki að segja þetta gott í bili og minnist í lokin aðeins á að ef einhver hefur áhuga á að koma í stjórn ÍFHK og láta að sér kveða í haust þá vantar alltaf áhugasamt fólk til starfa ekki síst nú þegar klúbburinn er hættur að vera byggingarklúbbur og hægt að snúa sér betur að hagsmunamálunum og skemmtilegu klúbbstarfi.
Hjólið heil!
Alda Jóns formaður ÍFHK