21. - 23. maí.  Eurovisionferð

Samkvæmt hefð verður farið í hjólaferð þessa helgi.  En kannski breytum við út af vananum og förum í bústaðinn á föstudegi.  Hjólum þaðan 30-50 km á laugardegi og tökum svo Eurovision gleði um kvöldið.  Áfram Daði og Gagnamagnið.  Ef við förum hefðbundnu leiðina, frá Norðlingaholti yfir Hengilinn, þá mun fylgdarbíll fylgja hópnum, taka pjönkur og hægt að fá skutl upp bröttustu brekkuna.  Það verður örugglega heitur pottur og góð aðstaða.

 

11. - 13. júní.  Snæfellsnes

Hjólaferðin hefst á laugardegi kl. 10:00  Þeir sem vilja reyna á sig hjóla frá Stykkishólmi, þá endar dagleiðin í 60 km. Hinir hittast við vegamótin og hjóla þaðan yfir í Berserkjahraun og stytta hjóladaginn um 20 km.  Það verður farið í sund og svo út að borða.  Hver og einn sér um sína gistingu, en flestir gista á tjaldsvæðinu, þar sem við verðum með kvöldvöku, gleði og glaum.  Ef einhver á gítar eða önnur hljóðfæri væri það frábært.  Á sunnudeginum tökum við saman tjöld og annan farangur og keyrum suður í átt að Borgarnesi.  Stoppum á leiðinni og hjólum upp að Hítarvatni, en þar er náttúran ægifögur.  30-40 km á malarvegi. Menn muna kannski eftir Hítardal úr fréttunum, en þar féll skriða úr hlíðinni hinu megin í dalnum.  Helginni lýkur svo með hefðbundnu hamborgaraáti áður en menn skilja... ja, ekkert knús og kossar að þessu sinni, munum 2ja metra regluna og einstaklingsbundnar sóttvarnir.

 

16. - 18. júlí.  Laugaland

Fjölskylduferð, þar sem fólk ræður hvort það hjólar eða ekki.  Þeir sem vilja taka hjólin með og það verður hjólaðar auðveldar dagleiðir laugardag og sunnudag.  Hinir fara í göngu, sund, eða flatmaga í sólbaði, allt leyfilegt þessa helgi.  Klúbburinn mun skaffa gasgrill, hver fjölskylda sér um sinn mat.  Muna að taka með borðbúnað, tjaldstóla og borð.  Við verðum jafnvel með lítið upphitað partýtjald sem fólk getur setið inni í þegar kólna tekur á kvöldin.


13. - 15. ágúst.  Vestmannaeyjar

Vegna fjölda áskoranna höfum við ákveðið að fara enn og aftur til eyja.  Hver og einn velur sér gistingu, en flestir gista á tjaldsvæðinu í Herjólfsdal.  Þar er mjög góð inniaðstaða fyrir tjaldgesti.  Við munum fara í sund, út að borða, tékka á næturlífinu og hjóla þvers og kruss um eyjuna fögru.  Stefnum á að taka ferjuna til Vestmannaeyja á föstudegi og til baka síðustu ferð á sunnudegi.

 

Ágúst / september.  Móseldalur

Þó að það sé ekki útlit fyrir ferðamennsku í útlöndum, þá viljum við samt halda þessum áformum inni.  Planið er að hjóla niður Móseldalinn á einni viku.  Auðveldar dagleiðir og möguleiki á að taka útúrdúra og gera dagleiðirnar meira krefjandi.  Gistum 2-4 saman í herbergi m. morgunmat.  Dagsetning liggja ekki fyrir, né ferðalýsing, og ferðin verður jafnvel ákveðin með stuttum fyrirvara.

 

Mánaðarleg dagsferð

Við ætlum að taka upp lengri dagsferðir í nágrenni höfuðborgarinnar. Þessar ferðir verða auglýstar með stuttum fyrirvara í Facebook grúppunni okkar, Fjallahjólaklúbburinn - umræðuhópur.  Við byrjum í maí og verðum fram í september, jafnvel fram á haustið ef undirtektir og þátttaka verður góð.  Það verða ekki fastar dagsetningar á þessum ferðum, við ætlum að láta veður og vinda ráða för okkar, en við ætlum að reyna að fara eina ferð í hverjum mánuði.
 

© Birtist í Hjólhestinum mars 2021.