Einhverjum kann ef til vill að finnast hjólaklúbbur vera kominn út fyrir sitt verksvið eða tilgang með því að taka þátt í svona nokkru. Má vera, en náttúru og umhverfisvernd kemur jú öllum við og viðhorf til náttúruverndar breytist hratt. Stjórn ÍFHK tekur þessu verkefni fagnandi og hvetur félagsmenn til að taka til hendinni með okkur í vor á gróðursetningardögunum sem verða auglýstir síðar.
Samkomulag var gert um úthlutun 3 hektara landssvæðis í landi Skógræktar Hafnarfjarðar í Klifsholti. Landssvæðið er við mörk Garðabæjar, skammt frá Búrfellsgjá og sést til hægri á loftmyndinni fyrir ofan og á ljósmyndinni fyrir neðan.
Styrkurinn dugar fyrir ca 2800 bakkaplöntum í allt svæðið. Því til viðbótar verða settir niður græðlingar og molta borin á þar sem þarf. Tegundaval og skipulag verður unnið í samvinnu við Skógrækt Hafnafjarðar. Samningurinn um landið er bundinn í eitt ár, með möguleika á framlengingu um eitt ár í senn.
Fjölnir Björgvinsson.