Hjólafærni er í samvinnu við Rauða krossinn við að gera upp þessi gömlu reiðhjól með hælisleitendum. Fyrsta verkaðstaðan sem við unnum í var einmitt að Brekkustíg 2 í húsnæði Íslenska fjallahjólaklúbbsins. Sólver, Árni og Darri hafa mest miðlað þekkingu sinni í hjólaviðgerðunum auk þess sem sjálfboðaliðar Rauða krossins voru oftast líka með á verkstæðunum.
Við lentum á flakki með verkefnið. Eftir tvo mánuði á Brekkustígnum fórum við í samstarf við hjólasöfnun Barnaheilla. Það vakti mikla ánægju og gleði. Hælisleitendur lögðu til heilmikla vinnu við að gera upp reiðhjól fyrir Barnaheill til úthlutunar til íslenskra barna.
Þegar kom að því að Barnaheillaverkefninu lauk, varð HæHó! heimilislaust en mikill áhugi var enn á meðal hælisleitenda að eiga þess kost að gera upp sín eigin reiðhjól, starfsmaður Rauða krossins fann nýtt húsnæði og við hófum samstarf við Músík og mótor að Dalshrauni 10. Þar störfum við á mánudögum frá kl. 12 – 16. Tveir sjálfboðaliðar koma úr röðum Rauða krossins við hverja opnun og frá Hjólafærni kemur einn starfsmaður til að vinna í viðgerðum og stýra faglegri ráðgjöf vegna viðgerðanna. Nokkrir hælisleitenda sýndu strax mikla færni í viðgerðum og unnu þétt með okkur í verkefninu, þannig að þeir urðu eins konar verkstæðisformenn og hafa lagt öðrum lið í viðgerðum.
Þegar við lögðum fyrst upp með verkefnið var meira á prjónunum hjá okkur. Við buðum hælisleitendum í samvinnu við Farfugla í Laugardalnum að hjóla með á laugardagsmorgnum í hjólaferðum LHM og Hjólafærni. Það gekk ágætlega fram eftir hausti 2016 en svo fór kuldinn að bíta hraustlega í og þá dró mjög úr þátttöku í verkefninu.
Sorpa og Reykjavíkurborg hafa stutt verkefnið auk annarra. Almenningur hefur gert frábærlega í því að leggja til hjól. Mikil ánægja er með þetta samvinnuverkefni og stefnum við að því með vorinu að opna verkstæði á ný og þá frá byrjun í góðri samvinnu við Barnaheill líka.
Áhugasamir sjálfboðaliðar sem vilja leggja verkefninu lið eru hvattir til að láta vita af sér hjá Hjólafærni í s. 864-2776 eða með tölvupósti í
Sesselja Traustadóttir
Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2018.