Á fyrsta fjallahjólinu mínu voru nokkuð vandaðar gjarðarbremsur en mér fannst ég samt alltaf vera annað hvort að stilla þær eða skipta um púða. Og svo kom að því að ég kláraði afturgjörðina og framgjörðin var líka langt komin. En í stað þess að skipta um gjarðarhringina og halda áfram, skipti ég yfir í diskabremsusett. Sú breyting varð á að í stað þess að stilla mjög oft og skipta um púða á að minnsta kosti 1000 km fresti eru komir núna um fimm þúsund kílómetrar sem ég hef ekki einu sinni þurft að stilla nýju bremsurnar.
Sá hlutur sem slitnar næst mest er drifið; keðjan, skiptarnir og tannhjólin, sérstaklega sé hjólað í mikilli bleytu, drullu og/eða snjó og ekki bætir ef snjórinn er saltaður líkt og venjan er á veturna á höfuðborgarsvæðinu. Slitsterkari búnaður eru svokölluð lokuð drif. En þá eru gírarnir innbyggðir í afturnafið í stað þess að hafa þá utanáliggjandi eins og á sporskiptum sem eru núna algengastir. Til eru keðjuhlífar fyrir lokuð drif enda er keðjan alltaf á sama stað og aðeins tvö tannhjól (eitt að framan og annað að aftan). Ég hef enn ekki séð keðjuhlíf fyrir sporskipti enda yrði hún sennilega mjög stór og klunnaleg þar sem tannhjólin eru mörg og keðjan aldrei á sama stað. Ef við pössum ekki að smyrja keðjuna vel og reglulega fer hún að slíta tannhjólunum óeðlilega. En það orsakast af því að þegar keðjan slitnar, þá slitnar hún innanfrá og hlekkirnir lengjast, þegar það gerist þá passa hlekkirnir ekki lengur á tennur tannhjólanna svo til verður núningur þar á milli.
Rétt er að smyrja keðjuna oft með þunnri keðjuolíu. Teflon olía sem freyðir er mjög góð bæði þar sem hún nær vel inn í keðjuna og smyr vel. Rangt er að nota koppafeiti eða þykka olíu vegna þess að slík smurefni safna í sig sandi og óhreinindum sem virka eins og slípiefni á keðju og tannhjól og gera því illt verra, jafnvel þó að keðjuhlíf verji búnaðinn. Samt er allt betra en að hafa keðjuna svo þurra að hún ískri – jafnvel matarolía, lýsi eða smjör er betra en ekki neitt.
Fyrir nokkru gerði ég tilraun með að nota kertavax til að verja keðjuna. Það kom á óvart hvað það virist virka vel og lengi en brasið, subbuskapurinn og vinnan við það fær mann til að efast um hvort það borgi sig. En svona fór ég að: ég tók útikerti þar sem mér fannst vaxið í þeim feitara. Það var í hentugri málmdós sem ég setti einfaldlega á eldavélarhellu á lágan hita í smá stund. Þegar allt vaxið var bráðið veiddi ég kveikinn uppúr og setti keðjuna hreina, þurra og upprúllaða varlega ofaní. Í smá stund á eftir komu litrar loftbólur út úr hlekkjunum. Þegar þær hættu að koma notaði ég vír til að veiða keðjuendann uppúr og lét hanga yfir pottinum til að það mesta gæti lekið af keðjunni. Svo þegar hún kólnaði var hún stíf eins og prik og ég fór að efast um að þetta væri sniðugt. Með smá brasi og ofbeldi þræddi ég stífa keðjuna upp í gegnum skiptinn og á sinn stað, setti keðjulásinn saman og snéri. Þetta var stíft í kannski 5 hringi og varð þá ljúft og liðugt á ný. Með þetta svona hjólaði ég nokkur hundruð kílómetra í snjó og saltslabbi á eftir án þess að gera nokkuð. Svo smurði ég seint og síðarmeir með keðjuolíu þegar kom smá ískur. Mér fannst líða lengur á milli þess sem ég smurði fyrst á eftir og er það kenning mín að vaxið haldi olíunni betur inni í keðjunni og óhreinindunum úti. Ég verð þó að vara við að það er varasamt að bræða vax á þennan hátt og auðvelt að brenna sig. Keðjan verður líka að vera þurr og hrein til að minnka líkur á vatns-sprengingu ofaní vaxinu sem getur skvettst yfir mann. Þessi tilraun var ekki vísindaleg og engar mælingar né skráningar gerðar um smurningar eða tegundir olía á eftir enda einungis til gamans gert. Ég veit ekki hvort ég mæli með þessu fyrir hvern sem er, en ég á eftir að gera þetta aftur í vetur til að verja mína keðju. Einfaldast er að smyrja oft og reglulega með þunnri keðjuolíu helst með tefloni í sem freyðir.