Dekk
Fáir komast áfallalaust í gegnum veturinn án þess að setja góð vetrardekk undir hjólið. Þá er ákaflega mikilvægt að hafa framdekkið neglt því allt það sem framdekkið kemst fer afturdekkið líka. Í þéttbýli, þar sem salti er ausið á götur, er best að verjast sóðaskapnum með því að vera á mjóum nagladekkjum. Mjó dekk ausa síður upp salti, sandi og tjöru. Þau skera sig í gegnum krapið frekar en að fljóta ofna á því, niður á fastan klaka þar sem naglarnir halda hjólinu stöðugu. Nokian- dekk sem mæla má með eru t.d. Mount and Ground W160 eða Hakkabeliitta W106 að framan og aftan. Til að auka stöðugleika má velja dekk með betra snjómynstri og fleiri nöglum t.d. Hakkapeliitta W240. Mörg dekk má nú fá bæði stærðum 26" og 700C. Hafið hugfast að breið dekk með marga nagla eru ekki endilega besti kosturinn því flesta daga eru götur auðar t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Þegar fara saman breið dekk og margir naglar fylgir því bæði leiðinlegur hávaði og óþarfa erfiði.
Nagladekk endast í mörg ár ef þau eru geymd í dimmri og kaldri geymslu þá 9 mánuði sem þau eru ekki notkun. Þau eru því hverrar krónu virði. Meira um vetrardekk má finna á www.suomityres.fi og www.schwalbe.com
Ljós
Ljós eru ákaflega mikilvæg. Skiptir engu hvort menn hjóla á gangstéttum eða á götum úti. Góð rauð afturljós eru fáanleg í öllum hjólaverslunum. Mestu skiptir að ljósin séu öflug, lýsi vel í 180° og gangi fyrir AAA eða AA rafhlöðum
Úrval framljósa í íslenskum verslunum hefur sjaldan verið mikið. Flest ljós eru ljóstírur sem ganga fyrir fáum og litlum rafhlöðum. Íslendingar eru því allt of oft með léleg ljós ef þá nokkur. Segja má að góð ljós séu dýr en það verður öllum ljóst, sem eignast góð ljós, að þau eru hverrar krónu virði. Góð ljós geta kostað frá 10 upp í 60 þúsund og mjög öflug ljós allt að 100 þúsund krónur. Ef velja á ódýrari ljós þarf að huga að ýmsum atriðum. Ljósin þurfa að ganga fyrir hleðslurafhlöðum, því fleiri rafhlöður (hærri spenna) því betra. Fólk ætti að forðast ódýr lágspennt ljós með hefðbundnum perum. Díóðuljósin geta verið ákafleg mismunandi að gæðum ekki síst þegar kemur að ljósstyrk. Díóðuljós sem ekki skarta öflugu ljósi þurfa að hafa möguleika á því að blikka og hafa góðan hliðargeisla.
Höfuðljós er góður kostur. Oft og tíðum samtímis öðru ljósi á hjólinu. Það bætir lýsingu til muna og minnkar líkur á því að hjólið verði ljóslaust vegna tómra rafhlaðna.
Þegar þessi grein er skrifuð er ljósaúrvalið mjög lítið í verslunum. Vefsíður þeirra framleiðenda sem helst er að finna hér á landi eru www.sigmasport.com, www.cateye.com og www.lightandmotion.com.
Þótt öryggisvesti teljist ekki til ljósa og komi ekki í stað ljósa, er endurskin þeirra oft og tíðum svo gott að hiklaust er hægt að mæla með þeim til að auka öryggi hjólreiðamanna.
Langbesti kosturinn er nafrafalar sem því miður hafa aðeins sést hér undir borgarhjólum sem framleidd eru fyrir Evrópumarkað. Ef hjólið er búið slíkum rafal verður það aldrei rafmagnslaust og því aldrei ljóslaust. Verslanir hér á landi hafa ekki boðið upp á nafrafala en þá má panta á netinu. Stærstu framleiðendur þessara rafala er Shimano og SRAM en bestu rafalarnir eru tvímælalaust frá Schmidts og kallast SON. Nafrafala er hægt að fá með bremsudiskafestingum og komast því undir öll hjól. Ljós fyrir nafrafala eru frábrugðin hefðbundnum rafhlöðuljósum. Besta úrvalið er að finna frá framleiðendum eins og Schmidts www.nabendynamo.de og Bush und Muller www.bumm.de sem auk ljósa framleiðir mjög góða og öfluga flöskurafala. Rafall með tilheyrandi ljósum getur kostað 10-60 þúsund krónur.
Fatnaður
Ef verja á búnað reiðhjólsins og fatnað fyrir tjöru, sandi og salti er afar mikilvægt að hafa góð bretti á hjólinu. Frambrettið þarf svo að skarta góðum drullusokki sem nær allt niður í 10 cm frá jörðu. Þannig má komast hjá því að verða votur eða skemma fatnað vegna salts og sands sem borið er á götur borgarinnar.
Enginn þarf að klæða sig eins og geimfari þótt hjóla eigi allan ársins hring. Hefðbundinn klæðnaður hentar ágætlega til útivistar og einnig til hjólreiða. Flestir gera þá skissu að klæða sig allt of mikið. Það er ekki vænlegt til árangurs ef hjólreiðar eiga að verða að lífstíl. Þótt fólki finnist kalt að stíga á hjólið að morgni mun hitinn alltaf koma fljótt upp ef menn á annað borð reyna á sig.
Mikilvægast er að vera í góðum en ekki of þykkum vettlingum til að hafa vald á hjólinu. Húfa sem nær niður fyrir eyru gerir svo meira gagn en þykk peysa eða föðurland. Forðast ætti fatnað sem blaktir í vindi. Nærföt þurfa að hrinda frá sér raka og þorna hratt. Bómull er því ekki heppilegt efni. Yfir undirfötum má mæla með þunnri ullarpeysu t.d. frá Cintamani eða Ullfrotte. Svitalykt á frekar til að festast í þunnum flíspeysum. Ull er því betri kostur. Þar yfir þarf yfirleitt ekki annað en þunnan jakka eða vindskel og jafnvel aðeins vindskel að framanverðu. Buxur þurfa að vera úr efni sem draga í sig sem minnstan raka. Buxur ættu því að vera frekar þunnar svo þær þorni hratt þegar komið er í hús. Sumum finnst nauðsynlegt að hlífa klofinu við kulda, ekki síst konum, til að forðast blöðrubólgu. Þá má klæðast Lycra hjólabuxum með rassbót innst fata. En einnig hafa fengist sértakar nærbuxur með vindskel í klofinu sem hentað geta öllum.
Góður skófatnaður skiptir máli, ekki síst ef frambretti hjólsins er ekki búið góðum drullusokki. Þeir sem hafa vanið sig á smelluskó hafa ekki marga kosti. Þó eru fáanlegar skóhlífar úr næloni eða neopren sem hlífa skóbúnaði ágætlega. Einnig eru fáanlegir sérstakir vetrarskór t.d. frá Shimano. Þeir lokast þétt að ökkla sem er mjög gott við íslenskar aðstæður. Þannig má vaða djúpa skafla og hjóla á sandbornum gangstéttum án þess að skórnir fyllist af snjó og/eða sandi. Sama gildir um þá sem hjóla í venjulegum skóm. Skóhlífar eða legghlífar koma alltaf að góðum notum.
Gangi ykkur vel að hjóla í vetur!
Magnús Bergsson