Dekk, gjarðir og fatnaður
Síðasti vetur (1999) var óvenju snjóþungur. Borgaryfirvöld hreinsuðu snjó af
akvegum og bílastæðum nótt sem nýtan dag. Annað fékk að sitja á
hakanum, þar á meðal stofnstígakerfið. Það væri afskaplega notalegt ef
R-listinn stæði við sín fögru fyrirheit um að auka veg hjólandi og
gangandi í borginni, líka á veturna. En borgin hirti hreinlega ekkert
um að ryðja snjó af göngustígum nema þá ómarkvisst á afmörkuðum stöðum
sem ekki dugði til samgangna.. Það er eins og D-listinn hafi aldrei
farið frá eða félagarnir Einkabíllinn og Andsk… séu búnir að hrifsa til
sín öll völd. Vegna þessa varð undirritaður að hugsa hlutina upp á
nýtt og deila ferðalögum sínum með akandi umferð á skeindum götum
borgarinnar. Ekki dugði að hringja og kvarta enda er ég ekki
bíleigandi. Ekki dugði heldur að nota nagladekkin sem höfðu verið undir
hjólinu seinustu 5 vetur og enst einstaklega vel, Nokian 1,9” Mount and
Ground 160 nagla. Það þurfti dekk með betra snjómynstri sem gæfi kost á
að hjóla um akvegi borgarinnar með sem mestu öryggi. Sem betur fer var
Nokian (www.nokian.com/bike)
komin með ný dekk á markaðinn sem uppfylltu óskir mínar 2,1” Extreme
296 nagla. Það þurfti aðeins að skipta um dekk að framan til að auka
öryggið til mikilla muna.
En hvert er leyndarmálið svo að nota megi reiðhjól yfir vetrarmánuðina á Íslandi? Það er fyrst og fremst að nota RÉTT dekk miðað við aðstæður, góð ljós og réttan klæðnað. Við skulum byrja á dekkjunum. Fyrir örfáum árum voru nagladekk ekki til. Þurfti að æfa með sér einstaka hæfileika til að skynja klakann undir dekkjunum og beita hjólinu af mikilli færni samkvæmt því, það eru jú aðeins tvö hjól undir reiðhjólinu. Síðan komu dekk frá Specialized (http://www.specialized.com) sem hétu Storm Control og voru frábær snjódekk. Það fór því að styttast í fullkomleikann. En áður en tókst að setja nagla í Storm Control dekkin þá kom IRC með Blizzard nagladekkin. Á sama tíma eða rétt á eftir kom Nokian með sín Mount & Ground dekk með 160 nöglum, sem voru 2-3 sinnum fleiri naglar en í IRC dekkinu. Nokian hafði því vinninginn. Þessi dekk höfðu þann ókost að virka illa í miklum snjó og það var ekki fyrr en veturinn 1997 sem Nokian fer að framleiða Extreme 296, að hjólreiðamönnum fóru í alvöru að verða allir vegir færir, allt árið um kring. Það er ekki meira mál að vera á reiðhjóli en á skíðum, þegar veður er sem verst á veturna. Menn komast alltaf á leiðarenda verstu ófærðardagana og verða sér aldrei til skammar með 1-2ja tonna bíl föstum í snjóskafli.
Nokian er eini framleiðandinn sem framleiðir alvöru vetrardekk undir reiðhjól í dag. Aðrir framleiðendur hafa svo sem reynt, en lítið orðið ágengt. Liklega stafar það af því að Nokian er framleitt af Finnum sem þekkja bæði snjó og klaka betur en margir aðrir. Úrvalið er nokkuð gott og má nú finna dekk sem henta nánast við allar aðstæður. Ekki ætla ég að telja upp öll dekkin en bendi á kosti og galla þeirra dekkja sem helst er að finna á íslenskum markaði.
Fyrst ber að nefna Nokian Hakkapeliitta 1,75” breidd með 106 nöglum. Þessi dekk henta vel á götur og staði sem þaktir eru krapi, en á milli koma dagar þegar allar götur eru auðar. Þau endast vel og skera sig auðveldlega í gegn um krapið, niður á fast þar sem naglarnir taka við og “líma” hjólreiðamanninn við götuna. Auk þess henta þessi dekk vel undir reiðhjól með bretti þar sem bilið milli bretta og dekkja er meira. Galli þessara dekkja er sá að mynstrið er ekki gott fyrir mikinn snjó, þau hreinsa sig illa þar sem þau eru ekki gróf. Hakkapeliitta er lika framleitt í 1,9” breidd með 240 nöglum og öðru mynstri. Þessi dekk mundu henta vel sem afturdekk, þau eru endingargóð og mynstrið er grófara en á Hakkapeliitta 1,75”
|
|
|
|
Nokian Extreme 2,1” með 296 nöglum henta vel á stöðum þar sem mikið þarf að fara um ósléttan klaka, snjóruðninga og mikinn snjó. Þessi dekk eru frábær sem framdekk, því að komist framdekkið yfir hindrunina fer afturhjólið það líka. Dekkin hreinsa sig vel og hafa einstaklega gott grip á alla vegu. Miðað við breidd, eru dekkin ekki þung og rúlla því ótrúlega vel, hvort heldur er í mikilli ófærð eða á þurru malbiki. Galli dekkjanna er sá að mikið heyrist í nöglunum á þurru malbikinu og vegna stærðar passa þau stundum ekki undir hjól með brettum. Dekkin endast illa ef nota á þau mikið á þurru malbiki og þá einkum að aftan. Það gæti því verið sniðugt að nota önnur endingarbetri dekk að aftan eins og t.d. Hakkapeliitta sem mundu auðveldlega rúlla vel í hjólförum Extreme.
|
Nokian Freddie´s Revenz 2,3” með 336 nöglum er líklega “rosalegasta” dekk sem sést hefur undir nokkru reiðhjóli. Mynstrið er mjög gróft auk þess sem naglarnir eru stærri en gengur og gerist og því standa þeir langt út úr dekkinu. Það gæti því hreinlega verið hættulegt að hjóla yfir tærnar á einhverjum. Þessi dekk eru hönnuð fyrir mikinn snjó og ís. Þau hreinsa sig vel og fara yfir hvað sem er svo lengi sem hjólreiðamaður hefur einhvern kraft. Á móti kemur að þau henta engan vegin á malbik og geta jafnvel verið varasöm í kröppum beygjum. Breidd dekkjanna leyfir heldur ekki að notuð séu bretti, og er líklegt að bretti mundu tætast í sundur ef svo mikið sem einum nagla tækist að krækjast í þau. Freddie´s hentar vel sem framdekk og jafnvel sem afturdekk ef tæta á um ísilögð vötn eða jökla.
|
|
|
Gozzaloddi 2,6 og 3.0 eru liklega breiðustu dekk sem framleidd hafa verið undir reiðhjól. Flotið er ótrúlega mikið. Eru hér komin dekk sem gætu gefið túttum túttujeppa ekkert eftir. Þykkar hliðar gefa kost á því að hleypa úr dekkjunum og auka því töluvert við flotið. Reyndar er hægt að hleypa úr öllum dekkjum frá Nokian nema Extreme sem er “skinwall” og því með þunnar hliðar. Einn hængur er við Gozzaloddi. Það eru aðeins örfá hjól sem geta notað svona breið dekk. Hjól framleidd t.d. af Dimond Back og Fisher fyrir 8-10 árum gátu og geta helst notað þessi dekk án vandræða. Á þeim árum voru demparar ekki til en þess í stað voru hjólin prýdd breiðum gjörðum og belgmiklum dekkjum eða allt að 2,6” Í dag þarf helst að sérsmíða reiðhjól fyrir þessi dekk. Eru þau ónothæf á þurrt malbik þar sem mjög þungt er að stýra hjólinu, en þau henta vel á “hæfilega” harðan snjó, á jöklum eða á heiðum.
|
Gjarðahringir
Gjarðahringi má fá í mismunandi breiddum fyrir utanmál gjarða frá 21mm upp í 30mm. Algengustu stærðir eru frá 23 til 28 mm. Reglan er sú, að eigi að nota breið dekk skuli nota breiðar gjarðir. Ef mikill þrýstingur á að vera í dekkjunum má hafa mjórri gjarðir. Ástæðan er sú að eigi að hleypa úr dekkjum með mjóum gjörðum er hætta á að gjörðin skeri strigann í dekkinu eða hjólið “affelgist”. Að auki verður hjólið allt óstöðugra og lætur illa að stjórn. Því verður hver og einn að velja sér gjarðir miðað við hjólastíl, dekkjabreidd og aðstæður. Ef hjólið er með V bermsur, eru til gjarðahringir með keramikhúð sem verja gjarðir gegn tæringu og skemmdum. Undirritaður er farinn að nota þessar gjarðir með ótrúlega góðum árangri. Í stað þess að skipta um bremsupúða á mánaðarfresti og gjarðir á 12 mánaða fresti, sést ekki enn á gjörðunum eftir 3 ár. Bremsupúða þarf að skipta um einu sinni til þrisvar á ári. Galdurinn er sá að á bremsuköntum gjarðanna er ábrædd þunn keramikhúð sem enginn bremsupúði getur klórað sig í gegnum. Gjarðirnar endast því mörgum árum lengur. Þó ber að athuga að nota aldrei svokallaða keramikbremsupúða á þessar gjarðir. Þeir voru upprunalega framleiddir fyrir þessar gjarðir en gera illt verra. Þeir slípa keramikhúð gjarðanna í spegilsléttan flöt sem verður til þess að bremsurnar virka illa þegar gjarðirnar blotna.
Klæðnaður
Íslendingar eru yfirleitt afskaplega hégómagjarnir í klæðaburði og því oftast nær rangt klæddir miðað við aðstæður. Þeir hafa því flestir tekið þá ákvörðun að leita skjóls í bílum, sjálfum sér, samfélagi og náttúru til tjóns. Liklega er það þessi forheimskandi tískufaraldur sem verður til þess að almenningur fæst ekki til að hjóla á Íslandi. Hver kannast ekki við að hafa séð húfulaust fólk í snjóbyl? Þetta er eitthvað sem hjólreiðafólk þarf að yfirstíga og láta skynsemina ráða.
Efni og hönnun fatnaðar skiptir gríðarlega miklu máli ef glíma á við öll veðurskilyrði. Fatnaður, sem inniheldur bómull, er bannvara á veturna. Þá er mikilvægt að vera í fatnaði sem “andar” vel, þornar hratt, hrindir frá sér raka og hlífir likamanum fyrir mikilli kælingu, sérstaklega af völdum vinds að framanverðu. Fatnaður þarf að vera rétt hannaður, af réttri gerð og á réttum stöðum um likamann. Þannig gerir húfa meira gagn en peysa eða úlpa. Flestar reiðhjóla- og útilífsverslanir bjóða upp á mikið úrval fatnaðar sem hentar vel til hjólreiða og hann þarf ekki endilega að vera framleiddur sem sérstök hjólreiðaflík.
Undirföt mega ekki vera þykk heldur þvert á móti, þunn. Þau mega ekki festa í sér svitalykt. Þau mega ekki “límast” við likamann þegar hann svitnar og ef þau blotna verða þau að þorna hratt svo að likaminn ofkælist ekki. Besta leiðin til að komast að því hvort um rétt efni sé að ræða er að kanna hvort flíkurnar komi því sem næst þurrar upp úr þvottavélinni. Sjálfur hefur undirritaður notað undirföt frá Lowe alpine (http://www.lowealpine.com) og líkað vel. Annars eru flestir framleiðendur útilífsfatnaðar farnir að framleiða undirföt með þessum eiginleikum svo að þá þarf bara að kanna málið. Það er allt eins líklegt að til sé eitthvað betra en Lowe alpine.
Buxur með rasspúða henta alltaf til hjólreiða, nema ef hnakkurinn er mjög breiður. Það gæti þrengt að blóðrennsli til fótanna, en það eitt er vandamál breiðra hnakka.
Buxur sem reynst hafa vel hér á landi eru úr teygjanlegu Lycra efni með GoreTex hlíf að framanverðu. Þessar buxur eru frá MEC í Kanada (http://www.mec.ca). Klúbburinn hefur boðið þær klúbbfélögum á kostnaðarverði. Vind- og vatnsþétt efni að framanverðu leikur eitt aðalhlutverkið í því að gefa íslensku veðurfari langt nef því að flestir hjóla með vind og úrkomu í fangið. Að aftan streymir út hiti og líkamsraki, svo að líkaminn verður síður blautur af svita. Þær henta flest alla daga ársins í nær öllu veðri frá –10 stiga frosti að +10 stiga hita. Ekki borgar sig að vera í of þykkum buxum eða í mörgum lögum af buxum. Það gerir hjólreiðarnar mun erfiðari. En ef veður er virkilega svo kalt, að nauðsynlegt þyki að klæða sig betur má mæla með þunnu “föðurlandi” frá Cintamani (http://www.cintamani.is).
Góðir jakkar eru ekki auðfundnir. Dæmi eru um að fólk hafi hreinlega saumað þá sjálft. Þeir gætu allt eins verið úr svipuðum efnum og buxurnar frá MEC eða Polartec 100 eða 200 með vindhlíf aðeins að framanverði. Slík flik hentar utan yfir undirföt, og er í flestum tilvikum nægur klæðnaður flesta daga ársins. Best er að jakkinn sé síðari að aftan en að framan svo að hann poki ekki framan við magann þegar á hjólið er komið. Nauðsynlegt er að hafa mikið endurskyn frá jakkanum til að auka öryggi notandans. Nefna má að Karrimor hefur framleitt mjög góða jakka sem heita Kalahari og fengist hafa í Skátabúðinni, Nanoq og GÁP. Ýmsa góða vindjakka er þó að finna í nær öllum verslunum og er hreinlega nauðsynlegt að fara á milli þeirra og skoða úrvalið.
Ef á að klæða sig enn frekar undir jakkann, er mælt með því að klæða sig fleiri lögum af undirfötum. Líka má mæla með þunnum ullarbol frá Cintamani, sömu gerðar og “föðurlandið” fyrrnefnda.
Vind– og regnjakkar mega ekki vera lokaðir svo að þeir hleypi ekki út líkamshita og raka frá líkamanum. Ekki dugar að vera í jökkum, sem aðeins prýða rándýr öndunarefni. Slík efni anna engan veginn því raka- og hitaflæði sem frá hjólreiðamanni streymir. Þar sem vatnshelt efni hylur allan efri hluta líkamans, er mikilvægt að undir handakrikum og aftan á baki séu rennlásar sem má opna og loka svo að unnt sé að stjórna loftflæði um likamann. Rennilásinn að framanverðu er síðan notaður sem einskonar stillihnappur á það loftflæði.
Ekki þarf að nota stígvél á reiðhjóli. Þess í stað má mæla með því að festa aurblöðku á frambrettið. Þannig má koma í veg fyrir að fæturnir blotni. Aurblöðkur hlífa líka drifbúnaði og sveifarlegum, sem aurbretti hlífa yfirleitt ekki. Skó- og legghlífar gera gagn, en oftast eru þær gerðar úr efnum, sem anda ekki, og því er líklegt að á endanum blotni fæturnir af svita.
Í klúbbhúsinu hafa fengist stýrishanskar (Karga hanskar) sem vel er hægt að mæla með. Þetta er íslensk framleiðsla sem gerir hjólreiðamanni kleyft að hjóla vettlingalaust á vetrarmánuðum. Þetta er fleece poki sem festur er á stýrið og er úr vind- og vatnsheldu efni að framanverðu. Þetta er endurbætt hönnun hanska sem Madden hefur framleitt í mörg ár.
Að lokum
Reykjavík er afskaplega sóðaleg borg yfir vetrarmánuðina. Þar eru götur saltaðar, en saltið leysir upp tjöruna í malbikinu. Þar eru lika margir þungir bílar á nagladekkjum, sem brjóta upp mölina í malbikinu í fínan salla. Það verður til þess, að skór og föt verða meira og minna mettuð tjöru. Því er erfitt að mæla með skærlitum fatnaði. Hann verður á skömmum tíma afskaplega skítugur. Þá er því um að gera og nota mikið endurskin og spara ekki ljósin.
Vegna nagladekkjanna fer það svo, að þá góðviðrisdaga, sem sólar nýtur og götur eru þurrar, fyllist loftið af fínum ryksalla frá bílaumferð og malbiki. Þetta getur verið afskaplega hvimleitt og má þá grípa til rykgrímu og hjólreiðagleraugna. Slík gleraugu gera afar mikið gagn, þar sem sumar tegundir bjóða upp á að skipta um liti í gleri allt eftir því sem hentar hverju sinni.
Höfum svo eitt að leiðarljósi á komandi vetrum... Betra er að hjóla en bíl að spóla
Magnús Bergsson
© Hjólhesturinn 3. tlb. 9. árg. 2000