Eins og fyrri haust er komið að því að athuga ljósabúnað hjólsins. Flestir eiga ljós frá fyrri árum og þurfa því litið annað að gera en að stinga rafhlöðum í hleðslu, það eru vonandi flestir hættir að nota einnota rafhlöður. Í fyrri Hjólhestum hafa verið birtir dómar um ný ljós þar sem bæði gæði og verð eru afskaplega misjöfn.

Ótrúlegur fjöldi hjólreiðamanna hjólar um ljóslaus eða þá með slíkar týrur að viðkomandi er svo gott sem ljóslaus. Oftast er það níska sem hindra kaup á ljósum og rafhlöðum og er því löngu tími til kominn að breyta því. Fyrir utan það að ljósanotkun er skylda þá hlýtur að vera þægilegra að glíma við villta bílaumferð vel upp lýstur. Flest ykkar eru bílstjórar og ættu því lika að skylja hvernig það er að mæta óupplýstum hjólreiðamanni. Auk þess hafa stígar afskaplega misjafna lýsingu.

Þróun ljósabúnaðar hefur verið ör undanfain ár. Í dag er hægt að fá ljós sem stýrð eru af RISC örgjörfa en hann sér um að gefa perunni "mjúkt start" sem gefur peruni mun lengri endingartíma www.niterider.com/homeset.htm. Hann sér lika um að halda spennu stöðugri á perunni svo að ljósið verði alltaf jafn sterkt á meðan einhver spenna er á rafhlöðunum. Örgjörfinn sér svo líka um að fylgjast með hleðslu og afhleðslu rafhlaðna og gefa hjólreiðamanni upplýsingar um ástandið hverju sinni. Þetta ljós er ekki til sölu hér á landi en að öðru leiti er hægt að fá ljós sem eru engu síðri þegar á reynir enda með sömu perunni

 

Cateye Solo halogen

10120001.jpg

Cateye www.cateye.com er fyrirtæki sem ætti að vera okkur hjólreiðafólki nokkuð kunnugt. Allavega eru orðin 20 ár síðan hægt var að fá hér á landi rafhlöðuljós og hraðamæla frá þessu fyrirtæki. Nú í ár er Örninn með hér um bil allar vörur frá þessu fyrirtæki. Það var því forvitnin sem dró mann að veggnum þar sem ljósin héngu í versluninni. Þar voru komin ný ljós og voru tvö sem dró að athygli mína fremur öðru. Annað þeirra hét Twin Halogen HL-NC250. Tvöfalt 12 volta ljós með 12 og 20 watta perum og Solo Halogen HL-NC260 með einu 12 watta ljósi. Hér í þessari grein ætlum við að skoða síðarnefnda ljósið. Var það með 12 volta NiCad rafhlöðu og 12 watta halogen peru (samloku) sem var í sama ljóskúpli og Stradium ljósið sem prófað var fyrir ári síðan hér í Hjólhestinum. Öll hönnun er mjög góð. 2,4 Ah NiCad rafhlaðan eru í vatnsþéttum plasthólki sem passar í brúsastatíf. Hægt er að skrúfa hólkinn í sundur og skipta um bæði rafhlöður og 5 ampera öryggi ef svo ber undir. Frá hólknum liggur fremur óþjál gormasnúra í vatnsþétt tengi sem skiptist í aðgreindan rofa sem hægt er að festa á hentugan stað við stýrið og hinsvegar í ljósið sem er í sterkbyggðum ljóskúpli úr áli. Rofinn og ljósið eru fest á hraðtengi svo að fljótlegt er að taka búnaðin af hjólinu. Með í kaupunum fylgir svo vandað hleðslutæki 12 volt, 900mA DC

10120006.jpg

En hvernig virkar svo ljósið? Satt best að segja er það frábært. Jöfn og þægileg flóðlýsing fram veginn og ekkert ljós skín í augu beint frá peru. Cateye segir að ljósið lýsi allt að 1,5 km. Það nýtist þó ekki nema þá til að ná athygli ökumanna og hugsanlega fá þá til að lækka bílljósin. Í fljótu bragði þá gæti manni dottið í hug að það vanti hliðargeisla en það væri óréttlátt að kvarta yfir því, því ljósið er öflugt. Ljósgeislinn spannar allt að 170° sem ekki er slæmt. En nýtanleg ljósdreifing er u.þ.b. 75°.

12 watta pera á 12 volta rafhlöðu þýðir að ljósið dregur1 amper. Rafhlaðan er 2,4 amperstundir (Ah) sem þýðir að rafhlaðan ætti að endast í 140 mínútur. Ljósið hentar því einstaklega vel í stuttar vegalengdir eins og í þéttbýliskjörnum þar sem ferðalagið stendur ekki lengur yfir en rétt rúma 2 tíma. Það er hreinlega frábært til að upphefja önnur ljós í umhverfinu sem trufla eða blinda hjólreiðamann. Ljósið er það gott að það gefur möguleika á því að fara nokkuð geyst um kræklótta stíga án þess að eiga á hættu að brytja niður mann og annan eða verða sjálfum sér til tjóns. Ef finna á galla þá eru þeir ekki auðfundnir. En svo við séum á neikvæðum nótum þá mætti kvarta yfir verðinu sem er 20.6074kr. án afsláttar. Nú veit ég að einhver grípur andann á lofti. En þetta er ekki dýrt ef litið er til gæðanna og ég er sannfærður um að flestir væru því sammmála ef þeir sæu muninn á þessu ljósi og þeim ljóstýrum sem allt of margir kaupa sér. Ef þú ert svo Grafarvogsbúi þá er þetta tilvalið ljós í safariferðir um torfæra slóða til Reykjavíkur.

Af þessari lýingu að dæma þá getur þú lesandi góður ímyndað þér hvernig Twin Halogen stæði sig í samanburði við litla bróður þegar við bætast 20 wött. Við höfum ekki mörg orð um það, en Twin Halogen kostar aðeins 29.343kr án afsláttar. Halogen samlokurnar eru ekki til, en aðspurðir sögðu starfsmenn Arnarins geta pantað perur með skömmum fyrirvara.

Einkanir: (0-10)
Solo Halogen:  Innanbæjar 10 -/- Utanbæjar 2
Tvin halogen:    Innanbæjar 10 -/- Utanbæjar 1

Cateye Micro halogen

10120003.jpg

Þá er komið að öðru ljósi frá Cateye, Micro Halogen HL500/2. Þetta ljós er ekki nýtt og mörgum kunnugt. Var það prófað í Hjólhestinum fyrir tveimur árum. En hér koma smá endurbætur Nú bíður Cateye fyrirtækið ljósið með 6 volta, 6W halogen peru, 6 volta 4Ah blý rafhlöðu og 6 volta 450mA hleðslutæki og það á aðeins 9.036kr. án afsláttar. Ekki sem verst. Ef þér finnst Solo Halogen eitthvað dýrt þá ættir þú að skoða þetta. Ljós þetta er eitt það besta sem völ er á í borgarumferðinni vegna mjög góðra hliðargeisla. Munurinn á þessu ljósi og Solo Halogen er samt þó nokkur. Fyrir utan mikils munar á styrk þá er ljósdreifingin ekki eins góð. Brennipunkturinn er þrengri og því ekki eins auðvelt að hjóla eftir þessu ljós eins og með Solo Halogen.

10120009.jpg

Rafhlaðan er í góðri nælontösku sem festa á undir slánna fram við stýrispípu. 4 Ah þýðir að hleðslan ætti að duga í 4 tíma. En svo er ekki með þessa. Þegar amperstundir eru uppgefnar þá er það sá tími sem tekur að klára rafhlöðuna. En það má ekki klára út af blý rafhlöðum eins og þessum, því þessar rafhlöður eru eins og bílrafgeymir og eins og margir vita þá eyðileggur það rafgeyminn að klára algerlega út af honum. Er þetta sami rafhlöðupakkinn og fylgdi Day Lites HL- NC200 ljósinu og var prófað fyrir 2 árum. Það sama gildir um hleðslutækið. Því er freistandi að vísa til fyrri prófana á heimasíðu klúbbsins. Munurinn frá fyrri prófunum er aðallega að finna í ljósstyrknum sem nú er meiri.

Það er nauðsynlegt að benda á það að Cateye bíður upp á mjög góða varahlutaþjónustu og er hægt að panta nánast alla aukahluti. Það væri því sniðugt að panta varaperur um leið og ljósin eru keypt því perusamlokur í Twin og Solo Halogen fást hvergi annars staðar.

Einkun: (0-10)
Cateye 500  6wött :  Innanbæjar 9 -/- Utanbæjar 4

Smart halogen

10120004.jpg

Þá er komið að keppinauti Cateye allavega hér á landi. Það er Smart, www.smart-listo.com/english . Megin uppistaða framleiðslu Smart eru ljóstýrur sem ganga fyrir 2 rafhlöðum og ættu vart að sjást á nokkru hjóli. Það verður samt að segjast að sum ljósa þeirra eru orðin nokkuð "smart" ef litið er á heimasíðu þeirra í Tævan. Fyrir tveimur árum prófuðum við ljós, Smart Twin Halogen og var þá aðallega hægt að setja út á hönnun hlutana fremur en ljósgæði. Nú virðast þeir hafa tekið sig á, en þeir virðast vera farnir að framleiða ljóskúpla sem bandaríska fyrirtækið (sáluga) Brite Lite framleiddi fyrir nokkrum árum og kostaði þá offjár, enda dagaði fyrirtækið uppi í samkeppni við önnur sem síðar börðust á markaðnum. Bæði Hvellur og Markið hafa selt og eru að selja Smart ljós í dag. Hvellur er að selja Smart Twin Halogen en Versluninn Markið lumar á nýju ljósi frá þeim sem heitir því stjarnfræðilega nafni BL 912H . Samanstendur það af rafhlöðuhólki fyrir 4 rafhlöður (Alkaline eða NiCad af D stærð) sem passar í brúsastatif, gormasnúru með vatnsheldum rofa svo og fyrrnefndum ljóskúpli sem er úr sterku plasti. Peran er 10 watta Halogen samloka en stundum er hún sögð 4,8 volt og 1,5 amper sem þýðir 7,2 wött, allt eftir því hvaða pappíra maður les. Í ljós kom svo að peran er 4,8 volt og því má segja að kreista megi út úr peruni 10W þegar peran er yfirspennt á 6 voltum. Þetta er náttúrulega fáránlegt. En og aftur horfir maður á fúskið hjá Tævananum. Þeir eru þarna með frábært ljós en með óskýrar upplýsingar. Manni væri svo sem sama ef þessar perur fengjust í öllum verslunum en svo er ekki. Ég tel mig nokkuð víðlesinn í perubæklingum og hef hvergi séð þessar perur nema þá 6 volt og jafnvel þær eru vandfundnar. Hér á landi er aðeins hægt að fá 12 volt, 35 watta perur af þessari gerð. Það verður því að stóla á verslunina Markið sem ætti að eiga réttar perur, en sem stendur eru þær ekki til. Aðspurðir ætluðu þeir að útvega perur svo það verður liklega ekki vandamál í framtíðinni.

10120007.jpg

Rafhlöðuhólkurinn er hálfgert ólán. Það þarf skrúfjárn til að taka hann í sundur. Í honum er lítil ljósdíóða sem gefur til kynna hvort hleðslan sé búin af rafhlöðunum. Það gæti virkað vel á þá sem átta sig ekki á því að dauft ljós er sama og lítil hleðsla. Þegar búið var að setja rafhlöðurnar í hólkinn þá hafði hann gengið svo mikið til að í fyrstu atrennu var erfitt að loka honum. Í brúsastatífi er hann frekar laus, en það er breytilegt eftir tegund brúsastatífa. Það mætti því binda hann í statífið með frönskum rennilás, en slíkar ólar fylgdu sem dæmi með Cateye Solo Halogen ljósinu. Snúran frá hólknum í ljósið er fremur óþjál eins og hjá Cateye auk þess sem hefði mátt vera einhver festing fyrir rofann sem annars dinglaði laus fyrir neðan stýrið. Þar væri lika sniðugt að nota franska rennilása.

Þá kom að því að prófa ljósið. Notaðar voru 4 st af 4Ah NiCad hleðslurafhlöðum sem gáfu perunni kjörspennu 4,8 volt. Þetta er frábært ljós og ekki síðra en Cateye Solo Halogen. Samt töluvert daufara, en ljósflæðið var jafnt og þægilegt og ekkert ljós sem skein beint í augun. Það undarlega átti sér stað á meðan prófunini stóð, að raki þéttist í perusamlokuni svo að í henni myndaðist mikil móða en eftir að hafa logað í 15 mínútur hvarf rakin. Burtséð frá göllum þá verður maður bálskotinn í þessum litla, netta og fislétta ljóskúpli sem skilur ekki eftir sig hraðtengi þegar það er tekið af stýrinu. Fyrir þá sem eiga fislétt hjól þar sem grömmin skipta máli og aukabúnaður er bannvara þá er þetta mjög skemmtilegt ljós. Þó þetta tiltekna ljós sé með 4,8 volta peru þá hefur maður ávallt möguleika á því að setja í aðrar perur eins og frá Cateye. Handlagnir einstaklingar geta því útbúið sér frábært 6 eða 12 volta ljós. Fyrir 6.900 krónur er þetta ljós svolitið dýrt sérstaklega ef menn eru aðeins að eltast við ljóskúpulinn. Það er ekki hægt að mæla með því að kaupa minni hleðslurafhlöður en 4Ah því spennan er lág og það veitir ekki af öllu því afli sem í boði er. Það gætu því bæst við 5000kr í kaup á rafhlöðum og hleðslutæki. Munið að einnota rafhlöður gera þetta ljós á skömmum tíma mun dýrara. Kaupið heldur ekki Alkaline hleðslurafhlöður því þær þola ekki þennan straum. Verslanir ættu að sýna Smart svolitla athygli því þeir framleiða líka ljós tilbúin með hleðslutækjum og rafhlöðum sem vonandi eru óaðfinnanleg. Á góðu verði með staðlaðar perur og spennu (6 eða 12 volt).

Einkun: (0-10)
Innanbæjar 8 -/- Utanbæjar 4

Spectro nafrafall

spectronaf-lux-V6.jpg

Þá er komið að öðrum möguleika en það er líklega sá besti og vistvænasti sem völ er á. Það eru nafrafalar. Þú kaupir þá einu sinni og eini kostnaðurinn og fyrirhöfnin sem þú leggur á þig eru peruskipti þá sjaldan þegar þær brenna.

Fyrir u.þ.b. 2 árum yfirtók SRAM, www.sram.com, rekstur fyrirtækisins SACHS og þar með var sett á markaðin framleiðslulina sem kölluð er "Spectro". Er þar á ferðinni flest það sem SACHS framleiddi nema gírskiptarnir enda hefur SRAM séð um það með ágætum hingað til. Eitt af því sem leynist í Spectro linunni er nafrafall sem þeir kalla Spectrolux V6.

Það er alþekkt að gömlu flöskurafalarnir (Dynamo) þyngja hjólið undir fæti. Þeir eru hinsvegar stórkostleg uppfinning þar sem hjólreiðamaðurinn er sjálfum sér nægur með ljós um leið og hann ferðast á milli staða. Nafrafalar hafa þróast talsvert undanfarin ár og er nú svo komið að vart er hægt að finna nokkra mótstöðu þegar þeir eru í fullri vinnslu. Annar kostur er að þó snjór, bleyta eða drulla sé á dekkjum þá spólar rafallinn ekki á því auk þess sem þeir slíta ekki dekkjum.

Örninn hefur umboðið fyrir Spectrolux rafalinn og hefur komið til tals að flytja þá inn. Verðið mun verða um 4-5000 kr. Þetta er ein besta fjárfesting sem völ er á. Kynnið ykkur málið hér. Þar er verið að lýsa möguleika Schmidts nafrafals sem er inn í frammnafinu. Möguleikar Spectro rafalsins eru þeir sömu en hann hefur það framyfir Schmidts rafalinn að hægt er að taka hann af hjólinu án þess að þurfa eiga auka gjörð. Ef þú villt framtíðarlausn á hjólreiðaljósinu þá ættir þú að kaupa þér nafrafal. Þeir eru framtíðin.

Magnús Bergsson

ATH: Verðin á Cateye ljósunum lækkuðu töluvert eftir að Hjólhesturinn kom út, sérstaklega á dýrustu ljósunum. Þessi verð eru frá 27/10/1999

© Hjólhesturinn 3.tlb. 8.árg. 1999